Hnattræn hlýnun og íslensk hlýnun

Það getur verið forvitnilegt að bera saman línurit yfir hitaþróun jarðarinnar í heild og hitaþróun á einstökum stað. Á línuritum yfir hitaþróun jarðarinnar frá 1900 til dagsins í dag kemur fram sterk en þó sveiflukennd hlýnun fyrir utan tímabil upp úr miðri síðustu öld þegar hitinn lækkaði lítillega að meðaltali. Allt önnur mynd kemur fram þegar einn staður eins og Reykjavík er sýndur. Síðustu 110 ár hafa hér á landi verið talsverðar sveiflur á milli ára og áratuga og ekki auðvelt að sjá að hiti hafi hækkað að ráði á tímabilinu. Allavega ekki miðað við þróunina sem á sér stað á jörðinni í heild, eins og kemur fram á línuritunum hér að neðan:Hiti HeimurRvík 1
Bæði þessi línurit eru sett fram á nokkuð hefðbundinn hátt. Línuritið til vinstri vann ég úr gögnum frá Nasa-GISS gagnaröðinni um hitaþróun heimsins en í slíkum línuritum er yfirleitt miðað við frávik frá meðalhita (hjá Nasa-GISS er miðað við árin 1951-'80). Línuritið til hægri sýnir meðalhitann í Reykjavík fyrir hvert ár samkvæmt þeim gögnum sem til eru.

Þegar svona línurit eru borin saman þarf að hafa ýmislegt í huga enda má segja að þau séu varla samanburðarhæf. Þegar talað um meðalhitaþróun fyrir allan heiminn er hér átt við bæði höf og lönd, ásamt pólarsvæðunum svo langt sem upplýsingar um það nær og er þetta því allt annar hlutur en hitaþróun á einum stað eins og Reykjavík.

Annað sem skiptir líka máli er að hitaskalarnir á myndunum hér uppi eru ekki í sambærilegum hlutföllum. Til vinstri er verið að sýna hitabreytingar upp á aðeins eina gráðu en til hægri eru hitasveiflur uppá rúmlega þrjár gráður. Til að bæta úr þessu hef ég útbúið sameiginlegt línurit sem sýnir þessa tvo ferla út frá sama hitaskala:

Hiti HeimurRvik 2

Þegar búið er að samræma hitaskalana eins og hér er gert koma hlutirnir í ljós í betra samhengi og hægt að draga ýmsar ályktanir eftir smekk og vilja hvers og eins. Það helsta sem ég sé út úr þessu er þetta:

  1. Sú hnattræna hlýnun sem átt hefur sér stað frá því um 1900 er lítil miðað við þær sveiflur geta orðið á einum stað, enda getur hitamunur milli tveggja ára í Reykjavík verið mun meiri en öll hnattræn hlýnun frá 1900. Að sama skapi geta miklar staðbundnar hitasveiflur átt sér stað á einum stað, eða á tilteknu svæði án þess að það hafi teljandi áhrif á meðalhita jarðar.
  2. Þrátt fyrir að hitaferillinn fyrir Reykjavík liggi ekki eindregið upp á við, þá er hlýnunin hér alls ekki minni en sú hlýnun sem orðið hefur í heiminum – jafnvel meiri. Hinsvegar eru sveiflurnar hér það miklar á milli ára og áratuga, að við getum varla treyst á að ekki komi tímabundið bakslag burt séð frá því sem gerist á heimsvísu.

Spádóma ætla ég þó að láta eiga sig að þessu sinni.

 


Bloggfærslur 11. janúar 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband