Færsluflokkur: Hafís
17.5.2014 | 00:03
Hafístíðindi af Suðurhveli
Staða hafísmála umhverfis Suðurskautslandið hefur ekki verið mikið í sviðsljósinu miðað það sem gerist hér á Norðurhveli. Suðurskautslandið er afskekkt og hafísþróun þar skiptir litlu máli fyrir lífsafkomu fólks og hefur ekki áhrif á siglingaleiðir. Það sem er þó merkilegt þarna suðurfrá er að hafísinn þar hefur heldur verið verið að aukast frekar en hitt. Það hefur þó ekki verið nein dramatísk aukning, allavega ekki miðað við þá rýrnun sem orðið hefur á ísnum á Norðurhjara.
En kannski má fara að veita þessu meiri athygli því undanfarin 1-2 ár hefur ísinn við Suðurskautið verið með allra mesta móti og stundum meiri en hann hefur áður verið á sama árstíma frá upphafi gervihnattamælinga 1979. Hafísútbreiðsluna má sjá á kortinu hér að ofan sem ættað er frá frá Bandarísku ís- og snjómiðstöðinni, NSIDC. Rauða línan táknar meðalútbreiðsluna og sést þar vel hvar aukningin er mest á hafssvæði er nefnist Weddelhaf ofarlega á kortinu.
En svo er hér einnig línurit þar sem sjá má þróun hafíssins umhverfis Suðurskautslandið allt frá árinu 1979 en þar má líka sjá hve mikill munur er á útbreiðslunni milli árstíða. Hafísinn náði sínu árlega sumarlágmarki seint í febrúar að venju og var þá ísinn með mesta móti miðað við lágmörk fyrri ára. Aukningin sem fylgir suðlægu vetrarkomunni hefur síðan verið nokkuð hröð sem hefur skilað sér í metútbreiðslu núna undanfarið (Gula línan) miðað við árstíma. Hinsvegar var ísinn öllu minni á sama tíma árið 1980 eins og sést á grábláu línunni. Einnig sést þarna að vetrahámarkið í fyrra var ansi öflugt (rauð lína).
Breitt vindafar. Einfaldasta skýringin á auknum hafíss umhverfis Suðurskautslandið hlýtur að vera meiri kuldi en það segir þó ekki alla söguna. Í rannsókn á vegum NASA og Breskra aðila, þar sem 19 ára tímabil var rannsakað út frá gervitunglagögnum, var hægt að sýna fram á að markverðar breytingar hefðu átt sér stað í hegðun vinda á svæðinu. Suðlægar vindáttir sem blása frá köldu meginlandinu höfðu aukist á þeim svæðum þar sem hafísaukningin hefur verið mest. Hlýrri hafáttir af norðri hafa reyndar eitthvað aukist á móti en samanlögð áhrif er hægfara aukning kaldra suðlægra vinda sem stuðla að auknum hafís. Um þetta má lesa nánar á vef NASA þar sem segir meðal annars:
“NASA and British Antarctic Survey scientists have reported the first direct evidence that marked changes to Antarctic sea ice drift caused by changing winds are responsible for observed increases in Antarctic sea ice cover in the past two decades. The results help explain why, unlike the dramatic sea ice losses being reported in the Arctic, Antarctic sea ice cover has increased under the effects of climate change.“
Sjá hér: NASA Study Examines Antarctic Sea Ice Increases
Önnur rannsókn ættuð frá Ástralíu kemur einnig inn á þetta en þar er talað um að styrkur vestanvindabeltisins mikla í Suðurhöfum hafi almennt farið vaxandi með hnattrænni hlýnun og að þessir vindar séu nú sterkari en þeir hafa verið í þúsund ár. Þarna er um að ræða svæði sem liggja norður af ísasvæðum Suðurskautslandsins og stuðla að nokkurs konar veðurfarslegri einangrun heimskautasvæðisins í suðri sem um leið fer að hluta til á mis við hnattræna hlýnun. Þannig skapast meiri andstæður í hitafar milli hins kalda Suðurskautslands og hlýnandi sjávar Suðurhafa sem aftur leiðir af sér aukna vinda.
"As the westerly winds are getting tighter they're actually trapping more of the cold air over Antarctica," Abram said. "This is why Antarctica has bucked the trend. Every other continent is warming, and the Arctic is warming fastest of anywhere on earth." (Dr. Nerlie Abram)
Sjá hér: Ocean winds keep Antarctica cold, Australia dry Why Antarctica isn't warming as much as other continents
Þetta á þó ekki við um Antarktíkuskagann sem teygir sig áveðurs í átt að Suður-Ameríku en þar á skaganum hafa íshellur verið að brotna upp í auknum mæli og reyndar hefur einnig nokkuð verið fjallað um það undanfarið að jöklar á vesturhluta Suðurskautslandsins séu farnir að vera ansi óstöðugir og gætu jafnvel horfið að mestu á einhverjum árhundruðum með tilheyrandi hækkun á sjávarborði. En það tekur auðvitað allt sinn tíma.
Svo má benda á enn aðra niðurstöðu til að lengja þetta enn. Komið hefur í ljós að minna er um selturíkan yfirborðssjó þar sem hafísaukningin er mest við Weddelhaf. Selturíkur sjór er eðlisþyngri og virðist ná síður upp til yfirborðs en áður vegna aukins fersksjávar sem er eðlisléttari og á einnig á auðveldara með að frjósa. Þetta hefur síðan áhrif á djúpsjávarmyndum eða eins og segir:
„More immediately, though, a weakening of the mixing in the Weddell Sea could be contributing to some of climate trends observed in Antarctica and the Southern Ocean. By keep warmer ocean waters trapped, the weakening may explain a slowdown in surface warming and expansion in the sea ice, the researchers note.“
Sjá nánar hér: Climate Change Felt in Deep Waters of Antarctica
- - - -
Það er sem sagt margt í þessu og miklu meira en ég get komið fyrir hér. Allavega þá er ástæða til fylgjast með hafísþróuninni þarna suðurfrá sem er önnur en hér á norðurhveli. Norðurskautsísinn virðist hinsvegar ekkert vera að jafna sig þrátt fyrir smá bakslag síðasta sumar og auðvitað fylgist maður ekki síður með því. Verður sjálfur Norðurpólinn kannski íslaus í sumarlok?
Hafís | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.3.2014 | 22:05
Rýnt í hafísstöðuna á Norðurslóðum
Eins og venjulega á þessum tíma árs hefur hafísinn á Norðurslóðum náð sínu vetrarhámarki í útbreiðslu og mun upp úr þessu fara að dragast saman uns hinu árlega lágmarki verður náð í september. Það vakti nokkra athygli síðasta sumar að bráðnunin varð öllu minni en mörg undanfarin sumur og engin furða að raddir heyrðust um að hafísinn væri farinn að jafna sig. Ástæðan fyrir þessari litlu bráðnun í fyrra var ekki síst kalt sumar vegna lægðagagns og lítils sólskins. Ekki ósvipað tíðarfar og var uppi hér suðvestalands síðasta sumar.
Þessi litla bráðnun sumarið 2013 var dálítið sérstök í ljósi þess að sumarið áður, 2012, sló rækilega fyrri met í sumarbráðnun eins og sjá má á línuritinu hér að neðan. Rauða lína er 2013, en sú bleika sem tekur mestu dýfuna er 2012. Til samanburðar er farið lengra aftur til áranna 2000, 1990 og 1980. Græna línan er árið 2006 en þá var vetrarútbreiðslan mjög lítil sem þó skilaði sér ekki í mjög lágri sumarútbreiðslu. Núverandi ár 2014 er táknað með gulri línu. (Myndin er unnin upp úr línuriti af síðunni Cryosphere Today)
Eins og staðan er nú er flatarmál ísbreiðunnar nokkuð svipuð fyrri viðmiðunarárum. Fram að þessu í vetur hafði hafísbreiðan reyndar verið með allra minnsta móti þrátt fyrir að koma út úr frekar köldu sumri og sýnir það kannski best hversu lítið samband er á milli sumarútbreiðslu og vetrarútbreiðslu. Veturinn fyrir metlágmarkið mikla 2012 var hafísinn til dæmis lengst af útbreiddari en verið hefur nú í vetur. Ástæðan fyrir þessu litla samhengi milli sumarútbreiðslu og vetrarútbreiðslu er einfaldlega sú að þau svæði sem skipta máli varðandi vetrarútbreiðslu eru mörg hver langt utan við sjálft Norður-íshafið þar sem hinn eini sanni heimskautaís heldur sig. Til dæmis er í vetrarútbreiðslunni talinn með hafís út af Nýfundnalandi sem hefur verið með meira móti í vetur vegna kuldana í Norður-Ameríku en sá ís bráðnar fljótt og örugglega snemma vors.
Tiltölulega lítil hafísútbreiðsla í vetur fer saman við ríkjandi hlýindi sem verið hafa á Norðurslóðum í vetur. Kuldinn hefur líka oft haldið sig annarstaðar í vetur eins og íbúar Norður-Ameríku hafa fengið að kenna á. Hér við Norður-Atlantshafið hafa hlýindin hinsvegar haft yfirhöndina. Mjög hlýtt hefur verið við Svalbarða og óvenju lítill ís var þar í vetur sem og við Barentshaf. Alaskabúar nutu líka hlýinda í vetur og í tengslum við það hefur ísinn við Beringshaf verið með minna móti. Kortið hér að ofan er frá Bandaríku Veðurstofunni NOAA og sýnir frávik frá meðalhita á 90 daga tímabili fram að 23. mars.
En svo er það ástand hafíssins á sjálfu Norður-Íshafinu. Hér eru tvö kort sem sýna ísþykkt eins og hún er áætluð. Kortið til vinstri er frá 24. mars 2013 en til hægri er staðan eins og hún er nú. Þykkasti ísinn er að venju norður af heimskautasvæðum Ameríku en athyglisvert er að tiltölulega þykkur ís, táknaður með gulu, hefur færst úr norðri að ströndum Alaska. Miðhluti Íshafsins er í heildina aftur á móti þakinn þynnri ís en áður. Ísinn núna er einnig þynnri undan ströndum Síberíu vegna suðlægra vinda frá meginlandinu. Einnig sést vel hversu lítilfjörlegur ísinn er allt í kringum Barentshafið. Undanfarið hefur ísinn þar reyndar verið í dálítilli útrás sem skýrir að hluta útbreiðsluaukninguna sem varð nú seinni hlutann í mars. Það varir þó ekki lengi og hefur auk þess þau áhrif að það dreifist úr ísnum frekar en að hann aukist að magni. Myndin eru unnin upp úr kortum á hafíssíðu bandaríska sjóhersins: Naval Research Laboratory.
Fyrir sumarið er best að spá sem minnstu. Það er þó alltaf freistandi að spá merkilegum atburðum eins og íslausum Norðurpól þótt engin von sé til þess að gjörvallt Norður-Íshafið verði íslaust í sumarlok. Þykki ísinn í Beaufort hafinu norður af Alaska gæti orðið þrálátur og erfiður viðureignar. Allt veltur þetta þó á veðuraðstæðum í sumar. Mikið sólskin í júní og hlýir landvindar gætu gert usla ef þeir koma upp en það gerðist einmitt ekki síðasta sumar.
Læt þetta duga að sinni. Það má taka fram að þetta eru áhugamannapælingar en ég hef fylgst dálítið vel með hafísnum undanfarin ár. Held þó að það sé furðumikið til í þessu hjá mér.
- - - - - -
Smáa letrið. Athugasemdir verða birtar eftir að þær hafa verið samþykktar af síðuhöfundi og því má búast við að ósæmilegar og óviðeigandi athugasemdir birtist alls ekki. Hvað er ósæmilegt og óviðeigandi er þó ekki alltaf auðvelt að meta og geta geðþóttaákvarðanir síðuhöfundar allt eins ráðið úrslitum. Kannski er þó ekki mikil þörf á athugasemdum við þessa bloggfærslu.
Hafís | Breytt s.d. kl. 23:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
27.11.2013 | 23:59
Hafísinn að koma?
Þessa dagana held ég að sé full ástæða til að fylgjast með hafísnum sem nálgast hefur landið síðustu misserin. Suðvestan- og vestanáttir hafa verið nokkuð tíðar milli Íslands og Grænlands en við þær aðstæður hleðst hafísinn upp út af Vestfjörðum í stað þess að streyma fram hjá landinu suður eftir austurströnd Grænlands eins og venjulega gerist þegar norðaustanáttin er ríkjandi. Í ofanálag sýnist mér talsvert af ís hafa borist út úr Norður-Íshafinu milli Grænlands og Svalbarða og áfram suður eftir með hvössum norðanáttum. Í næstu viku eru svo einhverjar norðanáttir í kortunum á Íslandsmiðum sem einnig hefur sitt að segja. Lægðargangur hefur verið verið mjög norðlægur síðustu vikur enda háþrýstisvæði ríkjandi suður af landinu. Til að snúa þessu við þurfa lægðirnar að ganga sunnar og norðaustan- og austanáttirnar að ná sér betur á strik hér hjá okkur. Ef það gerist ekki í bráð er komin ágætis grundvöllur að hafísvetri - sem getur verið spennandi á sinn hátt.
Ískort frá Norsku Veðurstofunni, gildir 27. nóvember.
Smærra kortið er á vegum Bandaríska sjóhersins. Þar má vísa í hreyfimynd sem sýnir þykkt og færslu hafíssins á gjörvöllum norðurslóðum síðustu 30 daga:
http://www7320.nrlssc.navy.mil/hycomARC/navo/arcticictn_nowcast_anim30d.gif
Hafís | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
21.9.2013 | 00:48
Árlegt hafíslágmark á norðurhveli og hafíshámark á suðurhveli.
Eins og venjulega í september hefur hafísinn náð sínu árlega lágmarki á Norðurhveli og fer héðan í frá vaxandi uns vetrarhámarki verður náð um það bil í mars. Á næstunni mun hið gagnstæða eiga sér stað á Suðurhveli, þar sem hafísinn stefnir í sitt árlega vetrarhámark, hafi það ekki þegar náð því. Lítil hætta er því á hafísskorti á jörðinni um langa framtíð enda ekki sumar á báðum pólum samtímis.
NORÐURHVEL
Eins og komið hefur fram þá var hafísbráðnun á norðurslóðum nokkuð frá sínu besta þetta sumarið enda voru aðstæður allt aðrar en til dæmis í fyrra þegar bráðnunin sló öll fyrri met. Nýliðið sumar á Norður-Íshafinu einkenndist af köldum lægðum með tilheyrandi skýjahulu og vindum sem dreifðu úr ísnum frekar en að pakka honum saman. Lítið af ísnum barst þó að aðalundankomuleiðinni austur af Grænlandi en í staðinn safnaðist hann fyrir í miklum mæli á hafsvæðunum norður af Kanada og Alaska þar sem hann varðveitist vel, að minnsta kosti fram á næsta sumar.
Á þeim svæðum sem snúa að Atlantshafinu var bráðnunin öllu meiri og má alveg tala um einstaklega lítinn ís á þeim hluta. Vegna lægðargangsins mynduðust einnig stór svæði innan ísbreiðunnar með mjög gisnum ís sem náðu upp undir sjálfan Norðurpólinn og munaði reyndar ekki miklu að vangaveltur mínar fyrr í sumar um íslausan Norðurpól yrðu að veruleika, en þar átti ég við að stórt íslaust svæði næði að myndast á sjálfum Norðurpólnum á 90° norður. Í yfirliti frá Bandarísku hafísstofnuninni frá 4. september var reyndar minnst á 150 ferkílómetra íslaust svæði sem opnaðist á 87° norður, en svo stórt íslaust svæði hefur ekki áður sést svo norðarlega á gervihnattaöld.
Kortin hér að ofan koma frá sjálfum Bandaríska sjóhernum og sýna áætlaða ísþykkt 19. september metárið 2012 og nú árið 2013. Eins og sjá má er talsverður munur milli ára. Sumarið 2012 pakkaðist ísinn þétt saman miðsvæðis, en nú í sumar er eins og ísinn hafi reynt að forðast sjálfan Norðurpólinn.
Ýmsar aðferðir má nota til að bera saman ástand íssins fyrr og nú. Á línuritinu hér að ofan sést hvernig árstíðasveiflan í flatarmáli hefur þróast frá því gervihnattamælingar hófust árið 1979 (af síðunni The Cryosphere Today). Ég hef teiknað inn nokkurskonar leitnilínur en þannig má sjá að vetrarhámörkin hafa dregist saman á tímabilinu um ca. 1 milljón ferkílómetra sem eru svo sem engin ósköp.
Öllu meira afgerandi er þróunin á sumarlágmörkunum sem hafa dregist saman að minnsta kosti um 2 milljónir ferkílómetra samkvæmt þessu. Sumarið 2007 var mikið tímamótaár og varð kveikjan af allskonar vangaveltum um að skammt gæti verið í íslaust Norður-Íshaf að sumarlagi. Sumarið 2012 bætti svo um betur og sást þá vel hversu viðkvæmur ísinn var orðinn og ljóst að nokkur slík sumur í röð gætu nánast gert út af við ísinn að sumarlagi. En sumarið 2013 var alls ekki þannig sumar og sýndi um leið að ísinn getur líka jafnað sig. Talað hefur verið um á fréttamiðlum að útbreiðsla ísinn hafi aukist um 60% frá því í fyrrasumar. Það getur vel verið, en hafa skal í huga að auðvelt er að auka í prósentum það sem lítið er. 60% aukning milli sumarlágmarka fyrir 30 árum hefði t.d. verið mjög erfið.
SUÐURHVEL
Stundum sést kvartað yfir því að hafísþróunin á Suðurhveli fái ekki sömu athygli og Norðurheimskautið þannig að hér kemur samskonar línurit fyrir þann hluta. Á suðurskautinu er meginland hulið jökli sem ísinn hringast umhverfis. Þarna er árstíðasveiflan meiri - ísinn hverfur að mestu á sumrin en vex upp úr öllu valdi að vetrarlagi enda fátt sem hindrar útbreiðsluna til norðurs. Þarna hefur ísinn heldur verið að aukast sem ýmsum þykir skjóta skökku við í hlýnandi heimi en þróunin er þó ekki nærri því eins afgerandi og á Norðurhveli og afleiðingarnar ekki sambærilegar.
Þótt það sjáist ekki á þessari mynd þá hafði útbreiðsla hafíssins á Suðurhveli í ágúst ekki mælst meiri en nú í ár. Vetrarhámarkið nær þó ekki met-toppnum frá í fyrra þegar kemur að flatarmáli en á þó kannski enn möguleika.
Það að ísinn á Suðurhveli fari lítillega vaxandi en ekki minnkandi virðist hafa valdið mönnum heilabrotum. Líklegasta skýringin nú til dags og það sem nýlegar rannsóknir styðja, eru öflugri vindar en áður umhverfis Suðurskautslandið, en vestanvindarnir sem þar eru ríkjandi stuðla einmitt að færslu íssins til norðurs samkvæmt lögmálum.
Ef einhver vill kenna auknum kuldum þarna suðurfrá um aukinn hafís þá er það varla aðalástæðan að þessu sinni, því Suðurskautslandið hefur undanfarna mánuði einmitt verið sá staður á jörðinni þar sem "hlýjast" hefur verið miðað við meðallag. Kaldan blett er þó að finna undan ströndinni sem liggur að Kyrrahafinu. Þetta má sjá á hitakortinu hér (frá NOAA) sem sýnir frávik frá meðallagi síðustu 90 daga.
- - - -
Þakka þeim sem lásu þennan pistil sem birtist á 6 ára afmælisdegi bloggsíðunnar. Kannski er þetta bara orðið gott í bili.
Splunkunýjar og nánari hafísfréttir frá hálærðum Bandarískum sérfræðingum er að finna á vef NSIDC National Snow & Data Center.
Hafís | Breytt s.d. kl. 08:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (37)
12.8.2013 | 22:19
Staðan í hafísmálum. Stefnir í íslausan Norðurpól?
Byrjum á því að skoða línurit frá Dönsku Veðurstofunni sem sýnir útbreiðslu hafíssins á norðurslóðum í ár borið saman við fyrri ár. Greinilegt er að 2013 er eftirbátur síðustu ára og mikið þarf til næstu vikur ef 2013 á að blanda sér í botnbaráttuna (eða toppbaráttuna eftir því sem menn vilja orða það).
En útbreiðsla er ekki allt. Þykktin og almennt heilbrigði íssins skiptir líka máli. Í síðasta yfirliti mínu frá því um miðjan júní hugleiddi ég þann möguleika að Norðurpóllinn gæti orðið íslaus og átti þá við Norðurpólinn sjálfan. Þá virtist ýmislegt benda til þess að gangur hafísbráðnunar gæti orðið með nokkuð öðrum hætti en undanfarin sumur vegna þrálátra lægða yfir Norðurpólnum nú í vor sem töfðu fyrir bráðnun og spóluðu ísnum út frá miðju og að jaðarsvæðum íshafsins.
Nú þegar langt er liðið á bræðsluvertíðina er ekki alveg hægt að segja til um hvernig fer með lágmarkið í ár og mögulegt ísleysi á Norðurpólnum en tæpt gæti það orðið. Lægðargangurinn hefur haldið áfram með litlum hléum í sumar og þar á meðal hefur ein ansi öflug verið að róta í ísnum núna undanfarna daga. Með lægðunum fylgir ekki bara vindur sem dreifir úr ísnum heldur líka kuldi og skýjahula sem hvorttveggja hefur að sjálfsögðu neikvæð áhrif á ísbráðnun. Norðurpólslægðir geta þó haft önnur áhrif núna síðsumars þegar ísbreiðan er orðin gisinn og þunn enda nær sjórinn þá að herja á ísflákana af meiri þunga með tilheyrandi saltaustri. Þetta kom berlega í ljós í fyrra þegar risalægð herjaði á ísbreiðuna þar sem hún var veikust fyrir og flýtti fyrir bráðnun, þó ekki sé hægt að fullyrða að sú lægð ein og sér hafi valdið metlágmarkinu í fyrra.
Kortin hér að ofan sýna áætlaða þykkt íssins 11. ágúst 2012 (vinstra megin) og 2013 (hægra megin). Árið 2012 endaði sem metár í lágmarksútbreiðslu og eins og sjá má höfðu þarna stór hafsvæði bráðnað útfrá strandlengjum Alaska og Síberíu og áttu eftir að gera enn meir. Hinsvegar var ísinn talsvert þykkur miðsvæðis og norðurpóllin þakinn +2ja metra þykkum ís samkvæmt kortinu og norður af Grænlandi og Kanadísku heimskautaeyjunum var talsvert af 4-5 metra þykkum ís. Nú um stundir árið 2013 er útbreiðslan talsvert öðruvísi og í samræmi við það sem ég hef lýst nema hvað að bæði árin er álíka íslétt Atlantshafsmegin. Útbreiðslan nú er almennt öllu meiri en á móti er ísinn að jafnaði þynnri (eða gisnari). Þetta á sérstaklega við nálægt sjálfum Norðurpólnum þar sem ástandið er mjög tæpt enda hafa lægðir sumarsins spólað hressilega yfir ísnum og gert mikinn usla. Einnig má vekja athygli á mjög litlum hafís í Austur-Grænlandsstraumnum, eða nánast engum, sem einmitt er vísbending um að lítið af ís hefur borist út úr sjálfu Norður-Íshafinu.
Hvernig þetta endar kemur svo í ljós í september. Myndin hér að neðan er tekin úr gervitungli 11. ágúst og grillir þar í hina raunverulega stöðu nálægt Norðurpólnum sem er þarna neðst í vinstra horni myndarinnar.
- - - -
Uppruni mynda:
Línurit: Danmarks Meteorologiske Institut: / http://ocean.dmi.dk/arctic/icecover.uk.php
Þykktarkort: U.S. Naval Research Laboratory / http://www7320.nrlssc.navy.mil/hycomARC/arctic.html
Ljósmynd: NASA / http://rapidfire.sci.gsfc.nasa.gov/subsets/?mosaic=Arctic
Heimildir eru héðan og þaðan, meðal annars hafísbloggsíðan mikla: Arctic Sea Ice.
Hafís | Breytt s.d. kl. 22:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (74)
15.6.2013 | 00:34
Hafísbráðnun sumarsins höktir af stað
Yfir sumartímann fara hlutirnir að gerast á Norður-Íshafinu því þá fer bráðnun hafíssins í gang fyrir alvöru uns hinu árlega lágmarki verður náð í september. Að þessu sinni verður spennandi að sjá hvort bráðnunin verður eins mikil og í fyrrasumar þegar nýtt lágmarksmet í útbreiðslu var sett. Það er þó ekki endilega hægt að búast við nýju meti strax því þótt hafísbreiðunni á norðurslóðum fari mjög hnignandi er ekki þar með sagt að ástandið versni á hverju ári, enda liðu fimm ár frá lágmarksmetinu mikla árið 2007 þar til það var slegið í fyrra. En hver er staðan nú? Verður algert hrun að þessu sinni eða skyldi hafísbreiðan ætla að braggast eitthvað á ný.
Línuritið hér að neðan fengið af vef dönsku veðurstofunnar og eins og skýrt má sjá stendur svarta línan fyrir árið 2013 en síðustu ár eru til viðmiðunnar ásamt meðalgildi áranna 1979-2000.
Samkvæmt þessu línuriti og öðrum sambærilegum er greinilegt hlutirnir fara nokkuð hægt af stað að þessu sinni. Útbreiðslan nú er meiri en á sama tíma undanfarin sumur sem hljóta að vera slæmar fréttir fyrir einlæga bráðnunarsinna og að sama skapi frábærar fréttir fyrir ýmsa aðra, enda er ástand íssins á norðurslóðum eitt af hitamálunum í loftslagsumræðunni.
En eitthvað hlýtur að liggja þarna að baki og til að reyna finna að finna út úr því koma hér kort ættuð frá Bremenháskóla sem sýna útbreiðslu og þéttleika íssins. Kortið til vinstri er frá 13. júní 2012 og kortið til hægri frá sama tíma nú í ár.
Munurinn á útbreiðslu íssins milli ára er nokkuð greinilegur enda var ísinn á þessum tíma í fyrra farinn að hörfa vel undan norðurströndum Alaska og Kanada og auk þess orðinn gisinn á þeim slóðum eins og guli liturinn ber með sér á meðan sjálft norðurpólssvæðið var lagt þéttum ís. Hinsvegar er allt annað uppi á teningnum í ár því nú ber svo við að guli liturinn, sem táknar minni þéttleika, er ríkjandi á stórum svæðum nálægt sjálfum norðurpólnum Rússlandsmegin. Þetta er ekki lítið atriði og getur haft mikið að segja um framhaldið í sumar því þessi veika staða svona nálægt sjálfum pólnum er vísbending um að þróunin í ár gæti verið með óvenjulegri hætti en verið hefur áður. Jafnvel þannig að við gætum séð opið íslaust haf á sjálfum Norðurpólnum sem væri mikil nýjung frá því menn fóru að fylgjast með.
En hvernig stendur á því að ísinn nú er gisinn í miðjunni en þéttari nálægt ströndum? Hefur veðrið eitthvað með þetta að gera? Þá er bara að skoða fleiri kort:
Á veðurkortinu til vinstri sem gildir þann 6. júní síðastliðinn sést hvar myndarleg lægð hefur lagt undir sig svæðið við norðurpólinn. Auk vorkulda í Alaska sem tafið hefur bráðnun á þeim slóðum hefur þessi kalda lægð verið mjög þrálát það sem af er sumri og náð að endurnýja sig í sífellu (eftir því sem ég hef fylgst með). Á ísrekskortinu hægra megin sést hvernig ísinn hrekst undan vindum af völdum lægðargangsins sem er einmitt skýringin á því hversu gisinn ísinn er nálægt miðju ísbreiðunnar. Ríkjandi vindáttir og hvassviðri brýtur ísinn upp og hrekur hann frá miðju og nær ströndum meginlandanna eða út úr íshafinu eins og hver önnur þeytivinda. Þetta er gerólíkt ástandinu í júní í fyrra þegar allt var með kyrrari kjörum og hæðarsvæði með tilheyrandi vindáttum sá til þess að ísinn hörfaði frá meginlöndunum, bráðnaði í sólinni og gisnaði á jaðarsvæðum. Síðar gerði svo ágústlægðin mikla mikinn usla í hálfbráðnaðri ísbreiðunni og átti sinn þátt í metlágmarkinu 2012.
Nú er bara spurning með framhaldið. Bræðsluvertíðin á eftir að standa fram í september og nú hefur ísinn hrakist til suðlægari svæða íshafsins, þar sem sólin er hærra á lofti og hlýtt loft frá meginlöndunum skammt undan. Framhaldið gæti orðið athyglisvert. Hugsanlega myndast stórt gat þarna í ísbreiðunni allra nyrst og ef suðlægari svæðin bráðna einnig er alveg möguleiki á óviðjafnanlegu hruni ísbreiðunnar síðar í sumar, þó ég ætla ekki að lofa því - kannski er sumarið einfaldlega of stutt. Bíðum bara og sjáum til, útbreiðslan akkúrat núna segir ekki allt, hafísinn er þynnri en fyrir nokkrum árum og viðkvæmari á alla kanta.
Rétt til glöggvunar í lokin kemur svo hér mynd af metlágmarkinu í fyrra, til að sjá hvað við er að eiga.
Hafís | Breytt s.d. kl. 01:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)