Að flokka flokka

Stjórnmálaflokkar eiga sér hugmyndafræðilegan bakgrunn og beita sér fyrir framgangi þeirra mála á þann hátt sem fellur best að þeirra heimsmynd og skoðunum. Oft er talað um hið pólitíska litróf sem línulegt samband sem nær frá hinu rauða vinstri til hins bláa hægri með viðkomu í grænni miðju. En auðvitað er þetta flóknara er svo, eins og hefur sýnt í íslenskri pólitík. Á dögunum gekk á netinu spurningalisti á vegum Áttavitans sem staðsetti þátttakendur og stjórnmálaflokka í tveggja ása hnitakerfi. Þannig var lárétti ásinn látinn tákna hið dæmigerðu vinstri / hægri eða réttara sagt Félagshyggju / Markaðshyggju á meðan lóðrétti ásinn táknaði Frjálslyndi / Forsjárhyggju.

áttaviti hnitakerfiÞetta má sjá á meðfylgjandi mynd en þar lenda hægri flokkar hægra megin en vinstri flokkar vinstra megin. Besti flokkurinn er akkúrat á miðjunni og hinir anarkísku Píratar lenda efstir í frjálslyndinu samkvæmt þessu. Vinstri grænir og aðrir félagshyggjuflokkar eru víðs fjarri Sjálfstæðisflokknum og Hægri grænum en Samfylking er ekki fjarri Framsókn rétt neðan við miðju. Þetta er sjálfsagt ágæt skipting þótt deila megi um hvort Forsjárhyggja sé ekki full gildishlaðið orð á neikvæða vísu miðað við Frjálslyndið. Látum það liggja á milli hluta.

 

En dugar þessi mynd til að endurspegla hinn íslenska pólitíska veruleika? Fyrir þremur árum gerði ég tilraun til að flokka flokka á svipaðan hátt og teiknaði upp myndina hér að neðan. Þarna má einnig sjá tvo ása en munurinn er sá að í stað hins lóðrétta Frjálslyndis/Forsjárhyggju-áss er ég með lóðréttan ás sem gengur út á Alþjóðahyggju gagnvart Þjóðernishyggju (sem sumir vildu kannski frekar kalla Þjóðfrelsishyggju vegna neikvæðra skírskotana). Myndina kallaði ég Fimmflokkakerfið og dægurflugur og er hún tilraun til flokkamyndunar út frá þessum skilgreiningum en sýnir þó ekki endilega flokkakerfið eins og það er í raun.

Fimmflokkakerfið

Þarna má sjá tvo vinstri flokka Samfylkingu og Vinstri Græna en það sem aðgreinir þá er misjöfn afstaða til að tengjast stærri ríkjabandalögum sem er mjög stórt mál í dag. Í Ríkisstjórninni sem þessir flokkar mynduðu þurfti annar að gefa eftir í Evrópumálum að hluta, með slæmum afleiðingum fyrir flokkinn og fylgið. Hægra megin við miðju hefur Sjálfstæðisflokkurinn löngum verið allsráðandi. Sá flokkur hefur komið sér fyrir neðan miðju, gegn alþjóðahyggjunni en á í vissum vandræðum því hluti flokksmanna er á öndverðri skoðun. Þess vegna ættu í raun að vera þarna tveir hægri flokkar eins og ég sýni þarna og kalla Sjálfstæðisflokk 1 og 2. Framsóknarflokkurinn er merkilegt og misgagnlegt fyrirbæri í Íslenskri pólitík. Hann er á miðjunni en getur þanist út eða minnkað, stokkið til allra hliða og tengst hverjum sem er, enda aldrei langt að fara.

Allskonar önnur framboð koma fram fyrir hverjar kosningar. Sum þeirra eru ekkert nema dægurflugur sem slá í gegn tímabundið en mörg þeirra eiga aldrei neina von. Ég kalla hér allt slíkt Fluguframboð en í kosningunum nú er eiginlega um heilt flugnager að ræða. Þessi flokkar geta verið gagnlegir til að leggja áherslu á ákveðin málefni en raska ekki mikið fjórflokkakerfinu til lengri tíma.

Hvað kemur upp úr kössunum um næstu helgi á eftir að koma í ljós en möguleikar flokka til að vinna saman er ýmsum annmörkum háð því til þess þarf að gefa eftir hluta af sínum grunnsjónarmiðum. Tengingar milli flokka geta þó verið á ýmsa vegu. Þar snúast hlutirnir ekki bara um hægri og vinstri pólitík. Kannski mun baráttan að þessu sinni snúast um að tengjast miðjunni sem er fyrirferðamikil um þessar mundir.

 


Bloggfærslur 22. apríl 2013

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband