Bestu íslensku kvikmyndirnar

Sjónvarpið sýnir íslenskar kvikmyndir tvisvar í viku nú í sumar sem er auðvitað bara ágætt. Sumar þessara mynda hafa reyndar verið sýndar alloft áður í Sjónvarpinu en svo eru nokkrar sem aldrei hafa verið sýndar og ekkert víst að verði sýndar í þessari sumarupprifjun.

En hvað um það. Ég er oft dálítið fyrir að bera saman eitt og annað og nú ætla ég að lista niður hvaða íslensku kvikmyndir mér sjálfum þykja bestar. Ég fer ekki lengra aftur í fortíðina en til upphafs kvikmyndavorsins en síðan þá hafa íslenskar myndir af öllum gæðum og gerðum nánast verið framleiddar á færibandi. Ég hef reyndar ekki séð allar íslenskar myndir, sérstaklega margar af þeim nýjustu en sumar þeirra gætu mögulega verið ágætar. Almennt get ég þó sagt að uppáhaldsmyndir mínar eru nokkuð sígíldar og komnar til ára sinna og eru auk þess meðal fyrstu mynda viðkomandi leikstjóra sem kannski er engin tilviljun. Myndirnar eru hér nefndar í þeirri röð sem þær voru frumsýndar.

1. LAND OG SYNIR. Ágúst Guðmundsson 1980
Myndin er gerð eftir sögu Indriða G. og oft nefnd sem upphafsmynd kvikmyndavorsins. Þetta er fyrsta mynd Ágústar í fullri lengd, gerð af miklum metnaði og heppnast ágætlega. Söguþráðurinn er að vísu ekki sterkur en það er mikið ekta í þessari mynd sem segir af sveitasamfélagi á tímamótum fyrir miðja á síðustu öld. Siggi Sigurjóns er mjög ungur og alvarlegur í þessari mynd.

2. MEÐ ALLT Á HREINU.
Stuðmenn/Ágúst Guðmundsson 1982

Ótrúlega vel heppnuð vitleysumynd sem gerði Stuðmenn svo vinsæla að það var ekki nokkur leið fyrir þá að hætta. Allar tilraunir til að endurtaka gleðina voru þó dæmdar til að misheppnast. Þessi mynd nánast bjargaði kynslóðinni sem var upp á sitt besta á áttunda áratugnum frá leiðindum. Hún mun lengi verða í minnum höfð og verður bara betri með tímanum.

3. HRAFNINN FLÝGUR. Hrafn Gunnlaugsson 1984
Fyrsta víkingamynd Hrafns og útkoman það góð að hann vildi helst ekki gera öðruvísi myndir næstu árin. Seinni víkinga- og miðaldamyndirnar Hrafns náðu þó aldrei að vera eins sterkar og Hrafninn Flýgur enda söguþráðurinn bæði einfaldur og hnitmiðaður.

4. SKYTTURNAR. Friðrik Þór Guðmundsson 1987
Fyrsta leikna mynd Friðriks í fullri lengd. Algerlega hrein og bein saga af tveimur hvalveiðimönnum sem missa fótfestuna í sollinum í Reykjavík á methraða í vertíðarlok. Þarna er heimsfrægðin ekkert farin að trufla leikstjórann né aðra sem standa að myndinni.

5. BÖRN NÁTTÚRUNNAR.
Friðrik Þór Guðmundsson 1991
Önnur mynd Friðriks Þórs og sú sem kom honum á alþjóðlega kortið enda næstum búin að vinna til Óskarsverðlauna sem besta „erlenda“ myndin. Strokusaga af gömlu fólki sem leitar til heimaslóða sinna hljómar ekki spennandi söguþráður en lokaatriði myndarinnar sem gerist á þessum heimaslóðum norður á Ströndum gerði hinsvegar útslagið. Þar fór saman stórbrotin kvikmyndataka og tónlist Hilmars Arnar og í heildina náðist þar einhver kynngimögnuð stemming sem erfitt er að leika eftir.

6. SÓDÓMA REYKJAVÍK. Óskar Jónasson 1992

Óskar Jónasson hitti vel á það í þessari fyrstu mynd sinni sem er eiginlega orðin költ-mynd í dag. Þarna ægir saman kjánalegum glæpamönnum, undirheimaliði, rótlausum unglingum á djamminu og mömmu gömlu sem finnur ekki fjarstýringuna. Lokaatriðið í morgunsólinni Elliðaársdalnum er alltaf jafn gott. Miðhluti myndarinnar dettur aðeins niður þegar söguhetjan er óþarflega lengi að þvælast í loftræstistokknum.

7. DJÖFLAEYJAN.
Friðrik Þór Guðmundsson 1996
Margt má segja um þessa mynd. Hún er auðvitað gerð eftir „Eyjasögum“ Einars Kárasonar og byggir á fólki sem raunverulega var til og bjó í braggahverfi á Melunum. Bækurnar voru skrifaðar í nokkrum ýkjustíl og jafnvel undir áhrifum Suður-Amerísks töfraraunsæis. Ég er sjálfur ekki í vafa um að Einar Kárason hafi meðal annars verið undir áhrifum bókarinnar 100 ára einsemd eftir Gabriel Garcia Marques en þar má finna nokkur líkindi. Helsti heimildamaður Einars við ritunina var fjölskyldumeðlimurinn Aggi sem var sonur Dollýar í myndinni og systursonur bræðranna Badda og Danna. Aggi þessi er síðan sá sem lék hvatvísa töffarann í Skyttunum sem hér var nefnd að ofan. Þegar svona mikil fjölskyldusaga er færð yfir í kvikmynd þarf að beita miklum einföldunum en auðvitað verður að lýta á kvikmyndina sem sjálfstætt verk. Ömurleiki braggahverfisins er ýktur enn meir í myndinni og kannski full mikið, sumir eru líka full mikið fullir til að vera sannfærandi eins og ólánsami kúluvarparinn og vinurinn Grjóni. En þrátt fyrir ýmis ósannfærandi atriði er kvikmyndin í heildina bæði dramatísk og kraftmikil og ekki síst nokkuð spaugileg á köflum.

8. NÓI ALBÍNÓI. Dagur Kári Pétursson 2006
Eftir 10 ára gat í þessari upptalningu kemur hér mynd sem mér finnst vera ein sú allra besta af öllum íslenskum myndum enda hefur hún fengið allskonar fínar viðurkenningar hér og þar. Enn einu sinni er hér á ferðinni fyrsta mynd leikstjóra. Myndin lýsir köldum veruleika stráks sem sem er utanveltu og fittar ekki inní íslenskt smábæjarlíf og eins og góðum myndum sæmir fer ástandið heldur versnandi eftir því sem líður á myndina og endar með ósköpum. Mjög stílhrein mynd og uppfull af sniðugum atriðum.

9. STÓRA PLANIÐ. Ólafur Jóhannesson 2008
Þetta var nú aldrei nein stórmynd og gerði enga stóra hluti en mér fannst hún skemmtileg. Þetta er mynd um mislukkaða gangstera ekki ósvipað og í Sódómu Reykjavík, en undirtónninn þó alvarlegri og framvindan mun hægari. Pétur Jóhann er góður að venju.

10. ?????
Hér ætla ég að skilja eftir eyðu sem ég tileinka ýmsum nýlegum myndum sem ég hef ekki séð, en ég er núna mun latari að sjá íslenskar myndir en áður. Kannski ætti Reykjavík-Rotterdam að vera þarna því hún mun vera góð samkvæmt lýsingu áreiðanlegra sjónarvotta. Af myndum sem mikið er látið með hef hvorki séð Brim eða Brúðguma Baltasars en ég hef þær fyrirframskoðanir á þeim að þær teljist ekki meðal þeirra mynda sem mér þykja bestar. Oftast eru fyrirframskoðanir mínar á myndum bara nokkuð réttar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband