Hin lúpínulausa fegurð

Eyðisandur

Ég hef komist að því að undanförnu að mörgum Íslendingum virðist finnast landið okkar ekkert sérlega fallegt. Jafnvel er ég farinn halda að sumum finnist landið svo ljótt að róttækra lítaaðgerða sé þörf hið snarasta. Lítaaðgerðin felst þá í því samkvæmt umræðunni að dreifa lúpínu um alla sanda hóla og hæðir og jafnvel yfir hraunin og fjöllin. Þannig gætu heilu blómabeðin þakið sveitirnar og landið fengið á sig bláan blómaljóma. Ég sá til dæmis í Fréttablaðinu um daginn grein eftir konu Lúpínufár sem vildi sjá lúpínunbreiður á öllum auðnum á Íslandi og fjöllunum einnig, þannig að með sanni mætti syngja: „eitt sumar á landinu bláa“.

Ég veit vel að lúpínan getur verið öflug landgræðslujurt og nýtist vel til að stöðva sandfok. Ágúst H. Bjarnason hefur verið duglegur að skrifa bloggfærslur um lúpínu sem ræktuð hefur verið í landgræðsluskini á Haukadalsheiði. Það eru sjálfsagt rök fyrir því að nýta megi lúpínuna á vissum svæðum þar sem mikill upplástur er í gangi og notadrjúg er hún vissulega til að koma í veg fyrir sandfok t.d. á Mýrdalssandi og auðvitað eykur hún frjósemi landsins með því að framleiða sjálf það köfnunarefni sem hún þarf.

Ég hef semsagt ekkert út á notagildið að setja, þekki það alveg. Það er hinsvegar þetta viðhorf að landið verði endilega fallegra þótt blómabreiður dreifi úr sér um landið. Lúpínan er falleg planta sem slík og sómir sér vel í görðum og í smáum stíl innan um annan gróskumikinn gróður. En landið okkar eins og það er, finnst mér vera fallegt, hreinir gróðursnauðir eyðisandar hálendisins hafa sína eigin fegurð rétt eins og hraunin og jöklarnir. Þetta er vissulega annað viðhorf en bændur höfðu hér áður fyrr sem sögðu að land væri ekki fallegt nema það sé nýtilegt. Listmálarinn Kjarval var reyndar einn sá fyrsti sem sá fegurðina í auðninni. Auðnin og hið opna landslag er eitt af sérkennum Íslenskrar náttúru og þannig er hún seld ferðamönnum sem koma hingað til að njóta hennar.

Það er dálítið merkilegt að viðhorf fólks til lúpínunnar virðast tengjast stjórnmálaskoðunum. Ég sá að Loftur Altice vill að lúpínan verði gerð að þjóðarblómi og tákn fyrir Hægri-Græna stjórnmálahreyfingu, hvað sem það nú er. Ég vildi frekar kalla þetta Hægri-Fjólubláa hreyfingu. Jón Magnússon nefndi í umræðum hjá Ágústi H. að hann hefði dreift lúpínufræjum í gönguferðum á Esjuna og Skarðsheiði, til að auka gróður og fegurð fjallanna. Einn benti líka á í umræðum að lúpínan geti vaxið upp á nýju hrauni (væntanlega þá storknuðu). Menn mega því varla sjá nýtt og fersk hraun öðruvísi en að vilja drita á það skrautblómum – ja hérna segi ég nú bara, þvílík náttúruvernd. Eins gott að rósarunnar þrífist ekki á Íslandi, hvað sem síðar verður.

Hin sanna náttúruvernd, góðir hálsar, snýst um það að láta náttúruna eiga sig, í staðin fyrir að vera sífellt að fikta í henni. Marga dreymir auðvitað um að landið endurheimti þau landgæði sem voru hér áður en búseta hófst á landnámsöld þegar landið var vaxið birki milli fjalls og fjöru. Ef þau landgæði eiga að endurheimtast þá verður bara að sýna þolimæði og nota aðrar aðferðir þannig að landið grói upp í rólegheitum á eigin forsendum með náttúrulegum gróðri landsins en ekki endilega með inngripi mannsins með því að dreifa um landið þessari öflugu jurt sem komin er úr allt öðru og gróskumeira vistkerfi.

En umfram allt, lærum að meta fegurð auðnarinnar og hins fíngerða fjallagróðurs.

- - - -

Á myndinni sem fylgir er horft til Heklu af suðurhálendinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Nokkuð góður pistill hjá þér Emil.

Það er slæmt þegar fólk hefur skömm á okkar fallega landi. Vissulega eru til staðir sem þarf að laga vegna sandfoks eða annara aðstæðna sem valda tjóni. Þá getur verið þörf á jurt eins og lúpínu til aðstoðar, þó einungis ef ekki verður öðrum ráðum við komið. Lúpínan er einstaklega hörð ránjurt, því getur hún nýst til að græða upp svæði þar sem engum öðrum aðferðum er hægt að beyta.

Það er hins vegar hættulegur leikur þegar menn á skemmtigöngu sinni um landið eru að drita niður fræjum þessarar jurtar, til þess eins að fela fegurðina sem þeir voru að skoða á sinni göngu! Oftar en ekki eru menn einkalandi einhvers á þessum skemmtigöngum, t.d. er stæðsti hluti Skarðsheiðar í einkaeigu og leifi ég mér að efast um að Jón Magnússon hafi haft leyfi þeirra til að sá lúpínu þar.

Nú er mikið talað um að ferðamannaiðnaður sé sú stóriðja sem við eigum að einblýna á. Það er í öllu falli mikil gróska þar og mikið sem sá iðnaður skilar til þjóðarbúsins. En hvað er það sem dregur fólk hingað? Alla vega ekki lúpínuakra, það er nokkuð víst.

Ef fólk skammast sín svo mikið fyrir sitt fallega land að það telju algjöra nauðsyn á að fela það undir lúpínuökrum, ætti það aðeins að skoða hug sinn betur.

Gunnar Heiðarsson, 21.7.2010 kl. 20:36

2 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Mikið er ég hjartanlega sammála þér. Nánast hverju einasta orði. Ég er alls ekki hrifinn af þessari uppgræðslu landsins. Í mínum huga á hún á aðeins heima í einkagörðum fólks.

Mér finnst auðnin óskaplega falleg. Kannski ekki skrítið að ég heillaðist miklu meira af Atacamaeyðimörkinni í Chile en regnskógum Suður-Ameríku er ég var þar á ferð.

En svona er nú fegurðarskyn fólks mismunandi.

- Sævar

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 21.7.2010 kl. 20:46

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Auðnin og hið opna landslag er reyndar víða ekki hið náttúrulega landslag á Íslandi, jafnvel ekki á hálendinu. Hvað ætli margir útlendir ferðamenn geri sér grein fyrir því? Jafnvel margir Íslendingar halda að allt þetta berangur sé landinu eðlilegt. En á lúpínu hef ég engar heitar skoðanir. En Ísland er afar spillt land og öðru nær að það sé ósnortið. Þess vegna m.a. hef ég samúð með þeim sem vilja ''græða upp'' landið.

Sigurður Þór Guðjónsson, 21.7.2010 kl. 21:19

4 Smámynd: Haraldur Rafn Ingvason

Var að koma úr Landmannalaugum og nágrenni. Ekki stingandi strá á stórum svæðum en þó er svæðið talið eitt af perlum íslenskrar náttúru...

Síðan er það nú þannig með þessar auðnir á uppblásnum svæðum að allur sá jarðvegur og gróður sem klætt hefur landið við landnám var myndaður frá ísaldarlokum fyrir um 10.000 árum. Landið hefur nefnilega verið nánast sterilt þegar það kom undan ísaldarjöklinum - mögulega með fáeinum undantekningum.

Látum náttúruna hafa sinn gang...

Haraldur Rafn Ingvason, 21.7.2010 kl. 21:19

5 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Tek undir flest það sem hér hefur verið sagt og tel að skógrækt megi að skaðlausu auka af mörgum ástæðum.  En illgresi og utanvegaslóðir eru af sama meiði.

 

 

Hrólfur Þ Hraundal, 21.7.2010 kl. 22:25

6 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Ég tel að það eigi að notast við lúpínuna af varkárni og það á ekki að vera í höndum einstakra ferðalanga að taka ákvörðun um hvar hún á heima eða ekki...

Góður pistill Emil.

Sveinn Atli Gunnarsson, 21.7.2010 kl. 22:29

7 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Í sambandi við hvað sé náttúrulegt og hvað ekki þá finnst mér ekkert endilega þurfa að skilgreina berangurinn sem ónáttúrulegan þó hann sé að hluta afleiðing af 1100 ára búsetu manna. Það var aldrei markvist stefnt að því að búa til auðnir á Íslandi en hinsvegar beita menn nú markvisst allskonar tólum og tækjum og rækta upp framandi gróður til að reyna endurskapa eitthvað ástand sem var fyrir búsetu manna. Útkoman úr því er ekkert náttúrulegri heldur en það sem við höfum í dag.

Það getur síðan verið erfitt að meta hvaða áhrif litla ísöldin hafði á gróðurinn en þau hafa örugglega verið talsverð. Á landnámsöld var liðinn langur tími síðan slíkt kuldaskeið hafði riðið yfir og því hefur gróðurinn þá væntanlega verið í góðum blóma (þó ekki lúpínublóma).

Emil Hannes Valgeirsson, 21.7.2010 kl. 22:35

8 Smámynd: Anna Björg Hjartardóttir

Fegurð Íslands er einstök, sérstaklega óendanlegur margbreytileiki náttúrunnar. Vandamálið með allt of mikla útbreiðslu lúpínunnar hún gerir allt einsleitt, það fagra blóm. Lúpínan er falleg í litlum mæli en stórar breiðar af henni líta út eins og fráhrindandi stál blágrátt teppi, kuldalegt og minnir lítið á íslenska sumarnáttúru. Finnst lúpínan eins og blómahernaður sem hefur gert innrás í íslenska náttúru, blágráar fyrir járnum eru þær á vissum landsvæðum að taka allt yfir.

En veit einhver af hverju það sjást ekkii bleikar lúpínur annarstaðar en í görðum?

Anna Björg Hjartardóttir, 21.7.2010 kl. 23:34

9 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Náttúran hefur ekki lengur ''sinn gang'' í heiminum. Athafanir manna skipta líka gríðarlegu máli. Á Íslandi hefur orðið mikil gróður- og landeyðing þó ekki hafi verið stefnt meðvitað að henni en mikið er hún af völdum athafna manna. Hún er enn í gangi. Við erum bara svo vön kviknöktu landinu að við erum farin að lítasvo á að það sé í skrautklæðum og beri af öðrum löndum sem er mikill fásinna. Það sem menn eru að reyna að gera - menn geta deilt um aðferðirnar - er að stöðva landeyðinguna og jafnvel bæta fyrir það sem gert var af því að menn vissu ekki betur eða gátu ekki betur. Auðvitað hljóta menn að vinna markvisst með tólum og tækjum að því að auka gæði landsins. Við búum hér og það skiptir miklu máli við hvaða aðstæður við búum. Hvað veðurfar t.d. snertir þá hafa menn reynt hvað trjágróður í Reykajvik hefur útrýmt miklum vindgangi. Menn verða þó að fara varlega með lúpínu og kannski fleira en að er ekki hægt að gera bara ekkert og láta náttúruna ''vinna sinn gang'' af því að mennirnir eru orðnir svo stór hluti af ganginum. Mín persónulega skoðun er samt sú, þó ég sé æstur ekstrímisti á mörgum sviðum, að skynsemi og hófsemi hljóti að ráða í þessu máli.  

Sigurður Þór Guðjónsson, 22.7.2010 kl. 01:25

10 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Sigurður Þór sagði það sem ég vildi sagt hafa í síðara svari sínu..

Náttúran hefur ekki fengið að hafa sinn á gang á íslandi í langan tíma.. 

Óskar Þorkelsson, 22.7.2010 kl. 04:07

11 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Lúpína getur verið ágæt til uppgræðslu á svæðum sem menn vilja hefta fok og sandburð.  En hún er skaðvaldur í íslenskri náttúru innan um lyng og annan fjallagróður.  Hún eyðir öllu sem hún kemur að.  Og hún er ekki falleg nema stuttan tíma, einn mánuð er hún blá, svo verður allt grátt af fræbelgjum og síðan verða fjöllinn gul og svört og sviðin og standa þannig uns lúpínan grænkar aftur að vori.  Ég er sorgmædd yfir þessari hugsunarlausri plöntun lúpínu innan um allskonar fjallagróður og lyng hvar sem skín í smá malarblett. 

Það ætti að sekta fólk fyrir að ganga með þennan vágest um allt og drepa niður það sem fyrir er.  Þetta er mín skoðun.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 22.7.2010 kl. 09:58

12 identicon

Anna Björg. Það eru bæði bleikar og hvítar lúpínur í blettum á Mýrdalssandi.         Svo hefur hvönnin sem vex villt í Hjörleifshöfða  dreift sér í lúpínuna og virðist ætla að verða þar mjög stór,þar sem hún stendur langt upp úr lúpínunni.     

 Nú kemur það varla fyrir að bílar skemmist í sandveðri  á Mýrdalssandi.             Þökk sé lúpínunni og sjálfgræðslunni þar þrátt fyrir alla sauðfjár beit.

Gissur Jóhannesson (IP-tala skráð) 22.7.2010 kl. 10:00

13 identicon

Er þetta ekki bara spurning um hið margumrædda meðalhóf?

Gulli (IP-tala skráð) 22.7.2010 kl. 11:10

14 identicon

Það er spurning hvað maður á við með því að "láta náttúruna eiga sig". Við Íslendingar höfum ekki verið neitt sérstaklega dugleg við það. Þegar víkingarnir komu hingað, þá var samkvæmt Íslendingabók, landið skógi vaxið frá fjöru til fjalls. Ekki aðeins tókst okkur að höggva niður þennan skóg, heldur einnig að koma með búfé og landbúnað sem gerbreytti öllu landinu. Í gegnum aldirnar þá námu fleiri og fleiri plöntutegundir og dýrategundir hér land, sem gjörbreytti vistkerfi landsins. Smám saman þá breyttist landið hægt og rólega úr því að vera grænt og skógi vaxið í skóglaust land, sem jók sandfok, sem svo gerði það að verkum að við enduðum uppi með stórar sandeyðimerkur (þær voru mun minni við landnám). Hvort sem maður er með eða á móti lúpínu, þá er því miður varla hægt að kalla nokkurt landslag á Íslandi ósnortið. Það þýðir hins vegar ekki að það geti ekki verið fallegt, og svo getur maður deilt um það hvort manni þykir það fallegra með eða án lúpínu, en ósnortið er það ekki.

Bjarni (IP-tala skráð) 22.7.2010 kl. 11:16

15 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Óháð því hvað var gert einu sinni þá getum við alveg látið landið eiga sig. Mér finnst alltof margir vera uppteknir að því að landið sé í tötrum og það sé skilda okkar að lagfæra og klæða það upp á nýtt. Landinu sjálfu er alveg sama.

Annars sá ég á dögunum að það er komin ágætis trjágróður á miðjum Skeiðarársandi vestan Skeiðarár. Mér finnst það ágætt dæmi um að landið getur gróið upp af sjálfsdáðum, sérstaklega nú með breittu loftslagi og minnkandi jöklum. Þarna verður að lokum kominn náttúrulegur skógur án nokkurrar aðstoðar manna.

Emil Hannes Valgeirsson, 22.7.2010 kl. 11:36

16 identicon

Mér finnst landgræðsla spurning um að endurheimta landgæði og viðhalda, ekki persónulegt mat á hvað er fallegt. Því miður erum við búin að fara illa með landið og það er að fjúka á haf út í stórum stíl. Það þarf ekki að græða landið allstaðar upp en á mörgum stöðum á landinu er landrof að valda búsifjum og óþægindum. Við þurfum ekki einusinni að fara út fyrir Reykjavík til að sjá dæmi þess. Gravarvognsholtið var auðir melar fyrir nokkrum árum og í vondum veðrum blés mikill sandur af holtinu og oft yfir nálæga byggð, þar er búið að sá lúpínu og byrki, núna er byrkið hægt og fljótt að taka yfir og riðja lúpínunni burt. Það var búið að reyna margt til að græða holtið upp þangað til menn sáðu lúpínu, það eina sem hefur virkað hingað til.

Svo er svo mikil snilld við lúpínu að hún riður ekki gróðri sem er fyrir í burtu og býr jarðveginn undir annan gróður, nefninlega íslenskan gróður og hjálpar þar með að vernda íslenska flóru, annað en margir vilja halda fram.

Bjöggi (IP-tala skráð) 22.7.2010 kl. 13:20

17 identicon

Já, svo ég klári þetta. Mér finnstað gróðursnauð svæði á lálendi, þar sem er augljóst að landgæðum hefur hnignað af mannavöldum og svæði á lálendi sem undir eðlilegum kringumstæðum ættu að vera gróðursæl en eru það ekki eigi að vera grædd upp með öllum ráðum. Svo eru svæði sem eru náttúrlega gróðursnauð, til dæmis á hálendinu, þau á að láta vera.

Bjöggi (IP-tala skráð) 22.7.2010 kl. 13:28

18 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Þvílíkt rugl að lúpína riðji ekki niður öðrum gróðri.  Hún kæfir allan lággróður undir sér, lyng og annan fjallagróður.  Það sést ágætlega í Tunguskógi þar sem áður voru brönugrös, undafíflar, krækilyng, bláberjalyng og aðalbláber.   Þar sem lúpínan hefur vaðið yfir sést ekkert lengur til þessa gróðurs. 

Lúpína er auðvitað góð til síns brúks á örfokasvæðum  þar sem sanblástur er, en skaðvaldur í grónu landi. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 22.7.2010 kl. 13:29

19 identicon

Rannsóknir á lúbínu á íslandi leiða það í ljós að hún riður ekki örðum gróðri í burtu, eins og lyngi. Þetta kemur meðal annars fram í nýlegri rannsókn á útbreyðslu lúpínu á Íslandi

" Athyglisvert er að með lúpínunni vaxa lágvaxnar bersvæðaplöntur með sambærilega þekju og þær hafa innan viðmiðunarreita."

Svo er lynggróður oftast merki um landhnignun, eitthvað sem við eigum að berjast á móti. Landgræðsla snýst um landgæði, sem eru okkur mikilvæg, ekki persónulegt fegurðarmat.

Bjöggi (IP-tala skráð) 22.7.2010 kl. 13:41

20 identicon

Það er alltaf verið að flagga þeirri kenningu, að lynggróður sé merki um hnignun og hún er notuð til að réttlæta lúpínuakra um öll holt og hlíðar. Það væri forvitnilegt að vita hvaðan þessi kenning er ættuð og hvernig hún er rökstudd.

Finnur (IP-tala skráð) 22.7.2010 kl. 13:54

21 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Merkilegt nokk, þá fann ég lúpínu í trjágróðrinum fyrir neðan Hólahverfið í Breiðholti, þar sem lyngið var undir lúpínunni og að því er virtist átti lyngið erfitt uppdráttar.

PS. Tek það fram að ég er alveg viss um að það er hægt að finna góð not fyrir lúpínuna á svæðum þar sem þess er þörf, þó tel ég að það verði að vera stjórn á því hvernig henni er sáð um landið, það á ekki að vera í höndum einhverra gangandi ferðalanga að ákveða það, svo dæmi sé tekið.

Sveinn Atli Gunnarsson, 22.7.2010 kl. 14:02

22 identicon

Eitt gott við lúpínu, er að hún er ein af fáum plöntum sem bindur nitur úr andrúmsloftinu, og getur því vaxið í næringarlausum jarðvegi, þar sem fátt annað vex. Slíkur jarðvegur þarf ekki alltaf að hafa verið næringarlaus, en sífeld búfjárbeit eða heyskapur getur hægt og rólega farið illa með næringargildi jarðvegs, ef engin áburður er borinn á hann. Fræðilega séð, þá bindur lúpínan nitur úr andrúmsloftinu, sem síðan sest í jarðveginn hægt og rólega (mörg ár eða áratugir), og gerir þannig öðrum plöntum kleift að vaxa þar seinna meir.

Bjarni (IP-tala skráð) 22.7.2010 kl. 14:03

23 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Hér hefur Sigurður Þór enn einu sinni sagt það sem ég hugsa um málið.

Marta B Helgadóttir, 22.7.2010 kl. 14:36

24 identicon

Lynggróður þrífst oftast á landi þar sem ofbeitt hefur verið eða örðu ófrjósömu landi.

Eins og Ólafur Arnalds, Jóhann Þórsson og Elín Fjóla Þórarinsdóttir segja í grein sinni Landnýting og vistvæn

framleiðsla sauðfjárafurða

"Rýrt mólendi einkennist af lélegum beitarplöntum, einkum lyngtegundum (krækilyng, bláberjalyng, sortulyng, beitilyng, fjalldrapi), en einnig móasefi og þursaskeggi. Oft er þar mikill mosi og jafnvel fléttugróður. Lítið er af eftirsóttum beitarplöntum á borð við blómtegundir; grös og starir (t.d. stinnastör) hafa litla útbreiðslu (<10%).

Rýrt mólendi er yfirleitt að finna á þurrlendum móasvæðum eða á melasvæðum sem eru að gróa upp. Þar sem rýrt mólendi kemur fyrir í móum (brúnjörð/móajarðvegur) endurspeglar þessi gróðurflokkur oft land sem hefur hnignað verulega í tímans rás vegna beitar."

Bjöggi (IP-tala skráð) 22.7.2010 kl. 15:14

25 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Lélegar beitiplöntur: &#132;Krækilyng, bláberjalyng, sortulyng, beitilyng, fjalldrapi&#147;

Á þá bara að lúpína þetta allt saman?

Emil Hannes Valgeirsson, 22.7.2010 kl. 15:21

26 identicon

Aha. Semsagt: Af því að lyng getur vaxið á "rýru mólendi" þá draga lúpínusinnar þá ályktun að allstaðar þar sem lynggróður fyrirfinnst fari gróðri hnignandi. Líka í fallegum gróðursælum hlíðum þar sem við hin höfum yndi af því að fara síðsumars á berjamó og njóta íslenskrar náttúrufegurðar. Þar fara þeir um dreifandi lúpínufræjum á laun niður um buxnaskálmarnar.

Finnur (IP-tala skráð) 22.7.2010 kl. 15:41

27 Smámynd: Haraldur Rafn Ingvason

Náttúruleg gróðurframvinda er víða í gangi á gróðursnauðum svæðum. Þar á náttúran að fá að hafa sinn gang. Á afmörkuðum svæðum þar sem einhver sérstök ástæða er til uppgræðslu getur verið rétt að nota lúpínu en þá þarf að vera búið að hugsa málið til enda, s.s. hvað á að taka við af henni. Eins þarf að gæta þess að hún berist ekki út af svæðinu.

Varðandi kjaftæðið um að lúpína vaxi ekki inn í annan gróður þá hvet ég þá sem halda þessu fram að fara út og skoða næsta lúpínuflekk með eigin augum. Fræ lúpínu skjótast úr fræhylkinu af töluverðum krafti og utan við jaðra meginflekksins má því finna smáplöntur - þótt í fullgrónu landi sé.

Þetta má sjá ef gengnir eru göngustígar meðfram Vífilsstaðavatni eða Fossvogi - svo nærtæk dæmi séu tekin.

Haraldur Rafn Ingvason, 22.7.2010 kl. 16:02

28 Smámynd: Óskar Þorkelsson

myndin sem greinarhöfundur notar er í amk 500 metra hæð.. þar má ekki gróðursetja lúpínu ;)

Óskar Þorkelsson, 22.7.2010 kl. 16:04

29 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Sem betur fer ekki Óskar. Mig grunar þó að ýmsir hefðu ekkert á móti því.

Emil Hannes Valgeirsson, 22.7.2010 kl. 16:13

30 Smámynd: Haraldur Rafn Ingvason

Rakst á lúpínu á bökkum Tungnaár n.t.t. við Austurbjallavatn sl. sumar. Það er í um 560 m hæð samkvæmt kortavefsjá Landmælinga...

Haraldur Rafn Ingvason, 22.7.2010 kl. 16:28

31 Smámynd: Óskar Þorkelsson

þarna uppfrá hefur hún lítið að gera held ég.. en ef hún nær sér á strik þarna þá er það bara vel..

Óskar Þorkelsson, 22.7.2010 kl. 16:31

32 Smámynd: Haraldur Rafn Ingvason

HA...? Þannig að ef henni er "óvart sáð" þar sem að er bannað þá er það bara hið besta mál???

Haraldur Rafn Ingvason, 22.7.2010 kl. 16:40

33 identicon

"endurspeglar þessi gróðurflokkur oft land sem hefur hnignað verulega í tímans rás vegna beitar"

Það er punkturinn. Þetta land er næringarsnautt og lítill sem engin gróður þrýfst þar, nema lyng og mosi. Ástæðan er ofbeitt, ekki náttúrleg gróðurframvinda. Ef landinu er leyft að hnigna enn meira fáum við bara eyðimörk. Það er fallegt, finnst ykkur ekki?

Það er búið að verja mikilli vinnu við að endurheimta landgæði síðustu öld eða svo. Landið var svo illa farið að það var orðið erfitt að stunda búskap á mörgum stöðum, þessvegna er endurheimt landgæða svo mikilvæg.

Það er bara nýlega sem endurheimt landgæða varð meiri en uppblástur á landinu, því má þakka hlýrra loftslagi og svo innfluttum landgræðsluplöntum eins og lúpínunni.

Bjöggi (IP-tala skráð) 22.7.2010 kl. 16:55

34 identicon

"Rýrt mólendi" er bara allt annað gróðursamfélag en sú náttúra sem ort er um í kvæðinu:

Hlíðin mín fríða
hjalla meður græna
blágresið blíða
berjalautu væna
....

... og þangað á lúpínan ekkert erindi. Ég hef ekki séð það með eigin augum, en skilst að fyrrum fríðar hlíðar ofan við Húsavík með berjalautir vænar séu nú þaktar lúpínu. Þar eru heimaslóðir eins af æðstuprestum lúpínufagnaðarerindisins.

Finnur (IP-tala skráð) 22.7.2010 kl. 17:17

35 identicon

Finnur, rýrt mólendi er akkúrat gróðursamfélagið sem var ort um í kvæðinu, enda var búið að stunda ofbeit í mörghundruð ár þegar þetta kvæði var ort.

Landhnignun hefur sett svo stóran svip á landslag Íslands að mörgum íslendingum finnst slíkt landslag vera eðlilegt og jafnvel fallegt, þegar það ætti að kveikja á viðvörunarbjöllum.

Þegar sandgræðaslan, síðar landgræðsla ríkisins var stofnuð var uppblástur farin að ógna byggð á Íslandi, við í dag gerum okkur ekki grein fyrir því hvað landhnignun hefur verið alvarlegt vandmál á Íslandi.

Bjöggi (IP-tala skráð) 22.7.2010 kl. 17:24

36 identicon

"Rýrt mólendi er yfirleitt að finna á þurrlendum móasvæðum eða á melasvæðum sem eru að gróa upp." (Ólafur Arnalds og félagar). Hlíðin mín fríða er ekki þar.

Finnur (IP-tala skráð) 22.7.2010 kl. 17:59

37 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ég held að það sé enginn á móti landgræðslu þar sem gróður er í mikilli afturför. Það má hinsvegar ekki gera lítið úr því hvað aðstæður hafa breyst mikið gróðrinum í hag með hlýnandi veðurfari. Sumrin hafa hlýnað um 1-2 gráður frá síðustu öldum og eru orðin lengri. Áður fyrr var jafnvel talað um að varla hafi komið sumur enda lá hafísinn jafnvel úti yfir norðurlandi allt árið og sást stundum á Suðurlandi. Við þetta hlaut gróður á öllu landinu að verða viðkvæmari en annars fyrir sauðfjárbeit og stórum eldgosum sem riðu yfir.

Emil Hannes Valgeirsson, 22.7.2010 kl. 18:09

38 Smámynd: Haraldur Rafn Ingvason

Vissulega eru enn dæmi um ofbeitt land en slíkum svæðum fer fækkandi. Á árabilinu 1980-2006 fækkaði sauðfé úr um 830 þús.  í um 456 þús. Á móti kemur fjölgun hrossa úr 52 þús í 76 þús. en þau eru mun mikilvirkari grasbítar en féð.

Land sem ekki er undir sérstöku álagi s.s. ofbeit eða vatnagangi grær oftast upp með tímanum. Erfiðustu skilyðin eru þar sem frostlyfting er mikil, grýttir melar og slík svæði. Alþekkt er hér á landi hvernig hraun gróa upp og má t.d. glögglega sjá framvinduna í misgömlum hraunum á sunnanverðum Reykjanesskaga.

Land sem þegar er gróið sér um sig sjálft ef það sætir ekki rányrkju s.s. ofbeit. Þetta á líka við um land sem áður hefur verið ofbeitt en hefur verið friðað eða er líðtið/hæfilega beitt.

Þar sem uppblástur á grónu landi er kominn af stað er hins vegar oft erfitt að snúa þróuninni við því fokefnin bæði kæfa gróður í nágrenninu og valda jarðvegsþykknun sem aftur veldur því að dýpra verður á grunnvatn - jarðvegurinn þornar og lífsskilyrði gróðurs versna þannig að vítahringur hefur myndast. Þetta á sérstaklega við á eldvirka beltinu.

Vil svo í lokin benda aftur á þá staðreynd að fyrir 10.000 árum var hér hvorki jarðvegur né stingandi strá, nema mögulega á einhverjum blettum á norðurlandi og vestfjörðum, sem kenningar eru um að hafi staðið upp úr ísaldarjöklinum.

Haraldur Rafn Ingvason, 22.7.2010 kl. 19:57

39 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Eg er farinn að hallast að því að of mikið sé gert úr áhrifum blessaðrar sauðkindainnar varðandi gróður - eða vöntun á gróðri. Jú jú, eg er ekki að segja að á stöku sað geti hún haft áhrif í of miklum mæli.  En bara, meina, þetta er orðið eins og mantra!  Sem sagt, að  sjálfsagt  þykir að segja:  Gróðureyðing og í næsta orði sauðkindin.  Og allir kinka ábúðafullir kolli.

Varðandi lúpínuna, þá ætti að banna mönnum að ganga með lúpínufræ uppá vasann og sá því hips um haps í gönguferðum.  Hvort sem er á Esju eða annarsstaðar.  Á ekkert að vera að sá þessu hips um haps.  Getur alveg verið réttlætanlegt sumsstaðar en á ekki að nota tilviljanakennt. Dritandi þessu út um allt á göngutúrum.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 22.7.2010 kl. 23:07

40 identicon

Allur gróður, sem leggur undir sig land með "frekju", eins og lúpinan, er illgresi.  Og margar þannig teg. eru innfluttar eins og hún.  Ísland er hrjóstrugt land, en við eigum þó yndislegar vinjar.  Því miður er það mannskepnan, sem aldrei iætlar að læra að láta þær ósnortnar. Mér þykir erfitt að horfa á auðnir, en þeim mun vænna þykir mér um ósnortið íslenskt umhverfi.  Einmitt þarna eigum við Kjarval mikið að þakka.  Það eru margar mosamyndir eftir meistarann, sem sýna okkur fegurð þess sérstæða lands.  Að sjá t.d. skógrækt í íslensku grónu hrauni særir manns auga.  ÍSLAND ER ÍSLAND, berum virðingu fyrir ósnortri íslenskir náttúru kæru landar..... 

Vigdís Ágústsdóttir (IP-tala skráð) 23.7.2010 kl. 09:23

41 identicon

Vigdís, náttúra Íslands er síður en svo ósnortin. Allt vistkerfið orðið fyrir gríðarlegum breytingum síðan landið var numið.

Bjarni (IP-tala skráð) 23.7.2010 kl. 18:02

42 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Jæja er þetta ekki bara orðið ágætt. Mörg eru sjónarmiðin og fólk verður seint sammála um lúpínuna. Ég hvet þó þá sem eru mér ekki sammála að lesa pistilinn að minnsta kosti átján sinnum. Held að ekki veiti af.

Emil Hannes Valgeirsson, 23.7.2010 kl. 18:39

43 Smámynd: Vendetta

Ég las pistilinn þinn átján sinnum, Emil. Mér finnst lúpínan eitt af því fáa, sem er fallegt í íslenzkri náttúru. Flest annað er urð og grjót að mínu áliti.

Vendetta, 23.7.2010 kl. 20:14

44 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Æ er það. Ég ímynda mér hinsvegar að hún fari betur í náttúrunni á Alaska innanum öll jólatrén.

Emil Hannes Valgeirsson, 23.7.2010 kl. 21:18

45 Smámynd: Óskar Þorkelsson

það vaxa lúpínur hér í noregi.. ein og ein á stangli innanum trén

Óskar Þorkelsson, 23.7.2010 kl. 21:49

46 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Það er nefnilega málið. Lúpínan er ættuð úr miklu öflugra gróðursamfélagi og á því auðvelt með að dreifa sér um auðnirnar og lággróðurinn hér. Það vilja greinilega margir gjörbreyta íslenskri náttúru því hún er ekki nógu falleg, bara eitthvað urð og grjót og lélegt lyng. Svo sjá menn bara Ísland sem örfoka land í tötrum sem forfeður okkar eyðilögðu. Þetta er allt of mikil neikvæðni fyrir minn smekk og alveg ástæðulaus.

Emil Hannes Valgeirsson, 23.7.2010 kl. 23:05

47 Smámynd: Óskar Þorkelsson

lúpínan gerir jarðveginn kláran fyrir trjágróður eins og dæmin sanna..  þessi sem er hér í noregi nær sér einfaldlega ekki á strik því að hún hefur svo næringarríkan jarðveg að aðrar plöntur vaxa jafnhratt eða jafnvel hraðar en lúpínan.. lúpinan nær sér á strik í næringarlausum og grunnum jarðvegi.. það er það sem gerir lúpínuna svo frábærafyrir okkar land. ísland er örfoka og að verða jarðnæsðilítið, án plantna eins og lúpínunnar verður landið fljótt aftur eins og það var um 1960..

Menn benda á dæmi þar sem lúpínan veður yfir lyng, málið er að lyng vex á örgrunnum jarðvegi og undir er sandur eða næringarlaus jarðvegur oft á tíðum, í slíkum aðstæðum veður lúpinan yfir lyngið en innan fárra ára er jarðvegurinn orðinn frjór og þá ná sér aðrar plöntur á strik td birkið..  Þetta viðkomandi lyng á oft átíðum erfitt uppdráttar vegna foks.. og ef eldgos kemur í nágrenni við svoleiðis gróður, þá hverfur hann undir ösku og nær sér EKKI á strik aftur.. þá kemur lúðinan til górða nota.. efri hluti Þjórsárdals er þakin ösku og varla kominn gróður þar eftir mikið eldgos í Heklu á 11 öld.. þar var allt þakið gróðri og talið er a ðtugir býla hafi orðið þar undir..

á þá bara a ðgefast upp og hafa ísland örfoka eldfjallaauðn með einstaka strá ástangi sem er niðurnagað af ofbeit sauðfjár.. ég segi nei.

En þessi mynd sem þú notar hér er tekinn það hátt uppi að gróður á sér varla viðreisnar von þar og er ég til efs að þarna hafi verið mikill gróður fyrir elsumbrotin í landmannalaugum og torfajökulssvæðinu og jafnvel Heklu gömlu.. einfaldlega of hátt til þess og vatnslaust.. 

Landmannalaugar eru ekkert sérstaklega gróðursælar enda eru þar nær eingöngu melar.. 

Mýrdalssandur, skeiðarársandur , land sem orðið hefur fyrir áföllum af völdum eldgosa.. þar á lúpínan heima..  í nágrenjni reykjavíkur þá hefur hún náð sér á strik vegna ofangreinds.. þar er grunnur jarðvegur þakinn lyngi..

Óskar Þorkelsson, 24.7.2010 kl. 07:21

48 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Óskar þú hefur kannski ekki lesið pistilinn 18 sinnum en hann fjallar um að landið getur líka verið fallegt og gott þar sem það er gróðursnautt. Þess vegna er ég með myndina af hálendinu sem er tekin í um 400-500 metra hæð, er ekki alveg viss því ég man ekki nákvæmlega hvar ég tók myndina. Aðstæður í Alaska munu vera svipaðar og í Noregi, mun öflugri gróður sem hún keppir við. Þess vegna er hún ekki ágeng í þessum löndum.

Mér finnst allt of margir tala um lúpínuna sem allsherjar lausn í því að breyta ásjónu landsins. Mörgum þykur hún yndisleg því hún sé svo falleg, en hún er flagð undir fögru skinni. Ég held að það sé mikil vantrú ríkjandi um getu þess gróðurs sem fyrir er í landinu. Nefni aftur trjágróður sem er að vaxa upp á miðjum Skeiðarársandi víðsfjarri Skaftafelli.

Emil Hannes Valgeirsson, 24.7.2010 kl. 11:58

49 Smámynd: Njörður Helgason

Lúpínan hefur verið mér þyrnir í augum og ekki batnar það með síaukinni útbreiðslu hennar. Í Bæjarstaðaskógi í Morsárdal innan Skaftafells var lúpínu eitt sinn sáð. Þar er nú háð stríð við að halda henni niðri, því hún hefur sáð sér inn á gróin lönd.

Vissulega heftir hún sandfok. Ágætt á Mýrdalssandi sem Katla breiðir yfir nýtt sandlag á að meðaltali 70 ára fresti. Annað finnst mér með bölvaða lúpínusáninguna á Skógasandi. Skógasandur var fallegasti eyðisandurinn í byggð á Íslandi. Þar var sáð lúpínu sem nú hefur sáð sér um allann Skógasand. Það sést vel munurinn á eyðisandi og uppgræðslu illgresisins við Jökulsá á Sólheimasandi. Austan hennar er að mestu óspiltur sandur en Skógasandurinn er hluta ársins grænn.

Sandfok á Skógasandu getur verið grimmt en það þarf allmikinn vind til þess að þar verði sandfok. Svo mikið rok að fáir eiga þá erindi undir Eyjafjöllin.

Ég var á vestfjörðum í síðustu viku. Mér fannst fallegt þar. Landið og bæirnir, staðirnir fagrir. Ég tók eftir því að sem betur fer hefur litlu verið sáð af lúpínu fyrir vestan. Náttúrulegur gróður er að mestu leyti ráðandi þar.

Ég ætla rétt að vona að það verði ekki farið að sá lúpínu á Fimmvörðuhálsinum nú eftir eldgosið í Eyjafjallajökli eða í nágrenni jökulsins.

Njörður Helgason, 26.7.2010 kl. 10:33

50 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Vestfirðir eru ekki örfoka land Njörður

Óskar Þorkelsson, 26.7.2010 kl. 13:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband