30.11.2012 | 18:24
Óleyfileg athugasemd
Kristinn Pétursson skrifar í dag bloggfærsluna: Nú verður fjallað opinberlega um jöklastöðu á Íslandi fyrir 2500 árum þar sem hann gerir hlýindi fyrri árþúsunda á íslandi og nágrennis að umtalsefni. Hann talar m.a. um hvað jöklar voru smáir hér á landi fyrir 2.500 árum sem reyndar er vel þekkt staðreynd. Einnig spáir hann í hvernig Grænlandsjökull hafi litið út á hlýrri tímum og kallar eftir grafískri mynd af jöklinum á fyrri tíð og líka af ísnum á norðurpólnum. Í framhaldinu koma svo fram hjá honum klassískar efasemdir um það hvort nokkuð sé að marka mælingar á hitafari jarðar og svo ýmislegt fleira í þeim dúr. Ekki tókst mér að skrifa athugasemd við færslu hans þar sem ég hef ekki leyfi til þess enda er þetta eldheitt málefni og sígild deiluefni hér á blogginu þar sem hver telur sig vita best og skil ég þar sjálfan mig ekki undan. Ég tók skjáskot af athugasemdinni sem ég birti hér að neðan. Þetta er því ekki eiginleg bloggfærsla hjá mér enda er ég að hugsa um að taka þetta út aftur áður en langt um líður.
Athugasemdin var á þessa leið:
"Minni jöklastaða hér fyrr á tímum er vel þekkt meðal vísindamanna og ég veit ekki betur en að þeir séu almennt sammála um ástæður þess að loftslag hafi farið smám saman kólnandi síðustu árþúsund og fram að upphafi 20. aldar.
Grafískar myndir um stærð jökla og ísbreiða aftur í tímann eru mjög háðar ágiskunum. Þó er nokkuð ljóst að Grænlandsjökull hefur haldið flatarmaláli sínu að mestu enda er Grænland eins og skál sem er full af ís. Þegar ís Grænlandsjökuls minnkar þá lækkar í skálinni en flatarmál breytist lítið. Þetta er ólíkt Íslandi sem er meira bungulaga með jöklum ofaná sem eru miklu viðkvæmari fyrir bráðnun."
Fleira mætti gera athugasemdir við í skrifum Kristins en þar skín í gegn sú hugmynd hans og reyndar margra annarra að hlýindin núna séu ekki svo merkileg vegna þess að hlýtt hafi einnig verið áður fyrr og það sem við séum að upplifa núna sé bara náttúruleg sveifla sem mun vonandi ekki ganga til baka. Málið er hinsvegar það að núverandi hlýindi, eins góð og þau eru akkúrat fyrir okkur hér íslandi nú um stundir, eru talin vera aðeins hluti af þeirri hnattrænu hlýnun sem sennilega mun halda áfram langt fram á næstu öld ef ekki lengur. Hlýindin sem voru hér fyrir nokkrum árþúsundum voru af allt öðrum toga en þau sem eru í dag. Þau voru aðallega bundin við norðurhvel og orsökuðust af meiri möndulhalla jarðar sem gerði það að verkum að sólgeislun var meiri að sumarlagi á norðurhveli þannig að ís og jöklar áttu erfiðara uppdráttar en í dag. Þróunin til minni sólgeislunar að sumarlagi mun halda áfram í nokkur þúsund ár til viðbótar eftir því sem jörðin réttir meira úr sér en síðan mun þróunin snúast aftur við.
Hver sem er getur gert hér athugasemdir eins og ávallt á þessari bloggsíðu.