Hversu slæmt var veðrið í apríl?

Snjókoma apríl

Áður en ég kem að því hversu slæmt veðrið var í apríl (hafi það yfirhöfuð verið slæmt) þá finnst mér ég fyrst þurfa að gera smá grein fyrir veðurskráningunum mínum sem staðið hafa í tvo og hálfan áratug enda veit ég aldrei hversu vel kunnugir lesendur eru þeim. Ég skrái semsagt hjá mér veðrið í Reykjavík hvern dag með myndrænum hætti og tölum sem eiga að lýsa hinu dæmigerða veðri yfir daginn hverju sinni. Útfrá þessum skráningum gef ég hverjum degi einkunn á kerfisbundinn hátt en þar er einfaldlega gengið út frá því að hiti sé betri en kuldi, sólskin betra en sólarleysi, hægviðri betra en hvassviðri og þurrviðri betra en úrkoma. Allir þessir fjórir veðurþættir hafa svipað vægi í einkunnagjöfinni. Hver veðurþáttur getur fengið 0-2 stig, þannig að algóður dagur getur mest fengið 8 stig en alsæmur 0 stig. Hver mánuður fær síðan sína einkunn útfrá meðaltali allra daga mánaðarins. Það telst gott ef mánaðareinkunn er yfir 5 stigum en afleitt ef mánuður nær ekki 4 stigum.

Apríl 2011Skráning apríl 2011

Nýliðinn aprílmánuður fékk samkvæmt þessu skráningar- kerfi einkunnina 3,7 stig sem telst eiginlega vera falleinkunn en sjálfsagt í ágætu samræmi við upplifum flestra borgarbúa.

Hér til hliðar er veðurskráningin. Aftasti dálkur eru einkunnir, aftan við vindörvarnar er hiti dagsins og tákn sem segja hvort dagurinn telst vera í meðallagi hlýr (þríhyrningur), hlýr (hringur) eða kaldur (ferningur). ATH. Myndin birtist stærri ef smellt er á hana.

Í mánuðinum skráði ég aðeins einn alvöru sólskinsdag og nokkra hálfa. Úrkomudagarnir voru hinsvegar margir og úrkoman oft ansi lárétt enda var þetta mjög vindasamur mánuður með þrálátu skúra- og éljaveðri úr suðri- eða suðvestri. Það góða var þó að hitinn var vel yfir meðallagi og í góðu samræmi við meðalhita aprílmánaða síðustu ára. Mánuðinum lauk með snjókomu og hvítri jörð eftir kaldasta dag mánaðarins.

Tvo merkisatburði hef ég skráð til hliðar. Þann 9. var Icesave-kosningin undarlega sem kannski var bara stormur í vatnsglasi en daginn eftir kom alvöru stormur og fékk sá dagur 0 stig í skráningunni sem er mjög sjaldgæft. Dagurinn hefði reyndar átt að fá 1 stig vegna hita í meðallagi en það stig strokaðist út vegna stormsins sem gaf eitt mínusstig sem neikvætt öfgatilfelli.

Nokkrir góðir aprílmánuðir til samanburðar:

Apríl 1998 - Einkunn 5,4. Þetta er mjög góð einkunn og sú hæsta sem aprílmánuður hefur fengið hjá mér. Mánuðurinn er kannski ekki mjög eftirminnilegur en var góður á alla kanta og tók þetta eiginlega á seiglunni án þess að slá nokkur met.
Apríl 2008 - Einkunn 5,3. Mjög svipaður mánuður og apríl 1998 með alla veðurþættina góða. Þurr, hlýr sólríkur og hægviðrasamur mánuður.
Apríl 2000 - Einkunn 5,1. Þessi mánuður er eftirminnilegur vegna feiknamikils sólskinskafla dagana 14.-25. apríl sem gerði þetta að sólríkasta apríl í Reykjavík sem mælst hefur. Hinsvegar var hitinn ekki mikill og kaldari apríl hefur ekki mælst síðan. Eðlilega var lítið um úrkomu í svona mánuði þannig að á mælikvarða gróðurs var þetta ekki óskamánuður. Einkunnakerfi þessu er reyndar alveg sama um það.
Apríl 2001, 2003 og 2005 - Einkunn 5,0. Hér má minnast á apríl 2003 vegna þess að það er hlýjasti apríl sem mælst hefur í Reykjavík og víða um land. Aðrir veðurþætti voru hinsvegar nærri meðallagi í Reykjavík. Dálítið athyglisvert er að köldustu dagar mánaðarins voru fyrsti og síðasti dagurinn, nánast allir aðrir dagar voru mildir eða hlýir.

Og sá versti:

Apríl 1987 - Einkunn 3,6. Þetta er fyrsti skráði aprílmánuðurinn hjá mér og sá sem enn situr uppi með lægstu einkunnina. Nýliðinn aprílmánuður er reyndar sá eini sem hefur náð að ógna þessum frá Mbl 3.maí 19871987. Veðrið var reyndar ekki ósvipað og í ár og mánuðirnir eiga ýmislegt sameiginlegt. Mikill óstöðugleiki var með tíðum útsynningséljagangi en þó var öllu kaldara 1987. Síðasta vikan var sérlega éljasöm og hvöss og alveg í lokin stökk lægð yfir Grænlandsjökul sem olli mikilli snjókomu síðasta kvöld mánaðarins og fram á nóttina þannig að snjódýptarmet var sett fyrir maímánuð í Reykjavík morguninn eftir. Sá mikli snjór bráðnaði þó hratt í ört rísandi 1. maí-sólinni (sjá meðfylgjandi frétt úr Mbl. 3. maí 1987). Snódýpin að morgni 1. maí 1987 mældist 17 cm en til samanburðar mældist hún nú í ár 16 cm að morgni 1. maí, ekki munar miklu.

Almennt að lokum

Það er hægt að hafa misjafnar skoðanir á því hverskonar veður eru góð eða slæm en miðað við þær forsendur sem ég gef mér er þetta niðurstaðan. Veðrið eins og það var í Reykjavík núna í apríl er ekki vinsælt meðal fólks og ekki það vorveður sem fólk gerir sér vonir um. Sé farið lengra aftur í tímann má kannski finna verri aprílmánuði og marga harðindalegri. Veðurminni fólks er upp og ofan og því má segja um nýliðinn apríl að hann hafi allavega verið verri en yngstu menn muna og jafnvel einnig hinir eldri.


Bloggfærslur 1. maí 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband