17.9.2010 | 22:41
Hafíslágmarkið 2010
Fyrir mig og aðra þá sem fylgjast með þróun hafísbreiðunnar á Norðurhveli er þessi tími ársins uppgjörstími því þetta er jú þegar hafísinn nær sínu árlega lágmarki. Bandaríska hafísrannsóknarstofnunin NSIDC auglýsti á dögunum að 10. september hafi lágmarki ársins verið náð og hafísbreiðan eftir það farin að aukast á ný. Frá upphafi gervihnattmælinga árið 1979 er þetta þriðja minnsta útbreiðsla hafíssins en minni útbreiðsla mældist árið 2008 og metárið 2007.
Hvað sem mönnum finnst um það hvort minnkandi hafís á norðurhveli sé eitthvað til að hafa áhyggjur af eða ekki er þetta mjög athyglisverð þróun sem mikil ástæða er til að fylgjast með. Hafísinn er oft nefndur sem mikilvægt tákn um hlýnun jarðar sem þýðir að menn túlka hafísslágmark hvers árs útfrá því hvað þeim finnst um hlýnun jarðar. Í loftslagsumræðunni skiptast menn gjarnan í efasemdarmenn og áhyggjumenn. Efasemdarmenn gleðjast ekkert sérstaklega þegar haldið á lofti fréttum um lélegt ástand hafíssins en hafa þó leiðinni engar sérstakar áhyggjur þótt ísinn minnki. Áhyggjumenn hafa hinsvegar ekkert á móti því að hafíssútbreiðslan dragist saman ef það verður til að opna augu almenning um alvarleg áhrif hnattrænnar hlýnunar, en hafa samt áhyggjur af minnkandi hafís. Þetta er auðvitað frekar athyglisvert en þarf þó ekki að vera mjög undarlegt.
Spár sem gerðar eru um hafíslágmark markast líka af viðhorfum manna til loftlagsbreytinga, efasemdarmenn spáðu flestir hafíslágmarki yfir 5 milljónum km2 á meðan áhyggjumenn spáðu gjarnan minna en 5 milljón km2. Niðurstaða upp á 4,76 samkvæmt NSIDC hlýtur því að vera tiltölulega hagstæð fyrir áhyggjumenn þótt auðvitað valdi hún þeim nokkrum áhyggjum. Einnig ætti ég sjálfur samkvæmt þessum kannski vafasömu fullyrðingum að teljast til áhyggjumanna enda spáði ég á loftslag.is í vor að lágmarkið yrði 4,5 milljón km2. Þegar þetta er skrifað hef ég reyndar ennþá smá trú á að lágmarkið gæti endað undir 4,76 án þess að ég hafi af því neinar sérstakar áhyggjur.
Þann 15. september s.l. leit hafísútbreiðslan út eins og sést til hægri en til samanburðar sýni ég meðalútbreiðsluna í september fyrir 10 árum. Eins og sjá má eru núna stór íslaus hafsvæði norður af Alaska og Síberíu og báðar siglingingaleiðirnar norður fyrir Síberíu og Kanada greiðfærar skipum ef varlega er farið. Þetta er allt annað ástand en var t.d. um og fyrir aldamót þegar í mesta lagi aðeins önnur leiðin náði að opnast í lok sumars.
Útbreiðsla hafíssins er auðvitað bara einn mælikvarði á heilbrigði ísbreiðunnar. Ísinn getur verið misjafnlega gisinn á milli ára. Í metlágmarkinu árið 2007 náðu vindar t.d að þjappa ísnum mikið saman og hrekja hann suður um sundið milli Grænlands og Svalbarða. Þetta hefur ekki gerst í sama mæli í sumar.
Hinn eini sanni mælikvarði hlýtur hins vegar að vera heildarrúmmál íssins þar sem þykktin á ísnum er tekin í dæmið. Það hefur hins vegar verið erfitt að meta þykkt íssins af nógu mikilli nákvæmni hingað til. Úr þessu verður bætt á næsta ári þegar upplýsingar fara að berast frá nýju gervitungli Gryosat-2 sem mælir þykkt íssins með mikilli nákvæmni. Við hafísaðdáendur getum vonandi fylgst með þeim mælingum jafnóðum á netinu.
Að lokum er hér mynd sem ég útbjó útfrá ljósmyndum sem nálgaðist á Arctic Mosaic síðunni hjá NASA og er frá 16 september. Breidd myndarinnar ætti að spanna um 1000 km en norðurpóllinn er þarna í hvíta svæðinu vinstra megin. Eins og sjá má er ísinn afskaplega lítilfjörlegur þarna lengst norður undir pólnum, stór opin svæði í bland við gisinn ís og kannski bara freistandi fyrir einhvern að skella sér í ískalt sjósund