Færsluflokkur: Tónlist
26.10.2008 | 13:15
Britney Spears - I was born to make you happy
Ég hef í mínum skrifum ekki mikið fjallað um fólk og hef til dæmis aldrei nefnt á nafn einn einasta íslenskan stjórnmálamann. Ef ég nefni yfirleitt einhvern á nafn eru það helst persónur sem hafa auðgað anda vorn með listrænum tilburðum sínum svo sem ýmsir tónlistarmenn eða aðrir listamenn. Ég læt hinsvegar aðra um að gagnrýna pólitíkusa jafnvel þótt allt sé hér komið í kaldakol, en sjálfur held ég mig við þá speki sem vert er að hafa í huga, að leiðin til glötunar er ávallt vörðuð góðum áformum.
En þá er komið að aðalnúmeri þessa pistils sem er hin elskaða og dáða söngkona Britney Spears. Sú hefur ekki alltaf átt sjö dagana sæla á sínum ferli. Sem ung og saklaus stúlka fór hún í útrás og áformin voru góð. Hún lagði heiminn að fótum sér sem hin alsaklausa hreina mey og varð hvarvetna glæsileg fyrirmynd ungra stúlkna. Um síðir átti hún eftir að kynnast hinum harða heimi og þrátt fyrir góð áform varð ljóst að leiðin sem hún valdi sér í góðri trú lá eiginlega bara beinustu leið til glötunnar. En það má samt ekki missa vonina og eitthvað hefur ræst úr hjá henni Britneyju okkar - hún hefur allavega endurheimt sínu ljósu lokka og jafnvel einnig sitt lokkandi augnaráð, samkvæmt heimildum.
Britney Spears átti góða daga sem upprennandi stjarna á árunum um og eftir 2000, þegar allt lék í lyndi hjá henni. Í laginu sem hér fylgir segist hún vera fædd til að stuðla að hamingju okkar. Við þökkum fyrir það, enda er fátt göfugra en að gefa af sér öðrum til ánægju og gleði. Það má samt skynja þarna í myndbandinu að kannski eru ekki allir þar sem þeir eru séðir. Hvað með þennan unga mann þarna sem birtist í fráhnepptri skyrtu, er hann allur sem hann er séður? Ég er ekki viss.
Myndband mánaðarins á þessari síðu heitir: I was born to make you happy, með Britney Spears og kom út á hennar fyrst plötu
Baby One More Time snemma árs 1999 þegar hún var á 18. ári og ef ég á að segja eins og er þá finnst mér þetta bara vera hið ágætasta lag.
Tónlist | Breytt 27.10.2008 kl. 17:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.9.2008 | 01:11
The Smiths - Nowhere Fast
Ég veit satt að segja ekki hvað veldur, en af öllum þeim hljómsveitum sem ég hef kynnst í gegnum tíðina standa þessir alltaf uppúr enda er The Smiths orðin nokkurskonar goðsögn í tónlistarsögunni sem verður vart endurvakin. The Smiths héldu áfram á þeirri braut sem Pönk/nýbylgju-tónlistin hafði haft að leiðarljósi sem er einskonar afturhvarf til grundvallatatriða eða back-to-basic í tónlist. Hljóðfæraskipanin einföld: gítar, bassi og trommur. Laglínunan var einnig einföld, glaðleg og grípandi en það sama verður hinsvegar ekki sagt um innihald textanna því þar tekur alvaran við. Textar Morriseys eru alveg kapítuli útaf fyrir sig í tónlistarsögunni, afar innhverfir og svo dapurlegir á köflum að jafnvel unun er á að hlýða.
Johnny Marr lagahöfundur og gítarleikari sveitarinnar er síðan ekkert annað en snillingur, en fyrst og fremst var það liðsheildin sem gerði útslagið en því miður entist hún ekki lengi og í dag eru varla nokkrar líkur á því að The Smiths verði endurvakin og kannski engin ástæða til.
Það er erfitt að velja eitt lag út úr með þessari hljómsveit en þó þetta lag sé svona miðlungs gott Smiths lag, væri það samt meðal allra bestu lögum hvaða hljómsveitar sem er segi ég allavega. Myndband mánaðarins er Nowhere Fast frá árinu 1985 með hljómsveitinni The Smiths.
I'd like to drop my trousers to the world. I am a man of means (of slender means). Each household appliance is like a new science in my town. And if the day came when I felt a Natural emotion I'd get such a shock I'd probably jump in the ocean. And when a train goes by it's such a sad sound. No ... It's such a sad thing.
I'd like to drop my trousers to the Queen. Every sensible child will know what this means. The poor and the needy are selfish and greedy on her terms. And if the day came when I felt a natural emotion. I'd get such a shock I'd probably jump in the ocean and when a train goes by It's such a sad sound No ... It's such a sad thing
And when I'm lying in my bed I think about life and I think about death. And neither one particularly appeals to me. And if the day came when I felt a natural emotion I'd get such a shock I'd probably lie in the middle of the street and die. I'd lie down and die ... Oh, oh
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
20.8.2008 | 17:12
Goombay Dance Band - Sun of Jamaica
Goombay Dance Band, man einhver eftir þeim? Eða kannast kannski enginn við að muna eftir þeim, hafi þeir á annað borð aldur til? Mörgum þótti þetta nú samt alveg svakalega fínt á árunum í kringum 1980.
Þegar fólk hlustaði á tónlist Goombay Dance Band, var það umsvifalaust horfið frá sínum kalda hversdagleika til paradísareyja Karíbahafsins með sínar hvítu sandstrendur, pálmatré og kókóshnetur. En er þetta góð tónlist? Ég veit það ekki, en hugsanlega getur þetta brætt eitthvert íshjartað enn þann dag í dag. Goombay Dance Band komst hátt á vinsældalistum á sínum tíma ekki síst í Þýskalandi og merkilegt nokk, þaðan er þessi eldheita hljómsveit einmitt komin.
Þetta er myndband mánaðarins á þessari síðu: Sun of Jamaica, frá árinu 1979 með Goombay Dance Band og það má alveg tileinka það hinum fótfráu Jamaíkabúum á Ólympíuleikunum. Og jafnvel líka okkar harðsnúna handboltaliði - þeir gera sitt besta og aðeins betur ef það er það sem þarf. Meiri speki er ekki í boði að þessu sinni.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 17:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
25.7.2008 | 21:04
Kraftwerk – Tour de France
Í júlí á hverju ári fer fram í Frakklandi hjólreiðakeppnin mikla Tour de France sem sennilega er ein erfiðasta þrekraun sem háð er á sviði íþrótta. Keppnin í ár hófst þann 5. júlí en líkur nú á sunnudaginn 27. júlí þegar hjólreiðamenn koma í mark í París, eftir að hafa hjólað 21 dagleið um þvert og endilangt Frakkland, samtals 3,500 kílómetra. Þótt ég fylgist ekki með keppninni frá degi til dags og er í rauninni nokk sama hver sigrar finnst mér vera ákveðinn glæsileiki yfir þessari keppni þar sem tugir hjólreiðamanna æða í þéttum hópi í gegnum sveitir landsins, yfir fjöll og niður í dali.
Félagarnir í þýsku hljómsveitinni Kraftwerk voru brautryðjendur og miklir áhrifavaldar á sviði tölvu- og raftónlistar á sínum tíma en sú hljómsveit var stofnuð árið 1970 þegar hugtakið tölva var flestu fólki ákaflega framandi. En þeir eru líka miklir hjólreiðaáhugamenn og hafa tvisvar samið lög um Frakklandshjólreiðarnar sem bæði heita einfaldlega Tour de France. Það fyrra kom út árið 1983 og er eitt af þeirra þekktari lögum en hið síðara er frá 2003. Það er einmitt lagið sem hér fylgir og er myndband mánaðarins á þessari síðu. Þetta er allt mjög glæsilegt, flott myndband, flott tónlist og flott íþrótt, svo framarlega að menn kunni að meta svona lagað.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 21:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
30.6.2008 | 21:04
Bruce Springsteen - Born to Run
Myndband mánaðarins hjá mér að þessu sinni er lagið Born to run með Bruce Springsteen. Það kom upphaflega út á samnefndri plötu árið 1975, en er hér flutt á tónleikum. Ég veit ekki hvaðan upptakan er, hún er allavega nýleg, en Bruce og félagar hafa verið á mikilli tónleikareisu undanfarið. Sumir segja að þetta sé eitt besta rokklag allra tíma og ef svo er þá mótmæli ég því ekki. Bruce Springsteen dyggilega studdur af E-street bandinu færði rokkið niður á jörðina og var mótvægi við allt glysið og tilgerðarlegheitin sem einkenndi bransann á sínum tíma.
Bruce Springsteen og The E-street band náði að búa til stórt sánd eins og það er kallað, saxafónleikarinn Clarence Clemons (The Big Man) á þar sinn þátt og lífgaði uppá sviðið sem og gítarleikarinn Steven Van Zandt sem hefur gert það gott í leiklistini í hlutverki mafíubófans Silvio Dante í Sopranos-þáttunum.
Í öðrum frábærum sjónvarpsþáttum Saga Rokksins sem hafa verið í sýningu á RÚV undanfarið, lenti Bruce í flokknum leikvangarokkari, en sú skilgreining á vel við kappann enda greinilegt að hann nýtur sín vel á stóru sviði í öllum látunum. En Bruce Springsteen er ekki bara innantómur rokkhundur eins og sumir gætu haldið, hann er líka fínn texta- og lagahöfundur einskonar rödd hins vinnandi alþýðumanns sem á sínar vonir og þrár, og stundum dálítið brostnar vonir.
Bruce Springsteen og E-Street bandið eins og það birtist á umslagi plötunnar The River sem kom út árið 1980.
Tónlist | Breytt 30.7.2008 kl. 22:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
16.5.2008 | 22:26
Frönsk framlög í Eurovision
Nú er ég búinn að finna mitt Eurovisionlag í keppninni í ár og hvort sem það er tilviljun eða ekki er það franska lagið sem höfðar mest til mín alveg eins og í fyrra. Frakkar taka þessari keppni greinilega með hæfilegri léttúð án þess þó að það komi niður á tónlistinni sem er ekkert nema fyrsta flokks og nú mæta þeir til leiks með eðaltöffarann og hjartaknúsarann Sebastian Tellier sem svipar dálítið til John Lennons á mesta hárvaxtarskeiði sínu. Að öllum líkindum mun þetta lag samt ekki slá í gegn í keppninni, margir þola t.d. ekki að Frakkar syngi á ensku, afgreiða þetta bara sem hverja aðra vitleysu og heyra ekki músíkina í þessu. Kannski mun íslenska tannkremsdiskólagið This is my life höfða meira til alþýðunnar í Evrópu þótt það höfði ekki til mín, en tel ég mig þó vera alþýðumann.
Hér kemur Franska lagið í ár, og einnig Franska lagið frá því í fyrra sem var einnig frábært en náði einungis 22. sæti af 24 í lokakeppninni. Frakkar eru misskildir snillingar.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
26.4.2008 | 09:22
Chemical brothers - Let Forever Be
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.3.2008 | 12:24
Madness - Night boat to Cairo
Hér kemur myndband mánaðarins eða létt lag á laugardegi. Night boat to Cairo með hinum þó nokkuð kátu piltum í hljómsveitinni Madness.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 12:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.2.2008 | 12:44
Hvað finnst mér um Eurovisionlögin?
Núna á laugardagskvöldið er komið að þeirri stóru stund er við veljum okkar framlag í Evrópukeppni dægurlaga, sjálfa Eurovisionkeppnina sem verður haldin í Serbíu þetta árið. Þetta er auðvitað keppni sem allir dýrka og dá, ýmist opinberlega eða í laumi, en hvað mig varðar þá hef ég aldrei farið í felur með minn áhuga á keppninni. Enda afar fordómalaus og víðsýnn þegar kemur að menningarviðburðum, bæði háttsettum sem lágt settum. En hvað finnst mér um þau lög sem keppa um að verða framlag okkar nú í ár? Margt finnst mér gott en hér koma mínir fordómalausu sleggjudómar: (Smellið á titil til að spila lögin)
Gef mér von. Flytjandi: Páll Rósinkrans. Höfundur: Guðmundur Jónsson. Palli Rósinkrans biður um von af mikilli andagift, studdur af gospelsöng í Hvítasunnustíl. Sá stíll höfðar ekki til mín og varla hægt að segja að þetta lag eigi mikla von. Allt er samt vel gert hér, Páll er einn af okkar bestu söngvurum og Guðmundur - Sálin hans Jóns míns - Jónsson, kann vissulega að semja grípandi tónlist.
Núna veit ég. Flytjandi: Magni Ásgeirsson (og Birgitta?), Höfundur: Hafdís Huld Þrastardóttir. Þetta er nú bara mjög fallegt og huggulegt lag, rólegt framan en bætir í undir lokin. Það kom í ljós í seinni umferðinni að Magni dugði ágætlega án Birgittu sem var óvart í skíðafríi. Kjósa Magna? Þjóðin kann það. Ég veit hinsvegar ekki með Evrópu.
In your dreams. Flytjandi og höfundur: Davíð Þorsteinn Olgeirsson. Þetta lag er bara skal ég segja ykkur alveg bráðgott. Létt, skemmtilegt og grípandi, sungið í falsettu og minnir m.a. á ýmsa gamla Elton John slagara, einhver sænskur Eurovision-keimur af þessu líka. Ég gæti alveg hugsað mér þetta lag í sjálfri keppninni ef tekst að finna réttu sviðsframkomuna sem hefur verið helsti vandinn hingað til.
Hvað var það sem þú sást í honum? Flytjandi: Baggalútur. Höfundur: Magnús Eiríksson. En eitt gott lag og enn vandast valið. Fyrst var það flutt í rólegri kántrý-útgáfu en var síðan flutt í sveiflustíl einhverstaðar á milli Geirmundar og Tom Jones. Baggalútsmenn gefa þessu lagi skemmtilegan karekter eins og þeim er von og vísa.
Fullkomið líf. Flytjandi: Eurobandið (Friðrik Ómar og Regína ósk), Höfundur: Örlygur Smári. Ænei. Ég veit að þetta fólk langar óskaplega mikið út og telur sig sjálfsagt vera með skothellt Eurovision lag. En þetta lag er eins og Eurovisoin lög verða leiðinlegust, tilgerðarlegt stuð og ofnotaðar klisjur sem bjarga ekki slöku lagi. Ég óttast samt að mörgum falli þetta vel í geð. We have a winner sagði Páll Óskar. We have a looser segi ég.
Hvar ertu nú? Flytjandi: Dr. Spock, Höfundur: Dr. Gunni. Guli hanskinn rokkar feitt! Hér er fjörið, hér er frumleikinn. Angurvær sjómannaballaða og villt dauðarokk fléttað í eitt og endar í níu-vindstigum á Halamiðum. Mikið show hér á ferð, en það sem skiptir kannski mestu er að laglínan gerir sig og söngurinn afbragð. Já, takk!
Ho, ho, ho, we say hey hey hey, Flytjandi: Merzedes Club, Höfundur: Barði Jóhannsson. Er þetta lagið sem er að fara út? Það bendir margt til þess enda hefur þetta lag vakið mesta athygli. Barði Bang Gang er náttúrulega snillingur og kemur hér með Ibiza-techno-hnakka-diskó sem hugsanlega er neðst í virðingastiga allrar tónlistar og fer alla leið með olíubrúnkusmurðum vöðvamennum og einni söng-mjónu. Hörku atriði. Stóri gallinn er hinsvegar sá að fólkið getur ekki sungið! Það kom fram í seinni umferðinni þegar felu-baksviðsmenn þurftu að syngja fyrir drumbaslagarana og söngkonan þurfti að syngja með sinni náttúrulegu litlu rödd - án allra tölvueffecta.
Don't wake me up. Flytjandi: Ragnheiður Gröndal. Höfundur: Margrét Kristín Sigurðardóttir.Er þetta kannski bara lagið? Ragnheiður Gröndal klikkar ekki, hún kann að syngja og fer létt með skemmtilegt lag sem er í dálitlum revíustíl.Allavega eitthvað leikhúslegt við þetta. Bara fínt, já já.
Niðurstaða: Spái því að Hó hó hó, fari út (börnin hafa gaman af þessu), Fullkomið líf lendir í öðru sæti en fær örugglega ekki atkvæði frá mér. Best finnst mér Hvar ertu nú? Önnur lög eru yfirleitt fín en eiga kannski ekki mikla möguleika en mættu fara í keppnina mín vegna, nema helst Gospel-lagið.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 12:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
17.2.2008 | 14:35
Frelsið Nelson Mandela!
Þótt Nelson Mandela sé fyrir löngu orðinn frjáls maður lifir ennþá mikið af þeirri tónlist sem samin var í baráttunni fyrir frelsi hans og afnámi kynþáttaaðskilnaðar í Suður-Afríku. Eitt það flottasta sem kom út í þeim geira var auðvitað lagið fræga frá árinu 1984, Free Nelson Mandela, með hljómsveitinni The Special AKA, sem var afsprengi bresku ska-hljómsveitarinnar The Specials. Í þessu lagi eru greinileg áhrif frá Afrískri tónlist en dansmenntin fína er væntanlega ættuð frá öngstrætum USA. Eftir 27 ára fangavist var Nelson Mandela loksins látin laus úr fangelsi árið 1990 og varð síðar forseti Suður-Afríku. Kannski hafði þetta lag sín áhrif, hver veit, en kosturinn við það hafa svona karla í fangelsi er samt auðvitað sá, að þá er hægt að semja flott baráttulög.
Syngja fyrir Mandela? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Breytt s.d. kl. 17:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)