Meðalhiti jarðar í hæstu hæðum

Öllum mælingum ber saman um að hitinn á jörðinni sé nú með allra hæsta móti og hefur verið það allt þetta ár. Það er jafnvel líklegt að þetta ár verði það hlýjasta sem komið hefur eftir að mælingar hófust. Til að varpa ljósi á þetta, kemur hér mynd sem sýnir hvernig hiti jarðar hefur þróast frá miðju ári 1998. Hver litur táknar hita hvers árs fyrir sig og hvíti ramminn sýnir hvar við erum í dag. Gögnin eru fengin með gervihnattamælingum í 4,4 km hæð og sýna því hita í neðri hluta lofthjúpsins. Árið 2010 er hér sýnt með grænni línu og eins og sjá má liggur hún ofar öllum öðrum línum nánast allt árið. Þessi glæsilegi árangur er ekki síst athyglisverður vegna þess að síðasti áratugur er talin sá hlýjasti á jörðinni síðan einhvertíma í óljósri fortíð.

Globalhiti 1998-2010

Myndin er fengin héðan: http://discover.itsc.uah.edu/amsutemps/ og teiknast með gagnvirkum hætti.

Hvað með árið 1998?
Hér verður að taka fram að ferlarnir á myndinni ná því miður bara aftur til seinni hluta ársins 1998. Það hefði verið fróðlegt að bera saman með þessum hætti, hitann í ár og fyrri hluta ársins 1998 þegar hitinn á jörðinni og í neðri lofthjúp fór nánast úr böndunum, miðað við það sem áður hafði mælst. Meginskýringin á þessum hitatoppi í ár er sú að El Ninjo hefur verið virkur í Kyrrahafinu og það er einnig skýring á hitatoppnum árið 1998. El Ninjo ársins í ár er þó ekki nærri eins öflugur og árið 1998 enda hefur sá stundum verið flokkaður sem „super El Ninjo“.

UAH_Apr10

Uppruni myndar: http://www.drroyspencer.com/latest-global-temperatures/ 

Á línuritinu sem sýnir hita neðri-lofthjúpsins aftur til 1979 sést að hitatoppurinn 1998 var aðeins hærri en sá sem nú er. Marsmánuður í ár var þó hlýrri nú en 1998. Bakslag kom strax í kjölfarið þegar hin kalda La Ninja tók við á Kyrrahafinu seinni hluta ársins 1998 og fram eftir ári 1999. Slíkt bakslag gæti einnig tekið við af núverandi uppsveiflu. Á myndina er einnig merkt inn kólnun vegna Pinatubo eldgossins.

Nasa-Giss
Af gögnum Nasa-Giss sem notast við hefðbundnar athuganir á jörðu ásamt gervihnattamælingum yfir hafssvæðum er það að frétta að síðustu 12 mánuði (apr'09-mars'10) hefur hitinn mælst hærri en nokkru sinni áður í 130 ára sögu gagnaraðarinnar (tölur fyrir apríl í ár eru rétt ókomnar). Nasa-Giss fær reyndar út aðra röðun á hlýjustu árunum því þar er árið 1998 ekki nema í 4.-5. sæti ásamt árinu 2002. Þessi munur skýrist af annarri aðferðarfræði (þótt hörðustu efasemdarmenn vilji meina að James Hansen sé með puttana í þessum gögnum enda aðalmaðurinn hjá GISS (Goddard Institute for Space Studies)). Í 2-3. sæti eru svo árin 2009 og 2007 en árið 2005 er hlýjast. Hvar árið 2010 endar að lokum kemur svo bara í ljós en byrjunin lofar góðu - eða slæmu, eftir því hvernig á það er litið. Sú langtímahlýnun sem er í gangi mun síðan áfram truflast af náttúrulegum sveiflum og þá annaðhvort til enn meiri hlýnunar eða tímabundinnar kólnunar.

Sjá hér: http://data.giss.nasa.gov/gistemp/tabledata/GLB.Ts+dSST.txt


Bloggfærslur 12. maí 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband