Hinn dularfulli síðasti snjóskafl í Esjunni árið 2005

Nú fylgjast skaflaáhugasamir Reykvíkingar með örlögum síðasta snjóskaflsins sem sjáanlegur er í Esjunni þetta árið. Skildi hann hafa það af eða ekki? Ef svo fer að hann hverfi yrði það ellefta árið í röð sem það gerðist, en til samanburðar hvarf hann mest 5 ár í röð á 20. öld (þ.e. árin 1932-1936). Þegar fjallað hefur verið um þessi mál undanfarið hefur komið fram að á þessari öld hafi skaflinn aldrei lifað lengur en til 25. september. Reyndar mun það hafa gerst í tvígang, í fyrra skiptið árið 2001 og síðan árið 2009. En hér vil ég meina að skaflasagnfræðinni sé eitthvað ábótavant. Samkvæmt annars ágætu yfirliti á veðurstofuvefnum um Esjufannir kemur fram að árið 2005 hafi síðasti skaflinn horfið þann 18. ágúst en ég ekki 18. október eins og tel að sé réttara og ég hef sjálfur nóterað hjá mér. Þarna munar tveimur mánuðum og ef síðari dagsetningin er rétt sýnir það að skaflar geta ekki talist hólpnir þótt komið sé fram í október. Lítum á þetta nánar.

Mbl 14. ágúst 2005

Þessi ágæta mynd hér að ofan birtist í Morgunblaðinu þann 14. ágúst 2005 og sýnir síðasta snjóskafl þess sumars í Esjunni. Ekki kemur fram hvenær myndin var tekin en af veðrinu að dæma ætti hún að vera tekin að kvöldi hins sólríka 12. ágúst, aðeins 6 dögum áður en skaflinn á að vera horfinn. Samkvæmt fréttinni mældist hann þarna 20 metrar á lengd og um 300 fermetrar að stærð. Vitnað er í Einar „okkar“ Sveinbjörnsson sem taldi að dagar snjóskaflsins yrðu taldir undir lok mánaðarins eða í byrjun september og hlýinda- og vætutíð framundan. Vissulega gerði vætutíð dagana á eftir en miðað við hversu þrálátir síðustu skaflarnir geta orðið má setja stórt spurningamerki við það að allir 300 fermetrarnir af Esjufönn hafi horfið á sex dögum.

Mbl 26.ágúst 2006Árið eftir, eða þann 26. ágúst 2006 var í Mogganum spjallað við Pál Bergþórsson sem oftar, um Esjuskafla. Þar kom fram að síðasti skaflinn árið 2005 hefði einmitt horfið þann 18. október eins og ég tel rétt vera. Það var hinsvegar „leiðrétt“ í blaðinu daginn eftir og fullyrt að skaflinn hefði horfið þann 18. ágúst og virðist sú dagsetning vera orðin sú opinbera. Önnur leiðrétting með greininni var sú að ekki væri allur snjór horfinn úr Esjunni því enn væru fannir norðanmegin (en það er aukaatriði).

Sjálfur grunar mig að þetta hafi verið þannig að skaflinn hafi mikil látið á sjá seinni hluta ágústmánaðar 2005 en ekki náð hverfa og hafi ennþá verið sýnilegur frá borginni lengi fram eftir september. Sá september var sæmilegur framan af en eftir þann 20. gerði mikið kuldakast og snjóaði þá í Esjuna og þar með ofaná leifarnar af umræddum skafli. Nýfallinn snjór er ekki alltaf lífseigur og þrátt fyrir misjafnt tíðarfar fyrri hluta október náði allur snjór að lokum að hverfa úr Esjunni þann 18. október. Þess má geta að í minni veðurbók skrái ég 12-13 stiga dagshita dagana 15. til 17. október. Ef minnið svíkur mig ekki þá rámar mig síðan í að hafa rætt það á afmælisdegi mínum þann 30. september árið 2005 hvort Esjan næði að hreinsa af sér snjóinn á ný og þar með síðasta skaflinn. Sjálfur hef ég skráð lokadagsetningu skaflsins hin síðustu ár og í því yfirliti stendur 18. október fyrir árið 2005.

Ég vil þó ekkert útiloka að dagsetningin 18. ágúst sé réttari en 18. október*. Mögulegt er að í mínum skráningum hafi ég haft til hliðsjónar fréttina í Morgunblaðinu þann 26. ágúst 2006 sem síðar var leiðrétt. Í mínum huga er þetta hið dularfyllsta mál og úr því að verið er að taka svona upplýsingar saman er betra að hafa þær réttar. Tveir mánuðir til eða frá er ekki lítið atriði þegur kemur að skaflasagnfræði Esjuhlíða.

- - - -

*Viðbót og niðurstaða um miðnætti. Nú er ég búinn að komast að því sennilega hafi síðast snjóskaflinn eftir allt saman horfið í ágúst þarna árið 2005. Þökk sé þessari athyglisverðu myndaséríu af Esjunni sem ég var að finna á gúgglinu. http://eirikur.is/esjan.htm Ljósmyndarinn er Eríkur Þ. Einarsson.

Samkvæmt þeim bráðnaði septembersnjórinn talsvert í október en þó ekki svo að Esjan yrði snjólaus. Þannig að þá er ég með það á hreinu.


Bloggfærslur 2. október 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband