26.1.2011 | 18:44
Köping eða Sjöping
Í staðinn fyrir að nöldra yfir handboltanum í Svíþjóð eða öðru klúðri þá ætla ég að taka fyrir annað mál sem er framburður á erlendum borgum og öðrum heitum. Þær eru allnokkrar borgirnar í Svíþjóð sem kennd eru við köping, eins og t.d. Söderköping, Nyköping, Norrköping, Linköping og ekki síst Jönköping þar sem við Íslendingar höfum höfum farið flatt á handboltavellinum. Af einhverjum ástæðum þykir fjölmiðafólki hér á landi mjög fínt að stæla framburð innfæddra á þessum staðarheitum og segja t.d. Linsjöping eða jafnvel Linhjöping og eltast þannig við þá fötlun Svía að geta ekki borið fram ká-ið á þessum kaupstöðum. Auðvitað er miklu nærtækara fyrir okkur að segja bara Linköping samkvæmt rithætti þegar við tölum saman hér innanlands. Hinsvegar er annað mál ef við viljum gera okkur skiljanleg á sænskri grund því þá er auðvitað sjálfsagt að notast við þann framburð sem tíðkast á staðnum.
Svipað má segja um önnur nöfn í útlöndum. Nú má ekki lengur segja Peking eins og alltaf hefur verið gert - heldur Beidsjíng eða eitthvað álíka og meira að segja búið að breyta stafsetningunni í Beijíng. Þetta kallar maður að beygja sig fyrir Kínverjum. Á maður kannski líka að segja Beidsjíng-önd?
Þegar Titanic-æðið gekk hér yfir fyrir nokkrum árum var farið að bera fram nafn óhappafleytunnar sem TætAnikk með sérstakri áherslu á a-ið eins og gert er í Ameríku. Bandaríska hljómsveitin REM hét allt í einu aríem, eftir að Bylgjan hafði uppgötvað hljómsveitina 20 árum eftir að hún kom fram. Fram að því hafði alltaf bara verið sagt rem, sem dugar okkur fínt.
Svo má líka nefna söngkonuna Eivöru Pálsdóttur hina Færeysku. Alltaf skal hún kölluð Ævör hér á landi í staðinn fyrir Eivör sem er réttari Íslenskur framburður. Ævör þýðir ekkert á íslensku.
Þegar kemur að því að ég verð heimsfrægur verð ég sjálfsagt kallaður Eimel í Bandaríkjunum eða kannski Ímeil og ekkert við því að gera. Þeir hafa sinn framburð og mega það fyrir mér. Hinsvegar virðast Svíar kunna að bera fram nafnið mitt ef marka má sjónvarpsþættina um nafna minn í Kattholti. Það er kannski helst að faðir hans hafi teygt heldur mikið úr sérhljóðunum þegar honum hitnaði í hamsi.
Rigningarsumar í Söderköping árið 2007. Myndin er tekinn við Gautakanalinn.