22.7.2013 | 21:40
Konungleg hitabylgja
Þar-þar-næsti konungur Bretlands er fæddur og það í miðri hitabylgju í London. Þetta er að sjálfsögðu hinn merkasti atburður og ekki skemmir fyrir að á næstu dögum munum við njóta hins konunglega hlýja lofts, stórættuðu í beinan karllegg frá höfuðborg heimsveldisins.
![]() |
Prins er fæddur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.7.2013 | 00:51
Á Skeiðarársandi
Það er dálítið sérstakt að heill skriðjökull, sandauðn og lengsta brú landsins skuli vera kennd við jökulfljót sem ekki er lengur til en eins og flestum er kunnugt þá tóku vötnin undan Skeiðarárjökli upp á því fyrir nokkrum árum að falla einungis til vesturs frá jöklinum. Að sama skapi hefur Gígjukvísl sem er vestarlega á sandinum tvíeflst enda tekur hún við því vatni sem áður rann til sjávar sem Skeiðará. Þetta eru merkilegar breytingar á tímum hörfandi jökla sem ekki verður séð fyrir endann á. Þarna var ég mættur í vettvangsskoðun um helgina og reyndar ekki í fyrsta skipti.
Hið mikla mannvirki Skeiðarárbrú sést hér í allri sinni dýrð og þar bruna bílarnir yfir Skeiðarárlausan Skeiðarársandinn. Að sögn jöklafræðinga er breytingin varanleg þannig að jökulvatn muni jafnvel ekki renna þarna undir í stórhlaupum. Það litla vatn sem enn rennur undir brúna er upprunnið úr Morsársdal og því mætti kalla þessa brú: Morsárbrúin mikla. Myndin er tekin sunnudaginn 14. júlí og sjá má klósiga í lofti boða nýtt úrkomusvæði. Farvegur fyrrum Skeiðarár er vitanlega ekkert nema sandur og grjót vegna þess hve stutt er liðið síðan vötn runnu þarna um. Við nánari skoðun mátti þó finna á þessum slóðum hin fínlegustu smáblóm og fyrstu drög að mosagróðri. Það á þó væntanlega eftir að breytast á komandi árum eins og næsta mynd er til marks um.
Hér má sjá sjálfa Morsá nokkru nær Skaftafelli og er horft til Öræfajökuls. Eins og sést er "blessuð" lúpínan búin að stinga sér niður vestan við árbakkann en þéttari breiður eru handan árinnar. Nú þegar Skeiðaráin er horfin er ekkert sem hindrar árangursríkt landnám lúpínunnar áfram í vestur eftir sandinum. En hvort sem lúpínan komi við sögu eða ekki ætti svæðið að gróa upp með tíð og tíma enda stutt í gróskumikla birkiskóga í grenndinni.
Hér á miðjum "Skeiðarársandi" er öðruvísi um að litast. Þarna hefur væntanlega ekki flætt yfir áratugum saman og myndarlegar birkihríslur komnar vel á veg ásamt fínlegri gróðri. Lúpínan hefur hinsvegar ekki enn náð á svæðið þannig að hún er greinilega ekki forsenda fyrir uppgræðslu sandsins. Mynd er tekin í vettvangskönnun fyrir ári síðan.
Að lokum er hér horft til Svínafelljökuls af sandinum og þar blasir við önnur afleiðing minnkandi jökla í nágrenni við óstöðugar hlíðar en talsvert berghlaup eða skriða hefur fallið þarna á skriðjökulinn einhvern tíma í vetur. Svipaður atburður og heldur stærri varð einmitt á Morsárjökli vorið 2007. Hrútfjallstindar eru þarna til vinstri á myndinni og Hafrafellið þar fyrir neðan. Sjálfur Hvannadalshnjúkur var hulinn skýjum. Náttúruöflin halda greinilega áfram að móta landið ásamt því að gróðurfar breytist. Nóg er allavega um vera í Öræfasveitinni.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 00:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.7.2013 | 17:12
Um daginn og veginn - aðallega þó veður og umhverfi
Svo við snúum okkur fyrst að veðrinu þá gætum við verið að upplifa hér í Reykjavík, fyrsta almennilega rigningarsumarið síðan árið 1984. Kannski er ég full svartsýn á þessum rigningardegi en fram að þessu hefur allavega verið frekar sólarlítið og blautt í borginni og spáin ekki góð svo langt sem séð verður. Þeim mun betra gæti þá orðið fyrir norðan og austan. Talandi um það, þá datt mér í hug í tilraunaskyni að skrá niður veðrið á Akureyri þennan mánuð með sama hætti og ég hef gert fyrir Reykjavík árum saman. Vefur Veðurstofunnar dugar vel til þess að fylgjast með veðrinu fyrir norðan þó ég sé ekki á staðnum. Samanburðinn má svo birta í bloggpistli eftir næstu mánaðarmót. Fram að landsynningsslagviðrinu í dag, 5. júní, hefur Reykjavík reyndar tekið góða forystu í veðurgæðum hvað svo sem verður.
Ég veit ekki hvort ég muni skrifa lúpínupistil þetta sumar eins og ég hef stundum gert. Ég skrifaði þó í athugasemd um daginn hjá útivistarbloggaranum SigSig að ég væri bæði á móti lúpínu og skógrækt. Ég vissi að búast mætti við neikvæðum viðbrögðum við svona viðhorfum enda kallaði einhver mig blómafasista og taldi mig ekki vilja sjá neitt nema eyðisanda. Almennt er ég á því að það sé ekki okkar hlutverk að reyna að fegra náttúruna auk þess sem náttúruleg fagurfræði er æði afstæð. Íslensk náttúra eins og hún er, án lúpínu og tilbúinna skóga, þykir afar sérstök og er óneytanlega eftirsóknarverð meðal erlendra ferðamanna.
Auðvitað verður þó ekki lifað í þessu landi öðruvísi en að raska náttúrunni hér og þar. Það þarf jú að byggja hús og leggja vegi. Við framleiðum rafmagn með því að virkja náttúruöflunin og því rafmagni þarf að koma til skila. Þrjú stór álver hafa verið reist og þau gera sitt fyrir þjóðarbúið en spurning er hvenær nóg er komið. Ekki síst ef hagnaðurinn verður að miklu leyti til utan okkar hagkerfis. Sjálfum finnst mér þrjú álver alveg rúmlega nóg en til þess að bæta því fjórða við þarf feiknamikið rask á náttúrunni og næstum gjörnýtingu á þeirri virkjanlegu orku sem hægt er að afla, með sæmilegu móti. Nokkuð sérstakt er hvernig Hengilssvæðið var virkjað og stórlega raskað án umræðu á sínum tíma og sér ekki fyrir endann á neinu þar.
Hugmyndir hafa verið kynntar sem snúast um það að skapa "wá-móment" með tilheyrandi raski á náttúrunni. Annarsvegar er það göng ofaní Þríhnjúkagíg sem hingað til hefur verið dulmagnað og nánast ófært ginningargap og magnað sem slíkt. Ef þetta á að verða 100 þúsund-manna ferðamannastaður er um allt annað að ræða. Fólk kæmi þarna í mörgum bílum og rútum, því er holað ofan í jörðina svo það geti sagt wá í smástund og svo aftur upp í rútu. Svipað og eiginlega öllu verra gæti átt sér stað í Esjunni ef þar á koma kláfur alla leið upp sem er auðvitað heilmikið mannvirki. Þangað upp er meiningin að lyfta upp öðrum 100 þúsundum árlega ef ekki fleirum. Sjálfsagt langar mörgum að komast upp á Esju en geta það alls ekki. Með útsýnismannvirki og jafnvel veitingastað ofaná Esju væri verið að skerða mjög upplifun þeirra sem ganga á fjallið á eigin fótum. Aðalmálið er þó að þarna er verið að bæta við einhverju aðskotadóti í náttúruna bara svo að fólk geti sagt wá! - og farið svo niður aftur. Reyndar ekki víst að allir segi wá! í þokunni sem gjarnan er upp á Esju. Spurning hinsvegar hversu margir ákveði að fara á flakk á Esjutoppi bara til að láta bjarga sér rammvilltum eða í sjálfheldu eins og gerist nógu oft nú þegar.
Erfitt getur verið að verða sér úti um gott brauð í stórmörkuðum. Flest álitlegu brauðin eru svo fínlega niðurskorin að maður verður af þeirri ánægju að geta skorið sjálfur og smurt sér væna þykka sneið með góðri ostsneið ofaná. Þau sem hinsvegar eru óskorin eru gjarnan mjög svo aflöng og gefa bara af sér einhverjar smásneiðar eða að þau eru nánast hnöttótt og gefa af sér risavaxnar sneiðar um miðbikið. Já það getur stundum verið vandlifað.
Einn góðan veðurdag sunnan Hafnarfjarðar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
1.7.2013 | 23:15
Hversu gott eða slæmt var veðrið í júní?
Eins og ég gaf í skyn í síðustu færslu þá ætla ég nú að skoða veðurfarslega einkunn nýliðins júnímánaðar sem fengin er út úr veðurskráningarkerfi mínu og bera saman við fyrri ár. Fyrir þá sem enn ekki vita þá hef ég haldið úti linnulausum veðurdagbókarskráningum frá því í júní 1986 og nota til þess mínar eigin skráningaraðferð sem á að lýsa hinu dæmigerða veðri í Reykjavík á hverjum degi. Aðferðin byggist á því að skipta veðrinu í fjóra þætti: sól, úrkomu, vind og hita og getur hver þáttur verið neikvæður, í meðallagi eða jákvæður. Út frá þessu gef ég svo hverjum degi einkunn á skalanum 0-8. Núll stig fær dagur sem hefur alla þættina neikvæða en átta stiga dagurinn hefur alla þættina jákvæða. Hvort tveggja er að vísu sjaldgæft. Þegar allir dagar mánaðarins hafa fengið sína einkunn er lítið mál að að finna meðaleinkunn mánaðarins sem verður þá auðvitað veðureinkunn mánaðarins.
Nýliðinn júnímánuður fékk samkvæmt þessu kerfi einkunnina: 4,4 sem eiginlega er ekki nógu gott því meðaleinkunn allra skráðra júnímánaða er 4,7. Þetta er samt nokkuð frá því versta því lélegasta júní-einkunnin er 3,6 frá árinu 1988. Allra besta einkunnin fékkst hins vegar árið 2012 í fyrra, 5,9 stig, sem kannski hljómar ekki mikið en á þessum kvarða er það alveg rosalega gott.
Að þessu sinni fékk aðeins einn dagur 7 í einkunn en það var síðasti dagur mánaðarins, 30 júní. Út á hann var ekkert að setja nema goluna sem þýddi að vind-þátturinn var í meðallagi en hinir þrír voru jákvæðir, eða: 1+2+2+2=7. Enginn dagur fékk þó núll eða eitt stig en tveir fengu tvö stig. Það voru 1. og 27. júní sem báðir fengu sín stig fyrir að úrkoman var ekki óþægilega mikil og vindurinn ekki bagalegur. Annað var hinsvegar neikvætt. Einungis þrír dagar fengu sex stig en til þess að sumarmánuður nái sér á strik þarf sú góða einkunn að koma upp mun oftar. Flestir dagar mánaðarins voru því að dóla sér í kringum meðallagið eða þar undir.
Aðrar og hefðbundnari veðurgreiningar læt ég aðra um en hér kemur súlurit yfir veðureinkunnir allra skráðra júnímánaða 1986-2013. Undir því er lauflétt útlistun á því helsta sem einkenndi mánuðina í Reykjavík - hafi eitthvað yfirhöfuð einkennt þá.
1986 4,0 Svalt og afar sólarlítið. Úrkomusamt framan af.
1987 5,1 Sólríkur og þurr mánuður.
1988 3,6 Sólarminnsti júní frá upphafi mælinga. Oft kaldar og hvassar sunnan- og suðvestanáttir.
1989 4,4 Kalt í byrjun þegar Páfinn kom. Síðan hvasst en sólríkt í lokin.
1990 4,5 Þungbúið framan af en sólríkt og gott eftir 17. júní.
1991 5,3 Mjög sólríkt og þurrt. Norðanáttir eða hafgola ríkjandi.
1992 4,0 Kaldur mánuður. Jónsmessuhretið skall á fyrir norðan 23.-24. júní.
1993 4,6 Nokkuð tíðindalítið.
1994 4,5 Nokkuð kalt. Lýðveldishátíðin haldin á Þingvallavegi.
1995 4,3 Frekar tíðindalítið en heldur dapurt í heildina.
1996 4,6 Nokkuð tíðindalítið.
1997 5,1 Sólríkt, þurrt og hægviðrasamt en ekki hlýtt.
1998 5,3 Sólríkt, þurrt og hægviðrasamt með hlýjum dögum seinni partinn.
1999 4,4 Nokkuð tíðindalítið en frekar dapurt í heildina.
2000 4,6 Frægastur er mánuðurinn fyrir Suðurlandsskjálftana.
2001 4,6 Svalt framan af en betra þegar á leið. Sól og þokubakkar síðustu vikuna.
2002 4,9 Óvenju hlýtt lengst af og mesti hiti sem mælst hefur í júní: 22 stig þann 11.
2003 4,6 Hæsti meðalhiti í júní fram að þessu. Annars fremur sólarlítið og blautt.
2004 4,9 Yfirleitt hlýtt og gott
2005 5,0 Aftur yfirleitt hlýtt og gott
2006 4,1 Úrkomusamt og almennt frekar dapurt
2007 5,0 Byrjaði illa en stórbætti sig með sól, þurrki og hlýindum þegar á leið.
2008 5,3 Hlýtt, mjög sólríkt og þurrt en frekar vindasamt framanaf
2009 4,9 Nokkuð breytilegt en þó hægviðrasamt
2010 5,2 Góður og mjög hlýr mánuður sem bætti meðalhitametið frá 2003.
2011 4,9 Svalt framan af en hlýnaði síðan ágætlega. Slæmt norðaustanlands.
2012 5,9 Allt við það allra besta. Hlýtt, sólríkt, þurrt og hægviðrasamt. Toppmánuður!
2013 4,4 Sólarlítið og almennt síðra en undanfarin ár. Þó ekki kalt.
![]() |
Sviknir um 90 sólskinsstundir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt 2.7.2013 kl. 21:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)