Sumarsól í Reykjavík og á Akureyri 1973-2012

Hvernig verður sumarið? Fáum við enn eitt sólarsumarið hér í Reykjavík eða er komið að rigningarsumri? Er kannski komið að Norðlensku gæðasumri eins og þau gerast best - eða ætlar Austurlandið að taka þetta í ár? Ekki veit ég mikið um það, en hitt veit ég að nú hef ég tekið saman sólskinsstundir síðustu 40 sumra hér í Reykjavík og á Akureyri og sett upp í sitthvort súluritið. Miðað er við sumarmánuðina júní-ágúst og eru upplýsingar fengnar af vef Veðurstofunnar. Fyrst kemur hér Reykjavíkursólin en undir myndinni eru bollaleggingar:
Sumarsól Reykjavík 1973-2012Eins og sjá má hafa undanfarin sumur verið aldeilis sólrík hér í Reykjavík. Sólarsumar mætti kannski miða við 600 klst. markið en samkvæmt því hafa þau verið 6 á síðustu 9 árum. Sumarið 2012 gerði það best á tímabilinu og er eini mánuðurinn sem nær 700 klst. línunni. Júní lagði þar mest af mörkum með 320 klst., sem er það næst mesta sem mælst hefur í Reykjavík. Á fyrri árum leið lengra á milli sólarsumra og samkvæmt skilgreiningunni náðust þau með herkjum árin 1974, 1985 og 1991. Svo eru þarna líka hin annáluðu sólarsnauðu rigningarsumur 1983 og 1984, sitt hvoru megin við 300 klst. línuna. Þessi tvö leiðindasumur í röð voru ekki góð auglýsing fyrir sumarveður í Reykjavík en úr því var bætt árið eftir og eiginlega hefur ekki komið almennilegt rigningarsumar í Reykjavík eftir 1984. En þá er það Akureyrarsólin:
Sumarsól Akureyri 1973-2012Súluritið fyrir sólskinsstundir á Akureyri sýnir heldur meiri stöðugleika en í Reykjavík. Áberandi er þó að þar er sumarið í fyrra einnig á toppnum og það nokkuð afgerandi. Það er enda ekkert lögmál að sólarsumar fyrir sunnan sé ávísun á sólarleysissumar fyrir norðan - og öfugt. Sambandið þarna á milli er nefnilega nokkuð órætt eins og kemur í ljós þegar einstök sumur eru borin saman. Sumrin 1983 og 1984 eru til dæmis ekki í neinum sérflokki á Akureyri hvað sólskin varðar þótt lítið hafi sést til sólar í Reykjavík. Annars hef ég ekki mikið um Akureyrarsól að segja, nema að auk sumarsins 2012 þá kemur sumarið 2000 vel út ásamt sumrinu 2004. Þau sólarnauðustu eru hinsvegar sumrin 1979 og 1993.

Þá er bara að sjá til hvernig sumarið 2013 kemur út. Miðað við veðurspár virðist norður- og austurhluti landsins ætla að taka sólarforystuna til að byrja með, enda suðvestanáttum spáð. Ef sú vindátt verður ríkjandi í sumar þá yrði þetta sumar með öðru sniði en undanfarin ár. En þetta er nú bara rétt byrjunin og veðurfar er illreiknanlegt vikur og mánuði fram í tímann.

 


Evrópukeppnin

Keppnir eru hið besta mál. Sjálfur fylgist ég með ýmsum keppnum hvort sem er í íþróttum og öðru og þar er Eurovision söngvakeppnin engin undantekning. Sumu hefur maður þó engan áhuga á eins og til dæmis hestamótum og keppni í samkvæmisdönsum. Pólitík er líka keppni þar sem menn halda með sumum en öðrum ekki og fagna sigrum yfir andstæðingum, en svo eru líka allskonar keppnir sem eru sífellt í gangi og engin verðlaun í boði eins og hvort einhver mánuður sé heitari eða kaldari en annar eða setji ný og glæsileg veðurmet að einhverju tagi.

En nú er Eurovison mál málanna. Hver meikar það að þessu sinni? Verður það Egilshöll á næsta ári? Hluti að keppnum er að spá í stöðuna og reyna að finna út væntanlegan sigurvegara. Að þessu sinni virðast Norðurlöndin ætla að gera það gott. Ég er á því eins og fleiri að Danmörk og Noregur séu bæði með afskaplega sigurvænleg atriði og það kæmi mér á óvart ef sigurinn lenti annarstaðar. Kannski tökum við þá bara þriðja sætið en það er sjálfsagt dálítil bjartsýni. Sumir fíla Sænska lagið en ég er ekki í þeim hópi. Hvít-Rússar hafa afskaplega mikið langað til að vinna eftir að nágrannarnir í Úkraínu sigruðu með henni Ruslönu hér um árið. Þeir gætu reyndar tekið sigurinn núna með glæsipíu í grísk-ættuðum takti. Grikkirnir sjálfir eru reyndar alltaf álitlegir, að þessu sinni með skoppandi stuttbuxnakarla. Hollendingar og Ungverjar sjá um artý- og krúttlegheitin og standa sig vel í því. Hvað með Bonnie Tyler? Mér finnst hún bara ekkert síðri en í gamla daga og með alveg þokkalegt lag. Meðan fólk getur sungið skiptir aldur og fyrri störf ekki máli. Í tilfinninga- og kraftballöðugeiranum finnst mér Moldavía standa upp úr. Söngkonan rís líka himinhátt á sviðinu með þvílíku sjónarspili að hætt er við að fæstir skynji flottheit lagsins sem hún syngur.

Moldavía eru annars dæmi um land sem maður þekkir ekkert nema í gegnum Eurovision keppnina. Moldavía er greinilega ekki bara mold. Eitt af uppáhaldsatriðum mínum í keppnum síðustu ára er einmitt framlag Moldava árið 2011. Þar eru á ferð hinir miklu stuðmenn í ZDOB ȘI ZDUB flokknum sem keppt hafa tvisvar. Í fyrra skiptið voru þeir með ömmuna í ruggustólnum eins og frægt var en lagið fyrir tveimur árum finnst mér betra. Stelpan á einhjólinu sem þykist spila eða ekki spila á lúður, skemmir ekki fyrir.


 


Loftslag og stóra færibandið

Í loftslagsmálum velta menn því nú fyrir sér hvers vegna lítið sem ekkert hafi hlýnað á jörðinni undanfarin 10-15 ár, á sama tíma og magn gróðurhúsalofttegunda eykst stöðugt. Er virkilega hætt að hlýna og ef svo er - hvers vegna? Ég skal ekki segja, en það sem ég ætla að velta fyrir mér hér og nú, er með hvað hætti sjórinn gæti verið að spila inn í og hvort mögulegt sé að aukinn kraftur í hinu stóra færibandi heimshafanna gæti verið að draga úr hlýnun tímabundið en um leið að valda aukinni bráðnun heimskautaíssins á norðurhveli. Menn ráða hvort þeir taka mark á þessum skrifum enda eru þetta áhugamannapælingar um hluti sem eru örugglega mun flóknari en hér er gefið til kynna.

Fyrst kemur hér súlurit frá Bandarísku veðurstofunni sem sýnir hnattrænan hita frá 1950 en þar sést vel að síðustu 10 ár hafa öll verið mjög hlý en þó í nokkuð góðu jafnvægi, þ.e. hitinn helst hár en hækkar ekki. Svo eru þarna mislitar súlur. Þær rauðu þýða að þá hafi hið hlýja El Nino ástand verið ríkjandi á miðbaugssvæðum Kyrrahafsins, en þær bláu þýða að hin kalda La Nina hafi ráðið ríkjum. Athyglisvert er að frá árinu 1999 er bara ein rauð súla á móti átta bláum. Aukið uppstreymi af köldum djúpsjó á La Nina árum og ýmsar veðurbreytingar samfara því virðist hafa sín áhrif á hnattrænan hita á sama hátt og El Nino árin hafa áhrif til hlýnunar, en þá berst einmitt minna af köldum djúpsjó upp til yfirborðs Kyrrahafsins. Spurningin er síðan af hverju hefur La Nina árum fjölgað á kostnað El Nino?

Hiti jarðar súlurit

Næsta mynd er heimatilbúin og sýnir einhverskonar vatnsgeymi sem mætti heimfæra að hluta á heimshöfin. Í fyrri myndinni er mikil lagskipting í hita þar sem heitt vatn flýtur ofan á mun kaldara og þar með þyngra vatni. Heita yfirborðið ætti við þessar aðstæður að stuðla að ágætum lofthita fyrir ofan sig. Seinni myndin sýnir hins vegar aðstæður þegar búið er að blanda öllu saman, meðalhiti vatnsins er sá sami en yfirborðið hefur kólnað og er því mun líklegra til að hafa kælandi áhrif á lofthita - sé hann á annað borð hærri en þessar 13 gráður. Úthöfin eru einmitt lagskipt í hita. Djúpsjórinn er ekki nema um 3 gráður hvar sem er á jörðinni á meðan yfirborðshitinn fer yfir 20 gráður þar sem hlýjast er. Talsverðu máli hlýtur því að skipta hvort kaldi sjórinn nái upp til að kæla yfirborð sjávar þar sem sjórinn er heitastur við miðbaug, þótt blöndunin verði aldrei nálægt svona mikil enda eru hreyfingar á færibandi heimshafanna í afar miklum hægagangi.

Vatnstankur hiti

Út frá þessari einföldu mynd er hægt að draga þá einföldu ályktun að aukið hringstreymi og aukin lóðrétt blöndun í heimshöfunum geti stuðlað að lægri yfirborðshita sjávar með kælandi áhrifum á loftið fyrir ofan. Stóra færiband heimshafanna er vel þekkt fyrirbæri. Heitur yfirborðssjórinn er léttari í sér og sekkur ekki niður nema þar sem hann nær að kólna nálægt pólasvæðunum. Þannig myndast kaldur djúpsjór sem flæðir með botninum en sogast upp á stöku stað vegna áhrifa vindknúinna strauma. 

Færibandið

Aðal niðurstreymissvæðið á norðurhveli er hér í Norður-Atlantshafi og Íshafinu. Atlantshafssjórinn er talsvert saltur og þar með eðilsþyngri en ferskari sjór og sekkur því auðveldlega þegar hann kólnar og mætir ferskari og kaldari yfirborðsjó úr norðri. Það hversu langt hlýji sjórinn nær norður áður en hann sekkur er auðvitað mjög mikilvægt atriði fyrir loftslag hér á okkar slóðum, en einnig hversu mikill að magni þessi aðkomni hlýsjór er. Ef krafturinn eykst í kerfinu ætti því að hlýna hér (sem hefur gerst) og jafnfræmt ætti hafísinn að minnka í Norður-Íshafi (sem er líka að gerast).
Í Kyrrahafinu er að finna mikilvægasta uppstreymissvæðið í heimshöfunum og aftur komum við að því að ef krafturinn í stóra færibandinu eykst, þá ætti meira magn af köldum djúpsjó að berast upp til yfirborðs, sem einmitt gerist þegar hin kalda La Nina er við völd eins og reyndin hefur verið frá aldamótum. Kyrrahafið er ekki nærri því eins salt Atlantshafið og ræður það sennilega því að djúpsjór myndast ekki í norðurhluta Kyrrahafs.

Umhverfis Suðurskautslandið er sjórinn á stöðugri réttsælis hringferð bæði í efri og neðri lögum og þar myndast kaldur djúpsjór eins og hér norður í Ballarhafi. Aðstæður þarna suðurfrá er þó allt aðrar en hér fyrir norðan. Hafísinn hefur heldur aukist á suðurhveli sem samkvæmt nýlegri rannsókn stafar af breytingum á vindum umhverfis Suðurskautslandið sem ber ísinn lengra norður að vetrarlagi.

Að þessu sögðu þá kemur hér hitafarskort fyrir yfirborðshita sjávar eins og aðstæður voru undir lok árs 2007 þegar eitt af þessum La Nina fyrirbærum hafði komið upp í Kyrrahafi. Á bláu svæðunum í Kyrrahfinu er yfirborðssjórinn kaldari en venjulega enda mikið kalt uppstreymi í gangi undan vesturströndum Ameríku. Hinsvegar er rauði liturinn ríkjandi nyrst í Atlantshafi eins og verið hefur síðustu ár. Allt rímar þetta við mögulegan aukinn kraft stóra færibandsins.

Sjavarhiti nov. 2007

Nú er spurningin hvort menn sætta sig við hröðun stóra færibandsins sem skýringu á því að skort hefur á hlýnun jarðar frá aldamótum á sama tíma og hlýsjór ríkir á Norður-Atlantshafi og Norður-Íshafinu. Margt fleira getur spilað inn í og kannski er ekki hægt að fullyrða að heimshöfin virki bara eins og eitthvað einfalt færiband sem fer mishratt og samtenging Kyrrahafsins og Atlantshafsins er kannski ekki eins mikil og ég hef gefið í skin. En þetta er þó allavega umhugsunaratriði.
Hvernig þetta tengist svo hlýnun jarðar er síðan annað mál. Ef aukinn kraftur færist í lóðrétta blöndun sjávar til lengri eða skemmri tíma, ætti djúpsjórinn að hlýna smám saman og því væri hægt að segja að hlýnun jarðar fari í það um þessar mundir að bræða norðurpólsísinn og hita djúpsjóinn frekar en yfirborðið. Ef svo er og verður eitthvað áfram, gæti það líka frestað þeirri óðahlýnun lofthjúpsins sem áður hafði verið auglýst svo kröftuglega. Hlýnunin mikla gæti þó skilað sér að lokum en á lengri tíma en áður var talið og að sama skapi með langvinnari afleiðingum.

- - -
Þetta var nú frekar langur pistill sem lengi hefur verið í bígerð og hann gæti alveg verið lengri. Textinn er allur frumsaminn en eins og yfirleitt hjá mér eru heimildir héðan og þaðan og sumar þeirra týndar. Ég "bookmarkaði" þó á sínum tíma gestapistil Williams Kininmonth á bloggsíðunni hennar JoNovu, sem reyndar flokkast sem "skeptíkisti", en mér er sama hvaðan gott kemur. The deep oceans drive the atmosphere.

Höfin hafa annars verið að fá aukna athygli undanfarið samanber nýbirta rannsókn Balmaseta, Trenberth og Kallen sem virðast hafa fundið eftirlýsta hlýnun jarðar ofan í hafdjúpunum. Um það má lesa hér: Deep ocean warming helps prove climate change is accelerating.


mbl.is Koltvísýringur í sögulegu hámarki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stóra snjódagamyndin, 1986-2013

Hér í Reykjavík hafa menn ekki þurft að kvarta yfir snjóþyngslum á liðnum vetri ólíkt því sem verið hefur Norðanlands. Það snjóaði vissulega endrum og sinnum hér í borginni en þó varla neitt til að tala um, fyrir utan kannski ófærðarmorguninn 6. mars. Sá snjór dugði reyndar stutt og var horfinn tveimur dögum síðar. Langoftast var jörð alauð enda voru hávetrarmánuðirnir janúar/febrúar óvenju hlýir og snjóléttir eftir því.

Þetta má meðal annars sjá á stóru snjódagamyndinni sem nú hefur verið uppfærð og sýnir hvenær snjór hefur verið á jörðu í Reykjavík á miðnætti allt aftur til október 1986. Myndin er unnin upp úr mínum eigin athugunum og geta því verið einhver frávik frá opinberum athugunum sem gerðar eru Veðurstofutúni að morgni til. Hver lárétt lína stendur fyrir einn vetur samkvæmt ártölum vinstra megin en tölurnar hægra megin sýna fjölda hvítra- eða hvítflekkóttra daga. Matsatriði getur verið hvort jörð sé hvít eða ekki, enda stundum aðeins um að ræða lítilsháttar nýfallna snjóföl eða misflekkótta snjóhulu í mismikilli afturför.

Snjódagar 1986-2013
Samkvæmt þessum athugunum mínum eru snjódagar liðins vetrar aðeins 24 talsins og hafa ekki verið færri frá upphafi skráninga. Fyrra snjóleysismetið voru 32 dagar hlýindaveturinn 2002-2003 og svo voru 33 dagar veturinn 2009-2010, þannig að þetta er nokkuð afgerandi óopinbert met.

Í hinn endann er veturinn 1994-1995 sá hvítasti með 129 daga. Snjódýptin sést ekki á myndinni en í minningunni er veturinn 1988-1989 eftirminnilegastur vegna mikils fannfergis eftir áramót og fram í apríl. Veturinn þar á eftir var snjórinn einnig mjög þrálátur en ekki eins mikill að magni. Langvinnir snjóakaflar hafa ekki verið tíðir hin síðari ár nema reyndar þarna frá nóvember 2011 til janúar 2012 þegar við fengum einn alhvítasta desember sem um getur.

Nú er bara að vona að vorið hrökkvi almennilega í gang. Einnig að garðsláttuvélar hrökkvi liðlega í gang því stutt er í að grasið fari að spretta í görðum borgarbúa. Á heimskautasvæðum Norðanlands vonumst við líka til að klakabrynjan hörfi sem fyrst af túnum og fótboltavöllum.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband