Mikið og lítið um ís á Suðurhveli

Eins og venjulega á þessum árstíma er hafísinn í lágmarki við Suðurskautslandið og á næstu vikum mun hafísinn fara að aukast á ný eftir því sem sólin lækkar þar á lofti. Þegar vetur gengur í garð á suðurhveli vex ísinn hratt og örugglega í allar áttir án þess að meginlönd nái að hefta útbreiðsluna. Á suðurhvelinu er annars gríðarlega mikill munur á hafís eftir árstíðum, miklu meiri munur en á norðurhveli. Mestur hluti íssins þarna suðurfrá bráðnar á sumrin fyrir utan einstaka hafísbreiður meðfram ströndinni en það er aðallega austan við Antarktíkuskagann sem ísinn heldur almennilega velli enda er hann þar í góðu skjóli fyrir ríkjandi vestanáttum á svæðinu.

Þróunin á útbreiðslu á suðurhveli hefur ekki verið eins dramatísk og hér í norðri og ef eitthvað er hefur hafísinn suðurfrá aukist án þess þó að hægt sé að tala um einhverja róttæka þróun í þá átt. Reyndar má segja að útbreiðsla hafíssins á Norðurhveli hafi verið að líkjast meir því sem gerist á Suðurhveli því að á Norður-Íshafi hefur bráðnun aukist mjög á sumrin á meðan vetrarútbreiðslan hefur breyst minna. Andstæður milli árstíða hafa því farið farið vaxandi á norðurhveli og hlutfall fyrstaárs-íss aukist á kostnað eldri og lífseigari hafíss.

Á myndinni hér að neðan sést vel munur á útbreiðslu hafíssins á suðurhveli milli árstíða, til vinstri er útbreiðslan í febrúar 2010 en til hægri sýnir september 2009. (Mynd frá NSIDC)

Suðurskautsís 2009-2010

Suðurskautsís línurit

Sé litið lengra aftur í tímann sjást vel hinar miklu árstíðabundnu sveiflur í hafísnum á Suðurhveli en myndin er frá því núna um mánaðarmótin. Þetta árvar hafíslágmarkið um 2 milljónir ferkílómetra svipað og venjulega en munmargfaldast upp í 15-16 milljón km2 þegar líður á árið. Sambærilegartölur fyrir norðurhvel hin síðustu ár eru um 3-4 milljón km2 á sumrinen 13-14 milljón km2 á veturna samkvæmt því sem má lesa úr línuritum ásíðunni: Cryosphere Today

Íshellur og jöklar. Þegar talað er um ísinn á suðurhveli og framlag hans til hugsanlegrar hækkunar sjávarmáls er ekki verið að tala um hafísinn sjálfan enda hefur bráðnun hans og nýmyndun ekki áhrif á sjávarstöðu. Það eru hinsvegar hinn risastóri ísmassi uppi á landi sem skiptir máli, sjálfur Suðurskautsjökullin. Ísinn þar er um 90% af öllum ís jarðar og gæti hækkað yfirborð heimshafanna um sirka 61 metra ef hann bráðnaði allur. Það er þó enginn ástæða til að óttast slíkt jafnvel þótt eitthvað hlýni á jörðinni. Áhyggjur áhyggjusamra beinast hinsvegar einkum að vesturhluta suðurskautslandsins enda mun jökullinn þar ekki vera eins lífseigur og hinn stærri austurhluti.

Antarktíka

Einn veikasti hlekkurinn á Suðurskautslandinu er gjarnan talin vera hin mikla Ross-íshella sem hefur haldið velli eftir að hún myndaðist síðast fyrir um 3 milljónum ára. Íshellan, sem er nokkur hundruð metra þykk, nær ekki til botns og því getur hlýnandi sjór leikið um hana að neðanverðu og unnið á henni þaðan, jafnvel þótt fimbulkuldi haldist í lofti. Ef íshellan gefur sig, eins og smærri íshellur hafa reyndar verið að gera þarna, þá hverfur hluti af þeirri mótstöðu sem varnar því að jökulbreiður vesturhlutans flæði í sjó fram. Þótt vesturhlutinn virðist ekki stór er jökulmagnið svipað og á Grænlandsjökli og gæti hækkað sjávarborð um 6 metra. Þetta jökulhrun gæti gerst á næstu öldum ef heldur áfram að hlýna - þó er ekki alveg hægt að treysta á það frekar en svo margt annað.

Kortið hér að ofan með íshellunum hefur birst víða á netinu, t.d. á Loftslag.is þar sem sjálfsagt er að benda á umfjöllunina: Íshellur Suðurskautsins brotna upp.


Bloggfærslur 6. mars 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband