Árlegt hafíslágmark á norðurhveli og hafíshámark á suðurhveli.

Eins og venjulega í september hefur hafísinn náð sínu árlega lágmarki á Norðurhveli og fer héðan í frá vaxandi uns vetrarhámarki verður náð um það bil í mars. Á næstunni mun hið gagnstæða eiga sér stað á Suðurhveli, þar sem hafísinn stefnir í sitt árlega vetrarhámark, hafi það ekki þegar náð því. Lítil hætta er því á hafísskorti á jörðinni um langa framtíð enda ekki sumar á báðum pólum samtímis.

NORÐURHVEL
Eins og komið hefur fram þá var hafísbráðnun á norðurslóðum nokkuð frá sínu besta þetta sumarið enda voru aðstæður allt aðrar en til dæmis í fyrra þegar bráðnunin sló öll fyrri met. Nýliðið sumar á Norður-Íshafinu einkenndist af köldum lægðum með tilheyrandi skýjahulu og vindum sem dreifðu úr ísnum frekar en að pakka honum saman. Lítið af ísnum barst þó að aðalundankomuleiðinni austur af Grænlandi en í staðinn safnaðist hann fyrir í miklum mæli á hafsvæðunum norður af Kanada og Alaska þar sem hann varðveitist vel, að minnsta kosti fram á næsta sumar.

Á þeim svæðum sem snúa að Atlantshafinu var bráðnunin öllu meiri og má alveg tala um einstaklega lítinn ís á þeim hluta. Vegna lægðargangsins mynduðust einnig stór svæði innan ísbreiðunnar með mjög gisnum ís sem náðu upp undir sjálfan Norðurpólinn og munaði reyndar ekki miklu að vangaveltur mínar fyrr í sumar um íslausan Norðurpól yrðu að veruleika, en þar átti ég við að stórt íslaust svæði næði að myndast á sjálfum Norðurpólnum á 90° norður. Í yfirliti frá Bandarísku hafísstofnuninni frá 4. september var reyndar minnst á 150 ferkílómetra íslaust svæði sem opnaðist á 87° norður, en svo stórt íslaust svæði hefur ekki áður sést svo norðarlega á gervihnattaöld.

Hafisthykkt sept 2012-13

Kortin hér að ofan koma frá sjálfum Bandaríska sjóhernum og sýna áætlaða ísþykkt 19. september metárið 2012 og nú árið 2013. Eins og sjá má er talsverður munur milli ára. Sumarið 2012 pakkaðist ísinn þétt saman miðsvæðis, en nú í sumar er eins og ísinn hafi reynt að forðast sjálfan Norðurpólinn.

Hafislinurit_N_1979-2013
Ýmsar aðferðir má nota til að bera saman ástand íssins fyrr og nú. Á línuritinu hér að ofan sést hvernig árstíðasveiflan í flatarmáli hefur þróast frá því gervihnattamælingar hófust árið 1979 (af síðunni The Cryosphere Today). Ég hef teiknað inn nokkurskonar leitnilínur en þannig má sjá að vetrarhámörkin hafa dregist saman á tímabilinu um ca. 1 milljón ferkílómetra sem eru svo sem engin ósköp.

Öllu meira afgerandi er þróunin á sumarlágmörkunum sem hafa dregist saman að minnsta kosti um 2 milljónir ferkílómetra samkvæmt þessu. Sumarið 2007 var mikið tímamótaár og varð kveikjan af allskonar vangaveltum um að skammt gæti verið í íslaust Norður-Íshaf að sumarlagi. Sumarið 2012 bætti svo um betur og sást þá vel hversu viðkvæmur ísinn var orðinn og ljóst að nokkur slík sumur í röð gætu nánast gert út af við ísinn að sumarlagi. En sumarið 2013 var alls ekki þannig sumar og sýndi um leið að ísinn getur líka jafnað sig. Talað hefur verið um á fréttamiðlum að útbreiðsla ísinn hafi aukist um 60% frá því í fyrrasumar. Það getur vel verið, en hafa skal í huga að auðvelt er að auka í prósentum það sem lítið er. 60% aukning milli sumarlágmarka fyrir 30 árum hefði t.d. verið mjög erfið.

SUÐURHVEL
Stundum sést kvartað yfir því að hafísþróunin á Suðurhveli fái ekki sömu athygli og Norðurheimskautið þannig að hér kemur samskonar línurit fyrir þann hluta. Á suðurskautinu er meginland hulið jökli sem ísinn hringast umhverfis. Þarna er árstíðasveiflan meiri - ísinn hverfur að mestu á sumrin en vex upp úr öllu valdi að vetrarlagi enda fátt sem hindrar útbreiðsluna til norðurs. Þarna hefur ísinn heldur verið að aukast sem ýmsum þykir skjóta skökku við í hlýnandi heimi en þróunin er þó ekki nærri því eins afgerandi og á Norðurhveli og afleiðingarnar ekki sambærilegar.

Hafislinurit_S_1979-2013
Þótt það sjáist ekki á þessari mynd þá hafði útbreiðsla hafíssins á Suðurhveli í ágúst ekki mælst meiri en nú í ár. Vetrarhámarkið nær þó ekki met-toppnum frá í fyrra þegar kemur að flatarmáli en á þó kannski enn möguleika.
Það að ísinn á Suðurhveli fari lítillega vaxandi en ekki minnkandi virðist hafa valdið mönnum heilabrotum. Líklegasta skýringin nú til dags og það sem nýlegar rannsóknir styðja, eru öflugri vindar en áður umhverfis Suðurskautslandið, en vestanvindarnir sem þar eru ríkjandi stuðla einmitt að færslu íssins til norðurs samkvæmt lögmálum.

Ef einhver vill kenna auknum kuldum þarna suðurfrá um aukinn hafís þá er það varla aðalástæðan að þessu sinni, því Suðurskautslandið hefur undanfarna mánuði einmitt verið sá staður á jörðinni þar sem "hlýjast" hefur verið miðað við meðallag. Kaldan blett er þó að finna undan ströndinni sem liggur að Kyrrahafinu. Þetta má sjá á hitakortinu hér (frá NOAA) sem sýnir frávik frá meðallagi síðustu 90 daga.

Hiti Global 90 jun-sept

- - - -

Þakka þeim sem lásu þennan pistil sem birtist á 6 ára afmælisdegi bloggsíðunnar. Kannski er þetta bara orðið gott í bili.

Splunkunýjar og nánari hafísfréttir frá hálærðum Bandarískum sérfræðingum er að finna á vef NSIDC National Snow & Data Center

 


Pása í hlýnun jarðar

Eins og venjulega þegar ég skrifa eitthvað um hlýnun jarðar þá ætla ég að beina sjónum mínum aðallega að sjónum. Tilefnið að þessu sinni er niðurstaða nýrrar rannsóknar sem birtist í tímaritinu Nature þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að kaldari yfirborðssjór á austurhluta, miðbaugssvæðis Kyrrahafsins, sé aðallástæðan fyrir þeirri stöðnun sem orðið hefur á hlýnun jarðar það sem af þessari öld. Svæðið sem um ræðir er þar sem hinar svokölluðu ENSO sveiflur eiga sér stað en þær samanstanda af hinu hlýja El-Nino ástandi og kaldari La-Nina. Þessi kólnun yfirborðssjávar við miðbaugssvæði Kyrrahafsins einkennist af því að þá leitar kaldur djúpsjór upp til yfirborðs í auknum mæli, öfugt við það þegar El-Nino ræður ríkjum en þá snardregur úr þessu uppstreymi og yfirborð sjávar hlýnar. Þetta hefur síðan áhrif á hitastig jarðar í heild: La-Nina kælir, El-Nino vermir.

La Nina

Umrædd grein nefnist Recent global-warming hiatus tied to equatorial Pacific surface cooling og segir þar meðal annars: "Our results show that the current hiatus is part of natural climate variability, tied specifically to a La-Niña-like decadal cooling. Although similar decadal hiatus events may occur in the future, the multi-decadal warming trend is very likely to continue with greenhouse gas increase." http://www.nature.com/nature/journal/vaop/ncurrent/full/nature12534.html

Það er varla umdeilt að lítið eða ekkert hefur hlýnað á jörðu síðastliðin 10-15 ár þrátt fyrir síaukið magn CO2 í andrúmslofti auk þess sem þessi stöðnun er ekki í samræmi við það sem spár gerðu ráð fyrir um síðustu aldamót. Með hverju ári sem líður án þess að hægt sé að sýna fram á að hlýnun sé í gangi, verður erfiðara að sannfæra fólk um hina margumtöluðu hlýnun jarðar af mannavöldum. Þó verður að hafa í huga að öll ár þessarar aldar hafa verið mjög hlý á jörðinni og ekkert sem bendir til kólnunar eins og er. Það er hinsvegar þessi vöntun á hlýnun frá aldamótum sem um er að ræða.

 

Heimshiti tímabil 1180-2012

Kenningar um áratugafasa í Kyrrahafinu og eru ekki alveg nýjar af nálinni því ýmsir hafa haldið því fram að þetta sé ein af veigamestu ástæðum þess að hitastig jarðar sveiflast, ekki bara frá ári til árs heldur einmitt líka á áratugaskala. Til marks um það þá hafði einmitt hlýtt El-Nino ástand oftar yfirhöndina á Kyrrahafinu á árunum 1977-1998 á sama tíma og hlýnun jarðar tók mikinn kipp. Nokkra áratugi þar áður fór hiti jarðar heldur kólnandi, enda svipað Kyrrahafsástand uppi og nú er þar sem hinn kalda La-Nina hefur oftar yfirhöndina. Sjálfur skrifaði ég upphaflega um þetta atriði í maí 2008 og hef gert nokkrum sinnum síðar og ósjaldan minnst einnig á áratugafyrirbærið PDO (Pacific Degatal Oscilation) sem tengist þessu með einum eða öðrum hætti. Ég kippi mér því ekki upp við niðurstöður umræddrar rannsóknar og á jafnframt ekkert sérstaklega von á að meðalhitastig jarðar hækki fyrr en einhverntíma á næsta áratug eða jafnvel síðar þegar hlýi fasinn fer í gang á ný. Hlý ár geta þó alveg komin inn á milli og metár í hitafari jarðar er alls ekki útilokað á næstunni ef hið hlýja El Nino ástand nær sér almennilega á strik á milli á þess sem kaldi fasinn ræður annars ríkjum. Sjá t.d. hér: Er hlýnun jarðar komin í pásu? frá 6. maí 2008. http://emilhannes.blog.is/blog/emilhannes/entry/527773/

Það sem gæti hafa breyst nú, frá því sem áður var, er að í stað þess að loftslag kólni á jörðinni þau 20-30 á sem kaldi fasinn ríkir á Kyrrahafi, þá stendur hitinn í stað sem gæti þýtt að undirliggjandi hlýnun jarðar vegi kólnunina upp. Að sama skapi eykst hlýnunin þegar hlýi fasinn á Kyrrahafinu er ríkjandi eins og var á árunum 1977-1998. Sú mikla hlýnun sem þá átti sér stað hefur því allavega að hluta til verið náttúrulega uppsveifla en ekki eingöngu af mannavöldum eins og oft var haldið fram. Spádómar um framtíðarhlýnun gætu hinsvegar hafa smitast af þessari miklu hlýnun áranna 1976-1998 enda tóku menn þá Kyrrhafssveiflurnar ekki með í reikninginn. Að sama skapi töldu jafnvel einhverjir á áttunda áratugnum að ný ísöld væri yfirvofandi enda hafði þá lítillega kólnað á jörðinni frá stríðslokum á sama tíma og Kyrrahafið var í sínum kalda fasa - eins og í dag þegar ýmsir auglýsa eftir hinni meintu hlýnun jarðar.

Þrátt fyrir þessa kólnun í Kyrrahafinu er ekki svo að höfin í heild séu kaldari en venjulega um þessar mundir. Þetta sem hér um ræðir snýst eingöngu um yfirborðssjó á hluta Kyrrahafsins á svæði sem þekur einungis 8,2% af yfirborði jarðar. Með auknu uppstreymi kaldsjávar undan vesturströndum Mið-Ameríku, ætti niðurstreymi yfirborðssjávar nefnilega að aukast annarsstaðar. Mælingar hafa enda sýnt fram á að í takt við aukna lóðrétta blöndum sjávar eru undirdjúpin að hlýna í auknum mæli og þar gæti verið fundinn hin eftirlýsta hlýnun jarðar. Sbr. þetta hér: Oceans continue to warm, especially the deeps http://arstechnica.com/science/2013/04/oceans-continue-to-warm-especially-the-deeps/

Sé það í gangi, að hlýnun jarðar fari á áratugalöngum tímabilum aðallega í að verma hin köldu undirdjúp, má velta vöngum og efast um að hin margumtalaða hlýnun jarðar sé eins hröð og eins mikið bráðatilfelli og áður var talið. Hinsvegar gæti hlýnunin haldið áfram með hléum í langan tíma og að sama skapi gæti hitaflensan orðið langvinnari en ella og ganga seint til baka enda eru úthöfin íhaldssöm og lengi að bregðast við.

- - - -

Í framhaldi af þessu er alltaf klassískt að minnast á það sem gæti verið á ferðinni á okkar sjávarslóðum sem einkennast af aðstreymi selturíks hlýsjávar sem kólnar og sekkur er hann mætir eðlisléttari og seltuminni kaldsjó að norðan. Í þessu gæti einnig verið um áratugasveiflu að ræða. Mjög hlýtt hefur verið hér á landi frá aldamótum, sjávarhiti hefur einnig verið mikill og jöklar og hafís á norðurslóðum talsvert látið á sjá. Ef þarna er á ferð áratugasveifla eins og í Kyrrahafinu gæti ástandið gengið til baka að hluta til. Við höfum einmitt dæmi um það frá síðustu öld. Uppsveiflan hér í Norður-Atlantshafi fylgir ekki stóru Kyrrahafssveiflunni en ómögulegt er að segja hvenær kalda ástandið leggst hér yfir - ef það þá gerist. Gerist það má búast við kólnun upp á svona 1 gráðu svo maður nefni eitthvað, einnig kaldari yfirborðssjó og auknum hafís hér við land og á Norður-Íshafi. Kannski gerist það einmitt þegar nýbúið verður að opna umskipunarhöfnina miklu í Finnaflóa. Menn þurfa þó ekki að örvænta alveg, svo maður haldi vangaveltum áfram, því það kuldatímabil verður væntanlega ekki eins slæmt og það síðasta enda vegur hlýnun jarðar á móti. Seinni hluta þessarar aldar tæki svo nýtt hlýindatímabil við hér á norðurslóðum og þá munu ísar og jöklar bráðna sem aldrei fyrr. Aftur má vitna í eldri eigin bloggfærslu: Er hlýnun á Íslandi hluti af náttúrulegri sveiflu? http://emilhannes.blog.is/blog/emilhannes/entry/818347

 


Samanburður á sumarveðurgæðum í Reykjavík

Nú eru aðal-sumarmánuðirnir að baki og landsmenn sjálfsagt missáttir við sitt sumarveður eftir því hvar á landinu þeir eru. Sumarið 1986 fór ég að skrá niður veðrið í Reykjavík get því borið saman einstök ár veðurfarslega séð. Þar að auki hef ég komið mér upp sérstöku einkunnakerfi til að meta veðurgæði með því að gefa hverjum degi veðurfarslega einkunn sem byggist á veðurþáttunum fjórum: sólskini, úrkomu, vindi og hita. Hver hinna fjögurra veðurþátta leggja af mörkum 0-2 stig til einkunnar dagsins sem getur verið á bilinu 0-8 stig. Mánaðareinkunn reiknast svo útfrá meðaltali allra daga. Þetta hef ég útskýrt áður.

Með sömu aðferð hef ég reiknað út meðaleinkunn heilu sumranna og borið saman veðurgæðin eins og þau koma út úr mínum skráningum. Niðurstöðuna má sjá á eftirfarandi súluriti þar sem sjá má að sumarveðrið í Reykjavík 2013 fær einkunnina 4,37 sem er aldeilis ekki góð einkunn og sú lakasta síðan 1985. Síðustu sumur hafa verið mun betri. Hæstu einkunn fær sumarið 2009: 5,37 en sumarið 1989 er það lakasta með 4,10 stig. Niðurstöðum má taka með vissum fyrirvara enda miðast einkunnir við mitt skráningarkerfi. Með öðrum aðferðum fást sjálfsagt aðrar niðurstöður varðandi einstök sumur. En hér er myndin:

Sumareinkunnir

Hér kemur mjög stuttaraleg lýsing á öllum sumrum frá árinu 1986. Tek fram að aðallega er miðað við mitt heimapláss, Reykjavík, nema annað sé tekið fram:

1986 4,46 Júní var dimmur, kaldur og blautur suðvestanlands en júlí og ágúst öllu betri.
1987 4,73 Sólríkt og þurrt í júní og ágúst, en júlí var sólarlítill og blautur.
1988 4,30 Afar slæmur júnímánuður og einn sá sólarminnsti í Reykjavík. Júlí var ágætur en ágúst ekkert sérstakur. Óvenjumikið þrumuveður suðvestanlands þann 10. júlí.
1989 4,10 Að þessu sinni var það júlí sem brást algerlega og var sá sólarminnsti sem mælst hefur í Reykjavík auk þess að vera kaldur. Júní og ágúst voru einnig frekar svalir er skárri að öðru leyti.
1990 4,50 Lítið eftirminnilegt sumar sem var í slöku meðallagi. Reykjavíkurhitinn júlí var þó sá hæsti í 22 ár.
1991 4,93 Júní var sérstaklega sólríkur og á eftir fylgdi heitasti júlímánuður sem komið hefur í Reykjavík og voru slegin hitamet víða um land. Í mikilli hitabylgju náði hitinn 23,2 stigum í borginni þann 9. júlí en sá mánuður varð hlýjastur allra mánaða í Reykjavík 13,0 gráður.  
1992 4,37 Sumarið var ekkert sérstakt og aldrei mjög hlýtt. Eftirminnilegast er kuldakastið um Jónsmessuna í annars mjög köldum júnímánuði, þar snjóaði fyrir norðan og einnig til fjalla sv-lands.
1993 4,70 Ágætt tíðarfar en besta veðrið var í júlí. Þá var mjög bjart og þurrt í Reykjavík en kalt fyrir norðan.
1994 4,80 Sumarið var sæmilegt með köldum júnímánuði en júlí var frekar hlýr.
1995 4,33 Sumarið ekki gott nema hvað júlí var ágætur. Ágúst var mjög þungbúinn.
1996 4,63 Fátt eftirminnilegt þetta sumar. Ágúst var mjög dapur í Reykjavík en góður kafli kom um miðjan júlí.
1997 4,80 Sumarið var þurrt og bjart framan af en júlí og ágúst ollu vonbrigðum SV-lands.
1998 4,93 Sumarið var gott í heildina. Júnímánuður var bjartur og þurr og var ásamt ágúst sá hlýjasti í mörg ár.
1999 4,60 Sumarið var frekar blautt þar til í ágúst, en þá var bjart og hlýtt.
2000 4,77 Ágætt sumar með köflum en mjög sólríkt og þurrt var fyrir norðan og austan.
2001 4,70 Sumarið var ágætt í heildina þó lítið væri um hlýja daga.
2002 4,57 Af sumarmánuðunum var júní að þessu sinni sá hlýjasti, hæst komst þá hitinn í 22 stig sem er hitamet fyrir júní. Sumarið þótti ekkert sérstakt en var nokkuð milt.
2003 4,80 Júní og ágúst urðu hlýrri en nokkru sinni í Reykjavík enda var sumarið það hlýjasta sem mælst hafði í borginni sem og víða um land. Nokkuð rigndi þó með köflum.
2004 5,13 Sumarið var bæði hlýtt og sólríkt. Í ágúst gerði mikla hitabylgju SV-lands þar sem hitinn fór yfir 20 stig í borginni fjóra daga í röð, nýtt hitamet í Reykjavík var þá slegið í Reykjavík 24,8°.
2005 4,73 Sumarið var sæmilegt fyrir utan þungbúinn og svalan kafla í júlí.
2006 4,47 Sumarið var þungbúið og blautt suðvestanlands framan af en rættist heldur úr því er á leið.
2007 5,13 Sumarið var yfirleitt hlýtt og þurrt og mjög gott um mest allt land. Í Reykjavík var júlímánuður sá næst hlýjasti frá upphafi.
2008 4,90 Afar sólríkur og þurr júnímanaður en síðan köflóttara, mjög rigningarsamt í lok ágúst. Aftur var slegið hitamet í Reykjavík í hitabylgju undir lok júlí þegar hitinn komst í 25,7°.
2009 5,37 Mjög gott sumar sunnan og vestanlands, sérstaklega júlímánuður sem var sá þurrasti í Reykjavík síðan 1889 og sjálfsagt einn af bestu veðurmánuðum sem komið hafa í Reykjavík.
2010 5,13 Eitt hlýjasta sumar í Reykjavík. Júní var sá hlýjasti frá upphafi, júlí jafnaði metið frá 1991 og ágúst með þeim hlýjustu. Aldrei var þó um að ræða verulega hitabylgju.
2011 5,03 Sumarið byrjaði heldur kuldalega, sérstaklega norðaustanlands. Annars yfirleitt bjart og þurrt suðvestanlands.
2012 5,33 Mjög gott sumar víðast hvar. Sólríkt, þurrt og hlýtt. Óvenjudjúp sumarlægð kom suður að landi 22. júlí.
2013 4,37 Mikið bakslag í veðurgæðum sunnan- og vestanlands. Ágætis kafli seinni hlutann í júlí bjargaði þó miklu.

- - - -
Útfrá veðrinu í sumar er greinilegt að þau sumarveðurgæði sem verið hafa í Reykjavík undanfarin ár voru ekki alveg komin til að vera enda varla við því að búast. Kannski mun líða langur tími uns við upplifum aðra eins 6-ára syrpu gæðasumra. En hver veit? 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband