25.2.2011 | 22:25
Loftsteinagígar í Kanada
Í tveimur síðustu færslum hefur Norður-Ameríka verið í brennidepli hjá mér og til að fullkomna þríleikinn ætla ég að halda mig áfram á þeim slóðum. Ég kom inn á það síðast að stór loftsteinn hafi hugsanlega gert mikinn usla í Ameríku undir lok síðasta jökulskeiðs með víðtækum afleiðingum fyrir frumbyggjana og jafnvel þurrkað út heilu dýrategundirnar. Einn gallinn við þessa loftsteinakenningu er sá að ummerki á jörðinni í formi gígs vantar algerlega en það var útskýrt þannig að loftsteinninn eða kannski frekar, ísklumpurinn, hafi sprungið upp til agna í nokkurra kílómetra hæð.
Á jörðinni eru mörg ummerki eftir loftsteina sem hafa fallið á jörðina. Þetta eru gígar sem geta verið yfir 100 kílómetrar í þvermál og svo fjöldamargir smærri, yngri gígar. Þessir loftsteinagígar hafa varðveist misvel og eru líka misvel sýnilegir í dag en þar skiptir miklu máli hvar á jörðinni þeir hafa fallið. Það landssvæði á jörðinni sem virðist vera vænlegast til að varðveita ummerki loftsteina er norðurhluti Norður-Ameríku og þá kannski sérstaklega Labrador-skaginn í Kanada. Þangað er ferðinni heitið til skoða loftsteinagíga með hjálp Google-earth.
Fyrstan skal nefna Pingualuit crater sem er mjög reglulega hringlaga gígur norðarlega á Labradorskaga og talinn er vera 1,4 milljón ára. Þetta er mjög fallegur gígur og eins og með aðra loftsteinagíga á þessum slóðum er hann fullur af vatni. Gígurinn er einfaldur og ekki af stærstu gerð, þvermálið er um 3,4 kílómetrar og dýpið 267 metrar en til samanburðar er Öskjuvatn álíka stórt og dýpið 220 metrar. Vegna þess hve þetta eru fáfarnar slóðir var þessi gígur lítt þekktur umheiminum þar til eftir 1950 þegar farið var að skoða nánar þetta fyrirbæri sem sást á loftmyndum frá árinu 1943. Inúítar höfðu hins vegar lengi þekkt vatnið og kölluðu það Kristalsaugað með tilvísunum óvenjulegs hreinleka vatnsins sem þarna er.
Clearwater lakes eru nokkuð merkileg því hér hafa tveir allstórir loftsteinar fallið samtímis og myndað þessa tvo gíga. Vötnin er samtengd, það stærra er 36 þverkílómetrar og það smærra 26 km og eru áberandi utan úr geimnum. Í stærra vatninu er eyjahringur sem þýðir að gígurinn er samsettur eins og gjarnan er með stærri gíga. Það þýðir að gígurinn er ekki bara einföld skál því við þungt höggið hefur komið bakslags-bylgja sem mótað hefur innri gerð gígsins. Aldur gígana er um 290 milljón. Ekki virðast menn vera alveg vissir hvort loftsteinninn hafi brotnað í tvennt áður en hann féll til jarðar eða hvort hér sé um að ræða tvíburaloftstein (binari asteroid), en þá eru það tveir álíka stórir loftsteinar sem snúast um hvorn annan í geimnum.
Að lokum er það Manicouagan gígurinn sem er einn af frægustu loftsteinagígum á jörðinni. Hann er stundum kallaður Quebec augað og er mjög sýnilegur utan úr geimnum vegna hringlaga stöðuvatnsins á jöðrum gígsins. Þetta er einn af stærstu loftsteinagígum á jörðinni, hefur upphaflega verið um 100 km í þvermál en hefur minnkað vegna veðrunar niður í 70 km sé miðað við hringlaga vatnið. Til að fá stærðarsamanburð þá er eyjan svipuð Hofsjökli að stærð. Aldur gígsins er áætlaður um 215 milljón ár og því mun eldri en gígurinn sem myndaðist eftir loftsteininn sem grandað risaeðlunum fyrir 65 milljón árum og allavega helmingi minni. Loftsteinninn gæti hafa verið um 5 km að stærð en hugmyndir eru uppi um að önnur brot hafi einnig fallið í Frakklandi, Úkraínu og víðar. Ljóst er að þessu hafi fylgt náttúruhamfarir af stærstu gerð sem reynt hefur verið að tengja við fjöldaútrýmingu dýrategunda fyrir 205 milljón árum á mörkum trías- og júratímans. 10 milljón ára gatið, ef aldurákvarðanir eru réttar, er þó erfitt að brúa.
- - - -
Heimildir eru héðan og þaðan.
18.2.2011 | 21:53
Ráðgátan um hvarf Clovis fólksins í NorðurAmeríku
Það er ekki vitað með vissu hvenær fyrstu mennirnir komu til Norður-Ameríku. Oftast er þó talað um að fyrstu landnámið sem eitthvað kvað af, hafi verið Clovis fólkið sem þangað kom fyrir um 13-13.5 þúsund árum. Á þessum tímum hafði ísaldarjökullinn hopað nógu mikið til að ferðafært var á milli Alaska og Síberíu og Norður-Ameríka því ekki lengur einangruð frá Asíu.
Þessi þjóðflokkur kom að miklu gósenlandi þar sem allskonar risaspendýr gengu um í flokkum og máttu sín lítils gegn þróuðum örvaroddum veiðimannana. Flest þessara dýra eru útdauð í dag eins og mammútinn, ameríku-úlfaldinn, risaletidýrið og mörg fleiri. Clovis fólkið mun hafa náð talsverðri útbreiðslu í Norður-Ameríku samkvæmt fornleifarannsóknum og lifað góðu lífi, þar til eitthvað verður til þess að fólksfjöldinn fellur um 75% á einhverjum tilteknum tíma. Nýir menningahópar eða þjóðflokkar tóku síðan við í tímans rás en kannski ekki alltaf ljóst hvort um sé að ræða nýja aðkomuhópa frá Asíu eða afkomendur Clovis fólks.
Miklar loftslagssveiflur
Síðasta jökulskeið mun hafa verið í hámarki fyrir um 15-20 þúsund árum og náði ísaldarjökullin þá inn í Bandaríkin samanber ísaldarklappir í Central Park í New York. Fyrstu merkin um lok ísaldarinnar var síðan mjög skyndilegt hlýskeið fyrir um 14 þúsund árum þegar hitinn á norðurhveli jafnaðist allt í einu á við það sem þekkst hefur á nútíma. Hámark þessa hlýskeiðs stóð þó stutt en nógu hlýtt var áfram til að jökulskjöldurinn tók að bráðna hratt. Við þetta myndaðist risastórt stöðuvatn Agassiz-vatn suður af hörfandi jökulskildinum sem síðan mun hafa fundið sér leið að Atlantshafinu með þeim afleiðingum að Golfstraumurinn sem einmitt var kominn á gott skrið varð fyrir svo mikilli árás af ferskvatni að flæðið til norðurs raskaðist og allsherjar ísaldarkuldi skall á að nýju beggja vegna Atlantshafs. Það kuldakast nefnist yngra-Dryas og hófst fyrir tæpum 13 þúsund árum. Augljóst er að svona sviptingar hafa haft mikil áhrif á búsetuskilyrði hinna nýaðkomnu veiðimanna og gætu í sjálfu sér skýrt það sem skýra þarf. En aðrar hugmyndir um hvarf Clovis fólksins eru líka til.
Loftsteinninn ógurlegi
Á síðustu árum hafa verið uppi hugmyndir um að stór loftsteinn á stærð við heilt fjall hafi sprungið yfir Norður-Ameríku fyrir nálega 13 þúsund árum. Afleiðingarnar hafi orðið gífurlegar, ekki bara við höggið sjálft heldur líka vegna mikilla gróður- og skógarbruna í kjölfarið. Myrkur og kuldi lagðist yfir norðurhvel og má ímynda sér að ekki hafi komið sumur í nokkur ár. Lofsteininn má líka tengja við það að stóra Agassis stöðuvatnið fann sér leið til sjávar með þeim afleiðingum sem nefndar voru hér að ofan enda gerðist hvorttveggja nánast á sama tíma. Enginn ummerki í formi gígs hafa reyndar fundist um áreksturinn sjálfan en það hefur verið útskýrt með því að steinninn hafi splundrast áður en hann féll til jarðar. Hinsvegar telja áhangendur þessarar kenningar að ýmsar menjar um mikla bruna og jafnvel loftsteinaleyfar sé að finna í jarðlögum á nokkrum stöðum í Norður-Ameríku frá þessum tíma sem stemmir við lok blómaskeiðs Clovis menningarinnar. Nú síðast í september 2010 var greint frá því að fundist hafi í borkjörnum frá Grænlandsjökli dularfullir ördemantar sem taldir eru renna stoðum undir sendingu frá geimnum á þessum tíma (sjá hér). Þessi loftssteinahugmynd er samt ennþá bara kenning sem vísindamenn taka misalvarlega.
Af mannavöldum
Maðurinn er löngum talinn vera öflugasta rándýr jarðar og fer léttilega með að fella stærstu skepnur með sínum veiðigræjum. Fyrir daga Clovis fólksins var Ameríka gott land fyrir stór spendýr enda var hinn stórhættulegi maður hvergi til staðar. Flestum stórskepnum hafði maðurinn þegar útrýmt í gjörvallri Evrasíu en þar hafði síðan nýtt jafnvægi komist á með smærri og fleiri spendýrum sem ekki var hægt að útrýma með góðu móti. Stóru spendýrin aftur á móti voru ekki bara svifasein, heldur skiptir líka máli að þau voru tiltölulega færri í hóp og lengra á milli kynslóða. Það vilja því margir meina að fjöldaútrýming veiðidýra hafi gert útslagið varðandi skyndilega hnignum Clovis fólksins. Þegar stóru veiðidýrin voru horfin leið talsverður tími uns jafnvægi komst á á ný og löngum hefur sú speki komið frá Indíánum að ekki megi taka meira af náttúrunnar gæðum en náttúran þolir. Kannski hafa þeir lært af biturri reynslu landnemanna.
Mynd: Risaletidýrið átti sér fáa náttúrulega óvini fyrir landnám mannsins í Ameríku.
- - - - -
Hvað raunverulega gerðist þarna undir lok ísaldarinnar í Norður-Ameríku fæst kannski seint endanlegt svar. Ef til vill fæst skýrari mynd ef hægt verður að sanna eða afsanna loftsteinkenninguna, því áhrif af völdum risaloftsteins eru svo afgerandi. Eitt útilokar þó ekki annað í þessu frekar en öðru og allt gæti þetta hafa átt sér stað. Það er hinsvegar vitað að þarna var mikið ójafnvægi á náttúrunni með miklum hitasveiflum og stórfækkun stórra spendýra. Hver þáttur mannsins er í svona dæmum er sígild spurning, ekki bara í sambandi við þessa atburði heldur líka þeim sem eru nær okkur í tíma.
- - - - -
Nokkrar heimildir:
Ice sheet melt triggered ancient Big Freeze
Were Ancient Americans Wiped out by Meteor Strike?
Bókin: Mannlaus Veröld eftir Alan Weisman
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 21:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
15.2.2011 | 01:10
Útrás kalda Ameríkuloftsins
Á vefnum NASA Earth observatory er að finna ágæta gervitunglamynd frá 25. janúar þar sem vel má sjá hvað gerist þegar ískalt vetrarloftið yfir Norður-Ameríku streymir yfir Atlantshafið. Niðri til vinstri á myndinni er New York, lengra í norðaustur má sjá Þorskhöfða og lengra í sömu átt er Nova Scotia sem tilheyrir Kanada. Þarna hafa undanfarið verið talsverðir kuldar eins og sjá má á hvítri jörðinni sem ætti svo sem ekki að vera óeðlilegt á þessum árstíma.
Þegar þetta ískalda loft blæs yfir hafið, sem auðvitað er mun hlýrra, þá myndast þessar fínu skýjarákir sem ná lengst út á haf. Án þess að ég ætli út í mikla veðurfræði þá gerist þetta þegar kalda meginlandsloftið mætir mun hlýrra yfirborði sjávar. Þá hitnar neðsta lag loftsins þannig að uppstreymi myndast, þ.e.a.s loftið verður óstöðugt. Þetta loft þróast síðan oft yfir í að verða skúra- eða éljaloft sem gjarnan nær alla leið til Íslands. Það er samt ekki víst að akkúrat þessi ský hafi náð til okkar því vel getur verið að þau hafi dagað uppi mun sunnar en kalda loftið er annars ágætis hráefni í nýja lægðarmyndum.
Þetta fyrirbæri er andstæða þokusúldarinnar sem oft ríkir hér sunnanlands að vetrarlagi enda er þar á ferð hlýtt suðlægt loft að upplagi sem hrakist hefur norður og mætt kaldari sjó. Þá þéttist rakinn við yfirborð í neðstu loftlögunum þannig að lágskýjabreiður myndast, þokuloft eða súld. En loftið er þá hinsvegar stöðugt því mildara loftinu líður betur fyrir neðan það kalda.
Myndin sem fylgir er bara hluti af stórri mynd í hárri upplausn og er að finna á þessa slóð ásamt almennilegri útskýringum: http://earthobservatory.nasa.gov/IOTD/view.php?id=49254
Veður | Breytt s.d. kl. 08:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.2.2011 | 22:08
Verstu leturgerðirnar
Eins og gengur og gerist með flesta hluti þá njóta leturgerðir mismikillar virðingar ekki síst meðal þeirra sem fást mikið við letur. Þau letur sem njóta þess vafasama heiðurs að teljast meðal þeirra verstu eru þó ekki endilega slæm letur því sum þeirra hafa einfaldlega verið misnotuð eða ofnotuð og þá gjarnan við tækifæri sem hæfa ekki karaktereinkennum letursins. Tíðarandinn breytist líka stöðugt. Það sem eitt sinn þótti meiriháttar smart þykir í dag meiriháttar hallærislegt. Mörg letur hafa síðan einfaldlega komist í slæmudeildina með því að vera svo óheppin að fylgja stýrikerfi tölva og komist þannig í hendur fjölda notenda með misgott auga fyrir smekklegheitum
Letrin átta sem ég nefni hér að neðan eru gjarnan nefnd meðal verstu leturgerða nú á tímum. Hver og einn verður síðan að dæma fyrir sig hvort þau eigi það öll skilið. Mörg önnur letur gætu auðvitað átt heima þarna líka.
Comic Sans er eiginlega frægasta versta letrið í dag. Það er svo illa liðið að hægt er að fá viðbætur í tölvur sem hreinsa það burt úr tölvunni og til er vefsíða sem heitir ban comic sans. Eins og nafn letursins gefur til kynna er það hugsað til notkunar í gríni hverskonar og þá helst í texta við skrípamyndir. Enginn sem vill láta taka sig alvarlega ætti því að nota þetta letur en því miður hafa margir flaskað á því.
Brush script var teiknað árið 1942. Það hefur talsvert verið notað á allskonar auglýsingaefni í gegnum tíðina en er nú algerlega komið úr móð. Þetta er ágætt dæmi um letur sem alls ekki má nota í hástöfum, ekki frekar en önnur hallandi skriftarletur. Samt sjást oft dæmi um slíka misnotkun.
Hobo hefur sjálfsagt verið elskað á hippaárunum en í dag elska margir að hata þennan font. Sveigðu línurnar eru í anda jugent stílsins frá aldamótunum 1900 en letrið var annars teiknað árið 1910. Hobo er ágætt þegar höfða á til barna og dýra en í öðrum tilfellum ættu menn að hugsa sig tvisvar um.
Marker Felt er helst nothæft þegar markmiðið er að gera eitthvað verulega ódýrt. Við erum því kannski að tala um brunaútsölu.
Zapf Changery er í sjálfu sér ekki slæmt letur í lágstöfum en er auðvitað algerlega bannað í hástöfum öðrum en upphafsstaf.
Cooper Black er mjög í anda 8. áratugarins en í dag ætti enginn að nota þennan font nema að vera mjög meðvitaður um hvað hann er að gera.
Mistral er mjög óformlegt skriftarletur. Það náði dálitlum vinsældum á 9. áratugnum þegar menn vildu poppa sig aðeins upp.
Arial kemur hér að lokum og er eina steinskriftarletrið í upptalningunni. Það hefur það helst á samviskunni að vera hannað sem skrifstofustaðgengill hins fræga Helvetica leturs án þess að ná elegans fyrirmyndarinnar.
- - - -
Það má hér í lokin minna á þennan frábæra DVD-disk um Bíladaga á Akureyri. Þó ekki væri nema til þess að dást að Mistral letrinu.
LETUR | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.2.2011 | 21:29
Hitamósaík fyrir Reykjavík árin 1971-2010
Ég hef stundum dundað mér að útbúa ýmsar litríkar myndir upp úr veðurupplýsingum og þá yfirleitt útfrá mínum eigin veðurskráningum. Að þessu sinni eru hinsvegar unnið upp úr gallhörðum gögnum af sjálfum Veðurstofuvefnum þar sem finna má ýmsa veðurtölfræði aftur í tímann.
Á myndinni sem hér fylgir hef ég sett upp alla mánuði frá 1971 til 2010 í eina mynd og í stað talna fær hver mánuður sinn lit eftir hitafari samkvæmt hitaskalanum sem fylgir.
Ýmislegt forvitnilegt kemur í ljós þegar hitinn er skoðaður á þennan hátt. Bláu frostmánuðunum fækkar og rauðu 10 stiga sumarmánuðunum fjölgar. Breytingin er þó helst sýnileg á árunum eftir aldamót.Á fyrri hluta tímabilsins var ekki hægt að treysta á að sumarmánuðirnir júlí og ágúst næðu 10 stiga meðalhita og jafnvel ekki nokkur mánuður sumarsins, en eftir 1994 hefur það gerst undantekningalaust. Flest síðustu árin hefur svo júní náð að komast í 10 stiga flokkinn og jafnvel september. Síðasta sumar gerði það best allra, með alla fjóra sumarmánuðina í 10 stigum.
Af vetrarmánuðunum sést þarna vel hversu mikil óregla er í því hvenær kaldast er á vetrum. Þó er kannski einhver regla. Árin 1975 til 1984 voru allir janúarmánuðir og flestir desembermánuðir undir frostmarki, á meðan febrúar var oftast yfir frostmarki. Það er því dálítið sérstakt tímabilið 1996-2002 þegar allir febrúarmánuðir voru undir frostmarki, en hinir yfirleitt ekki.
Frostmánaðalaus ár hafa komið af og til allt tímabilið, en nú er orðið nokkuð síðan mánaðarmeðalhiti hefur verið undir frostmarki í Reykjavík. Gerðist síðast með herkjum janúar og febrúar 2008.
Svo má líka nefna að ef myndin hefði náð lengra aftur í tímann hefði verið hægt að finna allnokkur ár frá hlýja tímabilinu á síðustu öld sem jafnast á við þau síðustu. T.d. voru fjórir 10 stiga sumarmánuðir árin 1939, 1941 og 1958. Síðasti áratugur eru þó mjög óvenjulegur enda hafa hlýindin verið samfelld og nokkurn vegin án verulegra truflana, enda óumdeilanlega hlýjasti áratugurinn frá upphafi mælinga.
Vísindi og fræði | Breytt 25.5.2013 kl. 23:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)