6.9.2013 | 22:27
Pása í hlýnun jarðar
Eins og venjulega þegar ég skrifa eitthvað um hlýnun jarðar þá ætla ég að beina sjónum mínum aðallega að sjónum. Tilefnið að þessu sinni er niðurstaða nýrrar rannsóknar sem birtist í tímaritinu Nature þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að kaldari yfirborðssjór á austurhluta, miðbaugssvæðis Kyrrahafsins, sé aðallástæðan fyrir þeirri stöðnun sem orðið hefur á hlýnun jarðar það sem af þessari öld. Svæðið sem um ræðir er þar sem hinar svokölluðu ENSO sveiflur eiga sér stað en þær samanstanda af hinu hlýja El-Nino ástandi og kaldari La-Nina. Þessi kólnun yfirborðssjávar við miðbaugssvæði Kyrrahafsins einkennist af því að þá leitar kaldur djúpsjór upp til yfirborðs í auknum mæli, öfugt við það þegar El-Nino ræður ríkjum en þá snardregur úr þessu uppstreymi og yfirborð sjávar hlýnar. Þetta hefur síðan áhrif á hitastig jarðar í heild: La-Nina kælir, El-Nino vermir.
Umrædd grein nefnist Recent global-warming hiatus tied to equatorial Pacific surface cooling og segir þar meðal annars: "Our results show that the current hiatus is part of natural climate variability, tied specifically to a La-Niña-like decadal cooling. Although similar decadal hiatus events may occur in the future, the multi-decadal warming trend is very likely to continue with greenhouse gas increase." http://www.nature.com/nature/journal/vaop/ncurrent/full/nature12534.html
Það er varla umdeilt að lítið eða ekkert hefur hlýnað á jörðu síðastliðin 10-15 ár þrátt fyrir síaukið magn CO2 í andrúmslofti auk þess sem þessi stöðnun er ekki í samræmi við það sem spár gerðu ráð fyrir um síðustu aldamót. Með hverju ári sem líður án þess að hægt sé að sýna fram á að hlýnun sé í gangi, verður erfiðara að sannfæra fólk um hina margumtöluðu hlýnun jarðar af mannavöldum. Þó verður að hafa í huga að öll ár þessarar aldar hafa verið mjög hlý á jörðinni og ekkert sem bendir til kólnunar eins og er. Það er hinsvegar þessi vöntun á hlýnun frá aldamótum sem um er að ræða.
Kenningar um áratugafasa í Kyrrahafinu og eru ekki alveg nýjar af nálinni því ýmsir hafa haldið því fram að þetta sé ein af veigamestu ástæðum þess að hitastig jarðar sveiflast, ekki bara frá ári til árs heldur einmitt líka á áratugaskala. Til marks um það þá hafði einmitt hlýtt El-Nino ástand oftar yfirhöndina á Kyrrahafinu á árunum 1977-1998 á sama tíma og hlýnun jarðar tók mikinn kipp. Nokkra áratugi þar áður fór hiti jarðar heldur kólnandi, enda svipað Kyrrahafsástand uppi og nú er þar sem hinn kalda La-Nina hefur oftar yfirhöndina. Sjálfur skrifaði ég upphaflega um þetta atriði í maí 2008 og hef gert nokkrum sinnum síðar og ósjaldan minnst einnig á áratugafyrirbærið PDO (Pacific Degatal Oscilation) sem tengist þessu með einum eða öðrum hætti. Ég kippi mér því ekki upp við niðurstöður umræddrar rannsóknar og á jafnframt ekkert sérstaklega von á að meðalhitastig jarðar hækki fyrr en einhverntíma á næsta áratug eða jafnvel síðar þegar hlýi fasinn fer í gang á ný. Hlý ár geta þó alveg komin inn á milli og metár í hitafari jarðar er alls ekki útilokað á næstunni ef hið hlýja El Nino ástand nær sér almennilega á strik á milli á þess sem kaldi fasinn ræður annars ríkjum. Sjá t.d. hér: Er hlýnun jarðar komin í pásu? frá 6. maí 2008. http://emilhannes.blog.is/blog/emilhannes/entry/527773/
Það sem gæti hafa breyst nú, frá því sem áður var, er að í stað þess að loftslag kólni á jörðinni þau 20-30 á sem kaldi fasinn ríkir á Kyrrahafi, þá stendur hitinn í stað sem gæti þýtt að undirliggjandi hlýnun jarðar vegi kólnunina upp. Að sama skapi eykst hlýnunin þegar hlýi fasinn á Kyrrahafinu er ríkjandi eins og var á árunum 1977-1998. Sú mikla hlýnun sem þá átti sér stað hefur því allavega að hluta til verið náttúrulega uppsveifla en ekki eingöngu af mannavöldum eins og oft var haldið fram. Spádómar um framtíðarhlýnun gætu hinsvegar hafa smitast af þessari miklu hlýnun áranna 1976-1998 enda tóku menn þá Kyrrhafssveiflurnar ekki með í reikninginn. Að sama skapi töldu jafnvel einhverjir á áttunda áratugnum að ný ísöld væri yfirvofandi enda hafði þá lítillega kólnað á jörðinni frá stríðslokum á sama tíma og Kyrrahafið var í sínum kalda fasa - eins og í dag þegar ýmsir auglýsa eftir hinni meintu hlýnun jarðar.
Þrátt fyrir þessa kólnun í Kyrrahafinu er ekki svo að höfin í heild séu kaldari en venjulega um þessar mundir. Þetta sem hér um ræðir snýst eingöngu um yfirborðssjó á hluta Kyrrahafsins á svæði sem þekur einungis 8,2% af yfirborði jarðar. Með auknu uppstreymi kaldsjávar undan vesturströndum Mið-Ameríku, ætti niðurstreymi yfirborðssjávar nefnilega að aukast annarsstaðar. Mælingar hafa enda sýnt fram á að í takt við aukna lóðrétta blöndum sjávar eru undirdjúpin að hlýna í auknum mæli og þar gæti verið fundinn hin eftirlýsta hlýnun jarðar. Sbr. þetta hér: Oceans continue to warm, especially the deeps http://arstechnica.com/science/2013/04/oceans-continue-to-warm-especially-the-deeps/
Sé það í gangi, að hlýnun jarðar fari á áratugalöngum tímabilum aðallega í að verma hin köldu undirdjúp, má velta vöngum og efast um að hin margumtalaða hlýnun jarðar sé eins hröð og eins mikið bráðatilfelli og áður var talið. Hinsvegar gæti hlýnunin haldið áfram með hléum í langan tíma og að sama skapi gæti hitaflensan orðið langvinnari en ella og ganga seint til baka enda eru úthöfin íhaldssöm og lengi að bregðast við.- - - -
Í framhaldi af þessu er alltaf klassískt að minnast á það sem gæti verið á ferðinni á okkar sjávarslóðum sem einkennast af aðstreymi selturíks hlýsjávar sem kólnar og sekkur er hann mætir eðlisléttari og seltuminni kaldsjó að norðan. Í þessu gæti einnig verið um áratugasveiflu að ræða. Mjög hlýtt hefur verið hér á landi frá aldamótum, sjávarhiti hefur einnig verið mikill og jöklar og hafís á norðurslóðum talsvert látið á sjá. Ef þarna er á ferð áratugasveifla eins og í Kyrrahafinu gæti ástandið gengið til baka að hluta til. Við höfum einmitt dæmi um það frá síðustu öld. Uppsveiflan hér í Norður-Atlantshafi fylgir ekki stóru Kyrrahafssveiflunni en ómögulegt er að segja hvenær kalda ástandið leggst hér yfir - ef það þá gerist. Gerist það má búast við kólnun upp á svona 1 gráðu svo maður nefni eitthvað, einnig kaldari yfirborðssjó og auknum hafís hér við land og á Norður-Íshafi. Kannski gerist það einmitt þegar nýbúið verður að opna umskipunarhöfnina miklu í Finnaflóa. Menn þurfa þó ekki að örvænta alveg, svo maður haldi vangaveltum áfram, því það kuldatímabil verður væntanlega ekki eins slæmt og það síðasta enda vegur hlýnun jarðar á móti. Seinni hluta þessarar aldar tæki svo nýtt hlýindatímabil við hér á norðurslóðum og þá munu ísar og jöklar bráðna sem aldrei fyrr. Aftur má vitna í eldri eigin bloggfærslu: Er hlýnun á Íslandi hluti af náttúrulegri sveiflu? http://emilhannes.blog.is/blog/emilhannes/entry/818347
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 22:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (154)