Færsluflokkur: Tónlist

Mick Jagger og Peter Tosh

Þá er komið að tónlistaratriði eða léttu lagi á laugardegi. Hér er mættur reggae-tónlistarmaðurinn Peter Tosh ásamt hljómsveit en sér tilfulltingis hafa þeir fengið sveitaballasöngvaran Mick Jagger, sem þarna er í góðum gír, kannski eftir nokkra romm í kók eða eitthvað annað að hætti innfæddra. Peter Tosh, sem lést árið 1987 af völdum byssukúlu, var góðvinur Bob Marleys og var framan af meðlimur í hljómsveit hans the Vailers áður en hann hóf sólóferil. Þetta lag kom út á plötu Peters Tosh, Bush Doctor, árið 1978 þegar reggae-bylgjan reis sem hæst og vakti lagið þó nokkra athygli, ekki síst vegna hins fræga gestasöngvara. Lagið heitir (You got to walk and) Dont't look back, en upprunalag útgáfa þess var flutt af söngflokknum The Temptations árið 1965, en þessa dagana hljómar lagið í íslenskri útgáfu Hjálmaflokksins. 


Plötukynning: Sandinista - The Clash

Ef ég hefði verið spurður að því fyrir svona 20 til 25 árum, hvaða hljómplötu ég myndi taka með mér á eyðieyju, (gerum þá við ráð fyrir að hægt sé að spila hljómplötur á eyðieyjum) kæmi platan Sandinista með the Clash strax upp í hugann. Ein ástæðan (en ekki sú helsta) er sú að platan er þreföld að magni með alls 36 lögum og var upphaflega gefinn út þannig í vínilútgáfunni árið 1980 en þannig fékkst mikið fyrir lítið. En burtséð frá lagafjölda þá er þessi plata sannkölluð músíkveisla sem ég naut til fulls árum saman og geri reyndar enn – öðru hvoru.

Sandinista umslagSandinista, var gefin út í lok árs 1980 og kom í kjölfarið af London Calling sem fyrir flestum aðdáendum er mikilvægasta plata hljómsveitarinnar. Með útkomu Sandinista má segja kveðið hafi við nýjan tón hjá hljómsveitinni sem reyndar fór misvel í hörðustu aðdáendur. Nú var ekki bara pönk og nýbylgjurokk á boðstólnum því á þessari plötu er farið um víðan völl í tónlistarheiminum, allskonar tónlistarstefnum hrært saman: raggie, ska, funk, jass, kalipsó, gospel, rapp og jafnvel barnamúsík. Þetta var plata fyrir heiminn eða eins og þeir sögðu sjálfir: "to hell with Clash style, there's a world out there." Semsagt, einskonar heimsplata þar sem umfjöllunarefni texta fór langt út fyrir öngstræti verkamannahverfana heima fyrir. Heimspólitíkin er þarna fyrirferðamikil, svo sem kalda stríðið sem á þessum árum var sjaldan kaldara, flestir gerðu ráð fyrir að kjarnorkuvetur skylli á hvað úr hverju – ekkert „global warming“ í þá daga.

En þótt tónlistin sé dimm og þung á köflum á plötunni er hún líka heit. Suðræn calipsó stemmning er ekki dæmigert fyrir það sem Clash hafði staðið fyrir en í þeirra höndum fær þessi tónlist nýjan tón og nýja merkingu. Þeir halda líka kúlinu allan tíma, Joe Strummer var auðvitað einn mesti töffari rokksögunnar en auk hans fá allir í hljómsveitinni að spreyta sig í söng ásamt reyndar nokkrum utansveitarmönnum, konum  og jafnvel börnum.

Viðbrögð aðdáenda og gagnrýnenda við þessari undarlegu Clash plötu voru frekar misjöfn. Sumir eru sammála mér um að þetta sé eiginlega bara meistaraverk en aðrir eru ekki sáttir. Gjarnan er nefnt að ýmsu hefði mátt sleppa og hægt hefði verið að gera einfalda 12 laga plötu með bestu lögunum. Allskonar tilraunastarfsemi fær enda að fljóta með, sérstaklega á seinustu plötunni, sumt má flokka sem dub eða mix af lögum sem þegar hafa koma fyrir á plötunni. Sumir vildu síðan bara fá sitt gamla góða Clash-rokk og ekkert annað en hvað mig varðar þá skiptir það sjálfsagt máli að þetta var fyrsta Clash platan sem ég hlustaði almennilega á.

Því má bæta við að platan Sandinista lenti í 19. sæti í nýlegri samantekt New Musical Express yfir bestu plötur 9. áratugarins. Þann lista má sjá í bloggfærslu hjá Jens Guð.

Það er auðvitað nauðsynlegt að koma með tóndæmi. Þar er úr vöndu að ráða því ekkert lag er í rauninni dæmigert fyrir plötuna, en fyrir valinu er flott lag sem mætti kalla hjarta plötunnar, „Washington Bullets“. Þetta lag gæti allt eins heitið Sandinista en titill plötunnar er komið úr þessu lagi, þar sem vísað er til Sandinistahreyfingarinnar í Nicaragua. Í þessu lagi fá stórveldin að heyra það, ekki bara Bandaríkin þótt halda megi það í fyrstu. Þarna má heyra spilað á tré-ásláttarhljóðfæri nem nefnist marimba eftir því sem mér skilst. Clash gerði yfirleitt ekki tónlistarmyndbönd á sínum tíma en þessi samsetning sem kemur hér er framtak einhvers áhugamanns. En lagið er gott og skilaboðin standa fyrir sínu.

 


Dare með The Human League - Plötukynning

Það er stundum talað um að hinar og þessar hljómsveitir séu miklir áhrifavaldar í tónlist. Þessir áhrifavaldar eru kannski ekki alltaf einhver stórveldi í tónlistarsögunni, eru jafnvel bara lítt þekkt smáveldi og jafnvel óðum að gleymast. Hljómsveitin The Human League þykir af mörgum vera í þessum flokki og þá sérstaklega vegna þeirra þriðju breiðskífu sem kom út árið 1981 og nefndist DARE en hún þykir gjarnan vera ein þeirra verka sem gáfu tóninn í hljóðgervla-glyspoppinu sem einkenndi næstu árin, eða „eitís-poppinu“ svokallaða.

DARE umslagPlötuna DARE eignaðist ég þegar hún kom út seint á árinu 1981. Tónlistin fannst mér afar nútímaleg eða kannski frekar framtíðarleg og svona hélt maður að tónlistin myndi verða í framtíðinni. Þarna voru bara hljómborð og hljóðgervlar - enda var þetta oft nefnt tölvupopp, sem var nýyrði á þessum árum og svo mátti líka heyra þennan kalda og tilfinningalausa nýrómantíska söngstíl sem einkenndi tímabilið og var alveg í samræmi við vélræna spilverkið á bakvið. Á plötuumslaginu birtust hljómsveitarmeðlimir stífmálaðir og mátti vart sjá hvors kyns hver var. Það var líka eitt af tískueinkennum þessa tíma að gera karlmenn kvenlega og konurnar karlmannlegar, kannski átti það að verða þannig í framtíðinni.

Human League eldriSögu The Human League má rekja aftur til ársins 1977 þegar tveir strákar í Sheffield, Ware og Marsh, fóru að fikta við framúrstefnulega raftónlist í anda Kraftwerk. Það fjölgaði í bandinu og þeir fengu hinn snoppufríða Philip Oakey til að sjá um söng og náðu útgáfusamningi við Virgin útgáfuna. Út komu tvær breiðskífur sem náðu engri sérstakri hylli utan takmarkaðs hóps. Áður en upptökur á þriðju plötunni hófust kom upp týpískur tónlistarlegur ágreiningur, meðal annars vegna pressu frá útgáfufyrirtækinu sem vildi aðgengilegri tónlist. Það varð til þess að stofnfélagarnir tveir hættu en söngvarinn Phil Oakey sat einn uppi með hljómsveitina. Þá var ráðist í endurmönnun sem fólst meðal annars í að ráða tvær unglingsstelpur sem Oakey fann á djamminu og bauð hann þeim að syngja og dilla sér með hljómsveitinni. Þetta voru þær Sulley og Catherall sem hafa verið með allar götur síðan.

Human League yngriÞað var hinn nýji Human League hópur sem á heiðurinn að baki DARE plötunni. Áður en hún kom út náðu þrjú smáskífulög inn á top 10 í Bretlandi en platan sjálf fór rakleiðis á toppinn þegar hún kom út í október 1981. Hljómsveitin náði greinilega til stærri hóps en áður án þess að tapa sínum framúrstefnulega hljómi. Síðasta lagið Don't you want me var talsvert poppaðra og hefðbundnara en önnur en var veikasta lagið að mati Philip Oakey sem vildi helst ekki gefa það út á smáskífu. Það var þó gert og sló svo rækilega í gegn beggja vegna Atlantshafsins að hljómsveitin náði aldrei almennilega sínum rétta takti á ný. Allt sem hópurinn gerði eftir þetta féll í skuggann af hinni mögnuðu DARE plötu og ekkert lag átti eftir að leika eftir fyrri árangur.

Sjálfur er ég eiginlega sammála Oakey með þetta Don't you want me-lag. Þegar það sló í gegn hér á landi sumarið 1982 fékk ég satt að segja nóg af þessari hljómsveit og platan var varla sett á fóninn eftir það. Mér fannst platan eldast illa og þetta tölvuteknó eiginlega bara hálf hallærislegt. En kannski var þetta ósanngjarnt því þegar ég set plötuna á fóninn eftir öll þessi ár, heyri ég hvað þetta er í raun merkileg plata og jafnvel á undan sinni samtíð þótt því fari fjarri að öll tónlist hljómi svona í dag.

Lagið sem ég valdi af YouTube heitir Do or Die. Það kannast örugglega mjög fáir við það, en þetta er bara þetta fína teknópopp með miklu instrumentali og þarf helst að spilast á fullum styrk allt til enda.

 

- - - - - 
Þetta var plötukynning mánaðarins en hún er mánuði á eftir áætlun vegna eldgoss.
Heimildir eru héðan og þaðan.

Uppfærsla 18.des. 2015: Örfáar prentvillur lagaðar.


Plötukynning - Communique með Dire Straits

Það er allur gangur á því hvernig maður kynnist nýjum hljómsveitum. Stundum er maður lengi að taka við sér og sumar hljómsveitir þekkir maður alveg ágætlega hvort sem manni líkar þær vel eða illa. Tilfellið með hina víðfrægu hljómsveit Dire Straits var hinsvegar það að þá hljómsveit uppgötvaði ég, að ég tel sjálfur, upp á mitt eigið einsdæmi en þó án þess að vita nokkurn skapaðan hlut um hljómsveitina, enda var þetta nokkuð áður en tónlist þeirra tók að hljóma í útvörpum, allavega þannig að ég yrði þess var. Það átti þó eftir að breytast því Dire Straits (eða þröng sund eða kröpp kjör) átti eftir að vera ein af vinsælustu og dáðustu hljómsveitum heimsins á fyrri hluta níunda áratugarins áður en hún datt eiginlega upp fyrir vegna of mikilla og skjótra vinsælda, en kannski ekki síður vegna þess að hún var hún orðin hálfgerð tímaskekkja innan um allt „eighties“ glysrokkið.

CommuniqueEn það sem ég ætlaði að segja var að þegar ég var nýskriðin upp úr fermingu árið 1979, uppgötvaði ég plötu sem stóra systir hafði keypt í útlöndum. Platan hét Communique og var umslagið bláleitt með óræðri mynd af manni á strandgöngu í umslagi, mjög huggulegt. Nafnið á hljómsveitinni Dire Straits sagði mér ekkert og nöfnin á hljómsveitar- meðlimum því síður. Þarna voru tveir sem hétu Knobfler og þeir gátu allt eins verið Hollendingar. Þetta virtist allt vera frekar góðir gæjar, lausir vil prjál og stjörnustæla samkvæmd myndunum af þeim sem fylgdi. En tónlistin sem þarna leyndist að baki var ekki bara hvað sem er. Ég var að vísu ekki mjög veraldarvanur í tónlist á þessum tímum, en fyrir þessari músik féll ég algerlega og því meir sem oftar var hlustað. Þarna var á ferðinni einhver snilld sem ég hafði ekki kynnst áður. Dálítið seiðandi og hægvirkt rokk með svakalega fínu gítarspili og góðum melódíum. Söngvarinn frekar hrjúfur í röddinni og letilegur. Lítið spáði ég þó í textana enda skiptu þeir eiginlega engu máli. Í þessu tilfelli var það tónlistin sem átti orðið – ekki bara gítarleikurinn heldur hljómurinn í hljómsveitinni í heild og takturinn svona almennt séð.

DS_medlimirÓhjákvæmilega átti ég svo eftir að að kynnast þessu fyrirbæri Dire Straits miklu betur. Knobflerarnir tveir voru bræður og var annar þeirra aðalsprauta hljómsveitarinnar og eitt af séníum tónlistarsögunnar. Hinn bróðirinn, ritmagítaleikarinn David (lengst til hægri á myndinni) yfirgaf hljómsveitina áður en næsta plata kom út, til að hefja sólóferill. Síðan hefur ekkert til hans spurst. Platan Communique var önnur plata Dire Straits og kom út skömmu eftir að hið frábæra lag Sultans of Swing af fyrstu plötunni sló loksins í gegn utan Bretlands. Þessar tvær fyrstu Dire Straits plötur eru báðar í miklu uppáhaldi hjá mér enn í dag, en þar sem ég kynntist Communique á undan á ég erfitt með að viðurkenna það sem almennt er álitið að frumburðurinn standi Communique heldur framar. Á næstu plötum Dire Straits var lagt út í metnaðarfullar tilraunir til að stækka lögin og lengja. Vinsældir og hróður hljómsveitarinnar jókst sífellt og náði algeru klímaxi með plötunni Brothers in Arms árið 1985. Þegar þar var komið við sögu fannst mér ég eiga lítið í þessari hljómsveit sjálfur, hún var orðin almannaeign og of vinsæl fyrir minn smekk. Platan Communique er hinsvegar alltaf Dire Straits platan mín. Þar var einhver ómengaður frumkraftur enn til staðar og þetta er enn í dag meðal allra áheyrilegustu hljómplatna sem ég hef kynnst.

Hér má sjá Dire Straits á litlum sjónarpskammertónleikum árið 1979. Lagið er Single-Handed Sailor af Communique sem er nánast óþekkt Dire Straits-lag, en feikna gott engu að síður og með löngu gítarsólói í lokin.

Lagalisti Communique: Framhlið: 1.Once Upon a Time in the West, 2.News, 3.Where Do You Think You're Going?, 4.Communiqué. Bakhlið: 1.Lady Writer, 2.Angel of Mercy, 3.Portobello Belle, 4.Single-Handed Sailor, 5.Follow Me Home. 


Plötukynning - Brottför kl. 8 með Mannakornum

Brottfor kl.8Árið 1979, þegar gekk á með gengis- fellingum, óðaverðbólgu og landlægri kuldatíð, keypti ég mér hljómplötu í fyrsta skipti á ævinni, þá á fjórtánda ári. Sú sem varð fyrir valinu var þriðja skífa hljómsveitarinnar Mannakorna og hét Brottför kl. 8. Ég hef aldrei verið stór í sniðum þegar kemur að plötukaupum og fjárfesti ekki í svoleiðis nema að vel ígrunduðu máli og eins var það auðvitað í þessu tilfelli. Þetta voru vel heppnuð plötukaup enda ekki við öðru að búast þegar Mannakorn eru annarsvegar, sérstaklega á þessum fyrstu árum hljómsveitarinnar.

Brottför kl. 8 fylgdi á eftir hljómplötunni, Í gegnum tíðina, sem er oft talin meðal bestu platna íslensku popptónlistarsögunnar þar sem finna má lög eins og Sölva Helgason, og auðvitað lagið, Í gegnum tíðina. Þessi plata er hinsvegar sjaldnar nefnd og kemst t.d. ekki inn á TOP 100 bókina yfir bestu íslensku plöturnar, fellur sennilega í skuggan af hinni fyrri. Í Brottför kl. 8 er dálítið farið úr einu í annað í tónlistarstíl en nýjabrum þess tíma eins og pönk og diskó er þó víðsfjarri. Þeir Magnús Eiríksson og Pálmi Gunnarson voru meira fyrir blúsinn eins og heyrist en einnig má finna þarna kántrý, jass ásamt hreinni og beinni dægurtónlist.

Það lag sem varð vinsælast á plötunni og er orðin sígild perla er Einhverstaðar einhvertíma aftur, sungið af óþekktri 17 ára söngkonu, Ellen Kristjánsdóttur þeirri sömu Ellen Kristjáns og allir þekkja í dag. Annað lag sem heyrðist talsvert var Gamli skólinn, sungið af Pálma en það virðist þó vera gleymt í dag. Þau lög sem höfðuðu eiginlega mest til mín eru reyndar þau sem búa yfir dálítilli dulmögnun eins og lagið Ferjumaðurinn sem Ellen söng, einnig Álfarnir þar sem Magnús syngur um þegar hann villtist í þoku á heiðinni og var ginntur af Álfkonu. Kántrýlagið Graði Rauður, eina erlenda lagið á plötunni, fannst mér ekki alveg gera sig en er þó kannski ágætt fyrir sveita- eða hestamenn. Lokalag plötunnar er magnaður Guðsblús, sunginn af Pálma Gunn en það er eins og venjulega Magnús Eiríksson sem á heiðurinn af lagi og texta.

Þeir sem standa að spilverkinu á plötunni eru auk Magnúsar og Pálma: Baldur Már Arngrímsson, Jón Kristinn Cortes, Björn Björnsson, Eyþór Gunnarsson, Halldór Pálsson, Karl Sighvatsson og Úlfar Sigmarsson. Það var svo Leifur Breiðfjörð sem hannaði plötuumslagið en þarna má alveg þekkja teiknistílinn frá glerlistaverkunum sem hann er annars þekktastur fyrir. 

Hér er textinn við GUÐSBLÚSINN – fínn sálmur þó að innihaldið eigi ekkert sérstaklega við mig.

Þú veist að djúpt í þínu hjarta er ennþá einn örlítill guð.
Og þú veist að hann er því bjarta,
Ef þú syndgar þá heyrirðu suð.
Þá samviskan þín er að syngja við sofandi innri mann óð.
Við guð minn nú glösum skal klingja,
og kveða hans ljúfustu ljóð.

Ég held oft að guð sé í öllu sem lifir og lífsanda fær.
Í sigurverki svo snjöllu,
Að allt sem hann lífgar það grær
En líf sprettur aðeins af lífi og lífgeislinn fljúgandi fer
Ég trúi að hann fagnand svífi
Að lokum úr búknum á mér.

Ó guð minn hve oft var ég illur og ónýtur í þessum heim.
Eftir þokur og villur,
og eftir endalaust geim.
Get ég nú setið í friði og hlustað á hjartað mitt slá.
Ég býst við að enginn því tryði,
hve ágætan guð ég á.

- - - - - 

Þessi bloggfærsla er hugsuð sem sú fyrsta af mánaðarlegum plötukynningum. Svipað má reyndar segja um síðustu færslu um letrið.


Íslenskt mál - heimsyfirráð eða dauði!

Nú er íslenskudagurinn og þá skal spáð í íslenskuna. Spáðu í mig, söng Megas á sínum tíma eins og frægt er og fyrir löngu orðið klassískt. Hversu sjálfsagt er það annars að syngja á íslensku? Hefði þessi söngur orðið eins sígildur ef hann hefði verið fluttur á ensku Think of me, then I will think of you? Hvað með Braggablús Magnúsar Eiríkssonar (Barrack blues) eða Stál og hníf Bubba Mortheins, (Steele and knive)?

Vinsælasta lagið á Rás2 um þessar mundir heitir Stay by You og er flutt af íslenskri hljómsveit sem heitir Hjaltalín. Þetta er svo sem ágætislag með ágætishljómsveit. Nafnið Hjaltalín minnir á þá tíma þegar fínar fjölskyldur tóku upp ættarnöfn til að hljóma meira „international“. Stay by you er líka mjög international nafn á lagi, þykir kannski ekki eins lummulegt eins og Stattu með þér upp á íslensku. Ansi er ég þó hræddur um að þetta lag muni fljótt gleymast og jafnvel hljómsveitin sjálf eins og hún leggur sig. Reyndar er lag Páls Óskars, Þú komst við hjartað í mér langvinsælasta lagið sem hljómsveitin Hjaltalín hefur flutt og það lag þeirra sem líklegast er til að lifa inn í framtíðina. Íslensk dægurlög sem flutt eru á ensku eiga nefnilega það til að gleymast fljótt og vel. Hver man til dæmis eftir lögunum með Change eða Rikshaw?

Það er svo sem ekkert óeðlilegt að hljómsveitir og söngvarar sem starfa aðallega erlendis syngi á einhverri erlensku. En þá eru þeir heldur ekkert að syngja fyrir okkur. Samt er það svo að þekktasta íslenska hljómsveitin erlendis, Sigurrós, hefur alltaf sungið heilmikið á íslensku og virðist það ekkert há þeim og ef eitthvað er þá skapar íslenskan þeim sérstöðu. Í mér syngur vitleysingur er eitt af þeirra nýjustu lögum. Stundum syngja þeir líka á sinni eigin „vonlensku“ sem enginn skilur.

Svo er bara að minnast á Sykurmolana en þau tóku upp slagorðið heimsyfirráð eða dauði sem er auðvitað í góðum íslenskum útrásaranda. Það má alveg minnast á að lögin sem þau upphaflega sigruðu heiminn með voru meira og minna fyrst samin á íslensku. Þar á meðal þeirra allra frægasta lag Afmæli sem hér fylgir á „Þú-túpunni“. Algerlega magnað lag og texti, og er vel við hæfi núna enda er þetta jú afmælisdagur Jónasar Hallgrímssonar. 

 

 

Hún á heima í húsinu þarna / Hún á heim fyrir utan / Grabblar í mold með fingrunum / og munninum, hún er fimm ára
Þræðir orma upp á bönd / Hefur köngulær í vasanum / Safnar fluguvængjum í krús / Skrúbbar hrossaflugur / og klemmir þær á snúru
Ahhh...
Hún á einn vin, hann býr á móti / þau hlusta á veðrið / Hann veit hve margar freknur hún er með / Hún klórar í skeggið hans
Hún málar þungar bækur / og límir þær saman / Þau sáu stóran krumma / Hann seig niður himininn / Hún snerti hann!
Ahhh...
Í dag er afmæli  / þau sjúga vindla / Hann ber blómakeðju / og hann saumar fugl / í nærbuxurnar hennar
Ahhh...
Þau sjúga vindla... / Þau liggja í baðkarinu... / Í dag er afmælisdagur ...
Tam, tam, tam-a-tam-a-tam...


Skonrokk, Meatlow og Skólaljóð

Seint á áttunda áratugnum hóf Sjónvarpið að sýna tónlistarmyndbönd í sérstökum dagskrárlið sem kallaðist Skonrokk eins og þeir muna sem þá voru uppi. Þetta voru auðvitað ómissandi þættir fyrir þá sem vildu fylgjast með því nýjasta í poppinu, diskóinu og rokkinu, allt undir öruggri handleiðslu skífuþeytarans og landfræðingsins Þorgeirs Ástvaldssonar. Þegar Skonrokk var á dagskrá var að sjálfsögðu allur skólalærdómur og svoleiðis lagður til hliðar því annars gæti maður misst af einhverju stórkostlegu og jafnvel ekki verið viðræðuhæfur daginn eftir. Eitt sinn fyrir um 30 árum hafði ég fengið það heimaverkefni að læra ljóð upp úr Skólaljóðum, en þar sem Skonrokk  var á dagskrá þetta kvöldið ætlaði ég að láta ljóðalærdóminn bíða þar til eftir þáttinn sem ég horfði á ásamt systrum mínum. Þegar síðasta myndband þáttarins birtist hvöttu systur mig bara til að drífa mig í ljóðalærdóminn enda virtist lokalagið ætla að verða leiðinlegt, flutt af ófrýnilegum þéttvöxnum söngvara sem enginn hafði heyrt um áður. Ég lokaði mig þá af og tók til við að læra ljóðið sem mig minnir að hafi verið Frjálst er í fjallasal eftir Steingrím Thorsteinsson. Þegar ég kom svo aftur fram í stofu, fullnuma í ljóðinu, fékk ég að heyra að lokalagið í Skonrokki hafi eftir allt saman verið „æðislega flott“ og að ég „hefði átt að horfa á það“. Við því var hinsvegar ekkert að gera úr því sem komið var.

Lagið sem var svona æðislega flott og sló í gegn eftir þennan Skonrokksþátt var hið mikla lag, Paradise by the dashboard light og er það í dag eitt af sígildum lögum rokksögunnar flutt af hinum fjallmyndarlega Meatloaf. Með honum á myndbandinu er söngkonan Karla DeVito en það mun það hinsvegar vera söngkonan Ellen Fooley sem á röddina.

Sjónvarpsnostalgía mánaðarins hjá mér að þessu sinni er Skonrokk.

 


Hvað finnst mér um Eurovisionlögin?

Enginn sem tekur sjálfan sig alvarlega getur tekið Eurovision-söngvakeppnina alvarlega, það er nokkurn veginn vitað. Þess vegna ætla ég hér af fullri alvöru að fjalla um lögin sem koma til greina sem framlag Íslands í keppnina í ár. Fyrir það fyrsta þá finnst mér lögin sem koma til greina nú nokkuð jöfn að gæðum og ómögulegt að segja hvað verður fyrir valinu. Gæði lagana eru þó yfirleitt ekki meiri en svo að ástæða sé til að óttast að við förum að vinna keppnina með öllum þeim skuldbindingum sem því fylgir en þó er aldrei að vita. Hinsvegar sýnist mér ekkert lag vera þarna sem gæti orðið okkur til meiri ævarandi skammar á alþjóðavettvangi en orðið er. Eiginlega má bara segja að innanlandskeppnin nú í ár sé frekar litlaus í heildina - engir furðufuglar með gula hanska eða steraboltar sem lífga keppnina við eins og í fyrra, hvernig sem á því stendur.
Að þessu sögðu koma hér mínir óskeikulu sleggjudómar um lögin sem í boði eru. Röð lagana eru í stafrófsröð eftir heiti þeirra. Einnig er hægt að hlusta á þau með því að smella á titilinn.

1. Easy to fool
Höfundur: Torfi Ólafsson, Flytjendur: Arnar, Edgar, Sverrir og Ólafur
„It´s hot under the west-coast sun, But cold up here in Maine“ segir í texta lagsins. Þó að veðurfregnir höfði yfirleitt til mín þá er helsta vandamálið hér að þetta er bara púra Amerískt kántrýlag og ágætt sem slíkt en satt að segja finnst mér svona þjóðlagatónlist frá öðrum heimsálfum varla eiga heima sem framlag Íslands í Eurovision. Mætti kannski senda þetta í Grand Ole Opry keppnina sem haldin er oft og reglulega í Nashville Tennessee.

2. Got no love
Höfundur: Örlygur Smári, Flytjendur Elektra.
Hér er búið að setja saman stelpuhljómsveit með hinum svokölluðu Hara-systrum sem eru víst raunverulegar systur en þær urðu í öðru sæti í X-faktor þáttunum sem ég annars þekki lítið til. Hér er sami lagahöfundur á ferð og samdi sigurlagið í fyrra „This is my live“ sem mér fannst reyndar afar leiðinlegt lag. Þetta framlag er hins vegar mun betra fyrir minn smekk þótt þetta sé nokkuð hefðbundið pop-rokk, þó dálítið glyskennt með tilgerðarlegum smartheitum. Minnir dálítið á rússnesku platlesbíurnar í T.a.t.u. sem er svo sem allt í lagi. Örlygur Smári gæti hæglega átt sigurlagið annað árið í röð.

3. I think the world of you
Höfundur: Hallgrímur Óskarsson, Flytjandi: Jógvan Hansen.
Hér er annar þaulreyndur Eurovision höfundur sem átti t.d. lagið sem Birgitta söng um árið. Söngvarinn er sjálfur sigurveginn í áðurnefndri X-faktor keppni og nýtur sjálfsagt vinsælda út á það auk þess sem hann er dálítið þekktur meðal fiskveiðiþjóða norður-Atlantshafsins. Svo má ekki gleyma að hann er Færeyingur sem þykja vera sérlegir vinir okkar Íslendinga. Allt gerir þetta að verkum að lagið á ágæta möguleika á að sigra, nema hvað lagið er frekar óspennandi vakningarballaða með viðeigandi upphækkun í lokin: „All around the world, it's gone crazy...“, Virkar þó kannski vel í svona keppni.

4. Is it true
Höfundur: Óskar Páll Sveinsson, Flytjandi: Jóhanna Guðrún Jónsdóttir.
Enn einn gamalkunnur Eurovision höfundurinn mættur til leiks og nýtur hér fulltyngis barnastjörnunnar fyrrverandi Jóhönnu Guðrúnar, sem er greinilega ekki lítil lengur. Þótt svona músik sé ekkert mitt uppáhald er hér á ferðinni afskaplega fín og pottþétt ballaða sem gæti hæglega brætt hjörtu margra Evrópubúa. Jóhanna er líka hin glæsilegasta á sviðinu og syngur þetta vel og af miklu öryggi. Hugsanlega besta lagið í keppninni en ég er þó ekki viss um að það eigi mikla möguleika enda gæti barnastjörnustimpillinn háð söngkonunni.

5. Lygin ein
Höfundur: Albert G. Jónsson, Flytjandi: Kaja Halldórsdóttir
Hér byrjar ballið fyrir alvöru því hér stígur á svið aldeilis skutla sem syngur þéttan ljóðabálk á íslensku um glataðan gæja sem „trítar“ svo sannarlega ekki vel. Lagið er ískalt teknó-diskó með stálhörðum takti en dálítið flatt, textinn gæti verið eftir Leoncie en atriðið er nokkuð vel skreytt með svartklæddum dansmeyjum. Það er einhver stafrænn 2000-stíll í þessu sem er ekki alveg í takt við tímann í dag lagið en gæti þó virkað í austur-Evrópu. Samt má alveg hafa gaman að þessu.

6. The kiss we never kissed

Höfundur: Heimir Sindrason, Flytjandi: Edgar Smári
Heimir Sindrason kemur hér með hugljúft lag af rólegra taginu. Dálítið í Johnny Logan stíl með væmnum „teardrop in your eye“ texta sungið af ungum dægurlagasöngvara sem hefur sést áður í Eurovision undankeppni og er að auki einn af „kúrekunum“ í laginu hans Torfa Ólafs. Sumum þykir þetta ef til vill voða huggulegt og vel heppnað en mér finnst hér ýmislegt ekki virka, sérstaklega söngurinn eða raddbeitingin sem fer í full mikla falsettu í erfiðustu köflunum. Ég held að við ættum ekkert að vera að hugsa um þetta lag.

7. Undir regnbogann
Höfundur: Hallgrímur Óskarsson, Flytjandi: Ingó
Annað lag eftir áðurnefndan Hallgrím en gjörólíkt. Ingó „Veðurguð“ sem flutti Bahama-lagið í sumar er ekki meira en ágætur raulari, dugir þó til að koma þessu léttmeti frá sér. „Trallalalalla“ eru skilaboð sem komast allstaðar til skila en annars er bara jákvætt að textinn sé á íslensku - saminn af sjálfum Eiríki Hauks. Stelpurnar í lúðrasveitarbúningunum með bumbutrommuna og túbuna eru náttúrulega ágætis skraut, lífga þetta við og undirstrika taktinn í laginu. Þær taka að vísu til sín mestu athyglina, einkum túbustelpan sem hefur sjálfsagt aldrei séð svona skrítið hljóðfæri áður og örugglega aldrei blásið í það.

8. Vornótt
Höfundur: Erla Gígja Þorvaldsdóttir, Flytjandi: Hreindís Ylva Garðarsdóttir Holm
Hér gerast undur og stórmerki. Ung stúlka syngur undurhugljúft lag ömmu sinnar um ástarfund í Skagfirskri vornótt þar sem „fuglinn morgunferðar bíður“. Hér má heyra hörpuslátt og englaraddir í bakgrunni sem hjálpa til við gera þetta að eftirlætislaginu mínu í keppninni. Þótt þetta muni sjálfsagt ekki gera stóra hluti í sjálfri Moskvu er þetta langeinlægasta lagið og það sannasta. Spurning hvort X-faktor kynslóðin skynji það. Kannski er ég bara farinn að eldast en þegar maður hefur hlustað á þetta lag finnst manni allt hitt vera hálfinnantómt og tilgerðarlegt. Eins og þessi dásamlega keppni annars er.

 

 


Hinar björtu hliðar lífsins - Monty Python

Jólin eru enn á góðu róli, dagarnir byrjaðir að lengjast á ný og myrkrið smám saman farið að víkja fyrir birtunni. Það er líka komið að lokum þessa mánaðar og einnig þessa dæmalausa árs sem endaði svona frekar hallærislega. Sú venja hefur skapast á þessari síðu undir lok hvers mánaðar að bjóða upp á tónlistaratriði og hefur sá liður átt síauknum vinsældum að fagna - þó ekki almennum. Að þessu sinni varð ritstjórninni nokkur vandi á höndum hvað velja skildi því ákveðið hefur verið að leggja niður þennan dagskrárlið á nýju ári en taka í staðinn upp annan lið, að vísu svipaðan en undir öðrum formerkjum.

Það sem að lokum varð ofaná er tónlistaratriði frá hinum spaugsama hópi Monty Python sem sendi frá sér árið 1975 kvikmyndina Life of Brian. Þar segir frá manni sem uppi var í Júdeu fyrir 2000 árum og átti meira sameiginlegt með Jésú Kristi en hann sjálfur kærði sig um, en slík óheppni endar að sjálfsögðu bara á einn veg - á krossinum. En þegar lífið er ekki alveg eins og maður sjálfur hefði kosið er auðvitað nauðsynlegt að gleyma sér ekki yfir svartnættinu og líta þess í stað á björtu hliðarnar. Þær má alltaf finna einhversstaðar.

Myndband mánaðarins að þessu sinni er lagið Always look at the bright side of life með Monty Python hópnum og ef þetta eru helgispjöll núna á jólunum, þá fyrirgefi mér allir heilagir, en meiningin er allavega góð.

Hér má sjá yfirlit yfir þau mánaðarlegu tónlistaratriði sem ég hef birt á árinu:


Harkaliðið - Ólavur Riddararós

Víkur þá sögunni að okkar bestu frændum Færeyingum sem reynst hafa okkur þrautgóðir á raunastund. Lengi vel var Ólavur Riddararós eina færeyska lagið sem heyrðist hér á landi en það var flutt af þjóðlagasveitinni Harkaliðið sem spilaði lagið inná grammafónsplötu árið 1971. Eitt eintak af plötunni virðist hafa ratað hingað til lands og var síðan spilað í Útvarpi allra landsmanna næstu 10 árin. Það fékk þó aldrei neina ofspilun og alltaf lyftist á manni brúnin þegar frísklegur söngur Anniku Hoydal barst manni til eyrna þar sem sungið var um örlagarík samskipti Ólavs Riddararósar við álfamær eina.

Færeyingar eru líka frændur innbyrðis og ef einhver þekkir stjórnmálamanninn Högna Høydal þá má geta þess að söngkonan Annika er föðursystir hans (eða fastir eins og kemur fram í athugasemd á youtube).

Ólavur Riddararós með Harkaliðinu er myndband mánaðarins á þessari síðu, eða bara lag mánaðarins því varla er hægt að tala um lifandi mynd að þessu sinni.

 

T E X T I :

Ungir kallar, kátir kallar gangið uppá gólv, dansið lystilig.
Ólavur ríður eftir bjørgunum fram, / kol og smiður við
fann upp á eitt elvarrann. / ungir kallar, kátir kallar gangið uppá gólv, dansið lystilig.
Út kom eitt tað elvarfljóð, / flættað hár á herðar dró.
"Ver vælkomin, Ólavur Riddararós, / tú gakk í dansin og kvøð for os!"
Eg kann ikki longur hjá elvum vera, / í morgin lati eg mítt brúdleyp gera."
Vilt tú ikki longur hjá elvum vera, / sjúkur skalt tú títt brúdleyp gera.
Hvat heldur vilt tú sjú vintur liggja sjúk, / ella vilt tú í morgin liggja lík?
"Tveir eru kostirnir, hvørgin er mjúkur, / ilt er at liggja leingi sjúkur.
Fyrr vil eg í morgin til moldar gá, / enn eg vil sjú vintur liggja á strá."
Hon bar fram eitt drykkjusteyp, / eiturkornið í tí fleyt.
"Tú sig tíni móður, tá ið tú kemur heim, / tín foli snublaði um ein stein."
Ólavur heim í garðin fór, / úti hans móðir fyri honum stóð.
"Hví ert tú so følin, hví ert tú so bleik, / sum tú hevur verið í elvarleik?"
Tí eri eg følin, tí eri eg [sum] bast, / í gjár var eg í elvarlast."
Ólavur vendist til veggin brátt, / hann doyði langt fyri midnátt.
Har komu av tí búda trý lík, / tey vóru so prúda.
Tað fyrsta var Ólav, tað annað hans moy, / tað triðja hans móðir, av sorg hon doyði. 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband