Færsluflokkur: Veður
2.7.2009 | 18:49
Hitamál
Nú þegar árið er hálfnað og veðuruppgjör júnímánaðar liggur fyrir er kominn tími á smá pælingar í sambandi við meðalhita og hvert árshitinn stefnir hér í Reykjavík.
Meðalhiti nýliðins júnímánaðar í Reykjavík var 10,1 stig sem er 1,1 stigi fyrir ofan meðallag eins og kemur fram í yfirliti veðurstofunnar. Meðalhitinn það sem af er þessu ári hefur einnig verið vel fyrir ofan meðallag og með sama áframhaldi ætti meðalhiti ársins að vera um 5,4°C eða rúmri gráðu yfir meðalhitanum hér í Reykjavík, sem er reyndar ekki nema 4,3°C og er þá miðað við árin 1961-1990 eins og venjulega. Þetta er hinsvegar í góðu samræmi við hitann síðustu 10 ár sem hafa verið mjög hlý.
Svo vill reyndar til að núverandi viðmiðunartímabil skarast nokkurn veginn við kalda tímabilið 1965-1995 sem þýðir að meðalhitatölur hér á landi eru nokkuð lágar, sama gildir reyndar líka víðar um heiminn. 30 ára viðmiðunartímabilið þar á undan var hinsvegar frekar hlýtt en langar áratugasveiflur virðast einmitt einkenna hitafar hér á jörð. Þetta þýðir það að viðmiðanir við meðalhita segja í rauninni lítið nema viðmiðunartímabilið sé tekið fram. Það flækir þó kannski rannsóknarvinnu og bókhald að vera sífellt að uppfæra meðalhitatölur á hverju ári og því láta menn sér því sjálfsagt nægja 30 ára meðaltöl sem eru uppfærð á 30 ára fresti.
Það má hugsa sér aðrar leiðir til að finna út meðalhita þó ég sé ekkert endilega að leggja til að þessu 30 ára kerfi verði breytt. En með þessum samanburði sem ég sýni hér að neðan er greinilegt meðalhiti í Reykjavík er mjög mismunandi eftir því hvaða tímabil er haft til viðmiðunnar.
4,3°C 1961-1990 núgildandi viðmiðunartímabil
4,9°C 1931-1960 eldra viðmiðunartímabil
4,6°C 1931-1990 tvö síðustu viðmiðunartímabil
4,9°C 1991-2008 það sem af er næsta viðmiðunartímabili
5,3°C 1999-2008 síðustu 10 ár
5,4°C 2001-2008 það sem af er þessari öld
4,7°C 1931-2008 öll þessi ár
Síðasta talan þarna 4,7°C er endurspeglar kannski raunhæfasta meðalhitann í dag enda inniheldur hún flest viðmiðunarár, ekki síst hin allra síðustu og svo tiltölulega kalt og hlýtt tímabil síðustu aldar. Meðalhitinn það sem af er þessari öld er greinilega mjög hár og spurning hversu langt aftur þarf að fara til að finna annað eins tímabil. Á hlýja tímabilinu á síðustu öld komst meðalhitinn þó í 5,2 stig á átta ára tímabilinu1939-1946.
Og til heiðurs júnímánuði má gera það sama til að bera saman meðalhita hans í Reykjavík:
9,0°C 1961-1990 núgildandi viðmiðunartímabil
9,6°C 1931-1960 eldra viðmiðunartímabil
9,3°C 1931-1990 tvö síðustu viðmiðunartímabil
9,6°C 1991-2009 það sem af er næsta viðmiðunartímabili
10,2°C 2000-2009 síðustu 10 ár
9,4°C 1931-2009 öll þessi ár
Ath. Þessar tölur er settar fram með fyrirvara um rétta útreikninga sem ég gerði út frá gögnum veðurstofunnar.
Svo er bara að þakka þeim sem nenntu að lesa.
![]() |
Hærri hiti og minni úrkoma í júní |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Veður | Breytt s.d. kl. 23:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
17.6.2009 | 07:59
17. júní-veðrið síðustu 20 ár
Nú þarf enginn að velkjast í vafa um það lengur hvernig þjóðhátíðarveðrið hefur verið í Reykjavík undanfarin ár því ég hef sett hér upp einfalt og umfram allt mjög snyrtilegt yfirlit sem sýnir veðrið á 17. júní í Reykjavík frá árinu 1990.
Þetta er allt byggt á eigin skráningum en ég hef skráð niður veðrið í Reykjavík á svipaðan hátt í fjölda ára og gefið hverjum degi einkunn á skalanum 0-8. Lituðu tölurnar fyrir aftan hitastigið tákna kalda, miðlungs og heita daga. Pílurnar sína vindáttir og vindstyrk, þar sem hlykkjótt píla er hægviðri og tvöföld píla strekkingsvindur.
Veðursælasti 17. júní á þessu tímabili var samkvæmt þessu árið 2005, en þá var sólskin, norðanátt og 16 stiga hiti. Árið 2001 var veðrið einnig mjög gott en þó ekki alveg eins hlýtt og var árið 2005. Lakasta veðrið var árið 2003 með suðaustanátt, rigningu og tvo í einkunn. Kaldast var hinsvegar 8 stiga hiti árið 2001 en framan af þeim júnímánuði voru margir slíkir kuldadagar.
Hvernig 17. júní-veðrið verður að þessu sinni á eftir að koma í ljós en ég mun uppfæra myndina í lok dags. Samkvæmt veðurspá eru þó líkur á breytilegu veðri, sem er auðvitað mjög íslenskt og gott veður.
- - - - -
Viðbót kl. 20.30
Nú hef ég fært inn 17. júní-veðrið fyrir árið 2009. Niðurstaðan var nokkuð breytilegt veður eins og búast mátti við. Sem betur fer var þó lítil sem engin úrkoma og sólin skein glatt rétt á meðan aðal hátíðarhöldin voru í miðbænum. Hægviðrið um morgunin hélst ekki út daginn því norðvestan gola kældi mannskapinn síðdegis ásamt þyngra skýjafari. Hitinn var 11-13 stig og skráist hér sem 12 stig að meðaltali. Einkunn dagsins er 5 stig.
Eins og sjá má er þetta alveg samskonar veðurskráning og árið 2007. Þann dag hefur þó væntanlega verið betra veður á landinu í heild því þá var ekki lægð upp við landið eins og nú. Norðvestanáttin 17. júní 2007 hefur því sennilega bara verið góðviðrishafgola hér í Reykjavík.
Veður | Breytt s.d. kl. 21:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
14.3.2009 | 08:52
Hlýjasta árið á Íslandi
Þegar spáð er í veður er yfirleitt átt við það veður sem er framundan. En það er líka hægt að spá í veður fortíðarinnar eins og ég ætla að gera núna þótt ekki sé um fjarlæga fortíð að ræða.
Með hverju ári sem líður fáum við betri mynd af því liðna og sjáum betur hvað stendur upp úr. Þetta á t.d. við þau miklu hlýindi sem voru hér á landi á árunum í kringum 2003 sem var nokkuð örugglega hlýjasta árið sem komið hefur á landinu eftir að mælingar hófust og stendur nokkuð vel upp úr miðað við næstu árin í kring, jafnvel þótt þau hafi einnig verið með hlýjasta móti. Sjálfsagt hafa margir hugsað í rigningarsudda og átta stiga hitanum snemma í janúar 2003 að svona ætti þetta kannski eftir að verða um ókomna tíð - aldrei aftur almennilegar vetur á íslandi og aldrei aftur skíðasnjór í fjöllum. En við vitum betur í dag.
Meðalhiti þessa hlýja árs 2003 var 6,1°C í Reykjavík sem er eina skiptið sem meðalhiti ársins hefur náð 6 stigum. Skammt þar á eftir koma árin 1939 og 1941 þar sem meðalhitinn náði 5,9 stigum (munurinn þó kannski innan óvissumarka). Ef við hinsvegar hliðrum aðeins til og tökum tímabilið frá september 2002 til ágúst 2003 fáum við 12 mánaða tímabil þar sem meðalhitinn er hvorki meira né minna en 6.6° gráður, sem 2,3 gráðum yfir opinberum ársmeðalhita.
Þetta eru í raun gríðarleg hlýindi og örugglega heitasta 12 mánaða tímabilið frá því mælingar hófust í Reykjavík um 1830. Allir mánuðir tímabilsins voru yfir meðallagi nema maí-mánuðurinn en þá kom eitt af þessum síðbúnu vorhretum með tilheyrandi kuldum. Svo er dálítið sérstakt að þrátt fyrir mjög hlýtt sumar 2003 kom engin stórkostleg hitabylgja á landinu en þó má segja að við höfum notið leifanna af hitabylgjunni miklu sem hrellti Evrópubúa það sumar. Það var hinsvegar árið 2004 sem ágúst-hitabylgjan kom hingað en sá mánuður náði þó ekki að slá út ágúst 2003 í meðalhita.
Annars komu umræddir 12 mánuðir í Reykjavík svona út: (ath. samanburðurinn fyrir aftan hitatölurnar eiga bara við tíman fram til 2003)

Þótt tölurnar hér séu bara frá Reykjavík eiga hlýindi tímabilsins einnig við um landið í heild. Það hefur yfirleitt verið nokkuð hlýtt í framhaldi af þessu 12 mánaða tímabili og við höfum upplifað marga góða mánuði á landinu undanfarin ár. Myndin hér að neðan er t.d. tekin af vefmyndavél í Reykjavík þann 14. mars árið 2004, nákvæmlega fimm árum áður en þessi færsla er birt. Um hádegi þann dag var hér 8 stiga hiti og eins og sjá má er ekki mikill vetrarbragur yfir borginni og snjóalög í Esjunni eins og á sumardegi.

Veður | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.3.2009 | 18:01
Er hlýnun á Íslandi hluti af náttúrulegri sveiflu?
Það hefur væntanlega ekki farið framhjá neinum að það hefur verið hlýtt á Íslandi undanfarin ár sem og annarstaðar í heiminum. Núverandi hlýindi á Íslandi hófust í kringum árið 1995 eftir um það bil 30 ára kuldaskeið sem náði hámarki ca. 1980, en um og fyrir miðja síðustu öld var hinsvegar margrómað hlýindaskeið sem stóð í um 35 ár. Þessar nokkurra áratugalöngu sveiflur í hita hljóta að vekja upp vissar grunsemdir um að núverandi hlýindaskeið sé ekki endilega komið til að vera, heldur sé hluti af einhverju gangverki náttúrunnar sem við fáum engu stjórnað hvað sem líður þeirri hnattrænu hlýnun sem annars er í gangi.
Það eru vissulega ýmsar misþekktar sveiflur í náttúrunni sem ná yfir lengri og skemmri tíma en þar á meðal eru góðar vísbendingar um hafstraumakerfi Norður-Atlantshafsins sem nefnist Atlantic Multidecadal Oscillation (AMO). Þessi sveifla virðist tengjast því að mismikill kraftur er í hringstraumakerfi sjávar og er þá talað um jákvæðan og neikvæðar fasa sem skiptir um ham á nokkurra áratuga fresti séu hugmyndir varðandi þetta kerfi réttar. Þegar fasinn er jákvæður er ein afleiðingin sú að hlýrri sjór á greiðari leið með Golfstraumnum á okkar slóðir og alla leið upp í Norður-Íshaf og getur því einnig haft sín áhrif á þróun hafíssins þar. Ýmsir aðrir veðurþættir eru einnig tengdir þessari Atlantshafssveiflu eins og tíðni stórra fellibylja og sveiflur í úrkomu hér og þar í löndunum kringum Norður-Atlantshaf, fer þó ekki nánar út í það.
Á myndinni hér að neðan kemur fram það sem þessi færsla snýst annars um, en það er samband þessarar Atlantshafsveiflu við hitafar á Íslandi. Myndin sem í bakgrunni sýnir styrk AMO eins og hann hefur verið mældur eða áætlaður aftur til ársins 1856 og sjást þar vel hinir hlýju og köldu fasar sem koma fram á nokkurra áratuga fresti (mynd:Wikipedia). Rauða línan sýnir hinsvegar á einfaldaðan hátt hitaþróun á Íslandi og er þá miðað við hitann í Stykkishólmi þar sem búið er að jafna út öllum smærri hitasveiflum (teiknað eftir línuriti frá Veðurstofunni).
Þegar þessi línurit eru skoðuð svona saman er varla hægt að segja annað en að hitafar á Íslandi sé nokkuð tengt þeim sveiflum sem eiga sér stað í hafinu og þarf kannski ekkert að koma neinum á óvart. Þótt það komi ekki vel fram á hitalínuritinu þá urðu talsvert umskipti í veðri á Íslandi til hins betra á árunum eftir 1995 á sama tíma og AMO hrökk nokkuð ákveðið í hlýjan jákvæðan fasa. Hversu lengi þessi jákvæði fasi mun svo standa er tæplega vitað enda erfitt treysta á svona gangverk þegar svo margt annað spilar inn í. En þegar og ef kerfið fer í bakkgírinn hlýtur að mega álykta sem svo að því muni fylgja kólnandi veðurfar á landinu á ný, með öllu sem því fylgir, kannski eftir svona 10-20 ár. Það er hinsvegar spurning hvort það hugsanlega bakslag verði eins svalt og tímabilið 1965-1995 var hér á landi, því ef við trúum á að við lifum í hlýnandi heimi ættu áhrifin að verða þau að kuldatímabilin verða sífellt vægari og hlýju tímabilin að sama skapi hlýrri.
Allavega hlýtur að vera varasamt að líta á það hlýja tímabil sem við upplifum þessi árin sem eitthvað sem sé komið til að vera og það er kannski ennþá varasamara að álíta að hlýnun síðustu ára muni bara halda áfram eins og ekkert sé. Með þessu er ég þó ekkert endilega að geri lítið úr hlýnun vegna aukinna gróðurhúsaáhrifa, enda er það allt annað dæmi og stærri atburður bæði í tíma og rúmi.
- - - - - -
Til að gera grein fyrir því að Atlantic Multidecadal Oscillation er ekki bara minn eigin skáldskapur má lesa nánar um fyrirbærið hér: http://en.wikipedia.org/wiki/Atlantic_Multidecadal_Oscillation og hér: http://www.intellicast.com/Community/Content.aspx?a=127
Einnig er sjálfsagt að vísa í grein á vef Veðurstofunnar um hitafar á Íslandi eftir 1800. Þar er að vísu ekkert talað um þessar AMO-sveiflur: http://www.vedur.is/loftslag/breytingar/fra1800/hitafar/
Veður | Breytt s.d. kl. 18:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
3.2.2009 | 12:42
Veðurskráning fyrir janúar
Þeir sem þekkja mig eða mín skrif ættu að vita að ég er veðuráhugamaður umfram meðallag já, kannski bara nokkuð vel yfir meðallagi. Upphaf og endir þessa veðuráhuga er veðurdagbókin góða sem ég hef haldið síðan í júní 1986 og segir af veðri hvers dags í Reykjavík. Upphaflega var meiningin að skrá niður veðrið í eitt sumar en þar sem þetta reyndist skemmtilegra en ég átti von á er ég enn að, og nú að loknum janúarmánuði hef ég alls skráð 278 mánuði og með því að beita ýmsum ráðum í gegnum tíðina vantar ekki inn einn einasta dag.
Hver mánuður er skráður á eina blaðsíðu og allt handskrifað. Þetta er gert á nokkuð staðlaðan hátt en skráningarformið hefur haldist óbreytt frá upphafi. Í skráningunum reyni ég að lýsa nokkurskonar meðalveðri hvers dags en ekki veðrinu á ákveðnum tímapunkti. Nokkrum sinnum hef ég vitnað í þessar skráningar mínar en nú er stóra stundin runnin upp því hér sýni ég í fyrsta skipti hvernig ég skrái heilan mánuð.
Svo ég lýsi þessu aðeins þá er dagsetningin í fyrsta dálki en svo kemur veðurlýsing sem sýnir sólskin, skýjafar og úrkomu. Næst er það vindstyrkur og vindátt. Síðan kemur hitinn yfir daginn og tákn um það hvort dagurinn sé kaldur (kassi), hlýr (hringur) eða nálægt meðallagi (þríhyrningur). Næst kemur loftvog á miðnætti svo jörð á miðnætti: auð jörð, hvít eða blaut. Í aftasta dálki er veðursfarsleg einkunn sem gefin er eftir ákveðnu kerfi á skalanum 0-8 stig útfrá veðurþáttunum fjórum: sól, úrkoma vindur og hiti. Neðst á síðunni eru svo nokkrar samantektir.
Þótt ýmislegt hafi gengið á í þjóðfélaginu núna í janúar var veðrið yfirleitt með rólegasta móti eins og þarna sést. Þetta var hlýr mánuður í Reykjavík, meðalhitinn yfir daginn samkvæmt þessum skráningum er 2,2°C en samkvæmt opinberum tölum var hitinn 1,8°C, en þar er um sólarhringsmeðalhita að ræða. Fyrri hluti mánaðarins var sérstaklega hlýr og nokkuð úrkomusamur síðan tók við tímabil með óvenjusamfelldum lágum loftþrýstingi og svo frekar köldu veðri undir lokin. Meðaleinkunnin 4,5 er nokkuð góð útkoma fyrir janúar en meðaleinkunn fyrir janúar frá 1986 hjá mér er annars um 4,2 stig.
Veður | Breytt s.d. kl. 12:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.1.2009 | 21:43
Um bókina Gróðurhúsaáhrif og loftslagsbreytingar
Núna rétt fyrir jólin kom út bók sem ástæða er til að minna á en hún heitir Gróðurhúsaáhrif og loftslagsbreytingar og er eftir veðurfarsfræðinginn Halldór Björnsson sem starfar á Veðurstofu Íslands. Þrátt fyrir að þetta sé hin þarfasta bók um eldheitt málefni hefur hún ekki fengið mikla umfjöllun, enda hefur fólk um ýmislegt annað að hugsa þessa dagana. Hún fór þó ekkert fram hjá mér enda hef ég sjálfur blandað mér í loftslagsumræðuna stöku sinnum á þessum vettvangi og skrifað eins og sá sem þykist hafa eitthvað vit á málum.
Það sem er í bókinni
Bókin hefst á mjög ýtarlegum útskýringum á eðlisfræðinni að baki gróðurhúsaáhrifunum og varmabúskap jarðar. Saga kenningarinnar er rakin og svo eru flækjur sem gera spár um framtíðina óvissa útskýrðar, en þar er um ræða þætti sem ýmist hafa dempandi eða magnandi áhrif ef hlýnun á sér stað. Síðan er farið yfir loftslagsspá 21. aldar þar sem fjórða úttekt IPCC kemur mikið við sögu, afleiðingar hlýnunar eru metnar, Kyoto bókunin er rædd og síðast en ekki síst er umfjöllun um aðgerðir og 2°C markið, sem er talið hámark þeirrar hlýnunar sem má eiga sér stað ef ekki á að koma til hættulegrar röskunar.
Í svona efnismikilli bók er auðvitað margt sem maður var ekki með á hreinu áður. Ég hef til dæmis ekki áður lesið jafn góðar útskýringar á eðli gróðurhúsaáhrifa, sem eru í raun ekki beint gróðurhúsaáhrif heldur áhrif-endurgeislunar-innrauðs-ljóss en án þeirra áhrifa væri hitastig jarðar um 30° lægra en það er nú. Það er líka athyglisvert hvað þetta eru í raun gömul fræði en einn sá fyrsti til að benda á hættuna af auknu útstreymi C02 var Svíinn Arrhenius sem fékk Nóbelsverðlaun árið 1904. Samkvæmt hans mati átti að geta hlýnað á jörðinni um 5-6°C ef styrkur CO2 í lofti myndi tvöfaldast. Með aukinni vitneskju og endalausa útreikninga áætla menn í dag að afleiðingar tvöföldunar CO2 séu á bilinu 2,04,5°C. Óvissan er þó talin meiri á efri mörkunum.
Það sem er ekki í bókinni
Í ljósi umræðunnar þá er athyglisvert að í umræddri bók er eiginlega hvergi fjallað um sólvirkni. Að vísu er bent á það sem staðreynd að kólnað hafi í heiðhvolfinu á sama tíma og hlýnað hefur í veðrahvolfinu en það á einmitt að vera í samræmi við aukin gróðurhúsaáhrif, þ.e. hlýnunin hefur ekki komið utanfrá. Það hefði samt alveg mátt taka þátt sólarinnar fyrir, en til eru vísindamenn sem spá beinlínis minniháttar-ísöld á næstu áratugum vegna minni virkni sólar.
Einnig saknaði ég umfjöllunar um áratuga-hitasveiflurnar í Kyrrahafinu (PDO) og Norður-Atlantshafinu (AMO) en sveiflur í þeim virðast ráða miklu um þróun hitafars og jafnvel ástand Norðurheimskautsíssins. Einnig er lítið fjallað um El Niño og La Niño áhrifin. Þó nokkuð er þó fjallað um stóra færibandið og ýmislegt annað varðandi þátt sjávarins.
Hættuleg framtíð eða hvað?
Ef ekkert róttækt verður gert til að hamla gegn loftslagsbreytingum af mannavöldum er sagt að mikil hætta steðji að lífsskilyrðum þeirra milljarða manna sem byggja jörðina, bókin styður það sjónarmið og færir vissulega rök fyrir því. En þótt engin dómsdagsspá hafi verið eins vel undirbyggð með vísindalegum rökum eru ekki allir sannfærðir. Kannski eru einhverjir náttúrulegir þættir vanmetnir í öllu dæminu sem gætu virkað á móti þeirri hlýnun sem spáð er. Ég held þó að kenningin um hlýnun vegna aukinna gróðurhúsaáhrifa sé þess eðlis að hún þoli talsverð áföll, því jafnvel þótt ekkert hlýni á jörðinni næstu einn eða tvo áratugi þarf kenningin ekki að falla enda er um langtímahlýnun að ræða sem leggst ofan á aðrar hitasveflur af náttúreulegum orsökum. Hinsvegar gæti tímabundin stöðnun á hlýnun eða jafnvel kólnun, hæglega afvegaleitt umræðuna að ósekju og vakið upp ástæðulausan ótta um yfirvofandi ísöld.
- - - -
Að lokum er hér splunkunýtt línurit frá NASA Goddard Institute for Space Studies (GISS) sem sýnir hitaþróun jarðar frá árinu 1880.
Veður | Breytt 24.1.2009 kl. 00:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.1.2009 | 11:54
Af lægðum og geðlægðum
Eins og ástandið er í dag er orðið erfitt að halda uppi bloggsíðu sem fjallar um eitthvað annað en peninga og pólitík. Eðlilega smitar ástandið útfrá sér og litar alla umræðu enda er það nánast siðferðisleg skilda hvers manns í dag að vera ýmist reiður, hræddur eða þunglyndur.
En þá að efni pistilsins sem að þessu sinni fjallar um veðursálfræði. Stundum heyrir maður fólk segja óháð öllu bankahruni að það hljóti að vera einhver lægð á leiðinn eða kannski lægð yfir landinu og tengir fólk það þá við einhverskonar þyngsli sem liggja í loftinu sem hefur áhrif á líkamlegt ástand eða geðslag. Þannig eiga veðurfarslegar lægðir að bera ábyrgð á allskonar skrokkverkjum, letiköstum og jafnvel tímabundnu þunglyndi.
Það er auðvitað ágætt að kenna utanaðkomandi aðstæðum um skort á eigin vellíðan og varpa ábyrgðinni yfir á það sem við fáum ekki stjórnað. En hvað með svona veðurlægðir, ætli það sé eitthvað til í þessari tengingu milli loftþrýstings og líkamlegs ástands? Veðurfarsleg lægð myndast samkvæmt fræðunum þegar hlýr loftmassi mætir kaldara lofti og þar sem heita loftið er léttara í sér skrúfast það yfir það kalda svo úr verður hringuppstreymi í kringum miðju sem við köllum lægðarmiðju. Þetta uppstreymi lofts þýðir að loftvogir mæla LÉTTARA loft enda hefur loftþrýstingur á svæðinu LÆKKAÐ. Þetta er öfugt við það sem gerist með hæðarsvæði því þá á sér stað niðurstreymi lofts með hærri loftþrýstingi.
En það sem ég vildi segja með þessu er það er varla er hægt að tengja veðurfarslegar lægðir við einhver þyngsli í lofti. Kannski er það bara orðið LÆGÐ sem ruglar fólk í ríminu eins og um sé að ræða geðlægð eða ládeyðu. Kannski mun fólki líða betur ef lægðir væru kallaðar uppstreymi eða jafnvel upplyfting sem hljómar mun betur og er alveg jafn lýsandi á þessu veðurfyrirbæri.
Þegar þetta er skrifað er loftþrýstingur hér í Reykjavík ekki nema 970 hPa en á næstu dögum mun mikið lægðarsvæði hringsóla kringum Ísland og má þá búast við að loftþrýstingur falli enn meir, okkur öllum til mikillar upplyftingar.
Myndin sem fylgir greininni er MODIS gervitunglamynd, en hún var tekin þann 4. september árið 2003 og sýnir myndarlegan lægðarhvirfil suðvestur af landinu.
Veður | Breytt s.d. kl. 11:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.1.2009 | 11:30
Veðuruppgjör 2008
Þeir hafa verið margir frídagarnir undanfarið og góður tími gefist til að sinna ýmsum mismerkilegum hlutum og eins líka til að gera ekki neitt, sem er auðvitað mjög gott. Hvað mig varðar þá hef ég varið tímanum undanfarið meðal annars til að skoða veðrið á liðnu ári enda eru uppgjör tengd veðrinu ólíkt meira upplífgandi nú um stundir heldur mörg önnur.
Til að koma veðri síðasta árs til skila á sem einfaldastan hátt hef ég útbúið mynd sem sýnir hitafar, sólskin og úrkomu liðins árs í Reykjavík í einu lagi, en svipaða mynd gerði ég einnig í fyrra. Rauða línan sýnir hvernig meðalhiti hverrar viku þróaðist yfir árið og er unnin upp úr mínum eigin skráningum en þar er um að ræða hitann yfir daginn en ekki meðalhita sólarhringsins. Granna svarta línan sýnir svo hvernig hitinn ætti að vera miðað við nokkurskonar meðalárferði.
Gulu sólskinssúlurnar eru teiknaðar útfrá gögnum Veðurstofunnar og sýna sólskin í mánuðinum hlutfallslega (%) miðað við meðalár. Þannig táknar súla nálægt gildinu 100 að sólskin hefur verið í meðallagi en svo vill til að hitaskalinn til vinstri gefur síðan ágæta vísbendingu um fjölda sólskinsdaga.
Úrkomusúlurnar eru einnig teiknaðar eftir gögnum veðurstofunnar og sýna úrkomu hvers mánaðar í millimetrum miðað við skalann til hægri. (eða í cm miðað við skalann til vinstri).
Svo maður fari aðeins yfir þetta þá var hitafar ársins ekkert sérstaklega óvenjulegt miðað við síðustu ár. Þetta var hlýtt ár sögulega séð. Yfir vetrarmánuðina voru miklar hitasveiflur eins og oft vill verða en ólíkt mörgum nýliðnum árum var samt lítið um langvarandi vetrarhlýindi að þessu sinni en uppistaðan í góðum meðalhita ársins var hlýtt sumar eftir hlýtt vor. Í maímánuði kom til dæmis ekkert bakslag með köldum norðanáttum og varð mánuðurinn sá hlýjasti síðan 1960. Hitatoppur ársins er síðan mjög áberandi, en frá 25. júlí til 1. ágúst gerði fjóra mjög hlýja daga í Reykjavík, hæst komst hitinn í 25,7°C þann 30. júlí sem er nýtt hitamet í borginni. Það haustaði mjög snöggt í byrjun október og var mánuðurinn álíka kaldur og nóvember sem gerist ekki oft.
Sólskin á árinu var yfir meðallagi en þar er helst því að þakka að sólskin í júnímánuði varð nálægt tvöfalt það sem gerist venjulega og endaði í 2.-3. sæti yfir sólríkustu júnímánuði í Reykjavík, en jafnsólríkt varð árið 1924. Sólin skein hinsvegar lítið í maí enda óvenjulítið um sólríkar og kælandi norðanáttir.
Úrkoman var líka mjög mismikil, heldur meiri en í meðalári og gjarnan í öfugu hlutfalli við sólskinið eins og eðlilegt er. Úrkoman í júní var ekki nema 13 millimetrar enda ekki nema einn almennilegur rigningardagur í mánuðinum (7. júní). Nokkrir mánuðir voru svo talsvert úrkomusamir og þá sérstaklega september en þar vantaði ekki nema 2 mm til að úrkomumet mánaðarins frá árinu 1887 yrði slegið.
Margt meira má skrifa um veðrið á árinu en ýmsar merkilegar veðuruppákomur áttu sér svo stað á landsvísu og á einstökum stöðum en þetta yfirlit nær aðeins til veðursins í Reykjavík, enda er það mitt heimapláss. Veðurstofan gera þessu auðvitað ágætis skil á sinni heimasíðu og svo hefur veðurfræðingurinn Einar Sveinbjörnsson gert ýmsum hápunktum veðursins 2008 skil á sinni bloggsíðu.
Veður | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.1.2009 | 13:38
Árshiti síðustu 100 ára í Reykjavík á einni mynd
Veðurstofan hefur upplýst að meðalhiti ársins í Reykjavík hafi náð 5,3°C. Það er í ágætu samræmi við hita síðustu ára en heilli gráðu yfir meðalhita viðmiðunartímabilsins 1961-'90. Til að sýna árshitann í víðara samhengi hef ég útbúið nokkuð litríka mynd að hætti hússins þar sem hægt er að bera saman árshita síðustu 100 ára í Reykjavík samkvæmt opinberum gögnum. Í stað þess að sýna þetta á línuriti eins og venjan er, eru árin nú sýnt með kössum sem eru staðsettir eftir hitaskalanum til vinstri. Hver áratugur hefur síðan sinn lit til aðgreiningar. Undir myndinni má svo lesa nánari athugasemdir.
Ef myndin er skoðuð sést að árið 2008 er þarna í ágætum félagsskap með árunum 1953 og 1956 með 5,3°C í meðalhita. Hlýjast er árið 2003 og árin 1939 og 1941 eru svo í 2-3 sæti, en þessi þrjú ár eru sögulega séð afar hlý og marka nokkurn veginn hitatoppana tvo sem hafa komið á landinu síðustu 100 árin. Talsvert köld ár komu um og eftir árið 1979 sem situr nokkuð afgerandi á botninum með meðalhitann aðeins 2,9°C sem er talsvert kaldara en köldu árin í kringum frostaveturinn mikla 1918, en til að finna kaldara ár en 1979 þarf að fara aftur til ársins 1892.
Það er athyglisvert hvað hitasveiflur hafa verið litlar eftir árið 2000 sem eru öll fyrir ofan 5 gráðurnar sem þýðir að meðalhiti síðustu ára er hærri en hefur verið áður. Á fjórða og fimmta áratugnum komu vissulega mjög hlý ár en meðalhiti þeirra ára var hinsvegar dreginn niður af lakari árum sem þá komu inn á milli.
Svo er bara spurning hvað gerist á þessu ári sem er framundan en mörgum á þó sjálfsagt eftir að hitna í hamsi á árinu 2009 burt séð frá veðrinu.
![]() |
Hitinn yfir meðallagi árið 2008 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Veður | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
13.12.2008 | 17:04
Árið 2008 er kaldasta árið það sem af er öldinni
Nú er búið að gefa það út að þetta ár verður það kaldasta á jörðinni síðan árið 2000. Þegar svona fréttir birtast er auðvitað hægt að túlka þær á mismunandi hátt eftir því hvaða viðhorf menn hafa til loftslagshlýnunar af mannavöldum. Kaldasta árið það sem af er þessari öld hljómar vissulega ekki vel á sama tíma og allt á að vera hlýna. Hinsvegar er árið 2008 samt í 10. sæti yfir hlýjustu árin frá því mælingar hófust en þessi 10 hlýjustu ár hafa öll átt sér stað á síðustu 15 árum. Á árunum fyrir 1980 hefði þetta ár hins vegar verið algerlega út úr kortinu vegna hita, svo mikið hefur hlýnað á jörðinni undanfarna áratugi.
Á meðfylgjandi línuriti sem birtist með frétt um þetta á vef Guardian er sýnd hitaþróun jarðarinnar frá miðri 19. öld samkvæmt gögnum frá Met Office's Hadley Centre. Á þessari mynd má greinilega sjá talsverðar sveiflur, ekki bara á milli ára heldur líka á milli áratuga. Það má alveg velta því fyrir sér þegar myndin er skoðuð hvort ákveðnum toppi hafi verið náð um og eftir árið 2000 og hvort eitthvað bakslag sé komið í hitafar jarðar. Það bakslag gæti kannski verið svipað því sem átti sér stað uppúr 1940 og jafnvel einnig árið 1880. Ef svo er þá erum við með 3 megin-hitabakslög á 60 ára fresti, þótt langtímaþróunin liggi upp á við.
Annars er ómögulegt að segja hvar við erum stödd í dag. Árið 2008 er hugsanlega bara eitt stakt kalt ár en gæti líka verið byrjunin á tímabundinni niðursveiflu eða stöðnun á hita eins og ýmislegt bendir reyndar til, meðal annars vegna þess sem er að gerast í Kyrrahafinu, en það stóra hafsvæði virðist vera að læsast í köldum fasa sem getur varað í nokkur ár eða áratugi (sjá hér). Hinsvegar valda gróðurhúsáhrifin ein og sér tæplega áratugasveiflum í hita því aukningin á CO2 er stöðug, en þau geta vel átt sinn þátt í heildarhlýnun síðustu 100 ára.
Ég lagði annars dálitla vinnu í að skoða hugsanleg áhrif sólarinnar og hafsstrauma á hitafar í færslu sem ég skrifaði núna í október þar sem spurt var í hinni mestu hógværð: Hvað veldur hlýnun jarðar?
Veður | Breytt 15.12.2008 kl. 11:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)