Hamfarakort af Íslandi

Það eru ekki mörg lönd í heiminum sem geta boðið upp á jafn mikið úrval af náttúrufarslegum uppákomum og Ísland. Eldgos, jarðskjálftar, hafís, óveður og flóð hafa lengi plagað landsmenn og valdið allskonar harðindum í stórum og smáum stíl. Myndin sem hér fylgir er tilraun til að kortleggja það helsta sem við þurfum að fást við í náttúrunni en mjög misjafnt er eftir landshlutum við hverju má búast á hverjum stað.

hamfarakort2
Eldvirknin á Íslandi er kannski það sem mesta athygli fær og kannski ekki að ástæðulausu. Þó að flest eldgos séu frekar lítil þá geta inn á milli komið hamfaragos sem er stærri í sniðum en viljum hugsa til enda. Eldvirknin er aðallega bundin við gosbeltin á landinu sunnan og norðanlands en áhrifin af þeim geta verið mun víðtækari. Stórir jarðskjálftar verða helst á Suðurlandsundirlendi og á Norðurlandi auk minni skjálfta víðar. Hafísinn kemur oftast að landi á norðanverðum Vestfjörðum og getur breiðst út austur eftir Norðurlandi og jafnvel suður með Austfjörðum. Síðustu áratugi hafa snjóflóð reynst vera skaðlegustu uppákomurnar í mannslífum talið en helsta ógnin af þeim er þar sem fjöllin eru bröttust yfir byggðum á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austfjörðum. Hætta á skriðuföllum ýmiskonar fylgir einnig þessum fjöllóttu landshlutum. Á suðvesturlandi er hættan á sjávarflóðum mest enda er landið þar almennt að síga af jarðfræðilegum ástæðum. Óveður geta skollið á í öllum landshlutum og úr öllum áttum og þeim geta fylgt mikil vatnsveður eða stórhríðir. Flóð geta komið í stærri ár vegna vatnavaxta en sér-íslensk fyrirbæri hljóta að vera jökulhlaupin á Suðurlandi. Sandfok sunnan jökla teljast varla til mikilla hamfara en á hálendinu er fokið nátengt gróðureyðingu landsins. Þá er bara eftir að minnast á elda sem hér á landi eru aðallega í formi sinuelda en eftir því sem gróðri fer fram á landinu geta gróðureldar aukist.

Ekki hér á landi
Við getum fagnað því að hér verða hitabylgjur ekki til vandræða, jafnvel ekki í framtíðinni. Ekki heldur fellibyljir eða skýstrókar nema þá í smækkaðri mynd. Skógareldar verða hér aldrei í líkingu við það sem gerist erlendis og flóðbylgjur vegna jarðskjálfta koma hér varla því að á Atlandshafinu verða ekki stórir jarðskjálftar. Það má þó ímynda sér flóðbylgjuhamfarir af öðrum og fáheyrðum atburðum svo sem af loftsteinahrapi í hafið sem minnir okkur á að hamfarir geta verið afar víðtækar. En hvað sem öllu líður þá getum við þó kannski fagnað því umfram annað að hér verður enginn engisprettufaraldur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

En þú gleymir útrásarvíkungunum sem fóru hér hamförum!

Sigurður Þór Guðjónsson, 19.4.2010 kl. 18:12

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Já og nei. Ég lít frekar á þær hamfarir sem afleiðingu af misheppnuðu strandhöggi erlendis.

Emil Hannes Valgeirsson, 19.4.2010 kl. 18:27

3 identicon

Þetta er algjörlega frábært kort af landinu. Ættir að gefa það út á erlensku fyrir erlenska ferðamenn.

Grefillinn Sjálfur - Koma svo! (IP-tala skráð) 20.4.2010 kl. 00:11

4 Smámynd: Ásta María H Jensen

Þetta er frábært kort

Ásta María H Jensen, 20.4.2010 kl. 16:13

5 Smámynd: Þórir Kjartansson

Átt bara eftir að bæta ísbjörnunum inn á. Þá er þetta fullkomið.

Þórir Kjartansson, 20.4.2010 kl. 21:33

6 identicon

... já, það væri fyndið að hafa ísbirnina með

Grefillinn Sjálfur - Koma svo! (IP-tala skráð) 20.4.2010 kl. 21:51

7 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Alveg magnað kort hjá þér. Sammála Grefli. Það þyrfti að vera til á erlendum tungumálum svo sem ensku og þýsku.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 20.4.2010 kl. 23:21

8 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ég ákvað upphaflega að hafa ísbirni ekki með því þeir eru annars eðlis. En vegna áskoranna eru þeir nú komnir inn. Ísbirnir mega sín lítils í dag en hafa vissulega borðað nokkra ólánsama í gegnum tíðina.

Emil Hannes Valgeirsson, 20.4.2010 kl. 23:22

9 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Það mætti kannski huga að enskri þýðingu fyrir Ferðamálaráð. Hver veit nema hægt sé að gera út á hamfaratúrisma með sérstökum stuðningi forsetans.

Emil Hannes Valgeirsson, 20.4.2010 kl. 23:29

10 identicon

Þetta er alveg glimrandi .

Margrét (IP-tala skráð) 20.4.2010 kl. 23:52

11 identicon

Mér finnst ísbirnirnir passa vel þarna inn í og koma vel út, þeir eru jú náttúruhamfarir frá ákveðnum sjónarhóli séð, sérstaklega ef maður er selur.

Annars ... frábært kort!

Grefillinn Sjálfur - Koma svo! (IP-tala skráð) 21.4.2010 kl. 10:19

12 Smámynd: Kama Sutra

Snilldar kort.  Hvernig þorum við að búa hérna á Klakanum?

Suss, ekki segja forsetanum frá þessu.

Kama Sutra, 28.4.2010 kl. 05:53

13 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Mig langaði bara að láta þig vita að hamfarakortið þitt dúkkaði upp í kaffihorninu í vinnunni hjá mér (ég kom ekki þar að). Það má því segja að kortið hafi vakið athygli

Sveinn Atli Gunnarsson, 29.4.2010 kl. 09:49

14 identicon

Og nú er kortið komið í hring ... er nýjasta bloggið hjá Jens Guð!

Grefillinn Sjálfur - Koma svo! (IP-tala skráð) 8.5.2010 kl. 20:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband