Meðalhiti jarðar í hæstu hæðum

Öllum mælingum ber saman um að hitinn á jörðinni sé nú með allra hæsta móti og hefur verið það allt þetta ár. Það er jafnvel líklegt að þetta ár verði það hlýjasta sem komið hefur eftir að mælingar hófust. Til að varpa ljósi á þetta, kemur hér mynd sem sýnir hvernig hiti jarðar hefur þróast frá miðju ári 1998. Hver litur táknar hita hvers árs fyrir sig og hvíti ramminn sýnir hvar við erum í dag. Gögnin eru fengin með gervihnattamælingum í 4,4 km hæð og sýna því hita í neðri hluta lofthjúpsins. Árið 2010 er hér sýnt með grænni línu og eins og sjá má liggur hún ofar öllum öðrum línum nánast allt árið. Þessi glæsilegi árangur er ekki síst athyglisverður vegna þess að síðasti áratugur er talin sá hlýjasti á jörðinni síðan einhvertíma í óljósri fortíð.

Globalhiti 1998-2010

Myndin er fengin héðan: http://discover.itsc.uah.edu/amsutemps/ og teiknast með gagnvirkum hætti.

Hvað með árið 1998?
Hér verður að taka fram að ferlarnir á myndinni ná því miður bara aftur til seinni hluta ársins 1998. Það hefði verið fróðlegt að bera saman með þessum hætti, hitann í ár og fyrri hluta ársins 1998 þegar hitinn á jörðinni og í neðri lofthjúp fór nánast úr böndunum, miðað við það sem áður hafði mælst. Meginskýringin á þessum hitatoppi í ár er sú að El Ninjo hefur verið virkur í Kyrrahafinu og það er einnig skýring á hitatoppnum árið 1998. El Ninjo ársins í ár er þó ekki nærri eins öflugur og árið 1998 enda hefur sá stundum verið flokkaður sem „super El Ninjo“.

UAH_Apr10

Uppruni myndar: http://www.drroyspencer.com/latest-global-temperatures/ 

Á línuritinu sem sýnir hita neðri-lofthjúpsins aftur til 1979 sést að hitatoppurinn 1998 var aðeins hærri en sá sem nú er. Marsmánuður í ár var þó hlýrri nú en 1998. Bakslag kom strax í kjölfarið þegar hin kalda La Ninja tók við á Kyrrahafinu seinni hluta ársins 1998 og fram eftir ári 1999. Slíkt bakslag gæti einnig tekið við af núverandi uppsveiflu. Á myndina er einnig merkt inn kólnun vegna Pinatubo eldgossins.

Nasa-Giss
Af gögnum Nasa-Giss sem notast við hefðbundnar athuganir á jörðu ásamt gervihnattamælingum yfir hafssvæðum er það að frétta að síðustu 12 mánuði (apr'09-mars'10) hefur hitinn mælst hærri en nokkru sinni áður í 130 ára sögu gagnaraðarinnar (tölur fyrir apríl í ár eru rétt ókomnar). Nasa-Giss fær reyndar út aðra röðun á hlýjustu árunum því þar er árið 1998 ekki nema í 4.-5. sæti ásamt árinu 2002. Þessi munur skýrist af annarri aðferðarfræði (þótt hörðustu efasemdarmenn vilji meina að James Hansen sé með puttana í þessum gögnum enda aðalmaðurinn hjá GISS (Goddard Institute for Space Studies)). Í 2-3. sæti eru svo árin 2009 og 2007 en árið 2005 er hlýjast. Hvar árið 2010 endar að lokum kemur svo bara í ljós en byrjunin lofar góðu - eða slæmu, eftir því hvernig á það er litið. Sú langtímahlýnun sem er í gangi mun síðan áfram truflast af náttúrulegum sveiflum og þá annaðhvort til enn meiri hlýnunar eða tímabundinnar kólnunar.

Sjá hér: http://data.giss.nasa.gov/gistemp/tabledata/GLB.Ts+dSST.txt


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Fróðlegur pistill hjá þér Emil. Leitni hitastigsins liggur klárlega upp á við og við munum setja ný met í hitastigi jarðar á næstu árum og áratugum, sjá t.d. fróðlegan póst um það hjá Tamino. En eins og þú nefnir, þá truflast þessi leitni af náttúrulegum sveiflum, sem mun væntanlega hafa það í för með sér að einhverjir munu halda því fram að kólnun sé hafin við næstu náttúrulegu sveiflu niður á við, en það er svo sem ekkert nýtt í því...

Mig langar að nota tækifærið og benda áhugasömum á próf um hitastig Jarðar, sjá Hvað veistu um hitastig á Jörðinni?

Sveinn Atli Gunnarsson, 12.5.2010 kl. 21:42

2 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Við skulum bara vona að þessi hlýindi haldist sem allra allra lengst... Vonandi verður engin viðsnúningur í bráð.

Ágúst H Bjarnason, 12.5.2010 kl. 22:18

3 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Ágúst: Það er undarlegt að vilja að hlýnunin haldi áfram - sérstaklega í ljósi þess sem reiknað er með að afleiðingarnar verði. 

Þér til fróðleiks, þá hafa spár IPCC um langtímaleitni hlýnunar gengið mjög vel eftir og engin ástæða til að halda því fram að svo verði ekki - þrátt fyrir ótta þinn um kólnun:


Mynd sem sýnir hlýnunina undanfarin ár, með því að nota GISS og HadCRUT hitafrávik. Gráa svæðið og brotalínurnar sýna spár IPCC.

Í því samhengi er vert að skoða hvert hugsanlegt framhald á þessari hlýnun verður miðað við ýmsar forsendur í losun manna á CO2 (enn sem komið er, eru forsendur losunar CO2 næst því sem að efsta línan hér fyrir neðan spáir - þ.e. 3-4 °C hlýnun hnattrænt séð, sem mun hafa mjög slæmar afleiðingar víða um heim):

Er einhver sérstök ástæða fyrir því að þú vilt að þetta rætist?

Er ástæðan nægilega góð til að þú viljir í raun og veru að ekkert sé gert til að draga úr losun á CO2?

Maður veltir því fyrir sér hvers vegna þú ert sífellt að koma með úrelltar kenningar um ástæður hlýnunarinnar (eða að vara við kólnun sem engin er og mun ekki verða) á bloggsíðunni þinni. Það væri gaman að skilja þig - þá myndi maður líka skilja af hverju þú ert farinn að ritskoða okkur, þegar við sýnum fram á að bloggfærslur þínar standast ekki vísindalega skoðun.

P.S. Emil - góð færsla og afsakaðu þessa löngu athugasemd sem ekki er beint að þér.

Höskuldur Búi Jónsson, 12.5.2010 kl. 22:56

4 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

… og vonum að hlýindin dreifist með sem réttlátustum hætti um lönd og lýð - án öfga.

Tamino pósturinn sem Svatli vísar í er full stærðfræðilegur fyrir minn smekk. En ég tók hitastigsprófið. Væntanlega hef ég staðist það þótt ein lævís og útsmogin spurning hafi vafist fyrir mér.

Emil Hannes Valgeirsson, 12.5.2010 kl. 22:57

5 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

… og í þeim orðum kemur Höski með miklar myndir og rökfærslur.

Emil Hannes Valgeirsson, 12.5.2010 kl. 23:01

6 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ef veðurfarið snérist til þess að verða eins og á 19. öld yrðu víst allir hamingjusamir! Ef menn hugsa ekki nákvæmlega eins og Höski og hans líkar eru þeir víst óalandi og óferjandi. Og á móti vísindunum. Sem er víst verst af öllu. Skelfing er þessi trúarlegi einstrengistónn fráhrindandi. Ég segi það nú bara.

Sigurður Þór Guðjónsson, 13.5.2010 kl. 00:12

7 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Sigurður, það hlýtur að mega benda á rökleysur. Ef rökin halda, þá er það ekkert mál, en ef allt virðist bera að sama brunni rökleysu sem ekki stenst nánari skoðun, má þá samkvæmt þínum bókum ekki gera tilraun til að leiðrétta það? Eru það þá trúarbrögð að hrekja rökleysur, eins og margt er sem kemur upp í umræðunni um loftslagsmál? Það virðist nánast mega setja hvað sem er á borð fyrir lesendur á sumum bloggsíðum, en ef það er bent á rökleysuna, með því að benda á það sem vísindin þó segja um málið, þá er það kallað stig trúarlegur einstrengingstónn...skelfing eru það einstrengingsleg rök. Svo ég segi mína skoðun.

Sveinn Atli Gunnarsson, 13.5.2010 kl. 00:51

8 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Í fyrsta lagi Höskuldur Búi Jónsson:

Ég skrifaði: "Við skulum bara vona að þessi hlýindi haldist sem allra allra lengst... Vonandi verður engin viðsnúningur í bráð".

 Þú skrifar síðan: "Ágúst: Það er undarlegt að vilja að hlýnunin haldi áfram - sérstaklega í ljósi þess sem reiknað er með að afleiðingarnar verði... ... ...".

Fólk með eðlilegan málskilning sér mikinn mun á þessum tveim setningum.  Ég tala um að hlýindin haldist áfram, þ.e. jafn hlýtt áfram, en þú segir mig hafa óskað þess að hlýnunin haldi áfram, þ.e. að það hlýni enn meir.

Eftir að þú hefur gefið þér þessar fljótfærnislegu forsendur heldur þú áfram að fabúlera út frá þeim.

Í öðru lagi:

 Svo skrifar þú: "P.S. Emil - góð færsla og afsakaðu þessa löngu athugasemd sem ekki er beint að þér".  
Þessi afsökunarbeiðni var óþörf af þeirri einföldu ástæðu að forsendurnar voru kolrangar, og athugasemdin því óþörf.

Og svo kóranar þú allt með því að skrifa í lokin: "Maður veltir því fyrir sér hvers vegna þú ert sífellt að koma með úrelltar kenningar um ástæður hlýnunarinnar (eða að vara við kólnun sem engin er og mun ekki verða) á bloggsíðunni þinni. Það væri gaman að skilja þig - þá myndi maður líka skilja af hverju þú ert farinn að ritskoða okkur, þegar við sýnum fram á að bloggfærslur þínar standast ekki vísindalega skoðun"

Þessi athugasemd ín er því öll endemis rökleysa, þar sem forsendurnar eru kolrangar.

Þú verður að vanda þig betur Höskuldur Búi 

Ég endurtek það ég skrifa í fyrstu athugasemdinni, þessa saklausu setningu sem Höskuldur Búi er ekki fær um að skilja: Við skulum bara vona að þessi hlýindi haldist sem allra allra lengst... Vonandi verður engin viðsnúningur í bráð.

(Ef einhver óskar sér þess að það kólni, þá má hann það mín vegna. en það er alfarið hans prívat mál og kemur mér ekki við. Eins og kom fram í fyrstu athugasemdinni þá óska ég þess ekki, heldur að hlýindin haldist).

Ágúst H Bjarnason, 13.5.2010 kl. 06:40

9 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Sigurður: Stundum skil ég þig ekki, en það er svo sem í lagi mín vegna - ég er oft sammála þér þegar réttlætiskennd þinni er misboðið í öðrum málum.

Ágúst: Það er magnað að þú sérð þér ekki fært að svara af hverju þú ert farinn að ritskoða okkur. Ástæða þess að ég tala um hlýnun en ekki að það haldi áfram að vera stöðug hlýindi - er einfaldlega sú að það er ekki inn í myndinni (ég misskildi þig ekki, en samt ætlaði ég ekki að taka orð þín úr samhengi). Því er ég í raun að vísa í þá staðreynd að þú vilt ekki gera neitt í málunum - sem þýðir það sama og að þú viljir að það haldi áfram að hlýna, þ.e. ef það hefur síast inn í þig eitthvað af því sem raunverulegir vísindamenn segja. Það var kannski mesti misskilningurinn - ég sé það nú að þú ert virkilega hræddur um að það sé að fara að kólna.

Fyrir ykkur báða. Það magn CO2 sem nú þegar er komið út í andrúmsloftið er þess valdandi að það er ekki að fara að kólna niður í sambærilegt loftslag og var á 19. öldinni - næstu sirka 50 þúsund árin eða svo (sjá þessa færslu og viðkomandi tengla). Aftur á móti mun áframhaldandi losun - þýða miklar hörmungar fyrir marga í heiminum - því er ég harðorður. 

Höskuldur Búi Jónsson, 13.5.2010 kl. 09:15

10 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Hér skilur kannski enginn neinn nema sjálfan sig. Mér finnst reyndar talsverður munur á að segja „Við skulum bara vona að þessi hlýindi haldist sem allra lengst“ (ÁHB) og: „vilja að hlýnunin haldi áfram“ (HB). Þannig að hér var kannski full hart brugðist við hjá Höska.

Við sem búum á kaldari svæðum jarðar getum alveg þolað aðeins meiri hita, en ég veit ekki hvað t.d. Indverjum finnst. Ég sá í frétt að þar er spáð allt að 47 stiga hita í dag sem er kannski full mikið að því góða. Held samt að enginn sé að óska sér að hitinn hverfi aftur í það sem var á 19. öld.

Svo er það þetta hvort einstaklingar séu skildugir til að gera eitthvað í málunum. Loftslagsvandinn er svo mikill um sig, að þótt allir bílar á Íslandi og öll álver hyrfu allt í einu hefði það varla nokkur mælanleg áhrif á hita jarðar. Að gera eitthvað í málunum þarf því að vera í fomri alþjóðlegra reglna og breitts oskubúskapar frekar en að einhver einstaklingur taki t.d. upp hjá sjálfum sér að hjóla í vinnuna til að bjarga jörðinni.

Svo er það þetta með vísindin. Þau eru eins rétt og þau geta orðið hverju sinni. Ný þekking ýmist styður eldri kenningar eða kollvarpar þeim. Mér finnst allt benda til þess að hlýnun jarðar sé staðreynd. Vísindin styðja þá fullyrðingu í dag en það gæti þó hugsanlega breyst í framtíðinni. Við getum þó alls ekki treyst á að vísindunum snúist hugur um loftslagsvandann. Best er að haga sér samkvæmt bestu þekkingu hverju sinni.

Ég veit ekki hvort nokkur nema ég muni skilja til fulls þessar vangaveltur.

Emil Hannes Valgeirsson, 13.5.2010 kl. 10:26

11 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Ég skil vangaveltur þínar Emil (vona ég).

Ég er búinn að útskýra (sem er mögulega óskiljanlegt) að ég misskildi Ágúst ekki - en ætlaði þó ekki að taka orð hans úr samhengi - þó það virðist koma þannig út. Til að koma því frá þá bið ég Ágúst auðmjúklega að fyrirgefa þessa yfirsjón mína .

Þar sem ég er búinn að biðjast fyrirgefningar, þá hvet ég Ágúst til að gera slíkt hið sama varðandi óútskýrða og ónauðsynlega ritskoðun hans á hans bloggi.

En Emil, ég er sammála þér með að alþjóðlegar reglur og eða breyttur orkubúskapur skilar sér mun betur en að vonast eftir að allir taki sig til og fari að hjóla (og annað slíkt) - það bara gerist ekki. Hins vegar er rétt að hvetja fólk til þess að hjóla, þó ekki væri nema til að efla heilsuna

En það er komin löng helgi hjá mér - því segi ég bara góða helgi.

Höskuldur Búi Jónsson, 13.5.2010 kl. 11:00

12 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Það sem mér finnst fráhrindandi í þessu er hinn siðferðislegi áfellisdómur sem kveðinn er upp svo oft og tíðum yfir þeim sem hreyfa minnstu efasemdum um eitthvað sem við kemur hlýnun og afleiðingum hennar. Loftslag is. gefur sig alltaf út fyrir að beita vísindunum fyrir sig og gerir það en gengur oft lengra. Það er í henni greinilegur fanatískur tónn og ekki hægt að segja að hún láti bara staðreydnir og vísindin tala. Ef ég, sem man vel hafísárin,  myndi t.d. fagna því að nú hafa ríkt hlýindi hér á landi í nokkur ár, án þess að ég væri að bollaleggja um ástæður, þá væri viðbúið að það væri ámælisvert að dómi loftslagsmanna rétt eins og þetta áðan með orð Ágústs. Ég hef margoft orðið var við eitthvað áþekkt frá loftslagsmönnum. Jafnvel pælt í því að taka það saman og skrifa um það en ég nenni hreinlega ekki að vera að deila um loftslag (eða annað) árin út og árin inn.  Síðan yrði betri ef þessi siðferðilegi vandlætingartónn væri ekki og þessi fanatík sem alltaf beitir vísindunum fyrir sig. Það eru margir fletir á vísindum og framsetningu þeirra og tilvísun til þeirra út af fyrir sig þarf ekki alltaf að hafa eitthvað óumdeilanlegt upp á sig. Sú staðhæfing um að áframhaldandi losun CO2 þýði miklar hörmungar í heiminum er t.d. ekki vísindaleg staðhæfing.

Auk þess eru veðurbreytingar fólgnar í mörgu öðru en hitahækkun og þessi ofuráhersla sem lögð er á að minnka losun CO2 má líkja við einstrengislega afstöðu, þar sem einn þáttur er gerður óeðlilega mikill.

Annars er ég ekki óvanur því að menn skilji mig ekki.

Enginn var svo að tala um það að vænta mætti kólnunar heldur var aðeins látin uppi sú persónulega óskhyggja að ekki færi nú að kólna. Það var tekið fyrir sem eitthvað ósæmilegt. Setjum nú svo að þessi hlýindi sem nú eru haldist en ekki hlýni frekar. Myndi það vera eitthvað skeflilegt? 

Sigurður Þór Guðjónsson, 13.5.2010 kl. 13:32

13 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Þar sem Höskuldur Búi yfirlýstur af sjálfum sér sem áhyggjumaður um loftslagsmál er kannski eðlilegt að hann bregðist við eins og hann gerir. Ég ætla þó annars ekkert að svara fyrir Loftslag.is.

Í þessari bloggfærslu var ég aðallega að flytja fréttir af hita jarðar, sem eru kannski ekki nýjar fréttir fyrir þá sem hér hafa gert athugasemdir. Mér finnst eiginlega ekkert hafa verið fjallað um þessi hlýindi í fréttum á meðan fréttir af staðbundnum kuldaköstum eru oft áberandi. Kannski eru fréttir af hlýnun ekki fréttir lengur enda á víst að vera að hlýna hvort sem er.

Emil Hannes Valgeirsson, 13.5.2010 kl. 14:11

14 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Sigurður; þessi svokallaði siðferðislegi áfellisdómur sem þú kallar svo, er væntanlega (þó gæti ég hafa miskilið þig) af því að við bendum á stundum á það sem okkur (mér og Höska) finnast vera rökleysur í umræðunni. Það virðist mega benda á allskonar rökleysur, sem ekki hafa stoðir í vísindunum og ef við svo mikið sem bendum á heimildir, rök og mælingar, þá virðist það vera okkur til vansa að þínu mati...hefurðu lesið sumar að þeim athugasemdum sem við fáum í umræðunni (sérstaklega á blogginu), það er allt leyfilegt í þá áttina...og það virðast vera fáir sem láta sér bregða við það.

Annars verður að líta á athugasemdir (mínar og jafnvel Höska líka) varðandi Ágúst í því ljósi að hann hefur síðastliðin allavega 12 ár (sjá grein frá 1998), sem ég veit til, verið að ræða loftslagsmál út frá sínum túlkunum á málinu og oftar en ekki verið fastur í sömu sporunum, þó svo honum sé bent á nýrri og betri gögn, en samt segir hann sjálfur hér;

Langverst þykir mér að sjá hve margir fara illa og jafnvel rangt með staðreyndir. Oft er sem menn geti ekki breytt skoðun sinni þegar nýjar forsendur koma fram. Það eru ekki miklir vísindamenn sem þannig haga sér.  (Ágúst H. Bjarnason)

Ekki finnst öllum (samanber mér sjálfum) umræða hans alltaf byggjast á hinum nýjasta vísindalega grunni og honum finnst (að mínu mati) greinilega vera slæmt að vera bent á það (samanber ritskoðun hans á okkur Höska, sem stundum lýsir sér í skyndilegum lokunum á athugasemdum og einnig á allavega einni (sem ég man eftir í bili) óbirtri athugasemd).

Mér finnst slæmt ef setja má fram rök sem eiga sér ekki stoð í raunveruleikanum eða rök sem eru  einfaldlega byggðar á rangtúlkunum á gögnum eða með því að sýna bara þann hluta gagnanna (sem passar þá við ákveðna heimssýn) án þess að sýna heildarmyndina. Ef ekki má benda á þannig rökleysur og benda á gögn og heimildir til nánari skoðunnar, þá finnst mér umræðan verða einstrengingsleg...ef svo má að orði komast. En kannski ég sé bara einstrenginslegur að vilja hafa bestu fáanlegu gögn að leiðarljósi í umræðunni. 

Að lokum langar mig að nefna (svipað og Emil og Höski) að það þarf að koma til einhverskonar alþjóða hugarfarsbreyting og/eða breyting í orkubúskap íbúa Jarðar. En slíkar breytingar geta vart orðið að veruleika nema ef almenningur hefur upplýsingar um bestu fáanlegu rannsóknir vísindanna varðandi málið (ekki viljum við láta taka ákvarðanir fyrir okkar hönd, sem við vitum ekkert um). Að mínu mati er betra að við tökum upplýstar ákvarðanir og þess vegna þykir mér það mikilvægt að sem flestir þekkji það sem vísindin hafa um málið að segja, því aðeins þannig tel ég að ná megi árangri til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Það er einmitt það sem lang flestir loftslagsvísindamenn telja að þurfi að gera til að draga úr (eða jafnvel stöðva) hækkun hitastigs í framtíðinni, það er nefnilega fátt sem bendir til að hitastig hætti að hækka til langs tíma miðað við núverandi gögn og þekkingu. Þess má geta að ég er frekar bjartsýnn á að hægt sé að ná árangri, enda tel ég að við getum með þekkinguna að leiðarljósi brugðist við í samræmi við þær upplýsingar sem við búum yfir.

Emil; afsakaðu þessa langloku hjá mér, en stundum þarf að koma með sína sýn á málið, og þetta virðist vera ágætis tækifæri til þess, þó svo við förum kannski aðeins út fyrir efni færslunnar. Ég vona að það sé þér ekki á móti skapi.

Sveinn Atli
Ritstjóri á Loftslag.is

Sveinn Atli Gunnarsson, 13.5.2010 kl. 20:34

15 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Tölur fyrir Apríl eru komnar frá NASA-GISS: Samkvæmt þeim var Apríl 2010 sá heitasti sem mælst hefur. Ekki meira um það að segja.

Emil Hannes Valgeirsson, 15.5.2010 kl. 00:39

16 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Það er svo sem ekki meira um það að segja, en mig langar að bæta við nokkrum orðum úr færslu af loftslag.is, síðan í janúar, sjá Hitahorfur fyrir árið 2010:

Horfur með hitastig 2010

Eins og sést ef skoðaðar eru helstu náttúrulegar sveiflur og spár um þær, þá bendir margt til þess að árið 2010 verði heitara en árið 2009 og jafnvel talið líklegt að það geti orðið heitasta árið frá því mælingar hófust. Ástæðan fyrir því er þá helst talin vera áframhaldandi hlýnun vegna gróðurhúsaáhrifa og líkur á áframhaldandi meðalsterkum El Nino – ef aftur á móti það verða snöggar breytingar í El Nino og nægilega mikil eldvirkni til að valda kólnun, þá eru minni líkur á því að árið 2010 verði það heitasta frá upphafi mælinga.

En nú er árið komið vel af stað, en enn er of snemmt að fullyrða frekar um þetta, en hitastig ársins hefur þó hingað til verið nokkuð hátt eins og fram kemur í færslunni.

Sveinn Atli Gunnarsson, 15.5.2010 kl. 23:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband