Hin lúpínulausa fegurð

Eyðisandur

Ég hef komist að því að undanförnu að mörgum Íslendingum virðist finnast landið okkar ekkert sérlega fallegt. Jafnvel er ég farinn halda að sumum finnist landið svo ljótt að róttækra lítaaðgerða sé þörf hið snarasta. Lítaaðgerðin felst þá í því samkvæmt umræðunni að dreifa lúpínu um alla sanda hóla og hæðir og jafnvel yfir hraunin og fjöllin. Þannig gætu heilu blómabeðin þakið sveitirnar og landið fengið á sig bláan blómaljóma. Ég sá til dæmis í Fréttablaðinu um daginn grein eftir konu Lúpínufár sem vildi sjá lúpínunbreiður á öllum auðnum á Íslandi og fjöllunum einnig, þannig að með sanni mætti syngja: „eitt sumar á landinu bláa“.

Ég veit vel að lúpínan getur verið öflug landgræðslujurt og nýtist vel til að stöðva sandfok. Ágúst H. Bjarnason hefur verið duglegur að skrifa bloggfærslur um lúpínu sem ræktuð hefur verið í landgræðsluskini á Haukadalsheiði. Það eru sjálfsagt rök fyrir því að nýta megi lúpínuna á vissum svæðum þar sem mikill upplástur er í gangi og notadrjúg er hún vissulega til að koma í veg fyrir sandfok t.d. á Mýrdalssandi og auðvitað eykur hún frjósemi landsins með því að framleiða sjálf það köfnunarefni sem hún þarf.

Ég hef semsagt ekkert út á notagildið að setja, þekki það alveg. Það er hinsvegar þetta viðhorf að landið verði endilega fallegra þótt blómabreiður dreifi úr sér um landið. Lúpínan er falleg planta sem slík og sómir sér vel í görðum og í smáum stíl innan um annan gróskumikinn gróður. En landið okkar eins og það er, finnst mér vera fallegt, hreinir gróðursnauðir eyðisandar hálendisins hafa sína eigin fegurð rétt eins og hraunin og jöklarnir. Þetta er vissulega annað viðhorf en bændur höfðu hér áður fyrr sem sögðu að land væri ekki fallegt nema það sé nýtilegt. Listmálarinn Kjarval var reyndar einn sá fyrsti sem sá fegurðina í auðninni. Auðnin og hið opna landslag er eitt af sérkennum Íslenskrar náttúru og þannig er hún seld ferðamönnum sem koma hingað til að njóta hennar.

Það er dálítið merkilegt að viðhorf fólks til lúpínunnar virðast tengjast stjórnmálaskoðunum. Ég sá að Loftur Altice vill að lúpínan verði gerð að þjóðarblómi og tákn fyrir Hægri-Græna stjórnmálahreyfingu, hvað sem það nú er. Ég vildi frekar kalla þetta Hægri-Fjólubláa hreyfingu. Jón Magnússon nefndi í umræðum hjá Ágústi H. að hann hefði dreift lúpínufræjum í gönguferðum á Esjuna og Skarðsheiði, til að auka gróður og fegurð fjallanna. Einn benti líka á í umræðum að lúpínan geti vaxið upp á nýju hrauni (væntanlega þá storknuðu). Menn mega því varla sjá nýtt og fersk hraun öðruvísi en að vilja drita á það skrautblómum – ja hérna segi ég nú bara, þvílík náttúruvernd. Eins gott að rósarunnar þrífist ekki á Íslandi, hvað sem síðar verður.

Hin sanna náttúruvernd, góðir hálsar, snýst um það að láta náttúruna eiga sig, í staðin fyrir að vera sífellt að fikta í henni. Marga dreymir auðvitað um að landið endurheimti þau landgæði sem voru hér áður en búseta hófst á landnámsöld þegar landið var vaxið birki milli fjalls og fjöru. Ef þau landgæði eiga að endurheimtast þá verður bara að sýna þolimæði og nota aðrar aðferðir þannig að landið grói upp í rólegheitum á eigin forsendum með náttúrulegum gróðri landsins en ekki endilega með inngripi mannsins með því að dreifa um landið þessari öflugu jurt sem komin er úr allt öðru og gróskumeira vistkerfi.

En umfram allt, lærum að meta fegurð auðnarinnar og hins fíngerða fjallagróðurs.

- - - -

Á myndinni sem fylgir er horft til Heklu af suðurhálendinu.


Bloggfærslur 21. júlí 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband