Hamfarakort af Íslandi

Það eru ekki mörg lönd í heiminum sem geta boðið upp á jafn mikið úrval af náttúrufarslegum uppákomum og Ísland. Eldgos, jarðskjálftar, hafís, óveður og flóð hafa lengi plagað landsmenn og valdið allskonar harðindum í stórum og smáum stíl. Myndin sem hér fylgir er tilraun til að kortleggja það helsta sem við þurfum að fást við í náttúrunni en mjög misjafnt er eftir landshlutum við hverju má búast á hverjum stað.

hamfarakort2
Eldvirknin á Íslandi er kannski það sem mesta athygli fær og kannski ekki að ástæðulausu. Þó að flest eldgos séu frekar lítil þá geta inn á milli komið hamfaragos sem er stærri í sniðum en viljum hugsa til enda. Eldvirknin er aðallega bundin við gosbeltin á landinu sunnan og norðanlands en áhrifin af þeim geta verið mun víðtækari. Stórir jarðskjálftar verða helst á Suðurlandsundirlendi og á Norðurlandi auk minni skjálfta víðar. Hafísinn kemur oftast að landi á norðanverðum Vestfjörðum og getur breiðst út austur eftir Norðurlandi og jafnvel suður með Austfjörðum. Síðustu áratugi hafa snjóflóð reynst vera skaðlegustu uppákomurnar í mannslífum talið en helsta ógnin af þeim er þar sem fjöllin eru bröttust yfir byggðum á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austfjörðum. Hætta á skriðuföllum ýmiskonar fylgir einnig þessum fjöllóttu landshlutum. Á suðvesturlandi er hættan á sjávarflóðum mest enda er landið þar almennt að síga af jarðfræðilegum ástæðum. Óveður geta skollið á í öllum landshlutum og úr öllum áttum og þeim geta fylgt mikil vatnsveður eða stórhríðir. Flóð geta komið í stærri ár vegna vatnavaxta en sér-íslensk fyrirbæri hljóta að vera jökulhlaupin á Suðurlandi. Sandfok sunnan jökla teljast varla til mikilla hamfara en á hálendinu er fokið nátengt gróðureyðingu landsins. Þá er bara eftir að minnast á elda sem hér á landi eru aðallega í formi sinuelda en eftir því sem gróðri fer fram á landinu geta gróðureldar aukist.

Ekki hér á landi
Við getum fagnað því að hér verða hitabylgjur ekki til vandræða, jafnvel ekki í framtíðinni. Ekki heldur fellibyljir eða skýstrókar nema þá í smækkaðri mynd. Skógareldar verða hér aldrei í líkingu við það sem gerist erlendis og flóðbylgjur vegna jarðskjálfta koma hér varla því að á Atlandshafinu verða ekki stórir jarðskjálftar. Það má þó ímynda sér flóðbylgjuhamfarir af öðrum og fáheyrðum atburðum svo sem af loftsteinahrapi í hafið sem minnir okkur á að hamfarir geta verið afar víðtækar. En hvað sem öllu líður þá getum við þó kannski fagnað því umfram annað að hér verður enginn engisprettufaraldur.


Bloggfærslur 19. apríl 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband