Færsluflokkur: Veður

Hvað veldur hlýnun jarðar?

Ég ætla ekki að fullyrða að ég hafi hið eina og rétta svar við þessari einföldu spurningu en ætla hinsvegar að notfæra mér í þessum langa pistli, samantekt sem ég sá á sínum tíma á vefnum wats up with that? sem vísaði síðan í aðra samantekt eftir veðurfræðinginn Joe D'Aleo, en greinar eftir hann birtast reglulega á icecap.us, en sú síða er mjög gagnrýnin á hlýnun jarðar af mannavöldum. 

Það sem Joe þessi D'Aleo hafði gert var að bera saman þrjá þætti sem oft eru taldir hafa áhrif á loftslag jarðar og finna út hver þeirra passaði best við hitafar í Bandaríkjunum á síðustu öld. Þessir þættir eru CO2 í andrúmsloftinu (gróðurhúsalofttegundin alræmda), virkni sólarinnar (total solar irradiance) og svo breytileiki í hafinu og þá einkum í Norður-Kyrrahafi og Atlantsahafi (Pacific Decadal Oscillation, PDO og Atlantic Multidecadal Oscillation, AMO). Ástæðan fyrir því að hann bar eingöngu saman við Bandaríkin eru efasemdir hans um að hnattrænar hitamælingar endurpegli hina réttu hitaþróun jarðar en í Bandaríkjunum vill svo til að núverandi hitafar er ekki svo mikið hærra en það sem var á árunum 1930-40, ekki ólíkt því sem reyndin er á Íslandi. Þegar búið var að bera saman þessa þrjá þætti með því að gefa þeim nokkurskonar einkunn eftir tölfræðilegri samsvörun (R2) kom það út að magn CO2 fékk lökustu útkomuna: 0,44 – breytilegur styrkur sólar fékk heldur betri einkunn: 0,57 – en það merkilega var að langmesta samsvörunin var við breytileika hafsins: 0,83. Þennan samanburð má svo sjá á þessum þremur línuritum hér að neðan sem sína tengsl þessara þátta við hitann í USA, (frá vinstri: CO2+hiti, Sólin+hiti og Hafið+hiti). Myndin birtist stærri ef smellt er á hana: 

Áhrifaþættir á hitafar í USA

 

Það sem ég ætla hinsvegar að gera er að bera þessa sömu þætti við hitafar allrar jarðarinnar. Ég veit að það er ákveðin óvissa í sambandi við þróun á hitafari jarðar og ekki útilokað að vegna þátta eins og breyttrar landnotkunar og aukins þéttbýlis getur verið möguleiki á ofmati á hitanum í dag miðað við það sem var áður. Samt vil ég trúa því að þau línurit sem sýna þróun hitans hnattrænt, séu í meginatriðum rétt og engin ástæða til að efast um að það hafi í raun átt sér stað talsverð hlýnun á jörðinni.

Hér að neðan koma því línurit sem sína hitafar jarðar að viðbættum ferlunum frá Joe D'Aleo. Ég get að vísu ekki boðið upp á svona R2-gildi en hinsvegar er lítið mál að leggja ferlana saman við hitalínuritið svipað og hann gerir. Fyrst kemur CO2+hitafar jarðar:

 

Hiti+CO2

Styrkur CO2 í andrúmslofti hefur aukist jafnt og þétt síðustu 100 ár með vaxandi hraða og ekki hægt að segja annað en það sé í góðu samræmi við heildarhlýnun jarðarinnar þegar þetta er skoðað svona. Hiti jarðar hefur hins vegar talsvert sveiflast og alls ekki verið sívaxandi. Greinilegur hitatoppur er í kringum árin 1940 eftir mikla hlýnun, svipað og í Bandaríkjunum, en síðan tók við kaldara skeið þar sem nánast ekkert hlýnaði í um þrjá áratugi og svo kom aftur mikil hlýnun fram til okkar tíma. Þessum sveiflum veldur greinilega eitthvað annað en magn CO2 í lofti. En þá er að skoða sólina+hitafar jarðar:

Hiti+sólin

Á línuritinu fyrir styrk sólarinnar er að búið að jafna út þeim 11 ára sveflum sem eiga sér stað í sólvirkninni en þannig fæst betri heildarmynd og betra að bera saman við hitaþróun jarðar en þarna sést greinilega viss fylgni við stóru hitasveflurnar á síðustu öld. Breytileiki í virkni sólarinnar er samt mjög lítill og dugar varla einn og sér til að hafa mikil áhrif á hitann nema með því að magna upp aðra þætti eins og t.d. skýjamagn eins og kenningar eru til um. Samkvæmt þessu er samt ekki hægt að sjá að aukning í styrk sólar eftir 1965 skýri þá miklu hlýnun sem orðið hefur síðust áratugi nema að hluta og þar að auki var sólvirknin heldur meiri á árunum kringum 1940-50. Þó má það alveg koma fram að þrátt fyrir sveiflur var virkni sólarinnar heldur meiri á 20. öld en síðustu aldir þar á undan. En næst er þá að bera saman breytileika sjávar+hitafar jarðar:

Sjór+hiti

Ferillinn sem sýnir breytileika sjávar og var með svo góða samsvörun við Bandaríkin er fenginn með því að leggja saman hitasveiflur sem eiga sér stað í Kyrrahafinu (PDO) og Norður-Atlantshafinu (AMO) en þær sveiflur virðast skipta um ham á nokkurra áratuga ára fresti og virka einhvenveginn þannig að hafið kólnar á einum stað og hlýnar á öðrum í staðinn og hefur í framhaldi af því mikil áhrif á veðurlag. Talað er um að þessi fyrirbæri séu ýmist í jákvæðum eða neikvæðum fasa eftir því hvort þau hafa áhrif til kælingar eða hlýnunar. Þessi breytileiki virðist geta skýrt mjög vel hitaþróun jarðar fram á 7. áratuginn en eftir það er samsvörunin heldur lakari en jákvæður fasi síðustu áratugi fer þó saman við hlýnun jarðar að hluta, svipað og tilfellið er með sólvirknina. El Nino og La Nina fyrirbærin í Kyrrahafinu koma þarna líka inní en talið er að þau eigi stærstan þátt í styttri hitasveflum jarðar sem eru áberandi á hitalínuritinu en nú er talið að fasarnir á Pacific Decadal Oscillation, PDO hafi áhrif á hvort hinir kælandi La Nina-straumar eða hinir heitu El Nino komi oftar upp.

Hvað má svo segja um þetta?

Ef línuritin eru nokkurnveginn rétt og sönn þá má draga nokkrar áliktanir:

1. Magn CO2 hefur aukist síðustu 100 ár jafnt og þétt með vaxandi hraða en án sveiflna, með þeim áhrifum að heildarútkoman fyrir alla síðustu öld er hlýnun.

2. Áhrif af völdum sveiflna í sólvirkni og breytileika í hafinu geta útskýrt sveiflur í hitafari jarðar en nægja ekki til að útskýra hversvegna núverandi hlýindaskeið er hlýrra en það sem var fyrir miðja síðustu öld.

3. Með því að bera saman ferlana fyrir breytileika sólarinnar og sjávarins kemur í ljós viss samsvörun á milli þeirra. Báðir ferlarnir toppuðu árin um 1940-1950, náðu svo botni á árunum 1965-1975 en stigu svo eftir það. Er þetta tilviljun eða getur verið að áhrif sólarinnar á hitasveiflur jarðar felist að einhverju leyti í áhrifum hennar á það hvernig straumar hafsins haga sér? Breytileiki í virkni sólar er ekki nema um 0,1% sem duga varla til mikilla áhrifa einn og sér, þannig að hér er kannski kominn mögnunarþátturinn sem sólin þarf að hafa til að hafa áhrif, hvernig sem það ætti að gerast. Um þetta hef ég ekkert séð þannig að þetta eru bara vangaveltur í mér. 

Hvað gerist svo næstu árin?

Ef hlýnun síðustu áratugi hefur fengið hjálp vegna áhrifa vegna breytileika í hitafari sjávar og/eða frá sólinni eins og gerðist fyrir miðja síðustu öld má búast við því að annað bakslag eða allavega stöðnun geti komið fram í hitafari jarðar svipað og átti sér stað eftir 1945. Það bakslag gæti verið byrjað enda árið í ár það kaldasta á þessari öld og í raun hefur varla nokkuð hlýnað á jörðinni síðustu árin. Í Kyrrahafinu virðist núna neikvæði fasinn á PDO vera kominn upp og spurning hvort sami fasi sé að koma upp í Norður-Atlantshafi auk þess sem sólin hefur sýnt af sér litla virkni undanfarið. Ef þetta er raunin, svo ekki sé talað um ef sólin ætlar í einhverja verulega lægð næstu áratugi, þá reynir á hversu mikið aukin gróðurhúsaáhrifin ná að bæta upp þá kælingu. En hinsvegar þarf þó alls ekki að vera ástæða til að afskrifa gróðurhúsaáhrifin þótt ekkert hlýni á jörðinn í einhver ár eða jafnvel nokkra áratugi því áhrif CO2 í lofti eru mjög þrálát og eiga enn eftir að aukast mikið og gætu vel lifað af smærri sveiflur af öðrum toga.

- - - - -  

Svo í lokin er nauðsynlegt að taka fram að loftslagsmálin eru öll mjög flókin og langt í frá að ég hafi einhverja heildarsýn yfir þetta allt saman, en það má alltaf reyna. Fleiri þættir hafa vissulega líka áhrif á hita jarðar eins og eldgos og agnarmengun sem ætti að valda lægri hita vegna dempunar á sólarljósi. En vilji einhver skoða þetta betur eru hér að neðan linkar sem vísa í áhrif hafsins á hita jarðar en þessi tengsl finnst mér vera að fá aukna athygi hjá vísindamönnum.

Next decade 'may see no warming'

La Nina and Pacific Decadal Oscillation Cool the Pacific


Nú er það svart – allt orðið hvítt

Þótt ég hafi um síðustu helgi spáð miklum harðindum hér á landi í vetur þá verð ég að viðurkenna að úr spánni hefur ræst svona heldur hraðar en ég hugði. Ofan á öll fjárhagsharðindin þar sem krónan og hlutabréfin hafa fallið svo um munar þá hefur snjórinn einnig fallið víða um land, langt fyrir tímann. Það er hinsvegar ekkert óvenjulegt þótt haustlaufin hafa fallið, Skagamenn eru svo auðvitað löngu fallnir en nú vonum við bara að Bubbi sé ekki fallinn.

Það er þetta með snjóinn. En þar sem ég er ekki með elstu mönnum þá man ég engan vegin eftir svona öflugum vetrarkafla svona strax í byrjum október, jafnvel þótt ég hafi haldið veðurdagbók í yfir 20 ár eins og ég hef nokkrum sinnum minnst á. Í þessa veðurdagbók skrái ég meðal annars hvort snjór sé á jörð um miðnætti hér í Reykjavík og þar kemur fram að hvít jörð hefur ekki verið svona snemma hausts á miðnætti í Reykjavík frá árinu 1986 þegar skráningar mínar hófust og það tvö kvöld í röð, sem þýðir að snjórinn hefur lifað sólarhringinn. Slíkur er kuldinn. 

Upp úr þessum skráningum mínum hef ég sett saman þessa mynd sem sýnir hvenær snjór hefur verið í Reykjavík síðustu 22 vetur en þessa mynd hef ég birt áður. Ásamt mörgu öðru merkilegu sést þarna hvað október er snjóléttur mánuður í borginni. Ef það hefur snjóað í mánuðinum hefur það verið yfirleitt verið undir lok mánaðarins og staðið stutt. Frá 1986 hafði fyrsti októbersnjórinn fallið þann 13. árið 1987 en október 1986 er snjóþyngstur, en viku eftir leiðtogafundinn það ár gerði mikið vetrarríki í borginni sem hélst út mánuðinn. Sjálfsagt hefur einhvern tíma snjóað svona snemma að hausti og í ár, en ég læt þetta tímabil sem ég hef skráð nægja. Svo er bara að vona að við hörkum af okkur þennan harðindavetur sem er framundan, hvort sem þau harðindi verða veðurfarlegs eðlis eða ekki.

snjór 86-08


20 stiga sumur í Reykjavík

Sumarið er ekki alveg búið en það má samt slá því föstu að heitustu dagarnir séu að baki og varla miklar líkur á því að hitinn fari að æða yfir 20 stigin hér í Reykjavík úr þessu þótt dæmi séu um það í september. Þótt ársmeðalhitinn í Reykjavík sé tiltölulega hár á íslenskan mælikvarða er borgin þannig í sveit sett að 20 stiga hiti telst alltaf til tíðinda. Frá árinu 1930 telst mér til að komið hafi 23 sumur þar sem hitinn hafi einhvern tíma náð 20 stigum, þannig að við getum samkvæmt því verið að tala um ca. þriðjung sumra.

Snemma í sumar skrifaði ég tvö pistla um það þegar hitinn rífur 20 stiga múrinn hér í borginni og fylgdi annarri þeirra línurit sem sýnir hvenær hitinn hefur náð því hitastigi. En þar sem sumarið stóð sig svona frábærlega að þessu sinni er ekki annað hægt en að birta myndina aftur í uppfærðri útgáfu. Súlurnar sem þarna eru á myndinni sýna hámarkshita hvers sumars frá 1930 og eru þau sumur sem hafa náð hámarkshita yfir 20 stigum aðgreind með gulum lit og eins og sjá má þá slær sumarið 2008 allt annað út.

20 stiga hiti

Það er athyglisvert þegar myndin er skoðuð hversu þétt 20 stiga sumrin komu á árunum 1934 til 1960, eða annað hvert ár að jafnaði enda talsvert hlýtt á því tímabili. Síðan varð breyting á, því eftir 1960 liðu sextán ár þar til loks kom 20 stiga dagur og það gerðist með glæsibrag því 9. júlí 1976 varð heitasti dagur 20. aldarinnar (24.3°C) og það á frekar köldu tímabili. Það met hefur síðan verið tvíbætt á þessari öld. Fyrst þann 11. ágúst 2004 (24.8°) og svo núna í sumar þann 31. júlí (25,7°).

Það má kannski velta því fyrir sér þegar myndin er skoðuð hvort möguleg efri mörk hitans í Reykjavík hafi eitthvað verið að hækka með árunum því á hlýju sumrunum árin 1930-1960 náði hitinn bara einu sinni almennilega yfir 22 stig. Kannski má kenna um mismunandi staðsetningu Veðurstofunnar í gegnum tíðina en svo er líka spurning hvort aukinn gróður og skjólsæld í borginni gefi tilefni til hærri hámarkshita á heitustu dögunum. Þessar vangaveltur breyta því þó ekki að svona er þetta samkvæmt opinberum gögnum og eins og hitafarið hefur verið almennt á landinu á þessari öld er kannski ekkert óeðlilegt að hitamet séu slegin.

(Heimildir eru fengnar af vef Veðurstofunnar og tímaritinu Veðráttan)

Eldri færslur um 20 siga hita í Rekjavík:
Hinn sjaldgæfi 20 stiga hiti í Reykjavík. Birt 9. júní
20 stiga sumur í Reykjavík
. Birt 12. júní
Örlítil veðurminning 2. Birt 9. júlí


Stormur aldarinnar eða stormur í vatnsglasi?

gustav31august

Nú er bíða og sjá hver afdrif fellibilsins Gústavs verða þegar hann skellur á ströndum Bandaríkjanna en þótt Gustav hafi þegar gert nokkurn usla á nokkrum Karíbahafseyjum þykir alltaf fréttnæmast þegar fellibyljir gera strandhögg á sjálfum Bandaríkjunum. Borgarstjórinn í New Orleans hefur beðið borgarbúa að búa sig undir „storm aldarinnar“ sem eru auðvitað stór orð eftir allt það sem á undan er gengið. New Orleans er vissulega sú borg í Bandaríkjunum sem er einna viðkvæmust ef stórir fellibyljir ganga þar á land enda liggur hún miklu leiti undir sjávarmáli þarna við óshólma Mississippifljóts og varin með flóðgörðum svo fólk geti gengið á þurru.

KatrinRita2005

Fellibylurinn hefur þó ekki náð þeim styrk sem Katrín hin ógurlega gerði í lok ágúst 2005, en áður en sá fellibylur gekk á land hafði hann náð hæsta styrk þ.e. styrk 5 á fellibyljaskalanum. Það sama gerði Fellibylurinn Rita í september sama ár. Báðir þessir fellibyljir höfðu þó misst sinn mesta kraft er þeir komu að landi og voru þá metnir í stærðinni 3. Fellibylurinn Gustav hins vegar hefur fram að þessu aðeins náð styrknum 4 og því ekki hægt að flokka hann sem einhvern fellibyl aldarinnar. Það sem þó skiptir væntanlega mestu máli er styrkurinn þegar hann kemur að landi en spár sögðu á sunnudag að Gustav geti numið land sem 4. stigs fellibylur og ef þetta verður að auki „direct hit“ á New Orleans getur útkoman vissulega orðið það sem þeir kalla „worst case scenario“. 

Munurinn á Gustav og Katrínu virðist líka vera þannig að samkvæmt spám mun Gustav ekki fara hratt yfir þegar hann gengur á land þannig að úrhelli sem honum fylgir mun standa lengur yfir þótt vindstyrkur fari þverrandi inn til landsins. Svo er ekkert víst að Gústav hitti endilega New Orleans en honum er reyndar spáð aðeins vestar við borgina þannig að ekkert er víst að verstu spár gangi eftir og það á líka eftir að koma í ljós hvort hann hangi í jafnvel í 3. stigi þegar hann kemur að landi .

hanna31augustNú svo þegar Gustav er genginn hjá þá bíður sá næsti átekta, Það er fellibylurinn Hanna sem hringsólar vestur af Bahamas en menn virðast ekki geta spáð fyrir um afdrif hans fyrr en Gústav hefur lokið sér af. Það er allavega líf og fjör á fellibyljaslóðum þetta árið ólíkt því sem hefur verið síðust tvö árin sem stóðu engan vegin undir væntingum ef má orða það svo.

 (Eins og sést eru allar myndirnar fengnar af fellibyljasíðu Accuweather)


mbl.is Draugabærinn New Orleans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gervitunglamynd af landinu á hitametsdegi

Á þessum merkisdegi er alveg ómögulegt annað en að þessi mynd af landinu okkar birtist. Þetta er MODIS gervitunglamynd og ekki annað hægt að segja en að landið hafi skartað sínu fegursta. Léttskýjað er víðast hvar á landinu nema norðvestanlands þar sem þokan hefur læðst inn flóa og firði og inn eftir dölum. Þessi dagur kemst auðvitað á spjöld Íslandssögunnar fyrir það að þá fór hitinn íReykjavík í fyrsta sinn yfir 25 gráður samkvæmt opinberum mælingum ásamt ýmsum öðrum hitametum sem slegin voru sunnan- og vestanlands. Nýja hitametið fyrir Reykjavík er sem sagt 25,7 gráður, sett síðdegis þann 30. júlí 2008 og sló út fyrra metið sem var 24,8 gráður frá því skömmu fyrir hádegi hins 11. ágúst árið 2004.

Rétt áður en þessi færsla var vistuð bárust fréttir af þrumuveðri suðaustanlands sem væntanlega kemur úr skýjaþykkninu sem þarna sést skammt undan landi. Þetta munu vera kuldaskil sem bera með sér dálítið svalara loft.

Island_30juli2008


Er góða veðrið frá því í fyrra að endurtaka sig?

vedurkort_22jun
 
Veðrið er svo gott í dag að elstu menn muna vart annað eins síðan frá því í fyrra, ef þeir muna þá svo langt. Allavega þá sé ég ekki betur en við séum komin með sömu stöðu á veðurkerfunum og einkenndi sumarið í fyrra. Lægðirnar fara yfir Bretlandseyjar og þaðan yfir suðurhluta Skandinavíu, á meðan sitjum við hinsvegar í ládeyðunni og getur varla kvartað nema í mesta lagi yfir smá úrkomu í grennd af völdum góðviðrisskúra. Í fyrra var þetta veðurlag ríkjandi frá því snemma í júní og til seinni hluta ágúst, við litla hrifningu Bretlendinga og Danamanna. Svo er bara að sjá hvað þetta veðurlag endist, en ég er frekar bjartsýnn fyrir hönd okkar Íslandsbúa.
 
 
 

20 stiga sumur í Reykjavík

20stigahiti

Í framhaldi af síðustu færslu þar sem ég fjallaði um hinn sjaldgæfa 20 stiga hita í Reykjavík, hef ég teiknað upp mynd sem sýnir á einfaldan hátt hvenær komið hafa sumur þar sem hitinn hefur einhverntíma náð 20 stigum hér í borginni frá árinu 1930. Hver súla á myndinni sýnir hámarkshita hvers sumars og eru þau sumur sem hafa náð hámarkshita yfir 20 stigum aðgreind með gulum lit.

Á árunum 1934 til 1960 komu nokkuð reglulega 20 stiga sumur enda var þá hlýtt á landinu. Sumarið 1939 stóð sig alveg sérstaklega vel þótt það sjáist ekki á myndinni en þá náðu 6 dagar 20 stigum þar af þrír í röð dagana 24.-26 júlí. Árið 1950 náði hitinn 23,1°C þann 17. júlí og hafði hitinn ekki áður komist svo hátt á öldinni.

Næstu áratugir eru nokkuð sérstakir því á 29 ára tímabili 1961-1989 fór hitinn aðeins tvö sumur yfir 20 stig en gerði það hinsvegar svo um munaði, í fyrra skiptið þann 9. júlí 1976, sem var heitasti dagur 20. aldar: 24.3°C. Árið 1980 komu svo tveir mjög hlýir dagar í röð: 30. júlí, 23,7°C og 31. júlí, 23,0°C. Þessir mjög svo hlýju dagar árin 1976 og 1980 eru svo enn merkilegri fyrir það að á þessum árum er kuldakaflinn á síðari hluta 20. aldarinnar í hámarki. Það tímabil hef reyndar áður kallað pínulitlu ísöldina, en það er önnur saga.

Með hækkandi hita um og eftir 1990 fór 20 stiga sumrum fjölgandi á ný en komu samt nokkuð óreglulega. Hitabylgjan í júlí 1991 var eftirminnileg með þremur 20 stiga dögum í röð, hæst náði hitinn þá 23,2°C þann 9. júlí. Eftir 6 sumur án 20 stiga komu svo þrjú 20 stiga sumur í röð árin 2002-2004. Þar er auðvitað frægust hitabylgjan mikla dagana 9.-12. ágúst 2004 þegar hitinn náði hæst 24,8°C, þann 11. ágúst, sem er hitamet í Reykjavík. Það sem af er þessu sumri hefur hitinn ekki náð 20 stigum enda ekki langt liðið á það og mikil hlýindi reyndar ekki í sjónmáli þegar þetta er skrifað (11. júní). Síðast fór hitinn yfir 20 stigin þann 13. júlí í fyrra þegar hann náði 20,5°C.

Læt þetta nægja af 20 stiga hitum að sinni, en áður en ég hætti ætla ég aðeins að minnast á hinn endann, þ.e. sumur með lægstan hámarkshita. Þar eru tvö sumur jöfn, því árin 1973 og 1989 komst hitinn í Reykjavík aldrei ofar en 15,6°C sem þætti auðvitað engan veginn boðlegt í dag. Hinsvegar er líka nauðsynlegt að taka fram að þótt hitinn í Reykjavík fari yfirleitt ekki upp úr öllu valdi er samt lítil hætta á því á sumrin að það komi virkilega kaldir dagar. Eins og með hitann þá ræður því staðsetning borgarinnar hér suðvestanlands og nálægðin við sjóinn.

(Heimildir eru fengnar af vef Veðurstofunnar og Veðráttunni)


Hlýnun getur varla verið mikil ógn á Íslandi

Fram kemur í frétt á mbl.is að íslendingar séu eina þjóðin þar sem meirihlutinn telur að loftslagsbreytingar hafi ekki alvarleg áhrif á umhverfið sem þeir búa. Ég fæ ekki betur séð en að meirihlutinn hafi bara rétt fyrir sér. Þótt hlýnun jarðar sé alvarlegt umhverfisvandamál víða um heim þá er erfitt að sjá að dálítil hlýnun geti verið skaðleg í heildina ef við hugsum bara um Ísland. Ef hlýnar á Íslandi skapast t.d. miklu betri aðstæður fyrir allskonar ræktun s.s. kornrækt og skógrækt. Hafísheimsóknir ættu að vera úr sögunni og minnkandi jöklar er ekki vandamál heldur bara breyting í þá átt sem var við landnám. Það er kannski helst óvissan með áhrifin á fiskistofna sem við þurfum að hafa áhyggjur af.
En hins vegar er ekki þar með sagt að við þurfum ekki að hugsa um þessa hluti, þótt áhrifin geta verið jákvæð á Íslandi er þetta fyrst og fremst hnattrænt vandamál og þar berum við ábyrgð eins og aðrir.
mbl.is Hlýnun ekki ógn á Íslandi?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er hlýnun jarðar komin í pásu?

Víkur nú sögunni að loftslagsmálum og ekki í fyrsta skipti á þessari síðu. En það sem ég er nú að velta fyrir mér er þáttur Kyrrahafsins í sveiflum í hitafari hér á jörð. Síðastliðinn vetur var að mörgu leiti athyglisverður enda var hann kaldari víða um heim en undanfarin ár. Flestir eru sammála um að þar sé um að kenna öflugum La Niñja straumi í Kyrrahafi sem þar hefur ríkt frá því um mitt ár í fyrra en hefur nú farið eitthvað minnkandi. Það sem gerist í Kyrrahafinu virðist því skipta miklu máli fyrir veðurfar í heiminum enda þekur þetta haf næstum 50% af öllu flatarmáli heimshafanna.

KyrrahafsstraumarStóra áratugahringrásin í Kyrrahafinu. En það er fleira í gangi þarna í Kyrrahafinu. Núna undanfarið hef ég tekið eftir vangaveltum um stærri hringrás sem er þarna í gangi og kallast Pacific Decadal Oscillation (PDO) og nær yfir áratugi. Þetta fyrirbæri er nú um þessar mundir talið vera komið í sinn kalda fasa sem þýðir að kaldir straumar koma að ströndum Norður-Ameríku og hefur síðan þau áhrif að þá eykst tíðni hinna köldu La Niñja strauma á meðan tíðni hinna hlýju El Ninjo minnkar að sama skapi. Þetta allt saman hefur síðan áhrif á hitafar um alla jörð. 

Síðustu áratugi hefur hlýnað mikið á jörðinni sem kemur heim og saman við það að þessi PDO hefur einmitt verið í hlýjum fasa síðan árið 1977, en áratugina þar á undan var negatíft ástand á sama tíma og engin hnattræn hlýnun átti sér stað. Ef þarna reynist vera orsakasamband á milli get ég ekki betur séð en þarna sé loksins komin almennileg skýring á því hvers vegna það hlýnaði ekkert á jörðinni uppúr miðri síðust öld þar til hlýnunin tók kipp á áttunda áratugnum og einnig gæti þetta skýrt hversvegna ekki hefur heldur hlýnað neitt að að ráði á allra síðustu árum. Ef rétt reynist að þessi kaldi fasi sé kominn upp af alvöru gæti hann varað ca. 20-30 ár með stöðnun á hnattrænni hlýnun vegna tíðari La Niñja, sem mun vega upp á móti þeirri hlýnun sem annars hefði orðið vegna gróðurhúsaáhrifa.

PDO

Mynd: Þróun hitastigs á jörðinni frá 1870 og til samanburðar hvenær áratugahringrásin í Kyrrahafinu PDO hefur í stórum dráttum verið í köldum og hlýjum fasa. Ath.þessar tímabilsskiptingar eru fengnar frá wattsupwiththat.wordpress. Á öðrum stað er talað um stutt tímabil í köldum fasa um 1920 en það kemur ekki fram hér.

Það eru fleiri svona fyrirbæri á jörðinni sem hafa áhrif á veðurfar, hér í grennd við Ísland er t.d. talað um að hlýnun síðustu ára geti geti kannski gengið til baka að einhverju leiti og þá væntanlega vegna svipaðra breytinga í Norður-Atlantshafinu, sem eru þó smærri í sniðum en sveiflurnar i Kyrrahafi. Semsagt margboðuð hlýnun jarðar er ekki ein brekka upp á við því náttúrulegir þættir koma alltaf inní sem ýmist bæta í eða draga úr áhrifum aukinna gróðurhúsaáhrifa eða geta jafnvel borið þau ofurliði tímabundið. Annars er loftslag jarðar og þróun þess auðvitað flókið fyrirbæri sem mín takmarkaða þekking getur enganvegin náð utanum en vonandi er þetta innlegg ekkert síðra en hvað annað.

Sjá nánar:

http://earthobservatory.nasa.gov/Newsroom/NewImages/images.php3?img_id=18012 

http://wattsupwiththat.wordpress.com/2008/04/29/nasa-pdo-flip-to-cool-phase-confirmed-cooler-times-ahead/

http://www.intellicast.com/Community/Content.aspx?ref=rss&a=126 

Eldri færsla á minni síðu: Um áhrif Kyrrahafsstraumana El Nino og La Nina á hitafar jarðar


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband