Hvað er verið að gera við Lögreglustöðina?

Lögreglustöðin

Nú hafa viðgerðarflokkar hafist handa við stórfellda endurnýjun á ytra byrði Lögreglustöðvarinnar við Hlemm. Samkvæmt frétt sem ég sá einhverstaðar munu gulu flísarnar, sem gefið hafa lægri byggingunni sinn sérstaka karakter ekki sjást meir. Þær verða huldar einangrunarefni og húsið klætt hvítum álplötum sem einnig munu hylja hvíta múrverkið sem rammar inn flísarnar. Hvort hærri aðalbyggingin hljóti sömu örlög veit ég ekki en það kæmi mér ekki á óvart. Sjálfsagt hefur verkfræðingum þótt þetta góð lausn og ég efast ekki um að þessi málmhjúpur verji bygginguna ágætlega fyrir veðrum og vindum. En er þetta samt bara sjálfsagt mál?

Mikið gert af því að vernda útlit bygginga séu þær nógu gamlar. Sjálfsagt þykir að færa hin elstu hús í upprunalegt útlit eða jafnvel að endurbyggja þau frá grunni. Annað virðist gilda um hálfgömul hús – eða þau sem eru ekki nógu gömul, eins og tilfellið er með Lögreglustöðina við Hlemm. Sú bygging er reist á þeim tímum þegar Reykjavík var að breytast úr bæ í borg en þá risu mikil skrifstofuhús í nútímastíl þess tíma. Sennilega hafa ekki margir velt fyrir sér þeim möguleika að Lögreglustöðin við Hlemm sé merkileg bygging últitslega séð. Húsið var teiknað af Gísla Halldórssyni sem annars er þekktur fyrir merkisbyggingar eins og Hótel Loftleiði, Tollhúsið o.fl. Þessar byggingar voru margar metnaðarfullar og gáfu borginni nútímalegt yfirbragð, þótt vissulega hafi allskonar útlitslegir árekstrar stundum átt sér stað, aðallega í kvosinni.

Þegar vinnupallar við Lögreglustöðina hafa verið teknir niður mun blasa við ný ásjóna hússins sem væntanlega verður mun karakterlausara en áður. Kannski munu einhverjir fagna því en ég er ekki alveg sáttur … en hvað skal gera í þessu veit ég ekki. Það þýðir kannski lítið að hringja í lögguna.


Bloggfærslur 3. febrúar 2012

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband