Fimmflokkakerfið og dægurflugur

Nú ætla ég að hella mér út í pólitíkina og veitir ekki af. Ég ætla þó að forðast að taka pólitíska afstöðu enda er það ekki vaninn hér. Það er hins vegar flokkakerfið sem mig langar að velta fyrir mér og það sem mér finnst pólitík snúast um svona almennt séð og ekki endilega hugsað sem innlegg í Borgarstjórnarkosningarnar.
Að hætti hússins hef ég teiknað upp mynd til nánari útskýringar til að spara mér flóknar útskýringar en þarna sést hvernig ég sé fyrir mér fimmflokkakerfið sem hlýtur að vera enn betra en fjórflokkakerfið. Flugan sem er þarna stendur svo fyrir ýmis framboð sem mætti kalla fluguframboð - eða dægurflugur.

Fimmflokkakerfið

Það eru aðallega tvö atriði sem mér finnst pólitík snúast um. Annars vegar er það þessi sígilda vinstri - hægri pólitík, þ.e. félagshyggjan á móti einstaklingshyggju, ríkisrekstur á móti einkavæðingu. Einnig fylgir umhverfispólitíkin þessum ási, þ.e. hvort að eigi að nýta eða njóta náttúrunnar. Hinsvegar snýst pólitík um þjóðfrelsismál, þ.e. stöðu ríkisins í alþjóðasamfélaginu og snertir sjálfstæðismál þjóðarinnar og afstöðu til þátttöku í ríkjabandalögum. Það má kalla þetta þjóðernishyggju á móti alþjóðahyggju, en orð eru oft svo gildishlaðin að það þarf að fara varlega í orðanotkun. Afstaða til aðildar að Evrópusambandinu endurspeglast algerlega þessari pólitík.
Atriði eins og persónutöfrar, húmor, uppgjör við fortíðina, spillingarmál, heiðarleiki, kjörþokki og margt fleira er ekki pólitík enda eru flestir sammála um þessi atriði nema hvað stjórnmálamönnum og flokkum tekst misvel að höndla þau.

Af þessu leiðir að sjálfsagt er að skipta pólitíkinni í fjóra hluta sem eignaðir eru hverjum stjórnmálaflokki, einn flokkur má svo vera í miðjunni en þannig fæ ég út fimmflokkakerfið. Fjórflokkakerfið sem við búum við skiptist nokkurn veginn svona í dag, nema hvað hægri vængurinn er óskiptur í sinni hægri pólitík sem veldur því að flokkurinn getur ómögulega komið sér saman hvernig á að haga Evrópumálum, þótt þjóðfrelsispólitíkin sé ofaná þessa stundina.

Dægurfluguframboðin hafa verið fjölmörg í gegnum tíðina og heitið ýmsum nöfnum. Sum þeirra hafa auðvitað barist fyrir göfugum málefnum. Þau hafa þó verið mis-lífseig og mis-fyrirferðamikil og komið fram af ýmsum ástæðum. Þessir fluguflokkar hafa gjarnan gefið upp öndina vegna þess að þau hafa ekki átt sér neinn samastað í hinu pólitíska landslagi - sumir hafa bara komist í tísku og farið úr tísku eða verið þægileg leið fyrir borgarana að forðast að taka pólitíska afstöðu í pólitískum kosningum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brattur

Held að best væri að það væru engir flokkar... kjósum bara fólk... flokkakerfið bíður upp á spillingu og þar sem hagsmunir flokksins ganga fyrir hagsmunum þjóðarinnar...

Annars skemmtilegar pælingar hjá þér.

Brattur, 23.5.2010 kl. 10:24

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

En getur kannski verið að fólk dæmi flokkana of hart? Mér finnst ágætt að fólk með svipaðar skoðanir skipi sér í flokka sem hægt er að kjósa á milli. Hreint persónukjör getur orðið til að kosningar snúist bara um persónulegar vinsældir og kjörþokka.

En það verður auðvitað alltaf að passa upp á spillinguna.

Emil Hannes Valgeirsson, 23.5.2010 kl. 11:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband