19.12.2009 | 12:46
Um loftslagspólitík, loftslagsvísindi og loftslagstrúarbrögð
Þó ég hafi oft og mörgum sinnum blandað mér í loftslagsumræðuna hér á blogginu þá hef ég eiginlega algerlega látið fram hjá mér fara þessa miklu loftslagsráðstefnu sem fram hefur farið í snjókomunni í Kaupmannahöfn. Ég vil þó ekkert gera lítið úr því sem þar hefur farið fram enda er málefnið stórt og krefst mikilla fórna af íbúum jarðar. Það er kannski bara þessi pólitíska hlið á málinu sem ég nenni ekki að fylgjast með og er því varla viðræðuhæfur um það sem rætt hefur verið um í Köben. Ég held að ég hafi þó séð forseta Frakklands tala um það að menn væru ekki þangað komnir til að ræða um loftslagsmál heldur aðgerðir, sem er sjálfsagt alveg rétt, ráðstefnan var ekki vettvangur til að deila um hvort maðurinn ætti sök á loftslagshlýnun því að loftslagsfræðingar segjast þegar vera búnir að komast að því að svo sé.
Það er auðvitað ekki hlutverk stjórnmálamanna að hrekja vísindin, þeirra hlutverk er að ræða pólitík og aðgerðir í loftslagsmálum eru pólitík. Það eina sem stjórnmálamenn þurfa í raun að vita í þessu máli er að aukin útblástur gróðurhúslofttegunda veldur hlýnun sem hefur slæmar afleiðingar fyrir mannkynið í framtíðinni og því þarf að minnka útblástur með pólitísku samkomulagi. Að komast að því samkomulagi er hins vegar erfitt, því það krefst fórna.
Það eru alls ekki allir vera sannfærðir um að maðurinn hafi áhrif á loftslag jarðar, kalla þetta jafnvel trúarbrögð sem á auðvitað að vera niðrandi og vísar til þess að það sé ekki vísindaleg hugsun að baki afstöðu þeirra sem boða hlýnun jarðar af mannavöldum. Samt er það nú svo að kenningin um hlýnun jarðar af mannavöldum er afrakstur vísindamanna en ekki heimsendaspámanna. Það má kannski deila um ýmsa hluti eins og hvort hlýrra hafi verið fyrir þúsund árum eða ekki og hvort einhverjar hokkýkylfur séu réttar eða ekki, enda er óvissa alltaf á ferðinni í þessum málum. Það getur líka vel verið að einhverjir vísindamenn hafi í auglýsingaskyni freistast til að hagræða einhverjum upplýsingum. Hvað sem því líður eru flestir loftslagsvísindamenn samt gallharðir á því að núverandi hlýnun jarðar sé bara rétt byrjunin á þeirri miklu hlýnun sem framundan er á næstu öldum, nema gripið verði til róttækra aðgerða. Við þurfum ekkert að tala um hvort þetta ár verði hlýrra en það síðasta, og það þarf ekkert að velta sér upp úr því þótt ekkert hlýni á jörðinni í 10-20 ár. Þessi hægfara hlýnun á sér stað í misstórum skrefum með afturkippum inn á milli og hlýnunin er þolinmóð og mun lifa okkur öll. Þó maður lesi endalausar greinar um loftslagsmál skrifaðar af hörðustu efasemdarmönnum eða sannfærðum vísindamönnum, þá get ég sem óbreyttur bloggari og borgari ekkert dæmt um það hvort kenningin sé rétt eða ekki. Ég treysti bara vísindasamfélaginu fyrir þessu. Hverjum ætti maður annars frekar að treysta og trúa í þessum málum? Prestum?
Ef vísindasamfélagið er meira og minna sammála því að hlýnun jarðarinnar sé af mannavöldum, þá er það líka á ábyrgð vísindasamfélagsins að þær fullyrðingar séu réttar. Ef hin vísindalega þekking segir að hér sé allt að fara til fjandans ef ekkert verður að gert, þá er ábyrgðarleysi að hunsa þær viðvaranir. Við getum þó alltaf gert okkur vonir um að með meiri þekkingu komi í ljós að hættan hafi verið stórlega ofmetin. En á meðan svo er ekki, þá er léttvægt að afgreiða tal um hlýnun jarðar sem trúarbrögð. Það er hins vegar alveg spurning hversu auðvelt er að bregðast við hlýnun jarðar. Ég sé reyndar ekki fyrir mér annað en að mannkynið muni næstu eina eða tvær aldir nýta allar vinnanlegar olíubirgðir heimsins sem eftir eru og gengdarlaus kolamokstur mun halda áfram þar sem kol eru að finna, hvað sem öllu samkomulagi líður. Í þessu sambandi má taka dæmi frá borginni Peking þar sem bílum hefur fjölgað um eina milljón á tveimur árum og þá erum við bara að tala um eina borg í Kína eins og kom fram í frétt um daginn. Það hefur því lítið sem ekkert að segja ef allir Íslendingar hætta að aka sínum hundrað þúsund bílum í þessum samanburði.
Kannski er alveg eins mikilvægt að komast að því hvernig mannkynið geti lifað sem bestu lífi í hlýnandi heimi heldur en að eyða púðri í að reyna að koma í veg fyrir eitthvað sem við getum ekki stöðvað. Kannski eru afleiðingar hlýnunar ekki eins slæmar og af er látið, en kannski er það bara óskhyggja í mér.
![]() |
Ban: Nauðsynlegt fyrsta skref |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 16:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)