Hugleiðingar um lífið og geimverur

Sá möguleiki að lífvænlegar plánetur séu í næsta nágrenni við jörðinni er vissulega spennandi. Ef einhverjir slíkar eru á sveimi fáeinum ljósárum í burtu getum við gert okkur ýmislegt í hugarlund og látið okkur dreyma um vinsamleg samskipti við geimverur lengst í fjarska. Kannski gætum við jafnvel eignast einhverskonar geimveru-pennavini þar sem rafrænar sendingar ganga á milli með ljóshraða á nokkurra ára fresti. Hægt væri þannig að fræðast um framandi lifnaðarhætti og miðlað gagnlegri þekkingu á milli

PláneturEn væntanlega er þetta ekki svona einfalt og kannski ekki alveg það sem málið snýst um. Hagstæð staðsetning plánetu í sínu sólkerfi þarf alls ekki að þýða að líf geti þrifist þar. Hugsanlega gætu þannig plánetur þó einhverntíma hafa þróað einhverskonar líf en forsendur síðan þróast til hins verra og hið frumstæða líf lognast út af. Einnig gæti verið að lífið sé ekki enn hafið á viðkomandi plánetu eða fast á þvílíku frumstigi að varla taki því að tala um það.

Lífsform á einfrumungastigi er samt sem áður merkilegt í sjálfu sér. Á því stigi var lífið á jörðinni lengst af. Fyrstu lífsformin spruttu fram strax á fyrsta ármilljarðinum í 4,6 milljarða sögu jarðarinnar en það var svo ekki fyrr en fyrir um 540 milljörðum ára sem fjölfrumungar komu fram með öllum sínum fjölbreytileika og hafa síðan lifað í gegnum súrt og sætt. Stóráföll hafa riðið yfir með fjöldaútdauða sem hafa skapað tækifæri fyrir nýjungar sem slegið hafa í gegn. Í allri sögu lífs á jörðinni er samt ekki nema örstutt síðan sú tegund kom fram sem við tilheyrum en fram að þvi er óhætt að fullyrða að lítið hafi farið fyrir pælingum lífvera um eðli alheimsins og hinstu rök tilverunnar.
Það fer eftir skilgreiningu hversu langt er síðan nútímaútgáfa mannsins kom fram en það má miða við 150 þúsund ár. Nánast allan þann tíma var mannkynið á steinaldarstigi þar sem menn undu misglaðir við sitt og þraukuðu í gegnum síðasta jökulskeið. Hátæknistig það sem við lifum á í dag er ekki nema nokkurra áratuga gamalt og bara lítið augnablik í eilífðinni, og meira að segja bara augnablik í sögu mannsins.

Framtíð okkar hámenningar er óskrifað blað. Vel má hugsa sér þá þróun að hámenningin sé bara stundarfyrirbæri sem missi sinn grundvöll þegar við jarðarbúar höfum klárað þær auðlindir sem fleytt hafa okkur áfram. Í framhaldi af því gæti nýtt steinaldarstig tekið við og ekki víst að upp úr því verði nokkurntíma komist á ný.
Hinsvegar er mögulegt hátæknistigið sé rétt að hefjast og mannkynið muni eiga sér glæsta framtíð og jafnvel sigrast á þeim takmörkunum í rúmi og tíma sem felast í óravíddum alheimsins.

geimfararMargar mistrúverðugar sögur eru til af heimsóknum geimvera hingað til jarðar. Sjálfur trúi ég ekki á neitt svoleiðis en aldrei er þó hægt að útiloka alveg þann mögueika. Stærð alheimsins er óskaplegur og fjöldi pláneta er bókstaflega stjarnfræðilegur þannig að einhverstaðar ætti að vera hægt að finna hátæknisamfélög sem eru lengra komin en okkar. Líklegast er þó að slík samfélög séu svo víðsfjarri í tíma og rúmi að nánast engar líkur eru á að til nokkurra samskipta gæti komið nema með einhverskonar brellum með ormagöng og aðrar þvílíkar afstæðar kúnstir, ef slíkt er á annaðborð hægt.

Ef einhver vill samt endilega trúa á heimsóknir framandi vera hingað til jarðar má líka ímynda sér að þar séu bara á ferð háþróaðir jarðarbúar framtíðarinnar sem brugðið hafa sér í tímaflakk. Slíkir jarðarbúar þurfa þó ekki endilega að vera afkomendur okkar mannanna, þeir gætu eins verið af hunda- eða kattarkyni. Eins gætu þeir verið af ólífrænum toga, þ.e. ofurtölvur sem hafa náð að þróast og dafna á eigin spýtur. Hvernig sem það er þá er gjarnan nærtækara að horfa bara til jarðarinnar til að fá skýringar á illskýranlegum atburðum.

 


mbl.is Nýjar reikistjörnur líkjast jörðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband