Trjágróður vex upp umhverfis borgina

Trjágróður

Greinilegt er að allt umhverfis höfuðborgarsvæðið er gróður í mikill sókn. Þetta á ekki bara við um blessuðu lúpínuna sem var mikið til umræðu í síðasta pistli mínum, heldur ekki síður trjágróðurinn. Stundum er talað um að Reykjavík sé stærsti skógur landsins sem er kannski rétt útfrá einhverjum skilgreiningum. Heilmikið hefur verið plantað af trjám t.d. í Heiðmörk, Hólmsheiði og víðar en aðaltrjágróðurinn er raunar í görðum og opnum svæðum borgarbúa. Mikið fræmagn er því á ferðinni sem berst með vindum á svæði umhverfis borgina sem lengi hafa verið lítt gróin. Það verður því ekki betur séð að þegar fram líða stundir verði allt höfuðborgarsvæðið umkringt skógi sem er að stórum hluta sjálfsáður án nokkurrar aðstoðar mannana. Tegundirnar sem eru að vaxa hér upp að sjálfu sér virðast vera af ýmsum tegundum, ekki bara birki heldur einnig víðitegundir og annað sem fólk ræktar í sínum prívatgörðum.

Þetta má sjá allt í kringum borgina nema á gróðurvana svæði umhverfis Álverið. Sumstaðar hefur lúpína lagt undir sig heilu holtin eins og svo áberandi er, hún nær þó ekki að kæfa þau tré sem komið hafa þar á undan en spurningin er hvað mun taka við af lúpínunni þar. Þegar frá líður er ekki ósennilegt að trjágróðurinn muni verða ofaná að lokum. Holt þýðir reyndar upphaflega skógur en ekki gróðursnauð eða grýtt hæð eins og merkingin hefur þróast í hér á landi eftir að upphaflegi birkiskógurinn hvarf.

Gamli lágvaxni lynggróðurinn er víða smám saman á undanhaldi hér umhverfis borgina. Þar sem lúpínan nær sér á strik í stórum breiðum er vitanlega ekki mikil fjölbreytni á ferð. Á myndinni hér að neðan má sjá lúpínujurt sem hefur stungið sér niður í krækiberjalyng sem á sér ekki mikla framtíðarvon. Nú ætla ég ekki að vera neikvæður út í eitt eða neinn, svona er náttúran. En hvað um það ég get þó ekki séð að lúpína sé forsenda þess að gróður nái sér á strik næst borginni.


Lúpína og lyng


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Það er hæpið að segja að þessi trjágróður við Reykjavík sé að spretta upp án nokkurrar aðstoðar manna, hvað þá að náttúran sé bara að vinna sinn gang eins og sagt var í nokkru öðru sambandi um daginn hér á síðunni. Þessi gróður væri EKKI að vaxa þarna á þennan hátt núna ef á undan hefðu ekki farið athafnir manna við ræktun í görðum og trjáreitum. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 25.7.2010 kl. 17:18

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Þú hlýtur að sjá á samhenginu að ég við að þessi gróður sem ég tala um hefur sáð sér sjálfur. Auk þess tala ég um ræktun í görðum og gróðursetningu, þaðan kemur vitanlega fræmagnið.

Emil Hannes Valgeirsson, 25.7.2010 kl. 17:50

3 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Náttúran er líka að vinna sinn gang þegar við erum að tala um uppblástur, útbreiðslu lúpínu og sjálfsáningu trjágróðurs í útjaðri þéttbýlis, jafnvel þótt frumorsökin sé aðgerðir mannsins. Þannig lít ég allavega á það. Það hins vegar að gróðursetja tré, sá lúpínufræjum eða úða á hana eitri er hinsvegar inngrip mannsins. Semsagt, eftir að við höfum gróðursett eða sáð tekur náttúruleg ferli við.

Emil Hannes Valgeirsson, 25.7.2010 kl. 18:11

4 identicon

Emil.    Þú sagðir frá birkihríslunum á Skeiðarársandi í pistli þínum um daginn.      En hefurðu séð Grávíðirinn,Gulvíðirinn og Birkihríslunnar sem eru norðan og vestan við Laufskálavörðu? Um 1970 var ræktað tún ca.1 km. vestan við Laufskálavörðu þá var á því svæði varla nokkur gróður. Nú má heita að þetta land sé algróið með mosa og ýmsum öðrum gróðri þar á meðal þessum skógarhríslum og mjög miklu af bláberja og krækjiberjalyngi.             Sunnan við Leirá og Hólmsá vestast við Hrífunesheiðina er orðið mikið af Birkihríslum þar hef ég séð ca. fingurlanga græðlinga og eins meira en hné háar hríslur. Ég sem fæddur er 1928 man vel eftir hverning allt land leit hér út eftir Kötlugosið 1918,ég þekki því mjög vel hverning gróður hefur þróast hér á undanförnum áratugum. 

Gissur Jóhannesson (IP-tala skráð) 25.7.2010 kl. 22:12

5 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Mér er í barnsminni að á árunum milli 1950 og 1960 var allt umhverfi Þorlákshafnar svartur sandur. Hafnarsandur kallaður. Ágætur í steypu og gjarnan sóttur þangað til slíks og í sandkassa. Auðvitað blés sandinn upp í hóla og á sumum þeirra háði melgresið harða baráttu fyrir lífi sínu. Nú er þetta umhverfi allt orðið breytt og gróið. Á þessum árum voru líka bara 3 götur í Þorlákshöfn og hétu A-gata, B-gata og C-gata.

Sæmundur Bjarnason, 25.7.2010 kl. 23:14

6 identicon

Friðun fyrir beit skiptir örugglega mestu við sjálfgræðslu trjágróðurs við borgina.

Og auðvitað hefur gróðurinn notið góðæris í hitafari síðustu ár.

Núna hefur svæðið verið laust við beit í yfir 30 ár.

Víði tegundir hafa breist mikið út og birkið fylgir í kjölfarið, síðar munu sjálfsánar aspir birtast og stafafuran er dugleg að sá sér í rýru landi.

Eflaust á þetta sinn þátt í að meðal vindhraði hefur stórlækkað síðustu ár og það verður fróðlegt að sjá hvernig svæðin við borgina mun líta út eftir önnur 30 ár eða meira.

Enda hefur veðurfar stórbatnað á Reykjavíkursvæðinu og Reykjavík hefur eignast sitt eigið microclima sem mun skýla mannlífinu enn betur.

Og kannski er þetta hið NÝJA ÍSLAND sem komið hefur hljóðlega án of mikillar aðstoðar mannana og er það vel.

Sakna ekki gamla berangursins með óheftan vindbeljandan úr öllum áttum.

 En þetta 4 þurra góðviðris sumar hefur leikið Rauðavatn ansi grátt og hef aldrei séð jafn lítið í vatninu og núna, virðist fara neðar hvert sumarið.

Valur Norðdahl (IP-tala skráð) 26.7.2010 kl. 00:11

7 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Menn þekkja náttúrulega sínar heimaslóðir best, en gott er að fá staðfestingu á því að landið er ekki bara að fjúka burt. Ég átti stutt stopp við Laufskálavörðu á ferð minni fyrr í sumar en var þá meira með hugann við útsýnið til Kötlu heldur en gróðurinn. Lúpínan á Mýrdalssandi fer þó ekki framhjá manni, ég sætti mig við hana þar vegna sandfoksins sem fyrrum fór illa með farartæki en væntanlega mun hún hverfa í næsta Kötlugosi.

Það hafa jú verið miklir þurrviðriskaflar síðustu sumur sem öruggleg hafa verið erfiðir fyrir gróðurinn. Fullorðinn trjágróður þolir þó slíkt sennilega betur en lægri gróður ímynda ég mér.

Emil Hannes Valgeirsson, 26.7.2010 kl. 00:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband