Evrópukeppnin

Keppnir eru hið besta mál. Sjálfur fylgist ég með ýmsum keppnum hvort sem er í íþróttum og öðru og þar er Eurovision söngvakeppnin engin undantekning. Sumu hefur maður þó engan áhuga á eins og til dæmis hestamótum og keppni í samkvæmisdönsum. Pólitík er líka keppni þar sem menn halda með sumum en öðrum ekki og fagna sigrum yfir andstæðingum, en svo eru líka allskonar keppnir sem eru sífellt í gangi og engin verðlaun í boði eins og hvort einhver mánuður sé heitari eða kaldari en annar eða setji ný og glæsileg veðurmet að einhverju tagi.

En nú er Eurovison mál málanna. Hver meikar það að þessu sinni? Verður það Egilshöll á næsta ári? Hluti að keppnum er að spá í stöðuna og reyna að finna út væntanlegan sigurvegara. Að þessu sinni virðast Norðurlöndin ætla að gera það gott. Ég er á því eins og fleiri að Danmörk og Noregur séu bæði með afskaplega sigurvænleg atriði og það kæmi mér á óvart ef sigurinn lenti annarstaðar. Kannski tökum við þá bara þriðja sætið en það er sjálfsagt dálítil bjartsýni. Sumir fíla Sænska lagið en ég er ekki í þeim hópi. Hvít-Rússar hafa afskaplega mikið langað til að vinna eftir að nágrannarnir í Úkraínu sigruðu með henni Ruslönu hér um árið. Þeir gætu reyndar tekið sigurinn núna með glæsipíu í grísk-ættuðum takti. Grikkirnir sjálfir eru reyndar alltaf álitlegir, að þessu sinni með skoppandi stuttbuxnakarla. Hollendingar og Ungverjar sjá um artý- og krúttlegheitin og standa sig vel í því. Hvað með Bonnie Tyler? Mér finnst hún bara ekkert síðri en í gamla daga og með alveg þokkalegt lag. Meðan fólk getur sungið skiptir aldur og fyrri störf ekki máli. Í tilfinninga- og kraftballöðugeiranum finnst mér Moldavía standa upp úr. Söngkonan rís líka himinhátt á sviðinu með þvílíku sjónarspili að hætt er við að fæstir skynji flottheit lagsins sem hún syngur.

Moldavía eru annars dæmi um land sem maður þekkir ekkert nema í gegnum Eurovision keppnina. Moldavía er greinilega ekki bara mold. Eitt af uppáhaldsatriðum mínum í keppnum síðustu ára er einmitt framlag Moldava árið 2011. Þar eru á ferð hinir miklu stuðmenn í ZDOB ȘI ZDUB flokknum sem keppt hafa tvisvar. Í fyrra skiptið voru þeir með ömmuna í ruggustólnum eins og frægt var en lagið fyrir tveimur árum finnst mér betra. Stelpan á einhjólinu sem þykist spila eða ekki spila á lúður, skemmir ekki fyrir.


 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Þessi bloggfærsla slapp í gegn athugasemdalaust en að sjálfsögðu unnu Danir en Norðmenn urðu í fjórða. Þar á milli komu Úkraína og Azerbaidjan með lög sem auðvelt er að gleyma. Ísland í sautjánda sem er svona la la árangur í heildina en þó fyrir ofan Bonnie Tyler sem var ekki alveg að gera sig. Hvít-Rússar voru neðar en ég átti von á, tóku sextánda sætið okkar en venjulegir Rússar lentu í fimmta og svo Grikkirnir í sjötta. Þannig er nú það.

Emil Hannes Valgeirsson, 19.5.2013 kl. 00:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband