Áramótaávarp

Ágætu lesendur til sjávar og sveita, innlendis sem erlendis um borg og bí. Við lok hvers árs er við hæfi að gerast hátíðlegur, líta yfir farinn veg og hugleiða framhaldið, rétt eins og í fjallgöngum er maður staldrar við og tekur stöðuna. Miðar manni afturábak ellegar nokkuð á leið og hefur maður gengið til góðs götuna fram eftir veg?

Mun þetta bloggstarf mitt halda lengi áfram? Munu bloggskrifin fjara smám saman út eða einfaldlega taka snöggan enda einn góðan veðurdag? Ég veit það ekki. Fyrir tveimur árum fannst mér ég vera búinn að skrifa um allt sem mig langaði að skrifa um og eiginlega líka um allt sem ég vissi, innan þess ramma sem þessi bloggsíða er ætluð. Í dag er ég eiginlega enn sömu skoðunar en mesta furða finnst mér þó hvað hægt er að týna til án þess að endurtaka sig um of. Í haust boðaði ég rólegri tíma á þessum vettvangi og til marks um það hef ég skorið niður bloggskrif um helming frá því sem áður var og ekki ólíklegt að um frekari niðurskurð verði að ræða á komandi ári.

Það er alveg tilvalið í upphafi næsta árs að koma með veðurtengd uppgjör fyrir liðið ár og verð ég sennilega ekki einn um það. Nýliðið ár hefur verið athyglisvert veðurár og þá aðallaga á jákvæðan hátt, að minnsta kosti hér í Reykjavíkinni eins og komið hefur fram. Meðalhiti ársins er hár og átti lengi vel góðan möguleika á að vera sá hæsti sem mælst hefur, ekki ósvipað hitanum á jörðinni í heild. Kannski má segja að meðalhitinn í Reykjavík endurspegli hitann á jörðinni ágætlega.

Það má líka á þessum tímamótum gera upp fyrsta áratug aldarinnar. Sumir eru að hóta því að senn verði þessi hlýindi á enda á meðan aðrir segja að þetta sé bara byrjunin á því sem koma skal. Best held ég sé að vera við öllu búinn og þá ekki bara í sambandi við veðrið heldur bara svona almennt. Allskonar óvæntir útúrdúrar geta alltaf orðið á leiðinni hvert sem hún liggur.

Annars voru uppákomurnar í Eyjafjallajökli og Fimmvörðuhálsi merkilegustu atburðir ársins frá náttúrunnar hendi á liðnu ári og sýndu vel hvað tvö eldgos geta verið gerólík þótt stutt hafi verið á milli. Ýmsar aðrar eldstöðvar hugsa sér gott til glóðarinnar og bíða í ofvæni eftir að röðin koma að sér.

Hvað hagsæld varðar verðum við að vona að gengi okkar landsmanna þróist uppávið. Leiðin má þó ekki vera of mikið á fótinn, hæfilegur stígandi er skárri. Ekki viljum við heldur að halli of mikið undan fæti. Að lokum skal hvatt til varkárni í meðferð flugelda og annarra eldfæra svo sem stjörnuljósa sem hugsa sér gott til glóðarinnar að marka enn ein þáttaskil í tímans rúmi – tímans sem vissulega flýgur áfram.

Ég þakka þeim sem lásu og óska öllum gleðilegs árs.

 

Ægissíða brenna


Bloggfærslur 31. desember 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband