Er heimurinn að hlýna eða kólna?

Það eru væntanlega fáir sem efast um að hlýnað hafi á jörðinni síðustu 100 ár enda sýna mælingar það svo ekki verði um villst. Þessar 0,7° gráður eða svo sem hlýnað hefur um í heiminum frá aldamótunum 1900 teljast varla vera nein katastrófa en haldi hlýnunin áfram á þessari öld með auknum hraða, gæti gamanið farið að kárna eins og margoft hefur verið varað við.

En hér eru ekki allir á sama máli, því inn á milli heyrast raddir um að loftslag á jörðinni stjórnast lítið sem ekkert af athöfnum manna – það hafi alls ekkert hlýnað undanfarin ár og framundan sé áratugalangt kuldaskeið af náttúrulegum orsökum en aðallega þá vegna minnkandi sólvirkni. Sumir hafa undanfarið jafnvel talið að kuldaskeiðið mikla væri í þann veginn að hefjast eins og þessar tilvitnanir segja til um:

It is likely that 2011 will be the coolest year since 1956, or even earlier, says the lead author of a peer-reviewed paper published in 2009. Our ENSO - temperature paper of 2009 and the aftermath by John McLean

„Global temperatures have suddenly returned to the same level they were in 1980 and are expected to drop much further. Given the momentum of the solar hibernation, it is now unlikely that our generation or the next one will return to the level of global warming that we have just passed through. Again, global warming has ended. It was always caused by the Sun and not mankind. The global cooling era has begun.“ Space and Science Research Center, February 4, 2011

Þessi síðari tilvitnun er frá því í febrúar nú í ár eftir að hitinn hafði fallið í byrjun árs. Ekki reyndist sú kólnun langvinn. Þeir sem kallast efasemdarmenn um hnatthlýnun hafa reyndar lengi bent á að mikið hitafall sé yfirvofandi eða í þann veginn að skella á. Slíkt hefur hingað til látið á sér standa eða frestast, því eftir hvert bakslag hefur hitinn náð sér á strik svo um munar. Myndir hér að neðan sýnir hitaþróun jarðar frá 1979 samkvæmt gervitunglagögnum UAH:

Hitalínurit UAH Jun2011

Sá þáttur sem hefur einna mest skammtímaáhrif á hitafar jarðar en ENSO sveiflan í Kyrrahafi, sem segir til um hvort hinn hlýji El Nino eða hin kalda La Nina ráði ríkjum hverju sinni en mestu áhrifin eru af völdum sterks El Nino árið 1998 enda var það ár það hlýjasta samkvæmt þessum gögnum. Frá 1950 hefur þróunin verið þannig (rautt = El Nino / blátt = La Nina):

ENSO 1950-2011

- - - - -

Ef við setjum þessar tvær myndir saman fyrir árin 1979-2011 þannig að ártölin stemma, þá sést vel hvað átt er við. Hitaþróunin eltir ENSO sveiflurnar en er þó oftast nokkrum mánuðum á eftir. Eina tímabilið sem passar illa er 1992-1993 en það er vegna kælingar af völdum stóra eldgossins í Pinatupo á Filippseyjum:

ENSO+UAH 1979-2011

Í þessum samanburði kemur það í ljós að hitaferill hefur smám saman verið að lyfta sér upp fyrir ENSO sveiflurnar eins og ég stilli þessu upp. Með öðrum orðum: Það er undirliggjandi hlýnun í gangi sem ekki verður skýrð með tíðni El Nino og La Nina. Á síðasta ári var uppi kalt La Nina ástand (lengst til hægri) sem dugði þó ekki nema til þess að lækka hitann rétt niður fyrir meðallag en stóð stutt. Nú þegar hlutlaust ENSO-ástand er komið á á ný hefur hitinn rokið aftur upp (+0,31°) og það langt yfir meðallag. Til að ná slíkri hæð á árunum fyrir 1995 hefði hinsvegar þurft eindregið El Nino ástand.

Annað mikilvægt er að hitaþróun síðustu ára virðist ekki vera í samræmi við þá minnkandi sólvirkni sem verið hefur síðustu ár - allavega ekki enn sem komið er. Vísbendingar eru um langvararandi sólardeyfð á næstu áratugum en hvaða áhrif það mun hafa hafa veit ég ekkert um. Allavega virðumst við ennþá vera í ferli hlýnunnar sem erfitt er að útskýra án þess að íhuga þann möguleika að eitthvað gæti kannski komið við sögu sem ef til vill hefur eitthvað með mannkynið að gera.


Bestu íslensku kvikmyndirnar

Sjónvarpið sýnir íslenskar kvikmyndir tvisvar í viku nú í sumar sem er auðvitað bara ágætt. Sumar þessara mynda hafa reyndar verið sýndar alloft áður í Sjónvarpinu en svo eru nokkrar sem aldrei hafa verið sýndar og ekkert víst að verði sýndar í þessari sumarupprifjun.

En hvað um það. Ég er oft dálítið fyrir að bera saman eitt og annað og nú ætla ég að lista niður hvaða íslensku kvikmyndir mér sjálfum þykja bestar. Ég fer ekki lengra aftur í fortíðina en til upphafs kvikmyndavorsins en síðan þá hafa íslenskar myndir af öllum gæðum og gerðum nánast verið framleiddar á færibandi. Ég hef reyndar ekki séð allar íslenskar myndir, sérstaklega margar af þeim nýjustu en sumar þeirra gætu mögulega verið ágætar. Almennt get ég þó sagt að uppáhaldsmyndir mínar eru nokkuð sígíldar og komnar til ára sinna og eru auk þess meðal fyrstu mynda viðkomandi leikstjóra sem kannski er engin tilviljun. Myndirnar eru hér nefndar í þeirri röð sem þær voru frumsýndar.

1. LAND OG SYNIR. Ágúst Guðmundsson 1980
Myndin er gerð eftir sögu Indriða G. og oft nefnd sem upphafsmynd kvikmyndavorsins. Þetta er fyrsta mynd Ágústar í fullri lengd, gerð af miklum metnaði og heppnast ágætlega. Söguþráðurinn er að vísu ekki sterkur en það er mikið ekta í þessari mynd sem segir af sveitasamfélagi á tímamótum fyrir miðja á síðustu öld. Siggi Sigurjóns er mjög ungur og alvarlegur í þessari mynd.

2. MEÐ ALLT Á HREINU.
Stuðmenn/Ágúst Guðmundsson 1982

Ótrúlega vel heppnuð vitleysumynd sem gerði Stuðmenn svo vinsæla að það var ekki nokkur leið fyrir þá að hætta. Allar tilraunir til að endurtaka gleðina voru þó dæmdar til að misheppnast. Þessi mynd nánast bjargaði kynslóðinni sem var upp á sitt besta á áttunda áratugnum frá leiðindum. Hún mun lengi verða í minnum höfð og verður bara betri með tímanum.

3. HRAFNINN FLÝGUR. Hrafn Gunnlaugsson 1984
Fyrsta víkingamynd Hrafns og útkoman það góð að hann vildi helst ekki gera öðruvísi myndir næstu árin. Seinni víkinga- og miðaldamyndirnar Hrafns náðu þó aldrei að vera eins sterkar og Hrafninn Flýgur enda söguþráðurinn bæði einfaldur og hnitmiðaður.

4. SKYTTURNAR. Friðrik Þór Guðmundsson 1987
Fyrsta leikna mynd Friðriks í fullri lengd. Algerlega hrein og bein saga af tveimur hvalveiðimönnum sem missa fótfestuna í sollinum í Reykjavík á methraða í vertíðarlok. Þarna er heimsfrægðin ekkert farin að trufla leikstjórann né aðra sem standa að myndinni.

5. BÖRN NÁTTÚRUNNAR.
Friðrik Þór Guðmundsson 1991
Önnur mynd Friðriks Þórs og sú sem kom honum á alþjóðlega kortið enda næstum búin að vinna til Óskarsverðlauna sem besta „erlenda“ myndin. Strokusaga af gömlu fólki sem leitar til heimaslóða sinna hljómar ekki spennandi söguþráður en lokaatriði myndarinnar sem gerist á þessum heimaslóðum norður á Ströndum gerði hinsvegar útslagið. Þar fór saman stórbrotin kvikmyndataka og tónlist Hilmars Arnar og í heildina náðist þar einhver kynngimögnuð stemming sem erfitt er að leika eftir.

6. SÓDÓMA REYKJAVÍK. Óskar Jónasson 1992

Óskar Jónasson hitti vel á það í þessari fyrstu mynd sinni sem er eiginlega orðin költ-mynd í dag. Þarna ægir saman kjánalegum glæpamönnum, undirheimaliði, rótlausum unglingum á djamminu og mömmu gömlu sem finnur ekki fjarstýringuna. Lokaatriðið í morgunsólinni Elliðaársdalnum er alltaf jafn gott. Miðhluti myndarinnar dettur aðeins niður þegar söguhetjan er óþarflega lengi að þvælast í loftræstistokknum.

7. DJÖFLAEYJAN.
Friðrik Þór Guðmundsson 1996
Margt má segja um þessa mynd. Hún er auðvitað gerð eftir „Eyjasögum“ Einars Kárasonar og byggir á fólki sem raunverulega var til og bjó í braggahverfi á Melunum. Bækurnar voru skrifaðar í nokkrum ýkjustíl og jafnvel undir áhrifum Suður-Amerísks töfraraunsæis. Ég er sjálfur ekki í vafa um að Einar Kárason hafi meðal annars verið undir áhrifum bókarinnar 100 ára einsemd eftir Gabriel Garcia Marques en þar má finna nokkur líkindi. Helsti heimildamaður Einars við ritunina var fjölskyldumeðlimurinn Aggi sem var sonur Dollýar í myndinni og systursonur bræðranna Badda og Danna. Aggi þessi er síðan sá sem lék hvatvísa töffarann í Skyttunum sem hér var nefnd að ofan. Þegar svona mikil fjölskyldusaga er færð yfir í kvikmynd þarf að beita miklum einföldunum en auðvitað verður að lýta á kvikmyndina sem sjálfstætt verk. Ömurleiki braggahverfisins er ýktur enn meir í myndinni og kannski full mikið, sumir eru líka full mikið fullir til að vera sannfærandi eins og ólánsami kúluvarparinn og vinurinn Grjóni. En þrátt fyrir ýmis ósannfærandi atriði er kvikmyndin í heildina bæði dramatísk og kraftmikil og ekki síst nokkuð spaugileg á köflum.

8. NÓI ALBÍNÓI. Dagur Kári Pétursson 2006
Eftir 10 ára gat í þessari upptalningu kemur hér mynd sem mér finnst vera ein sú allra besta af öllum íslenskum myndum enda hefur hún fengið allskonar fínar viðurkenningar hér og þar. Enn einu sinni er hér á ferðinni fyrsta mynd leikstjóra. Myndin lýsir köldum veruleika stráks sem sem er utanveltu og fittar ekki inní íslenskt smábæjarlíf og eins og góðum myndum sæmir fer ástandið heldur versnandi eftir því sem líður á myndina og endar með ósköpum. Mjög stílhrein mynd og uppfull af sniðugum atriðum.

9. STÓRA PLANIÐ. Ólafur Jóhannesson 2008
Þetta var nú aldrei nein stórmynd og gerði enga stóra hluti en mér fannst hún skemmtileg. Þetta er mynd um mislukkaða gangstera ekki ósvipað og í Sódómu Reykjavík, en undirtónninn þó alvarlegri og framvindan mun hægari. Pétur Jóhann er góður að venju.

10. ?????
Hér ætla ég að skilja eftir eyðu sem ég tileinka ýmsum nýlegum myndum sem ég hef ekki séð, en ég er núna mun latari að sjá íslenskar myndir en áður. Kannski ætti Reykjavík-Rotterdam að vera þarna því hún mun vera góð samkvæmt lýsingu áreiðanlegra sjónarvotta. Af myndum sem mikið er látið með hef hvorki séð Brim eða Brúðguma Baltasars en ég hef þær fyrirframskoðanir á þeim að þær teljist ekki meðal þeirra mynda sem mér þykja bestar. Oftast eru fyrirframskoðanir mínar á myndum bara nokkuð réttar.


Af ört bráðnandi hafís á Norður-Íshafinu

Linurit_DMI_9jul2010

Eins og fyrir mánuði tek ég hér stöðuna á hafísnum sem bráðnar nú ört í sumarsólinni norður í Íshafinu. Sem fyrr vísa ég í línurit ættuðu frá hafísdeild dönsku Veðurstofunnar þar sem má sjá samanburð á útbreiðslu hafíssins síðustu árin. Svarta línan stendur fyrir núverandi ár en spennandi tímar eru framundan því samkvæmt línuritinu er útbreiðslan nú minni en verið hefur áður á sama tíma sumars þótt ekki muni miklu. (Myndina uppfærði ég í morgun enda hefur svarta línan fallið nokkuð síðan í gær)

Útbreiðslan hefur fram að þessu í sumar fylgt nokkuð árinu 2010 en nú skiljast leiðir því mjög dró úr rýrnun ísbreiðunnar í júlí í fyrra. Því olli lægðarsvæði sem þá myndaðist á Norður-Íshafinu með aukinni skýjahulu og vindum úr óæskilegum áttum fyrir rýrnun ísbreiðunnar. Samanburðurinn við bláu línuna (2007) er auðvitað áhugaverðastur og á næstu vikum kemur í ljós hvort bráðnun ársins 2011 heldur í við bráðnun ársins 2007 sem endaði í metlágmarkinu fræga og var langt undan sinni samtíð. Það má vel gera ráð fyrir harðri baráttu framundan því ekki er spáð neinum truflandi lægðum á Norður-íshafinu á næstunni og reyndar er ekki annað að sjá en að hæðarsvæðið sem hefur verið þarna við norðurpólinn haldi velli áfram með tilheyrandi heiðríkju og sólbráð á stórum svæðum.

Hæðina má sjá hér að neðan á spákorti fyrir þriðjudaginn 12. júlí. Enn öflugri staða með tilliti til vinda kæmi þó upp ef hæðin fikraði sig aðeins til vinstri að ströndum Ameríku og smálægðin við Síberíustrendur efldist

Loftþrýstingur Norðupóll jul2011

Hér að neðan er svo mynd sem sýnir ísbreiðuna þann 6. júlí en til samanburðar hef ég útlínað septemberlágmark ársins 2007. Það metlágmark þarf kannski að fara að vara sig ef aðstæður breytast ekki enda er ísinn núna að öllum líkindum þunnildislegri og auðmeltanlegri en fyrir fjórum árum. Heilmikið ísmagn er þó við að eiga eins og sést á myndinni.

CT_7jul2011+min2007

Myndin er fengin af vefnum: The Cryosphere Today http://arctic.atmos.uiuc.edu/cryosphere/

Svo er ekki úr vegi að vísa í júlíyfirlit Bandarísku hafísstofnunarinnar: http://nsidc.org/arcticseaicenews/


Hversu gott var veðrið í júní?

Esja 10. júní 2011

Þá er komið að dagbókaryfirliti fyrir nýliðinn júnímánuð í Reykjavík ásamt smá samanburði við fyrri ár. Sem fyrr er þetta unnið upp úr mínum eigin veðurskráningum samanber meðfylgjandi sýnishorn. Aukaafurð þessara skráninga er einkunnakerfið sem einhver ætti að vera farinn að kannast við. Einfalda útskýringin er að það tekur mið af veðurþáttunum fjórum: sól, úrkomu, vindi og hita, þannig að alslæmir dagar fá 0 stig og algóðir dagar einkunnina 8. Allt þetta miðast eingöngu við veðrið í Reykjavík yfir daginn. Það telst gott ef meðaleinkunn mánaðarins er yfir 5 stigum en afleitt ef hún nær ekki 4 stigum. Þessar skráningar hafa staðið yfir frá árinu 1986 og eru ætlaðar sjálfum mér til gagns og gamans en yfirlit sumarmánaðana munu birtast hér í sumar.

Skráning júní 2011Hér til hliðar er veðurskráningin fyrir nýliðinn júní. Tölurnar aftast eru einkunnir. Í dálki á eftir vindörvum er hiti dagsins. Táknin þar fyrir aftan segja til um hvort hiti dagsins teljist í meðallagi, hlýr eða kaldur. Fyrri hluta júnímánaðar miða ég meðallagið við 9-13 stig en seinni hlutann 10-14.

Júní 2011 - Einkunn 4,9.
Nýliðinn mánuður fékk samkvæmt þessu skráningarkerfi einkunnina 4,9 stig sem telst nokkuð góð einkunn og yfir meðallagi. Mánuðirinn var eindreginn norðanáttamánuður og því mjög misskiptur í gæðum eftir landshlutum og þar sem verst lét var veðrið hvorki mönnum, skepnum né fuglum bjóðandi. Hitinn í Reykjavík var lægri en hefur að meðaltali verið síðustu 10 ár en þó fyrir ofan opinberan meðalhita (1961-90). Fyrstu 10 dagarnir voru kaldir en umskipti til hins betra urðu eftir að Esjan náði að verða hvít aðfaranótt 10. júní. Slíkt háttalag Esjunnar í júní er mjög óvenjulegt. Annars varð það sólskinið og lítil úrkoma sem gerði útslagið í sambandi við ágæta einkunn mánaðarins. Veðurbókin hugsar sem fyrr ekkert um gróðurinn sem hefði alveg þegið meiri úrkomu. Aðeins tvisvar sá ég ástæðu til að skrá úrkomu en í bæði skiptin skein sólin einnig sama daginn. Enginn dagur fékk lægri einkunn en 3 en lökustu dagarnir voru allir á hinum köldu upphafsdögum mánaðarins. Síðasta daginn var ekki um annað að ræða en að gefa sparieinkunnina 8 enda voru allir veðurþættirnir upp á það besta.

Oft þarf að leggjast í miklar bollaleggingar þegar finna á viðeigandi lýsingu á meðalveðri dagsins enda veðrið oft ansi breytilegt. Stundum þarf að gera einhverjar málamiðlanir til að fá sem sanngjörnustu útkomu en þó innan þess marka sem skráningarkerfið býður upp á.

Þá er það samanburður við fyrri ár. Síðan dagbókarskráningar hófust árið 1986 eru þrír júnímánuðir jafnir í 1.-3. sæti með 5,3 í einkunn:

Júní 1991 - Einkunn 5,3. Þessi mánuður var eftirminnilegur góðviðrismánuður enda mjög sólríkur og úrkomulítill. Það gerist t.d. ekki oft hér í borginni að við fáum 9 léttskýjaða eða heiðskíra sumardaga í röð eins og varð dagana 13-21. júní. Hitinn í mánuðinum var hinsvegar bara í góðu meðallagi.
Júní 1998 - Einkunn 5,3. Hlýr mánuður þar sem meðalhitinn náði að skríða yfir 10°C, en það hafði ekki gerst í júní í Reykjavík síðan 1966. Margir fínir sólardagar voru í mánuðinum en að auki er þetta hægviðrasamasti júní sem ég hef skráð.
Júní 2008 - Einkunn 5,3. Mánuðurinn var enn ef þeim sólríkustu sem mælst hafa í Reykjavík og auk þess mjög þurr og hlýr. Hér hefði fengist enn hærri einkunn ef nokkrir vindasamir dagar hefðu ekki dregið einkunnina niður.
Júní 2010 - Einkunn 5,2. Þetta er hlýjasti júní sem mælst hefur í Reykjavík og víðar, meðal annars í Stykkishólmi. Eins og undanfarin ár var nokkuð þurrt en sólskinsdagar voru þó ekki fleiri en venjulega.

Og þeir verstu:
Júní 1988 - Einkunn 3,6. Versti sumarmánuðurinn sem ég hef skráð. Þetta var vindasamur og kaldur rigningarmánuður og sólarminnsti júní sem mælst hefur í Reykjavík. Ekki bætti úr skák að verstu veður mánaðarins komu einmitt á sjómannadaginn og þjóðhátíðardaginn 17. júní.
Júní 1992 - Einkunn 4,0. Afar kaldur mánuður og sennilega frægastur fyrir Jónsmessuhretið. Ásamt júní 1978 er þetta kaldasti júní sem komið hefur síðan 1922.
Júní 2006 - Einkunn 4,1. Hér voru einfaldlega allir veðurþættir daprir án þess þó að um söguleg frávik hafi verið að ræða.
- - - -

Ljósmyndin af Esju er tekin að morgni 10. júní


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband