Bloggfærslur bókfærðar

Hvað skal gera við allt það sem maður hefur skrifað hér á blogginu? Kannski þarf ekki að gera neitt enda er gjarnan sagt að það sem einu sinni hefur verið sett á netið verði þar áfram um aldur og ævi. Ég efast um að margir prenti út það sem þeir skrifa, ég byrjaði á því eitt sinn en hætti því þó fljótlega því mér fannst það ekki gera sig almennilega. Hinsvegar hófst ég handa fyrir nokkrum mánuðum að setja upp allar mínar bloggfærslur í umbrotsforriti þannig að hægt væri að útbúa einskonar bloggrit fyrir hvert bloggár sem mætti fletta fram og til baka. Þessi uppsetningarvinna er frekar seinleg en þegar hér er komið við sögu er ég búinn að setja upp árin 2007 og 2008 og er að hefjast handa við árið 2009. Núna er ég svo búinn að fá prentuð tvö eintök af árinu 2007, frágengnum á 48 síður með stífari kápu þannig að útkoman er hin fínasta bloggbók. Hvað bækurnar verða margar að lokum kemur svo í ljós, það gæti allt eins verið að bloggbók ársins 2010 verði síðasta bindið.

Þetta fyrsta bloggár 2007, hófst reyndar ekki fyrr en í september og því er ritið ekki stærra, auk þess voru margar af mínum fyrstu bloggfærslum frekar stuttaralegar og sluppu oft í gegnum bloggheima án nokkurra athugasemda – sérstaklega framan af. Bloggbók ársins 2008 fer svo í prentun þegar ég læt verða að því. Það rit fer nokkuð yfir 200 síður, en með bloggfærslunum læt ég fylgja allar myndir og athugasemdir ásamt athugasemdum við athugasemdir. Þessi bókfærsla er fyrst og fremst ætluð mér sjálfum en ef svo ólíklega vill til að einhver myndi vilja eiga svona líka, þá má kannski bjarga því.

Hér má sjá hvernig þetta lítur út að utan sem innan. Sjálfum þykir mér hér sannast hin forna speki öldungsins að þótt veraldarvefurinn sé ágætur þá er bókin er alltaf best.

Bloggbók


Bloggfærslur 11. ágúst 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband