Eurovisionframlag Albaníu í hitteðfyrra

Ég hef alla tíð haft áhuga á Eurovision keppninni en mætt mismiklum skilningi þegar ég dásama þá keppni. Í fyrra spurði einn vinnufélagi minn hvort Eurovisionáhugi minn væri írónískur að einhverju leyti. Ég svaraði því að áhuginn væri einlægur, sem er alveg einlægt svar, en ég útiloka þó ekki að einhver írónía komi við sögu skilji ég það hugtak rétt.
En jæja, það sem ég ætla að bjóða upp á sem Eurovision-framlag mitt í ár er upprifjun á framlagi Albaníu árið 2009. Í fullri einlægni þá finnst mér þetta vera gott lag og í hópi hinna betri á seinni árum. Laginu var líka spáð góðu gengi í keppninni en eitthvað hefur það farið á mis því það endaði bara í 17. sæti í lokakeppninni, þeirri sömu og norski fiðlustrákurinn sigraði í og Jóhanna okkar lenti í öðru sæti.

Ég er hérna með þrjú Youtube myndbönd af þessu framlagi Albaníu. Það fyrsta er frá forkeppninni þar sem lagið er flutt á móðurmálinu og í lengri útgáfu en keppnisreglur segja til um. Stórsveit Albanska ríkissjónvarpssins er mætt á sviðið í fullum skrúða og fer mikinn í instrumental milliköflum – margar fiðlukonur í fínum kjólum en flaututónarnir eru þó flottastir og gefa laginu framandi austrænan blæ. Söngkonan Kejsi Tola er bara 17 ára og tekur því frekar rólega á sviðinu eða er kannski ekki alveg búinn að finna taktinn en skilar söngnum með mestu prýði. Annars er þetta nokkuð hefðbundið taktpopp með tilheyrandi upphækkunum og slíku, en laglínan er fín og leynir á sér.




Næsta myndbrot er styttra og sýnir bara bút úr laginu sem þarna komið í sinn endanlega enska keppnisbúning. Söngkonan er þó greinilega ekki búin að ákveða sinn keppnisbúning en fikrar sig áfram í taktinum.  Grafíkdeild albanska ríkissjónvarpsins stelur eiginlega senunni þarna en fer svona heldur of geyst í bakgrunnsgleðinni.




Að lokum er það svo aðalkeppnin. Hafi einhverjir ekki kannast við lagið fram að þessu þá rifjast sennilega eitthvað upp þegar þeir sjá hvernig lagið gerði sig á sviðinu. Flutningur lagsins tókst með miklum ágætum hjá Kejsu Tola en spurning hvort sumum hafi verið ofaukið þarna á sviðinu. Það er nú svona með frumlegheitin, stundum ganga hlutirnir upp og stundum ekki. Umgjörð lagsins er allt önnur en í upphafi og erfitt að sjá að þetta sé sama manneskjan á sviðinu að syngja. En þrátt fyrir nýtt „átfitt“ er röddin sú sama.

- - - - -

Við Íslendingar erum að sjálfsögðu með í lokakeppninni laugardaginn. Sjálfum finnst mér það vera besta framlag okkar í háa herrans tíð og líklegt til alls. Allt getur því gerst í þessari keppni og svo getur líka auðvitað allt ekki gerst.

 


Bloggfærslur 13. maí 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband