Horft á heiminn III

Í okkar þrívíða heimi er reglan sú að hlutir minnka fyrir augum okkar eftir því sem fjarlægðin til þeirra eykst uns þeir að lokum hverfa í fjarskann. Samsíða línur í umhverfinu stefna í áttina að sameiginlegum hvarfpunktum. Þráðbeinir vegir sem við horfum eftir mjókka þannig í átt að einum punkti einhverstaðar við sjóndeildarhringinn. Þetta tók ég fyrir er ég horfði á heiminn síðast og var þá að lokum horfinn í víðáttumikinn hvarfpunktaheim þar sem allt var farið að bjagast og verpast meira en góðu hófi gengi. En nú verða hlutirnir einfaldari því hér verður heimurinn skoðaður án slíkra hvarfpunkta og sjónhverfinga. Það er hin fjarvíddarlausa sýn á heiminn þar sem hlutir minnka ekki með aukinni fjarlægð.

Japönsk teikningÁ þessari teikningu sést hvernig Japanir fóru að þegar þeir teiknuðu upp rými. Hér eru engin fjarvíddaráhrif. Allar línur sem eru samsíða í umhverfinu halda áfram að vera samsíða á myndinni og ekkert minnkar með aukinni fjarlægð – hvorki fólk, né byggingar. Þessi sýn er nálægt hinni klassísku ísómetríu sem mikið er notuð tækniteikningum og útskýringamyndum allskonar.

 

ísómetría

 

Í hreinni ísómetríu er horft skáhalt á formin, teningslaga hlutir mynda 60 og 120 gráðu horn og við sjáum á þrjár hliðar í einu. Þegar horft er ofaná húsbyggingar og þær teiknaðar upp með þessari aðferð er hægt að víkka út sjónsviðið án þess að nokkuð bjagist, allt er jafn nálæg og það er aldrei neinn sjóndeildarhringur. Veggir og allt það sem lyftist upp af yfirborðinu rís lóðrétt upp af grunnmyndinni, en vegna þess að grunnmyndin hallast (30°) verða allir lóðréttir flettir skakkir sem því nemur.

 

axonometriaÖnnur útgáfa af svona fjarvíddar- lausri sýn er þegar horft er beint ofaná grunnmyndina þannig að 90 gráðu horn halda sér í láréttum flötum eins og ef horft væri beint ofaná. Svona teikningar eru stundum kallaðar axónómetría, en það orð getur reyndar líka verið samheiti yfir allar svona fjarvíddarlausar þrívíddar- teikningar, þar á meðal ísómetríu.

Ísómetría og axonometría eru ekki eðlileg sýn á heiminn vegna skorts á fjarvídd og sjást því nánast bara í teikningum og gjarnan í tölvuleikjum. En nú er það svo að fjarvíddaráhrif minnka eftir því sem við horfum á heiminn úr meiri fjarlægð. Þegar við horfum í gegnum sjónauka ruglast til dæmis fjarlægðarskynið því þá erum við að stækka upp það sem er langt í burtu án þess að fjarvíddaráhrifin fylgi á eftir.

Það er líka athyglisvert að sjá hvað gerist í þessari mynd hér að neðan sem tekin er úr geimnum af borginni San Francisco og minnir einna helst á tölvuleikinn SimCity Þarna er sjónarhornið mjög þröngt og hátt, en myndin stækkuð mikið upp. Við þetta verða fjarvíddaráhirfin nánast engin og ekki verður betur séð en að þarna séum við komin mjög nálægt axónómetríunni.

SanFrannisco

 

Til samanburðar er næsta mynd sem tekin er ofan úr Empire State niður á byggingar Manhattan. Hér eru fjarvíddaráhrifin komin inn enda erum við mun nær jörðu og sjónsviðið víðara.

Manhattan

- - - -

Þar með hef ég lokið fjarvíddarpælingum að sinni. Hlekkir eru hér að neðan á fyrri hlutana tvo í þríleiknum:

Horft á heiminn I

Horft á heiminn II 

 


Bloggfærslur 8. maí 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband