25.6.2012 | 21:20
Rigning og rok, þurrkar og fleira.
Það væri tilbreyting hér í veðurleysunni að fá svo sem eins og eitt almennilegt landsynningsslagviðri með mörgum millimetrum og metrum á sekúntu. Veðurkortið sýnir veðrið á morgun kl. 18 en eins og glöggir lesendur átta sig á er hér um gamalt veðurkort að ræða og viðkomandi morgundagur löngu liðinn. Ég man ekki hvar á netinu ég fékk kortið á sínum tíma, en þessi gömlu handteiknuðu veðurkort taka auðvitað öllu fram sem boðið er upp á í dag. Og þótt litinn skorti, þá liggur við að maður finni fyrir rigningunni og vindinum.
Úrkomuleysið að undanförnu hefur verið í umræðunni og virðist sem við séum orðin föst í þessum snemmsumarþurrkum ár eftir ár. Þetta er talsverð breyting frá því er ég var alast upp en þá var aðalkappsmálið að eiga góð Nokia stígvél svo hægt væri að vaða í dýpstu drullupollana ekki síst að sumarlagi. Það var líka talsvert kaldara á mínum uppvaxtarárum á 8. áratugnum og því freistandi að segja að blaut sumur fari saman við kaldari tíð. Kannski á þetta frekar við um sunnan- og vestanvert landið sem fær að finna fyrir því þegar lægðirnar stefna beint á landið.
Nú á tímum meiri hlýinda fara lægðirnar hinsvegar beint til Bretlandseyja með þeim aukaverkunum að hæg norðaustlæg eða austlæg átt verður ríkjandi hér á landi með almennum sumarþurrkum víðast hvar en svalara sjávarlofti við strendur austan- og norðanlands.
Nú er auðvitað sígilt að velta fyrir sér hvort þetta sé veðurbreyting sem komin er til að vera. Ég held að því sé varla treystandi því veðrið leitar gjarnan í gömul för og tímar stígvélaðra sumra því ekki endilega liðnir. Samhengi hlutana er þó ekki alltaf einfalt því auðvitað getur líka rignt duglega í hlýindum og öfugt. Hitasveiflurnar eru samt nokkuð ljósar og þar gæti hitastigi sjávar spilað inní. Undanfarin ár hefur hlýr sjór verið ríkjandi hér við land, svipað og á síldarárunum um miðja síðustu öld. Gott er í því sambandi að kíkja á AMO myndina (Atlantic Multidecadal Oscillation) sem endurspeglar ágætlega þróun sjávarhita hér nyrst í Atlantshafinu þegar tilraun hefur verið gerð til að jafna út leitnina upp á við vegna almennrar hlýnunnar. Samkvæmt þessu höfum við greinilega verið í hlýju pósitívu ástandi frá því fyrir 2000 en þó ekki alveg eins öflugu og á árunum 1930-1945. Ómögulegt er að segja hversu lengi þetta varir en miðað við lengd síðustu tímabila gæti þetta hlýja tímabil allt eins verið hálfnað.
Veður | Breytt 28.6.2012 kl. 17:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.6.2012 | 16:50
Vefmyndir 17. júní
Í tilefni dagsins brá ég mér í smá ferð um landið og tók nokkrar myndir. Ekki þurfti ég þó að hafa mikið fyrir ferðalaginu en allar myndirnar eru skjáskot af vef Mílu. (http://live.mila.is).
Austurvöllur á miðjum Þjóðhátíðardegi. Bjart veður en skýjað með köflum. Dálítill vindur sér til þess að fánaborgin breiðir hæfilega úr sér en hrífur einnig með sér eina og eina blöðru og feykir út á Faxaflóa.
Sólin reynir að brjótast fram úr skýjunum á Þingvöllum kl. 10.45. Fátt minnir reyndar á að það sé þjóðhátíðardagur á þessum helga stað og íslenski fáninn ekki enn kominn upp. Hvítur toppur Ármannsfells ber vitni um loftkulda og snjókomu til fjalla nóttina áður.
Sólbjört Hekla ber höfuðið hátt yfir Suðurlandsundirlendinu en sauðfé er á beit í forgrunni á iðagrænum völlunum. Hekla gaus síðast árið 2000 þannig að nú erum við komin tveimur árum framyfir 10 ára goshléin sem verið hafa við lýði frá 1970. Hvað skyldi Hekla vera með á prjónunum að þessu sinni?
Jökulsárlón á Breiðamerkursandi í fallegu og björtu veðri. Þetta er nú ekki amalegt útsýni og kemur ekki á óvart að vefmyndavélin þarna hefur verið útnefnd sem ein þeirra 25 bestu í heiminum. Jakarnir á lóninu eru síbreytilegir frá degi til dags og ýmist flæðir inn og út úr lóninu vegna sjávarfalla. Það er ágætis bíó að fylgjast með því.
Akureyri er ólík Reykjavík að því leyti að það er fallegra að horfa til staðarins en frá honum. Allavega þá er útsýnið yfir Eyjafjörðinn til Akureyrar með því allra fínasta sem gerist á hringveginum, ekki síst á góðviðrisdögum eins og þarna snemma dags á sjálfum Þjóðhátíðardeginum áður en hafgolan nær að gára fjörðinn.
- - -
![]() |
Bjart yfir þjóðhátíðardegi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 23:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.6.2012 | 00:08
Óli Grís
Ég vil byrja á að biðjast margfaldlega afsökunar á þessari fyrirsögn. Það er ekki gott að uppnefna fólk og allra síst forsetann. Þetta uppnefni var samt talsvert notað hér áður í forsetatíð Ólafs, en þeir sem það gerðu er nú margir meðal æstustu aðdáenda hans og jafnvel teknir til við að uppnefna aðra. Engin uppnefnir hinsvegar forsetann í dag, sem er ágætt. Núverandi andstæðingar kunna sig því kannski eitthvað betur. Allavega svona yfirleitt.
Eins og mörgum öðrum þá finnst mér eitt það versta í kosningabaráttunni þegar menn tala á þeim nótum að það sé spurning um fullveldi Íslands að Ólafur nái endurkjöri. Þannig er reynt að snúa umræðunni að ef Þóra nái kjöri þá muni hún með hjálp Samfylkingar véla okkur inni í hið ógurlega Evrópusamband án þess að þjóðin fái rönd við reist. Þóra hefur jafnvel verið kölluð anti-þjóðfrelsisinni eins og ekkert sé sjálfsagðara, öfugt við hinn göfuga og þjóðholla forseta vorn Herra Ólaf Ragnar Grímsson eins og ég hef séð orðað.
Sjálfur er ég ekki fylgjandi inngöngu Íslands í Evrópusambandið svo lengi sem við höfum möguleika á að standa utan þess. Ég hef hinsvegar engar áhyggjur að því að Ísland muni gerast aðili gegn vilja þjóðarinnar og get því meðal annars þess vegna sleppt því að kjósa Ólaf til forseta eina ferðina enn. En þjóðin mun auðvitað kjósa sinn forseta eins og hún hefur alltaf gert og þjóðin mun ákveða hvort Ísland standi utan eða innan Evrópusambandsins. Hvað sem því líður þá finnst mér alveg kominn tími á að á Bessastöðum sitji manneskja sem getur talað með rödd skynseminnar en ekki í kjánalegum þjóðrembustíl eins og tíðkast hefur hér síðustu árin og auðvelt er að finna dæmi um. Það er vafasamur hugsunarháttur að líta svo á að Íslendingar séu eitthvað klárari en aðrir vegna arfleifðar okkar eða að erlend stórveldi sitji um okkur og vilji okkur allt hið versta. Þegar slík hugsun er ofaná er stutt í að fólk kalli eftir hinum eina sanna sterka leiðtoga sem það er reiðubúið leggja allt sitt traust á í gagnrýnislausri persónudýrkun.
- - - -
En nú borgar sig ekki að segja mikið meira. Að sjálfsögðu mega allir tjá sig hér í athugasemdum hafi þeir eitthvað við þennan málflutning að athuga og eins og með fyrirsögnina þá biðst ég margfaldrar afsökunar á þessum myndabrandara hér að neðan sem ég útbjó á sínum tíma, enda á hann ekkert erindi í umræðuna.
8.6.2012 | 20:50
Siglandi eyðimerkursteinar
Þótt vísindin eigi að hafa svör við öllu þá eru alltaf einhver fyrirbæri sem virðast stríða gegn þekktum náttúrulögmálum. Eitt af því allra undarlegasta er að finna í Dauðadalnum í Kaliforníu þar sem stærðarinnar grjóthnullungar virðast geta færst til langar leiðir í rennisléttum dalbotni án nokkurrar hjálpar manna eða dýra. Enginn hefur orðið vitni að þessum flutningum en ummerkin leyna sér ekki því steinarnir skilja eftir greinilega slóða sem ýmist eru þráðbeinir eða sveigðir en einnig virðast steinarnir geta tekið krappar beygjur og jafnvel snúið til baka. Steinarnir eiga uppruna sinn í grýttum hlíðum í næsta nágrenni, en leirkennt yfirborð dalsins er uppþornað stöðuvatn.
Nú eru auðvitað ýmsar kenningar í gangi og þar er auðvitað vinsælt hjá sumum að benda á geimverur t.d. að einhverntíma hafi fljúgandi furðuhlutur hrapað þarna og að steinarnir beri leifar hans í sér sem þá tengist öðrum hugmyndum um að segulefni og segulsvið eigi þarna einhvern þátt. Svo gætu líka bara einhverjir prakkarar verið á ferð, en hvernig sem menn hugsa það þá hefur ekki tekist að finna út því hvernig menn geti fært steinana án þess að skilja eftir sig ummerki sjálfir. Þess má geta að stærstu steinarnir eru yfir 300 kg að þyngd.
Jarðbundnustu hugmyndir um færslu steinanna og líklega þær líklegustu segja að þarna komi til samspil bleytu og vinda. Einstaka sinnum rignir á svæðinu og þegar leirinn blotnar að vissu marki verður hann passlega sleipur til að koma steinunum á siglingu en bara ef svo heppilega vill til að mikill og stöðugur vindur blási á sama tíma. Einnig hefur verið skoðað hvort ísing eigi hlut að máli sem er ekki útilokað en þarna getur myndast ísing á köldum vetrarnóttum og steinarnir þá rokið af stað eins og steinninn í krulluíþróttinni. Allt mun þetta þó væntanlega skýrast betur með tíð og tíma enda fátt sem mannvitið finnur ekki út úr að lokum.
Myndir eru héðan og þaðan en stóra myndin er af flyckr: http://www.flickr.com/photos/joits/6711931315
Ýmsar upplýsingar um fyrirbærið er að finna á netinu undir leitarorðinu: Sailing stones
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 16:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.6.2012 | 18:36
Heiðmerkureldar II
Í síðustu bloggfærslu gerði ég tilraun til að sýna á korti hvað gæti gerst ef 10 kílómetra löng gossprunga opnaðist suðaustur af Höfuðborgarsvæðinu. Sprungan náði frá Helgafell í norðaustur til svæðisins ofan við Elliðavatn. Úr þessu lét ég renna mikið hamfarahraun sem náði til sjávar í Elliðaárvogi, Garðabæ, Hafnarfirði og Straumsvík.
En nú afsannast það sem stundum er sagt að þar sem hraun hafa runnið áður, þar geta hraun runnið aftur. Allavega á það við í þessu tilfelli því hér í nágrenni höfuðborgarinnar hafa landbreytingar orðið þannig að hraun þurfa sumstaðar að renna upp á móti til að fylgja eftir fyrra rennsli. Kortið sem ég teiknaði hér í síðustu færslu var því ekki rétt í þeim grundvallaratriðum, að nú á dögum er varla möguleiki á því að rennandi hraun rétt austan Heiðmerkur komist inn í Garðabæ og miðbæ Hafnarfjarðar. Málið snýst um misgengi og landsig sem myndar hina svokölluðu Hjalla sem ná frá Kaldársseli til Elliðavatns og hindra rennsli til þéttbýlissvæðanna í vestri. Landssigið er allt að 65 metrum þar sem það er mest og hefur aukist mjög eftir að Búrfellshraunið rann til núverandi byggða í Hafnarfirði og Garðabæ fyrir um 7.200 árum. Á þetta mikilvæga atriði var bent í athugasemd Marínós G. Njálssonar og svo sá ég að Ómar Ragnarsson nefndi það sama á annarri bloggsíðu. Eftir vettvangsferð að Kaldárseli og Búrfellsgjá sannfærðist ég svo betur um málið. Til að bæta fyrir þetta, hef ég endurgert kortið þannig að nú falla hraunstraumar til sjávar aðeins á tveimur stöðum: við Elliðaárvog og norður af Straumsvík.
Sem fyrr vil ég hafa alla fyrirvara á og tek fram að varla er líklegt að svona löng gossprunga opnist á þessu svæði. Gossprunga þessi myndi tilheyra Trölladyngjukerfinu og hafa sömu stefnu og aðrar gossprungur suðvestanlands. Svæðið við Krísuvík tengist einnig þessu kerfi en þar er hugsanlega einhver kvika á ferð sem gæti mögulega hlaupist út í sprungureinar á sama hátt og í öðrum sprungugosum. Þótt líklegra sé að mesta eldvirknin væri nær miðju eldstöðvarkerfisins í suðvestri geta talsverð hraun komið upp nálægt Helgafelli. Vegna fjarlægðar er hinsvegar ólíklegra að það gerðist í stórum stíl nær Elliðavatni og því má setja stórt spurningamerki við það hvort hraun úr þessu kerfi geti yfirfyllt Elliðavatn nægilega til að fá hraunrennsli yfir Árbæjarstíflu og niður í Elliðaárvog. Líklegra er svo að slíkt hraunrennsli komi úr næsta eldstöðvakerfi austanvið, nefnilega Brennisteins- og Bláfjallakerfinu eins og tilfellið var með Leitarhraunið sem rann niður í Elliðavog fyrir um 4.800 árum.
Sem fyrr Vallarhverfið, syðst í Hafnarfirði í vondum málum og samgöngur rofnar við Reykjanesbraut. Þarna er helsta áhættusvæðið varðandi hraunrennsli í byggð á höfuðborgarsvæðinu og spurning hvort ekki mætti huga þar að einhverjum varnargörðum ef grunnsemdir vakna um yfirvofandi eldvirkni. Í nágrenni Elliðavatns gæti nýja hverfið við Norðlingaholt staðið tæpt og Suðurlandsvegur einnig. Umferð yfir stóru brýrnar við Elliðaár er einnig ógnað en þó ekki endilega. Kannski verður bara ásókn í að koma sér fyrir á Höfðabakkabrú og fylgjast með hinni glæsilegu sjón þegar glóandi hraunelfan streymir þar undir í kvöldhúminu.