Trjágróður vex upp umhverfis borgina

Trjágróður

Greinilegt er að allt umhverfis höfuðborgarsvæðið er gróður í mikill sókn. Þetta á ekki bara við um blessuðu lúpínuna sem var mikið til umræðu í síðasta pistli mínum, heldur ekki síður trjágróðurinn. Stundum er talað um að Reykjavík sé stærsti skógur landsins sem er kannski rétt útfrá einhverjum skilgreiningum. Heilmikið hefur verið plantað af trjám t.d. í Heiðmörk, Hólmsheiði og víðar en aðaltrjágróðurinn er raunar í görðum og opnum svæðum borgarbúa. Mikið fræmagn er því á ferðinni sem berst með vindum á svæði umhverfis borgina sem lengi hafa verið lítt gróin. Það verður því ekki betur séð að þegar fram líða stundir verði allt höfuðborgarsvæðið umkringt skógi sem er að stórum hluta sjálfsáður án nokkurrar aðstoðar mannana. Tegundirnar sem eru að vaxa hér upp að sjálfu sér virðast vera af ýmsum tegundum, ekki bara birki heldur einnig víðitegundir og annað sem fólk ræktar í sínum prívatgörðum.

Þetta má sjá allt í kringum borgina nema á gróðurvana svæði umhverfis Álverið. Sumstaðar hefur lúpína lagt undir sig heilu holtin eins og svo áberandi er, hún nær þó ekki að kæfa þau tré sem komið hafa þar á undan en spurningin er hvað mun taka við af lúpínunni þar. Þegar frá líður er ekki ósennilegt að trjágróðurinn muni verða ofaná að lokum. Holt þýðir reyndar upphaflega skógur en ekki gróðursnauð eða grýtt hæð eins og merkingin hefur þróast í hér á landi eftir að upphaflegi birkiskógurinn hvarf.

Gamli lágvaxni lynggróðurinn er víða smám saman á undanhaldi hér umhverfis borgina. Þar sem lúpínan nær sér á strik í stórum breiðum er vitanlega ekki mikil fjölbreytni á ferð. Á myndinni hér að neðan má sjá lúpínujurt sem hefur stungið sér niður í krækiberjalyng sem á sér ekki mikla framtíðarvon. Nú ætla ég ekki að vera neikvæður út í eitt eða neinn, svona er náttúran. En hvað um það ég get þó ekki séð að lúpína sé forsenda þess að gróður nái sér á strik næst borginni.


Lúpína og lyng


Bloggfærslur 25. júlí 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband