26.10.2010 | 00:14
30 ára kuldaskeiðinu lauk með snjóflóðinu á Flateyri
Í upphafi árs 1965 kom talsverður hafís að landinu og lá í framhaldinu úti fyrir norðurlandi fram eftir vetri með tilheyrandi kuldum á norðurhelmingi landsins. Þetta var sennilega fyrsta merki um það sem í vændum var því næstu árin fór hafísinn að gerast mun nærgöngulli en tíðkast hafði lengi og við tók kalt tímabil sem stóð yfir meira og minna næstu þrjá áratugina, með smá hléum á milli þó. Á tímabilinu 1965-1995 var meðalhitinn á árunum í Reykjavík 4,2 stig, sem er 0,7 gráðum lægra en 30 árin þar á undan og rúmlega einni gráðu kaldari en meðalhiti síðustu 10 ára. Það munar um minna.
Hámark þessa kuldaskeiðs, sem ég hef áður kallað pínulitlu ísöldina, má segja að hafi verið á árunum 1979-1983 og uppfrá því fór veðurlag eitthvað að mildast. Síðasti virkilega harði veturinn hér á landi var veturinn 1994-95 sem einkenndist af miklum snjóalögum Norðanlands og í einu illviðrinu þann vetur féll snjóflóðið mikla í Súðavík. Veturinn þar áður féll einnig gríðarlega stórt snjóflóð niður í Tungudal skammt frá Ísafjarðarkaupstað sem kostaði eitt mannslíf.
Óhugur í Vestfirðingum haustið 1995Það var engin furða að óhugur væri í Vestfirðingum haustið 1995 þegar stórhríðir byrjuðu af fullum krafti seint í október. Um það fjallaði athyglisverð DV-frétt sem ég klippti út á sínum tíma og birtist daginn fyrir snjóflóðið á Flateyri undir fyrirsögninni: Komandi vetur sker úr um búsetuna. Þar segir Súðvíkingur meðal annars: Þessi vetur sem nú er greinilega genginn í garð, sker úr um hvort hér verður einhver búseta í framtíðinni. Það er óhugur í fólki; það er kvíðið og útlitið ekki björgulegt eins og núna blæs. Síðan er haft eftir íbúa á Flateyri: Menn eru orðnir verulega hvekktir á þessu. Ef til vill er þessi landshluti kominn norður fyrir mörk hins byggilega heims
(Til að lesa fréttina má stækka hana upp með því að smella nokkrum sinnum)
Daginn eftir að fréttin birtist eða um morguninn þann 26. október féll svo hið mannskæða snjóflóð á Flateyri með þeim afleiðingum að 20 manns fórust. Þetta hörmulega snjóflóð var nokkurskonar endurtekning á þeim atburðum sem áttu sér stað í Súðavík í upphafi sama árs. En þó ekki alveg, því ólíkt því sem gerðist eftir Súðavíkurflóðið þá gerði skaplegt veður strax eftir snjóflóðið á Flateyri sem gerði aðstæður bærilegri en annars hefðu orðið. Góð vetrartíð hélt áfram næstu misserin og skemmst er frá því að segja að sú góða veðurtíð hefur haldist meira og minna síðan með nokkrum hléum þó. Það má því segja að 30 ára kuldaskeiðið 19651995 hafi byrjað með hafískomunni í upphafi árs 1965 og endað með dramatískum hætti með snjóflóðinu á Flateyri þann 26. október árið 1995. Enn er blómleg byggð við lýði á Vestfjörðum og ekki lengur talað um að sá landshluti sé kominn norður fyrir mörk hins byggilega heims. Allavega er það varla veðrinu að kenna ef fólk hefur flutt þaðan burt.
Þótt vetrarveðrátta sé hafin á landinu er ekki þar með sagt að langvarandi harðindi og vetrarhörkur séu framundan. Í því sambandi má nefna það sem Einar okkar Sveinbjörnsson nefnir í lokDV greinarinnar að varasamt er að draga ályktanir af einstökumatburðum, eins og kom í ljós með óveðrið í októberlok 1995. Hinsvegar má örugglega líka hafa í huga að tíðarfar síðustu ára er ekki endilega vísbending um tíðarfar næstu ára.
Veðurspá fyrir landið þann 25. október 1995, samkvæmt DV þann 24. október.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 00:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)