Stóra snjókomumyndin

Þar sem snjórinn er mál málanna er mál til komið að birta nýjustu útgáfu af snjókomumósaíkinni sem ég setti saman á sínum tíma og bæti við eftir því sem á líður. Myndin á að skýra sig sjálf en geri hún það ekki þá táknar hver lárétt runa einn vetur samkvæmt ártali vinstra megin. Hvítu skellurnar tákna hvíta jörð í Reykjavík á miðnætti. Flekkóttir dagar eru einnig taldir með ef ég hef metið snjóhulu næga. Þetta er gert upp úr mínum eigin athugunum og því getur verið einhver munur á þessum gögnum og athugunum Veðurstofunnar sem gerðar eru á túninu þar að morgni til.

Snjór 1986-2011

Neðst á myndinni er núverandi vetur svo langt sem hann er kominn og ég gef mér að hann verði hvítur til áramóta. Það sem af er vetri er þetta einfalt. Jörð var fyrst hvít á miðnætti 24. nóvember og hefur verið síðan. Alhvítur desember sést ekki á myndinni fyrr en nú í ár en nokkrir eru þó nálægt því. Hvítasti veturinn á myndinni er 1994-1995 með 129 daga en sá snjóléttasti er veturinn sem kom varla, nefnilega veturinn 2002-2003 með 32 daga. Aðeins einum snjódegi meira var svo veturinn 2009-2010.

Snjódýptin sést ekki á myndinni en í minningunni er veturinn 1988-1989 eftirminnilegastur vegna mikils fannfergis eftir áramót og fram í apríl. Veturinn þar á eftir var snjórinn einnig mjög þrálátur en ekki nærri eins mikill og samfelldur.

Það má líka skoða endana. Árin 2008 og 2009 snjóaði óvenjusnemma en það entist þó ekki lengi. Þrjú tilfelli eru um hvíta jörð í bláendann í apríl. Sumir muna kannski eftir mikla snjónum að morgni 1. maí á þessu ári, svipað og gerðist árið 1987.


mbl.is Taka daginn snemma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Myndir af Esjunni alla daga ársins

Þeir sem hafa fylgst með bloggskrifum mínum ættu að vita að ég er haldinn dálítilli skrásetningaráráttu og þá sérstaklaga þegar kemur að ýmsum þáttum veðurs. Ég hef líka stundað árlegar samanburðarmyndatökur af Esjunni síðustu árin að vorlagi og fylgst grannt með afdrifum snjóskaflanna þegar líður á sumarið. Nú skal það hinsvegar tilkynnt að frá 1. janúar á þessu ári hef ég gengið skrefið til fulls og mætt á hverjum degi upp í Öskjuhlíð um kl. 12 á hádegi og tekið mynd í átt að Esjunni frá nákvæmlega sama punkti. Þetta hefur tekist með þeim árangri að nú á ég myndir frá sama sjónarhorni alla daga ársins með öllum þeim fjölbreytileika sem felst í misjöfnum veðrum og mismunandi árstíðum. Auk Esjunnar spilar gróðurinn stórt hlutverk í myndunum og nánast hægt að segja að þarna fari allt á kaf í grósku á miðju sumri öfugt við það sem er núna þegar allt er komið á kaf í snjó.

Eins og við er að búast hef ég stöku sinnum ekki verið staddur í bænum í hádeginu eða hreinlega ekki komist til að ljósmynda. Í þeim tilfellum hef ég kallað til sérlega staðgengla sem hafa hlaupið í skarðið því auðvitað má ekki vanta dag. Smá myndrænar lagfæringar hefur þurft að gera í undantekningatilfellum en við tölum bara ekkert um það. Þegar þetta er skrifað eru fimm dagar eftir af árinu og ekkert sem bendir til annars en árið verði klárað með stæl.

Hvað ég mun svo gera við allar þessar myndir verður bara að koma í ljós. Ég stefni allavega á að gera þær aðgengilegar á netinu og hef verið að vinna að því upp á síðkastið. Þangað til birti ég hér smá sýnishorn þar sem sjá má eina mynd fyrir hvern mánuð.

8jan201110feb201110mars2011

11april201115mai201119jun201118jul201115agust201122sept19okt20115nov201111des2011 


Hugleiðingar um lífið og geimverur

Sá möguleiki að lífvænlegar plánetur séu í næsta nágrenni við jörðinni er vissulega spennandi. Ef einhverjir slíkar eru á sveimi fáeinum ljósárum í burtu getum við gert okkur ýmislegt í hugarlund og látið okkur dreyma um vinsamleg samskipti við geimverur lengst í fjarska. Kannski gætum við jafnvel eignast einhverskonar geimveru-pennavini þar sem rafrænar sendingar ganga á milli með ljóshraða á nokkurra ára fresti. Hægt væri þannig að fræðast um framandi lifnaðarhætti og miðlað gagnlegri þekkingu á milli

PláneturEn væntanlega er þetta ekki svona einfalt og kannski ekki alveg það sem málið snýst um. Hagstæð staðsetning plánetu í sínu sólkerfi þarf alls ekki að þýða að líf geti þrifist þar. Hugsanlega gætu þannig plánetur þó einhverntíma hafa þróað einhverskonar líf en forsendur síðan þróast til hins verra og hið frumstæða líf lognast út af. Einnig gæti verið að lífið sé ekki enn hafið á viðkomandi plánetu eða fast á þvílíku frumstigi að varla taki því að tala um það.

Lífsform á einfrumungastigi er samt sem áður merkilegt í sjálfu sér. Á því stigi var lífið á jörðinni lengst af. Fyrstu lífsformin spruttu fram strax á fyrsta ármilljarðinum í 4,6 milljarða sögu jarðarinnar en það var svo ekki fyrr en fyrir um 540 milljörðum ára sem fjölfrumungar komu fram með öllum sínum fjölbreytileika og hafa síðan lifað í gegnum súrt og sætt. Stóráföll hafa riðið yfir með fjöldaútdauða sem hafa skapað tækifæri fyrir nýjungar sem slegið hafa í gegn. Í allri sögu lífs á jörðinni er samt ekki nema örstutt síðan sú tegund kom fram sem við tilheyrum en fram að þvi er óhætt að fullyrða að lítið hafi farið fyrir pælingum lífvera um eðli alheimsins og hinstu rök tilverunnar.
Það fer eftir skilgreiningu hversu langt er síðan nútímaútgáfa mannsins kom fram en það má miða við 150 þúsund ár. Nánast allan þann tíma var mannkynið á steinaldarstigi þar sem menn undu misglaðir við sitt og þraukuðu í gegnum síðasta jökulskeið. Hátæknistig það sem við lifum á í dag er ekki nema nokkurra áratuga gamalt og bara lítið augnablik í eilífðinni, og meira að segja bara augnablik í sögu mannsins.

Framtíð okkar hámenningar er óskrifað blað. Vel má hugsa sér þá þróun að hámenningin sé bara stundarfyrirbæri sem missi sinn grundvöll þegar við jarðarbúar höfum klárað þær auðlindir sem fleytt hafa okkur áfram. Í framhaldi af því gæti nýtt steinaldarstig tekið við og ekki víst að upp úr því verði nokkurntíma komist á ný.
Hinsvegar er mögulegt hátæknistigið sé rétt að hefjast og mannkynið muni eiga sér glæsta framtíð og jafnvel sigrast á þeim takmörkunum í rúmi og tíma sem felast í óravíddum alheimsins.

geimfararMargar mistrúverðugar sögur eru til af heimsóknum geimvera hingað til jarðar. Sjálfur trúi ég ekki á neitt svoleiðis en aldrei er þó hægt að útiloka alveg þann mögueika. Stærð alheimsins er óskaplegur og fjöldi pláneta er bókstaflega stjarnfræðilegur þannig að einhverstaðar ætti að vera hægt að finna hátæknisamfélög sem eru lengra komin en okkar. Líklegast er þó að slík samfélög séu svo víðsfjarri í tíma og rúmi að nánast engar líkur eru á að til nokkurra samskipta gæti komið nema með einhverskonar brellum með ormagöng og aðrar þvílíkar afstæðar kúnstir, ef slíkt er á annaðborð hægt.

Ef einhver vill samt endilega trúa á heimsóknir framandi vera hingað til jarðar má líka ímynda sér að þar séu bara á ferð háþróaðir jarðarbúar framtíðarinnar sem brugðið hafa sér í tímaflakk. Slíkir jarðarbúar þurfa þó ekki endilega að vera afkomendur okkar mannanna, þeir gætu eins verið af hunda- eða kattarkyni. Eins gætu þeir verið af ólífrænum toga, þ.e. ofurtölvur sem hafa náð að þróast og dafna á eigin spýtur. Hvernig sem það er þá er gjarnan nærtækara að horfa bara til jarðarinnar til að fá skýringar á illskýranlegum atburðum.

 


mbl.is Nýjar reikistjörnur líkjast jörðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Surtseyjargos í vændum við Kanaríeyjar?

El Hierro skyringarmynd

Neðansjávargosið sem nú kraumar skammt undan á landi á Kanaríeyjum hefur ekki mikið verið í fréttum undanfarið. Gosið hófst þann 10. október á um 250 metra dýpi um tvo kílómetra suður af El Hierro sem er sú eyja sem liggur lengst í suðvestur af eyjaklasanum. Eftir því sem á gosið líður styttist leiðin að yfirborði sjávar en það gengur þó hægt fyrir sig og enn munu vera eitthvað um 100 metrar að yfirborði. Upplýsingar um það eru þó frekar óljósar. Ummerki gossins eru ekki mikil ofansjávar en hafa verið að aukast síðustu daga þannig að styttast gæti verið í stærri atburði.

El Hierro ljósmyndUmbrotin hafa verið sýnilegust úr lofti þar sem sjórinn tekur á sig hina ýmsu liti vegna uppstreymis gosefna. Rjúkandi flotsteinar hafa líka skotist upp að yfirborði af og til ásamt smástrókum og bólstrum. Lítið sjávarþorp La Restiga er á syðsta hluta eyjarinnar og íbúar fylgjast að vonum grannt með framgagni mála, ef þeir eru þar yfirleitt ennþá.

Surtseyjan-eruption
Eins og í öðrum neðansjávargosum myndast þarna bólstraberg á meðan vatnsþrýstingur er nægur fyrir ofan. Ef gosið heldur áfram í nokkrar vikur til viðbótar kemst það á stig sem margir bíða spenntir eftir og nefnist á alþjóðamáli Surtseyjan-eruption. Á því stigi þeytast háir gufu- og öskubólstrar hundruði metra í loft upp þótt einhverjir tugir metra séu niður að gosopinu sjálfu. Við hér á landi þekkjum svona lagað frá fyrstu stigum Surtseyjargossins og líka af Grímsvatnagosum hin síðari ár. Samkvæmt því sem bæjarstjóri staðarins sagði þann 9. des (gefum okkar að hann hafi vit á málum) þarf um 6-7 vikur til viðbótar, til að mynda nýja eyju. Það yrði þá syðsta eyja Kanaríeyja - rétt eins og Surtsey er hjá okkur. Framhaldið er þó allsendis óvíst því ómögulegt er að spá fyrir um goslengd og hegðun gossins.

Hamfaraflóðbylgja
Fyrir nokkrum árum vakti sá möguleiki athygli að heilu hlíðar sumra eldfjalla á Kanaríeyjum eigi það til að hrynja í sjó fram og valda hamfaraflóðbylgjum vídd og breytt um Norður-Atlantshaf. Fyrir um 50.000 árum gæti ein slík hafa riðið yfir þegar eldfjallið á El Hierro-eyju hrundi í sjó fram en ekki eru þó margir til frásagnar um afleiðingar þess. Mestu áhyggjurnar hafa á okkar dögum beinst að eyjunni La Palma og líst mörgum ekkert sérstaklega vel á ef gos kæmi upp á þeirri eyju. Kannski og vonandi eru þær áhyggjur þó að mestu ástæðulausar og hættan orðum aukin. En þótt hundruð eða þúsundir ára gætu liðið að næsta slíka atburði er ágætt að fylgjast með hvað er að gerast á Kanaríeyjum.

Nánar má fylgjast með gangi mála á Kanarý á síðunni hér: http://earthquake-report.com/2011/09/25/el-hierro-canary-islands-spain-volcanic-risk-alert-increased-to-yellow/

Skýringarmyndin efst er fengin héðan:
http://thewatchers.adorraeli.com/2011/10/11/el-hierro-on-alert-eruption-vent-5-km-from-restinga-at-600-meter-depth/

Ljósmyndin er héðan: http://www.volcanodiscovery.com/view_news/2435/El-Hierro-volcano-Canary-Islands-Spain-eruption-moves-towards-ocean-surface.html


Stórgoslegar Kötluýkjur – eða hvað?

Katla 5des2011

Fréttir af Íslandi sem birtast erlendis hafa gjarnan verið vel kryddaðar. BBC fréttavefurinn er nú sakaður um stórkostlegar ýkjur af afleiðingum næsta Kötlugoss sem sagt er vera yfirvofandi. En hvar endar sannleikurinn og hvar byrja ýkjurnar? Er frétt BBC kannski ekki svo vitlaus eftir allt?

Fyrsta setningin í Frétt BBC er þannig: „Hundreds of metres under one of Iceland's largest glaciers there are signs of a looming volcanic eruption that could be one of the most powerful the country has seen in almost a century“ Ekki get ég séð neitt rangt í þessu. Næsta Kötlugos gæti nefnilega orðið eitt af þeim kröftugustu í næstum öld á Íslandi.

Eftirfarandi atriði í fréttinni hefur einnig verið nefnt sem ýkjur: Mighty Katla, with its 10km (6.2 mile) crater, has the potential to cause catastrophic flooding as it melts the frozen surface of its caldera and sends billions of gallons of water surging through Iceland's east coast and into the Atlantic Ocean. Hvað er rangt þarna? Ég get ekki staðfest tölurnar hér og nú en allir ættu að þekkja þá staðreynd að mikið flóðvatn rennur til sjávar í Atlantshafið í kjölfar Kötlugoss. Réttara er hins vegar að tala um Suðurströndina en ekki Austurströndina. Hvergi kemur fram í frétt BBC, eftir því sem ég fæ séð, að flóðbylgja muni skella á ströndum meginlands Evrópu eða Bretlandseyja.

Ýmislegt er síðan nánar skrifað um hugsanlegt gos og flest að því á svipuðum nótum og fjallað hefur verið um hér á landi. "There has been a great deal of seismic activity," says Ford Cochran, the National Geographic's expert on Iceland. There were more than 500 tremors in and around the caldera of Katla just in October, which suggests the motion of magma. "And that certainly suggests an eruption may be imminent." Yfirvofandi eldgos er sennilega fullmikið sagt þótt ýmis merki séu um óróleika undir Kötlu. Um þetta er lítið vitað og tíminn einn mun leiða í ljós hvert framhaldið verður.

Áfram með fréttina. Eftir tilvitnanir í Pál Einarsson sem ekki er ástæða til að véfengja tala BBC-menn um Skaftárelda og þá æsast leikar: Katla is part of a volcanic zone that includes the Laki craters. In 1783 volcanoes in the area erupted continuously for eight months, generating so much ash, hydrogen fluoride and sulphur dioxide that it killed one in five Icelanders and half of the country's livestock."And it actually changed the Earth's climate," says Mr Cochran. "Folks talk about a nuclear winter - this eruption generated enough sulphuric acid droplets that it made the atmosphere reflective, cooled the planet for an entire year or more and caused widespread famine in many places around the globe. Gallinn við þessa samlíkingu er fyrst og fremst sá að Katla er ekki í neinum tengslum við Lakagíga eins og talað er um í fréttinni því Lakagígar tengjast Grímsvötnum og fengu þaðan sitt hráefni. Eldgjárgosið stóra á 10. öld er hins vegar talið tengjast Kötlu en litlar heimildir eru til um það nema að vitað er að þá kom upp gríðarlegt hraunmagn og sennilega meira en Skaftáreldum. Varla er hægt að búast við slíkum hörmungum hvenær sem er og varla án aðdraganda sem tekið væri eftir.

Einn gallinn við eldgos er að þau láta ekki alltaf vita af sér fyrirfram. Lengi hefur verið talað um yfirvofandi Kötlugos, sérstaklega síðustu 15 ár eða svo. Hvernig það verður og hvenær það verður vitum við ekki. Gosin í Eyjafjallajökli og Grímsvötum voru samt sem áður góð æfing og áminning um hvað getur gerst varðandi Kötlu. Kannski eru stórgoslegar hörmungar framundan en kannski mun næsta Kötlugos eftir allt, valda stórkostlegum vonbrigðum og alls ekki vera neitt stærra en þau gos sem við höfum séð hér undanfarið.

Frétt BBC http://www.bbc.co.uk/news/world-europe-15995845

Myndin er af Vefmyndavél Mílu 5. des. 2011


mbl.is BBC sakað um ýkjur um Kötlugos
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í hvað stefnir árshitinn í Reykjavík?

Nú þegar mánuður er eftir af árinu 2011 ætla ég velta fyrir mér hvert stefnir með árið í ár. Meðalhitatölur segja lítið ef ekkert er til samanburðar og því birti ég línuritið hér að neðan sem ég útbjó en það sýnir þróun meðalhitans frá árinu 1901 til 2010. 

Árshiti Rvik
Eins og sést eru miklar sveiflur frá ári til árs og líka á milli lengri tímabila. Ef við hugsum í 10 ára tímabilum þá eru árin 2001-2010 þau hlýjustu frá upphafi mælinga í Reykjavík með meðalhitann 5,51°C. Til viðmiðunnar er næst hlýjasta 10 ára tímabilið 1932-1941, með meðalhitann 5,14°C
Kaldasta 10 ára tímabilið eru árin 1916-1925 með meðalhitann
3,81°C en litlu mildara var árin 1979-1988: 3,99°C.
Þá má segja í þessu ljósi að ár hljóta að teljast hlý ef meðalhitinn er yfir 5 stigum og mjög hlý ef meðalhitinn er yfir 5,5°C í Reykjavík. Síðasti áratugur var óumdeilanlega mjög hlýr þar sem árið 2003 toppar með árshita upp á 6,1°C en alger skortur á meðalheitum árum - hvað þá köldum, hjálpar líka upp á góða útkomu áratugarins.

2011
Nú þegar tölur frá nóvember eru komnar í hús er ljóst að fram að þessu hefur árið 2011 ekki verið neinn eftirbátur liðins áratugar – hefur jafnvel staðið sig betur ef eitthvað er. En síðasti mánuðurinn er eftir og sá ætlar heldur betur að fara kuldalega af stað. Hvað verður þá um árshitann?
Ef við gerum fyrst ráð fyrir að desember verði í meðallagi miðað við síðustu 10 ár (1,6°C) þá endar árshitinn, samkvæmt öllum mínum útreikningum, í 5,65°C sem telst bara mjög gott. Til að ná því má komandi kuldakast ekki vera langvinnt og helst þurfa að koma talsvert hlýir dagar síðar til að bæta fyrir kuldann sem spáð er.
Raunhæfara er áætla að meðalhitinn verði nærri frostmarkinu og þá er tilvalið að miða við -0,2 stig sem er opinber meðalhiti fyrir desember og miðast við árin 1960-1990. Ef svo fer breytir það þó ekki öllu því ársmeðalhitinn verður samt 5,5°C og árið í góðum málum.
En þá má skoða hvað gerist ef desember verður svellkaldur í gegn. Kaldasti desember síðustu áratuga var árið 1973 þegar meðalhitinn var -3,7°C og gerast mánuður ekki mikið kaldari en það í borginni á vorum tímum. Verði svo kalt í desember reiknast mér til að meðalhiti ársins í borginni verði samt sem áður 5,2°C sem hefði einhverntíma þótt gott.
Til að reikna árið niður fyrir 5 stigin verðum við því greinilega að fara ansi neðarlega. Frá aldamótum hafa öll ár verið yfir 5,0°C og til að rjúfa þá hefð þarf meðalhiti komandi desembermánaðar að vera um 7 stig í mínus og erum við þá farin að tala um virkileg harðindi í stíl við þau verstu í gamla daga. Til samanburðar var meðalfrostið 7,8°C í janúar, frostaveturinn mikla 1918.

Harðindi eru svo sem ekkert útilokuð á þessum síðustu og verstu tímum en ég held samt að óhætt sé að spá því að meðalhitinn í Reykjavík nái 5°C enn eitt árið. Ekki er ólíklegt að árshitinn verði á bilinu 5,2–5,3°C en með smá bjartsýni að leiðarljósi gætum við spáð allt að 5,6 stigum. Eitt sýnist mér þó nokkuð víst: Ekkert nema alvöru vetur er framundan.  

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband