20.4.2012 | 01:04
Haförn í Esju
Í gönguferð á Esjuna sumardaginn fyrsta kom ég auga á þennan tignarlega haförn og ekki annað að sjá en hann hafi klófest fullorðinn fugl þarna í björgunum. Myndin er tekin niður af bjargbrún við klettabeltið mikla fyrir ofan Esjuberg. Örninn birtist bara allt í einu á harðaflugi töluvert fyrir neðan mig í stóru gili sem ég var einmitt að ljósmynda og náði ég því að fanga hann á mynd með bráð sína.
Klettabeltið og gilin á þessum slóðum eru alveg feiknarlega tignarleg. Þessi mynd er tekin í rúmlega 700 metra hæð og sést í Kjalarnes og í fjarska þarna efst til vinstri er Reykjavík. Eins gott er að vera ekki mikið að þvælast niður þessi gil, en á sama tíma var útlendingur og koma sér í sjálfheldu austar í Esjunni.
Ferðinni var annars heitið á þennan tind sem er sjálfur Kerhólambur í Esju, 852 metrar á hæð. Sjónarhornið er úr norðvestri og eins og sjá má er mikill snjór þarna að norðanverðu. Sé einhver ekki með það alveg hreinu hvaða hluta Esjunnar ég er að tala um, þá hjálpar þessi mynd hér að neðan væntanlega eitthvað. Gönguleiðin er merkt inn með rauðu.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 01:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)