Um loftslagspólitík, loftslagsvísindi og loftslagstrúarbrögð

Þó ég hafi oft og mörgum sinnum blandað mér í loftslagsumræðuna hér á blogginu þá hef ég eiginlega algerlega látið fram hjá mér fara þessa miklu loftslagsráðstefnu sem fram hefur farið í snjókomunni í Kaupmannahöfn. Ég vil þó ekkert gera lítið úr því sem þar hefur farið fram enda er málefnið stórt og krefst mikilla fórna af íbúum jarðar. Það er kannski bara þessi pólitíska hlið á málinu sem ég nenni ekki að fylgjast með og er því varla viðræðuhæfur um það sem rætt hefur verið um í Köben. Ég held að ég hafi þó séð forseta Frakklands tala um það að menn væru ekki þangað komnir til að ræða um loftslagsmál heldur aðgerðir, sem er sjálfsagt alveg rétt, ráðstefnan var ekki vettvangur til að deila um hvort maðurinn ætti sök á loftslagshlýnun því að loftslagsfræðingar segjast þegar vera búnir að komast að því að svo sé.

Það er auðvitað ekki hlutverk stjórnmálamanna að hrekja vísindin, þeirra hlutverk er að ræða pólitík og aðgerðir í loftslagsmálum eru pólitík. Það eina sem stjórnmálamenn þurfa í raun að vita í þessu máli er að aukin útblástur gróðurhúslofttegunda veldur hlýnun sem hefur slæmar afleiðingar fyrir mannkynið í framtíðinni og því þarf að minnka útblástur með pólitísku samkomulagi. Að komast að því samkomulagi er hins vegar erfitt, því það krefst fórna.

Það eru alls ekki allir vera sannfærðir um að maðurinn hafi áhrif á loftslag jarðar, kalla þetta jafnvel trúarbrögð sem á auðvitað að vera niðrandi og vísar til þess að það sé ekki vísindaleg hugsun að baki afstöðu þeirra sem boða hlýnun jarðar af mannavöldum. Samt er það nú svo að kenningin um hlýnun jarðar af mannavöldum er afrakstur vísindamanna en ekki heimsendaspámanna. Það má kannski deila um ýmsa hluti eins og hvort hlýrra hafi verið fyrir þúsund árum eða ekki og hvort einhverjar hokkýkylfur séu réttar eða ekki, enda er óvissa alltaf á ferðinni í þessum málum. Það getur líka vel verið að einhverjir vísindamenn hafi í auglýsingaskyni freistast til að hagræða einhverjum upplýsingum. Hvað sem því líður eru flestir loftslagsvísindamenn samt gallharðir á því að núverandi hlýnun jarðar sé bara rétt byrjunin á þeirri miklu hlýnun sem framundan er á næstu öldum, nema gripið verði til róttækra aðgerða. Við þurfum ekkert að tala um hvort þetta ár verði hlýrra en það síðasta, og það þarf ekkert að velta sér upp úr því þótt ekkert hlýni á jörðinni í 10-20 ár. Þessi hægfara hlýnun á sér stað í misstórum skrefum með afturkippum inn á milli og hlýnunin er þolinmóð og mun lifa okkur öll. Þó maður lesi endalausar greinar um loftslagsmál skrifaðar af hörðustu efasemdarmönnum eða sannfærðum vísindamönnum, þá get ég sem óbreyttur bloggari og borgari ekkert dæmt um það hvort kenningin sé rétt eða ekki. Ég treysti bara vísindasamfélaginu fyrir þessu. Hverjum ætti maður annars frekar að treysta og trúa í þessum málum? Prestum?

Ef vísindasamfélagið er meira og minna sammála því að hlýnun jarðarinnar sé af mannavöldum, þá er það líka á ábyrgð vísindasamfélagsins að þær fullyrðingar séu réttar. Ef hin vísindalega þekking segir að hér sé allt að fara til fjandans ef ekkert verður að gert, þá er ábyrgðarleysi að hunsa þær viðvaranir. Við getum þó alltaf gert okkur vonir um að með meiri þekkingu komi í ljós að hættan hafi verið stórlega ofmetin. En á meðan svo er ekki, þá er léttvægt að afgreiða tal um hlýnun jarðar sem trúarbrögð. Það er hins vegar alveg spurning hversu auðvelt er að bregðast við hlýnun jarðar. Ég sé reyndar ekki fyrir mér annað en að mannkynið muni næstu eina eða tvær aldir nýta allar vinnanlegar olíubirgðir heimsins sem eftir eru og gengdarlaus kolamokstur mun halda áfram þar sem kol eru að finna, hvað sem öllu samkomulagi líður. Í þessu sambandi má taka dæmi frá borginni Peking þar sem bílum hefur fjölgað um eina milljón á tveimur árum og þá erum við bara að tala um eina borg í Kína eins og kom fram í frétt um daginn. Það hefur því lítið sem ekkert að segja ef allir Íslendingar hætta að aka sínum hundrað þúsund bílum í þessum samanburði. 

Kannski er alveg eins mikilvægt að komast að því hvernig mannkynið geti lifað sem bestu lífi í hlýnandi heimi heldur en að eyða púðri í að reyna að koma í veg fyrir eitthvað sem við getum ekki stöðvað. Kannski eru afleiðingar hlýnunar ekki eins slæmar og af er látið, en kannski er það bara óskhyggja í mér.


mbl.is Ban: Nauðsynlegt fyrsta skref
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Þetta eru fróðlegar vangaveltur að vanda Emil. Mig langar einnig að benda á yfirlit yfir nokkur atriði Kaupmannahafnaryfirlýsingarinnar, af Loftslag.is. Þar er farið yfir nokkur atriði hennar, ásamt helstu atburðum lokadagsins.

Mbk.
Sveinn

Sveinn Atli Gunnarsson, 19.12.2009 kl. 13:46

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Þið hafið staðið vel vaktina á loftslag.is. Tveggja gráðu markmiðið sem er í yfirlýsingunni finnst mér vera byggt á þeirri bjartsýni að við getum haft stjórn á hita jarðar eins og á bakaraofni. Við getum kannski valdið loftslagsbreytingum en að hafa stjórn á þeim breytingum er önnur saga.

Emil Hannes Valgeirsson, 19.12.2009 kl. 16:20

3 Smámynd: Fannar frá Rifi

ætti kannski að benda trúuðu á að nú nýverið kom undan jökli fornt bæjarstæði sem kemur fyrir í Njálu. væri fróðlegt að vita afhverju hlýnun á tímum landnáms íslands hafi ekki útrýmt öllu lífi á norðurslóð jarðar en hlýnun núna á  öllu að eyða.

síðan er hafís umræðan náttúrulega sú alvitlausasta. hafíst hryndir frá sér vatni og hækkar yfirborð sjávar vegna þess að hann er umfangsmeiri heldur en vatnið. lögmál arkímedisar. jöklar eins og Grænlands og suðurskautsjökullinn eru ekkert að fara að bráðna þó það hitni um einhverjar gráður eða tíu. jökulísin í þeim er mörgum tugum gráða undir frostmarki. ekki nema að frostmark hafi verið fært lang undir núllið þá er ís sem er -40°c í dag ekkert að fara að bráðna þótt hann fari í -30°c. 

og einhverjar tungur útfrá jöklunum teljast ekki með. suðurskautið bráðnar ekki því þar fer hiti aldrei niður fyrirfrostmark nema á einu skaga sem stendur lengra í norður frá meiginlandinu heldur en ísland er í suður frá norðurpólnum. 

hlýnun er góð. hlýnun veldur meiri uppgufun úr höfunum. hlýnunin hækkar lofthitan og þá getur loftið borið meiri raka. hlýnun veldur því meiri rigningu. hlýnun leiðir því til blómlegra lífs og betri lífsskylirðaá jörðinni. miklu betri skylirða heldur en það jökulskeið sem við lifum á í dag. aðstæður í dag eru afbrygðilega kaldar miðað við meðal hita á jörðinni frá árdögum. 

Fannar frá Rifi, 19.12.2009 kl. 17:08

4 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Fannar, köld lönd eins og Ísland ættu að þola vel dálitla hlýnun, enda snýst loftslagsvandinn ekki um okkur. Ég segi líka í lokin að kannski eru afleiðingar hlýnunnar ekki eins slæmar og ef er látið. Satt að segja veit ég það bara ekki og er ekki dómbær á það. Vísindamenn vara þó við hættu á mikilli bráðnun Grænlandsjökuls og á Suðurskautinu. Svo er heldur enginn að spá hækkun sjávarborðs vegna bráðnunar hafíssins, enda veldur hann ekki hækkun. Þennsla hafsins vegna hlýnunnar vegur hins vegar þungt í spám um sjávarborðshækkun.

Þó að það hlýni ættu áfram að verða til eyðimerkur en þær gætu hins vegar færst til með ýmsum afleiðingum. Jörðin mun áfram skiptast í þurr háþrýstisvæði og blaut lágþrýstisvæði þótt úrkoma aukist í heildina en háþrýsti- og lágþrýstibelti eru einfaldlega hluti af loftslagskerfi jarðarinnar. Eins og ég sé þetta fyrir mér getur úrkomusama lágþrýstisvæðið við miðbaug alveg stækkað og fært önnur kerfi norðar og sunnar ef það hlýnar. Þá gætu Saharaþurrkarnir jafnvel færst til Suður-Evrópu. 

Emil Hannes Valgeirsson, 19.12.2009 kl. 17:47

5 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Trúarbragðakeimurinn er ekki út af því að vísindin séu trúarbrögð heldur vegna þeirrar fanatíkur og  hörku  margra hlýnunarsinna í boðun kenningarinnar og kröfu á aðgerðum. Að ógleymdu yfirlætinu sem birtist í orðum John Kerrys sem ég vitnaði til á minni bloggsíðu og nenni ekki að endurtaka.

Ég lít á þitt blogg sem almennt og gott veðurblogg en ekki fyrst og fremst sem loftslagsblogg og þessa vegna geri ég þessa athugasemd.

Sigurður Þór Guðjónsson, 19.12.2009 kl. 18:35

6 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Til upplýsingar, þá langar mig að benda á pistil Tómasar Jóhannessonar um Jöklabreytingar og hækkun sjávarborðs heimshafanna. Þar er meðal annars komið inn á hvernig stendur á því að jöklar Grænlands og Suðurskautsins geti bráðnað og mælingar þar um. Það er þó ekki verið að tala um að þeir hverfi endanlega, enda þyrfti væntanlega að hitna meira og við að bíða nokkuð langan tíma (jafnvel þúsundir ára) til að svo yrði. En þegar það koma fram vísbendingar um að hugsanlega gerist breytingar hraðar en spár gerðu ráð fyrir (jafnvel þó ekki séu það miklar breytingar til skamms tíma), þá finnst mér eðlilegt og sjálfsagt að segja frá því, jafnvel skylda.

Með tilliti til þess að ekki sé hægt að stjórna hitastiginu og 2ja gráða markin, þá er væntanlega ekki auðvelt að eiga við það. Fyrst og fremst vegna stærðar lofthjúparins og einnig hversu langan tíma getur tekið að breyta styrk gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu. Vísindamenn gera þó ráð fyrir því að gróðurhúsalofttegundir hafi áhrif á hitastig, þ.a.l. er rétt, að mínu mati, að gera ráð fyrir því að hægt sé að hafa áhrif á hitastig til lengri tíma með því að hafa áhrif magn þeirra í lofthjúpnum. Frá mínum bæjardyrum séð, þá er fátt sem bendir til þess að gróðurhúsalofttegundir hafi ekki áhrif á hitastig, en hvað framtíðin ber í skauti sér er alls ekki auðvelt að vita, enda fleira sem kemur til en einungis gróðurhúsalofttegundir. En vísbendingarnar eru þarna og þ.a.l. verðum við að taka þær til greina.

Þetta eru allavega mínar vangaveltur um þessa hluti.

Sveinn Atli Gunnarsson, 19.12.2009 kl. 20:28

7 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Þetta sem ég sagði um 2ja gráðu markið eiginlega sett fram sem efasemd um hægt sé stöðva eða hafa stjórn á hitastigsbreytingum að einhverju marki. Ég er þó ekkert að gera lítið úr áhrifum CO2 á hlýnun. En kannski væri raunhæfara að miða við orsakavaldinn sjálfan, þ.e. hámarksmagn CO2 í lofthjúpnum en ekki eitthvað hitastig.

En þetta með fanatíkina og hörkuna í mörgum hlýnunarsinnum, þá er það eitthvað sem þarf að lifa við. Vísindamennirnir sjálfir finnst mér þó flestir saklausir af svoleiðis. Þessi deila er fyrir löngu komin með pólitískan blæ og það væri verra ef hún fengi á sig trúarlegan blæ líka. Ég hef allavega helst áhuga á hinni vísindalegu hlið loftslagsmálanna og þá aðallega í framhaldi af almennum veðuráhuga. Veðurdellan er og verður áfram helsta ástæðan fyrir því að ég er hér á blogginu þótt útúrdúrarnir taki sífellt á sig nýja mynd.

Emil Hannes Valgeirsson, 19.12.2009 kl. 21:30

8 Smámynd: Árni Gunnarsson

Emil. Það er eins og að verið sé að rífa hjartað úr markaðshyggjuhjörðinni þegar farið er fram á að virðing sé borin fyrir Móður náttúru. Hjörðin krefst þess að náttúran beygi sig skilyrðislaust undir þarfir hagvaxtarins. Enda er óttinn við þessa ráðstefnu bókstaflega að eyðileggja jólin fyrir aligrísum markaðshyggjunnar.

Árni Gunnarsson, 19.12.2009 kl. 22:50

9 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Emil, mig langar að benda á síðasta þátt Spegilsins á Rás 2, s.s. sá sem var á föstudag (17. des.). Þar segir Halldór Björnsson (efnislega, eftir mínu minni), að í raun sé 2ja gráðu markið það sama og að setja sér hámarkslosun CO2 á næstu áratugum. S.s. það hafa verið gerðir útreikningar um að ákveðið magn CO2 valdi ákveðinni hlýnun, sem þýðir í raun að með því að setja 2ja gráðu markið, þá hefur maður sett sér markmið um losun. Ekki veit ég hvort við náum þessu marki, kannski ekki alveg líklegt eins og hlutirnir ganga nú. Svo vitum við að það eru fleiri þættir en bara gróðurhúsalofttegundir sem hafa áhrif og þ.a.l. getur verið erfitt að spá um hvernig hitastig þróast. En hægt er að nálgast þáttinn á síðu Spegilsins þegar búið verður að setja hann inn.

Mbk.
Sveinn

Sveinn Atli Gunnarsson, 19.12.2009 kl. 23:12

10 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Góðar pælingar að vanda.

Ég tek undir með Sveini Atla að magn koldíoxíðs er grundvöllurinn að tveggja gráðu markinu - en ég held að það sé flestum ljóst að ólíklegt sé að það náist (þ.e. þetta ákveðna magn CO2).

Hitt er annað að óvissan er mikil með það hvort nóg sé að stoppa í einhverju ákveðnu magni CO2 til að ná tveggja gráðu markinu. Óvissan liggur í ýmsu og þá t.d. hvort að einhver ferli fari af stað, sem að geta magnað upp hitan. Mér finnst þó rétt að pólitíkusar hafi eitthvað markmið við að miða - hvort það takist eða ekki verður að koma í ljós.

Varðandi það sem Fannar segir, þá er hann væntanlega að tala um að hlýnunin sé góð fyrir einhverja jarðarbúa - en vísindamenn spá því að þessar breytingar verði það hraðar að það verði virkilega erfitt fyrir okkur að aðlagast því (hvað þá dýr sem eiga erfitt með að flytja sig um set).

Höskuldur Búi Jónsson, 20.12.2009 kl. 00:31

11 Smámynd: SeeingRed

Eitt er hægt að stóla á, ísaldir koma og fara með reglulegu millibili og styttist í þá næstu, kólnunin er byrjuð, en ef við erum heppin fáum við annað langt hlýindaskeið áður en hið óhjákvæmilega gerist.

SeeingRed, 20.12.2009 kl. 15:58

12 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

SeeingRed: Ertu ekki að hugsa hitaskalan vitlaust? Heitasti áratugur síðan mælingar hófust er að ljúka og mesti hnattræni hiti í allavega þúsund ár og þú talar um að kólnunin sé byrjuð!!

Höskuldur Búi Jónsson, 20.12.2009 kl. 16:50

13 Smámynd: SeeingRed

Eins og prófessor Bob Carter segir; " It depends " ; http://www.youtube.com/watch?v=FOLkze-9GcI&feature=fvw

SeeingRed, 20.12.2009 kl. 17:40

14 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

SeeingRed; Loftslagsbreytingar eru óhjákvæmilegar, vegna alls kyns náttúrulegra ferla. En það sem vísindamenn eru almennt sammála um í dag, er að athafnir manna hafi áhrif á hitastig og þar með loftslag vegna losunar gróðurhúsalofttegunda.

Það er sniðugt við Internetið, maður getur fundið rök fyrir öllu þar. Þar af leiðandi er enn mikilvægara að fara varlega með hvaða heimildir maður velur í þessu sambandi, svo og öðrum. IPCC velur að nota ritrýnd gögn þegar þeir vinna skýrslur sínar (ég útiloka ekki að Bob Carter hafi skrifað ritrýnda grein um þessi mál, en loftslagsvísindi eru ekki hans sérsvið). Lang mest af ritrýndu efni sýnir fram á þá niðurstöðu, að gróðurhúsalofttegundir hafi áhrif á hitastig og þar með loftslag. Þó svo það séu örlitlar líkur á því að vísindin hafi tekið rangan pól í hæðina, þá hefur lítið sem ekkert komið fram sem hrekur það enn sem komið er. Það sem við getum þá vonað er að breytingarnar og afleiðingar verði í mildara lagi og viðráðanlegar, sem er einmitt það sem Emil kemur inn á í færslunni sinni.

Sveinn Atli Gunnarsson, 20.12.2009 kl. 19:03

15 Smámynd: SeeingRed

Telur þú Svatli, að enn séu hundruðir ára í hina óhjákvæmilegu ísöld?

SeeingRed, 20.12.2009 kl. 19:15

16 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

SeeingRed; Að mínu mati, þá er lítið, í augnablikinu, sem bendir til þess að ísöld sé yfirvofandi á næstunni. En vísbendingar um að gróðurhúsalofttegundir hafi áhrif á hitastig eru til staðar í formi rannsókna og mælinga vísindamanna.

Sveinn Atli Gunnarsson, 20.12.2009 kl. 19:27

17 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Svo maður komi hér inní, þá held ég að það sé ómögulegt að spá fyrir um hvenær næsta ísöld skellur á, eða næsta jökulskeið eins og á víst að kalla það. Hlýjasti tími þessa hlýskeiðs ætti að vera liðinn fyrir nokkur þúsund árum af náttúrulegum ástæðum. Þó geta hæglega verið nokkur þúsund ár í næsta jökulskeið eða svo lengi sem Golfstraumurinn nær að streyma hingað norður. Hlýnun jarðar og jökulbráðnun er ýmist sögð geta valdið stöðvun á Golfstraumnum hingað norður eða valdið ofsahlýnun og frestað komandi ísöld um nokkrar aldir. Ætli við verðum ekki bara að lifa við þessa óvissu.

Emil Hannes Valgeirsson, 20.12.2009 kl. 20:23

18 Smámynd: SeeingRed

Mér þykir málflutningur manna á borð við prófessor Carter einfaldlega trúverðugur hljóma skynsamlega,  tölvupóstalekinn jók enn á tortryggni mína á aðferðafræðina og vissi ég þó fyrir af ad-hominen taktíkinni sem efsemdarfólk verður fyrir. Þegar að " óþarfi er á að ræða frekar " kenningarnar eins og sumir segja, þá er einmitt full ástæða til að staldra við og leggja eyrun við efasemdarröddum, sagan er ein stór sýnikennsla í því að illu heilli var og er ekki hlustað á skynsamar efasemdarraddir. Að maðurinn ætli sér þá krafta að stjórna hitastigi í heiminum er raunar absúrd í mínum huga, allir geta þó verið sammála um að stórbæta þarf umgengni um plánetuna og mengun ber að lágmarka með öllum ráðum, hvort sem að aukin hlýindi séu framundan eða kólnum. Ég panta aukin hlýindi...enda bölvuð kuldaskræfa.

SeeingRed, 20.12.2009 kl. 20:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband