2.9.2011 | 22:30
Hversu gott var veðrið í ágúst?
Þá er komið að dagbókaryfirliti fyrir nýliðinn ágústmánuð í Reykjavík ásamt smá samanburði við fyrri ár. Sem fyrr er þetta unnið upp úr eigin veðurskráningum sem ná aftur til ársins 1986. Aukaafurð þessara skráninga er mitt háþróaða einkunnakerfi sem tekur mið af veðurþáttunum fjórum: sól, úrkomu, vindi og hita. Alslæmir dagar fá 0 í einkunn en algóðir dagar fá 8. Það telst gott ef meðaleinkunn mánaðarins er yfir 5 stigum en afleitt ef hún nær ekki 4 stigum. Allt þetta miðast eingöngu við veðrið í Reykjavík yfir daginn.
Hér til hliðar er veðurskráningin fyrir nýliðinn ágúst. Tölurnar aftast eru einkunnir. Í dálki á eftir vindörvum er hiti dagsins. Táknin þar fyrir aftan segja til um hvort hiti dagsins teljist í meðallagi, hlýr eða kaldur. Fyrri hluta ágústmánaðar miða ég meðallagið við 10-15 stig en seinni hlutann 9-14.
Ágúst 2011 - Einkunn 5,2
Nýliðinn ágúst fékk samkvæmt þessu skráningarkerfi einkunnina 5,2 stig sem telst góð einkunn og vel yfir meðallagi. Allir mánuðir frá því í maí hafa verið góðir í Reykjavík og náð einkunn í kringum 5 stig en nýliðinn ágúst gerir betur og fær hæstu einkunn það sem af er ári. Frá því skráningar hófust hefur aðeins einn ágústmánuður náð betri einkunn, en ég kem að því hér síðar.
Mánuðurinn var vissulega sólríkur en margir hafa þó verið sólríkari og hann var hlýr þótt margir hafa verið hlýrri, hinsvegar er þetta með allra þurrustu ágústmánuðum í borginni og að auki fæ ég út að hann hafi verið óvenju hægviðrasamur og er að því leyti eins og bestu vormánuðir. Boxið neðst til vinstri á skráningarsíðunni sýnir tíðni og styrk hverrar vindáttar og þar fær norðanáttin hæsta gildið enda voru 5 norðanáttardagar í röð um miðjan mánuðinn. Hlykkjóttar hægviðrispílur eru algengar en aldrei þurfti ég að teikna tvöfaldar hvassviðrispílur. Talan 43 fæst með því að leggja tölurnar saman í boxinu en þetta er lægsta vindatalan sem ég hef skráð fyrir ágúst. Eftir á að koma í ljós hvort Veðurstofan sé sammála mér þarna.
Hæsti hiti mánaðarins náðist þann 5. ágúst í skýjaðri norðaustanátt og það er eina skiptið sem hitinn náði 20 stigum í borginni í sumar og voru það akkúrat 20 stig eftir því sem ég best veit. Skráðar hitatölur hjá mér (dálkur á eftir vindörvunum) sýna dæmigerðan hita yfir daginn hverju sinni. Meðaltal þeirra er 13,3° og það getum við kallað dæmigerðan dagshita í mánuðinum.
Bestu ágústmánuðir frá 1986
Ágúst 2004 - Einkunn 5,3. Þessi mánuður er sögulegur vegna hitabylgjunnar óvenjulegu sem þá reið yfir og þetta er með allra hlýjustu mánuðum sem yfirleitt hafa komið í Reykjavík þótt reyndar hafi verið enn hlýrra að meðaltali árið á undan. Mánuðirinn var einnig mjög sólríkur og þurr og hefði fengið algera úrvalseinkunn ef fyrstu og síðustu dagarnir hefðu ekki skemmt fyrir.
Ágúst 2009 og 2011 - Einkunn 5,2. Hér er nýliðinn mánuður í góðum félagsskap með ágúst 2009. Það sumar var með eindæmum gott í Reykjavík, allavega samkvæmt mínum bókum en sumrin hafa reyndar flest verið mjög góð undanfarin ár hér í borginni. Ágúst 2009 var heldur sólríkari og hlýrri en nú í ár en ekki eins hægviðrasamur.
Ágúst 1987 - Einkunn 5,1. Þessi mánuður þótt aldeilis góður á sínum tíma enda voru sumrin ansi misgóð á 9. áratugnum. Eins og oft gerist datt botninn úr þessum mánuði í lokin því lengst af stefndi þarna í mun hærri einkunn.
Ágúst 1994, 2003 og 2010 - Einkunn 5,0. Þarna má sjá ágústmánuð í fyrra og hlýjasta ágúst sem mælst hefur í Reykjavík á því hlýja ári 2003. Ágúst 1994 gerði það gott með alhliða gæðum en ekki endilega mörgum sólardögum.
Og þeir verstu:
Ágúst 1995 - Einkunn 4,0. Þarna skráði ég bara 3,5 sólardaga sem segir sína sögu enda var þetta mjög þungbúinn sunnanáttarmánuður sem nýttist betur norðanlands og austan.
Ágúst 2005 - Einkunn 4,2. Einhvern veginn tókst þessum mánuði að falla á prófinu en hann var ekkert afgerandi slakur nema þá helst vegna sterkra vinda úr ýmsum áttum og misslæmum veðrum inn á milli.
Fleiri mánuði nefni ég ekki til sögunnar en allir hinir hafa fengið einkunnir á bilinu 4,44,9. Enn eitt góðviðrissumar er að baki hér í Reykjavík. Senn svífur að hausti með kraftmeiri veðrum, meira fjöri og áframhaldandi veðurskráningum. Ég á síður von á að að halda birtingum á þeim áfram nema þjóðin fari fram á það með miklum látum sem er frekar ólíklegt.