Óli Grís

Ég vil byrja á að biðjast margfaldlega afsökunar á þessari fyrirsögn. Það er ekki gott að uppnefna fólk og allra síst forsetann. Þetta uppnefni var samt talsvert notað hér áður í forsetatíð Ólafs, en þeir sem það gerðu er nú margir meðal æstustu aðdáenda hans og jafnvel teknir til við að uppnefna aðra. Engin uppnefnir hinsvegar forsetann í dag, sem er ágætt. Núverandi andstæðingar kunna sig því kannski eitthvað betur. Allavega svona yfirleitt.

Eins og mörgum öðrum þá finnst mér eitt það versta í kosningabaráttunni þegar menn tala á þeim nótum að það sé spurning um fullveldi Íslands að Ólafur nái endurkjöri. Þannig er reynt að snúa umræðunni að ef Þóra nái kjöri þá muni hún með hjálp Samfylkingar véla okkur inni í hið ógurlega Evrópusamband án þess að þjóðin fái rönd við reist. Þóra hefur jafnvel verið kölluð anti-þjóðfrelsisinni eins og ekkert sé sjálfsagðara, öfugt við hinn göfuga og þjóðholla forseta vorn Herra Ólaf Ragnar Grímsson eins og ég hef séð orðað.

Sjálfur er ég ekki fylgjandi inngöngu Íslands í Evrópusambandið svo lengi sem við höfum möguleika á að standa utan þess. Ég hef hinsvegar engar áhyggjur að því að Ísland muni gerast aðili gegn vilja þjóðarinnar og get því meðal annars þess vegna sleppt því að kjósa Ólaf til forseta eina ferðina enn. En þjóðin mun auðvitað kjósa sinn forseta eins og hún hefur alltaf gert og þjóðin mun ákveða hvort Ísland standi utan eða innan Evrópusambandsins. Hvað sem því líður þá finnst mér alveg kominn tími á að á Bessastöðum sitji manneskja sem getur talað með rödd skynseminnar en ekki í kjánalegum þjóðrembustíl eins og tíðkast hefur hér síðustu árin og auðvelt er að finna dæmi um. Það er vafasamur hugsunarháttur að líta svo á að Íslendingar séu eitthvað klárari en aðrir vegna arfleifðar okkar eða að erlend stórveldi sitji um okkur og vilji okkur allt hið versta. Þegar slík hugsun er ofaná er stutt í að fólk kalli eftir hinum eina sanna sterka leiðtoga sem það er reiðubúið leggja allt sitt traust á í gagnrýnislausri persónudýrkun.
- - - -

En nú borgar sig ekki að segja mikið meira. Að sjálfsögðu mega allir tjá sig hér í athugasemdum hafi þeir eitthvað við þennan málflutning að athuga og eins og með fyrirsögnina þá biðst ég margfaldrar afsökunar á þessum myndabrandara hér að neðan sem ég útbjó á sínum tíma, enda á hann ekkert erindi í umræðuna.

Dear Santa Claus

 


Bloggfærslur 14. júní 2012

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband