Samanburður á sumarveðurgæðum í Reykjavík

Sjálfsagt eru skiptar skoðanir á því hvernig sumarið hafi komið út veðurfarslega. Hér í Reykjavík, og kannski víðast hvar, virðast þó flestir vera nokkuð sáttir eftir því sem maður heyrir. Þetta var þó ekkert afburðasumar og vissulega höfum við kynnst því miklu verra. Eins og einhverjir vita sem álpast hafa inn þessa bloggsíðu þá held ég uppi daglegum frístundaskráningum fyrir veðrið í Reykjavík og það allt frá árinu 1986. Fylgisfiskur þessa skráninga er einkunnakerfi sem metur veðurgæði frá degi til dags útfrá veðurþáttunum fjórum: sól, úrkomu, hita og vindi. Hver hinna fjögurra veðurþátta fær einkunn á bilinu 0-2 og því getur heildareinkunn dagsins verið á bilinu 0-8 stig. Hver mánuður fær síðan einkunn útfrá meðaltali allra daga og heilu árstíðirnar og árin, ef því er að skipta.
Eins og í fyrra, og hittifyrra, og árið þar áður, þá hef ég tekið saman á súluriti, veðureinkunnir allra skráðra sumra (júní-ágúst) sem nú eru orðin 32 talsins. Einkunn sumarsins 2017 er 4,9 stig sem almennt er nokkuð gott og greinilegt að sumarveðurgæði í Reykjavík hafa náð sér ágætlega á strik eftir hrunið 2013.
Sumarveðurgæði 1986-2017
Þótt sumarið í ár hafi komið ágætlega út var það samt eftirbátur sumarsins í fyrra sem helst státaði að góðum hlýindum. Eftir hlýtt vor átti hitinn núna í sumar lengst af í nokkrum vandræðum með að ná sér almennilega á strik, nema nokkra daga í lok júlí þegar hitinn náði 22,5 stigum sem þykir aldeilis mjög gott hér í borginni. Af einkunnum einstakra mánaða má nefna að júní fékk 4,7 í einkunn sem er rétt svona nógu gott. Júlí varð hinsvegar betri með 5,0 stig og skipti hlýr og góður seinni hluti þar mestu. Ágúst gerði svo ögn betur með 5,1 stigi en það var sólríkur og þurr mánuður en þó án verulegra hlýinda. Einhverjir gætu saknað þess að hafa september ekki með í þessari úttekt enda mun hann líka vera sumarmánuður, en það verður bara að hafa það. Vonum bara að sumarblíða endist sem lengst.

Besta sumarið í Reykjavík á tímabilinu er samkvæmt þessu sumarið 2012 en sumarið 2009 fylgir fast á eftir. Bæði þessi gæðasumur tilheyra einstökum kafla góðra sumra árin 2007-2012. Viðbrigðin voru mikil með sumrinu 2013 sem var meira í stíl við nokkur ómöguleg sumur á fyrstu 10 árum skráningartímabilsins þar sem sumarið 1989 var meðal annars að finna með aðeins 4,1 stig í einkunn. Það má líka nefna einstaka mánuði, en bestu skráðu mánuðirnir eru báðir frá gæðasumrakaflanum á þessari öld: júlí 2009 með 5,8 stig og júní 2012 með 5,9 stig. Afgerandi verstu tveir sumarmánuðirnir komu hinsvegar tvö ár í röð á fyrstu skráningarárunum en það eru júní 1988 með 3,6 stig og júlí 1989 með 3,5 stig. Ef einhver man eftir þeim.

Út frá þessum veðurskráningum og einkunnagjöfum gæti ég heilmikið skrifað, reiknað og velt vöngum. Geri það reyndar stundum. Tímarnir hafa breyst og aðgangur að upplýsingum er öllu betri en á upphafsárum skráninganna þegar veðurfréttir í útvarpi og sjónvarpi voru það sem maður hafði auk eigin upplifunar. Það er erfitt að segja til um hvort ég meti alla veðurþættina alveg eins í gegnum tíðina eða hvort einhver langtímaskekkja sé í dæminu. Metur maður til dæmis hægviðri nú á dögum, mælt í metrum á sekúndu, á sama hátt og á dögum andvarans og golunnar? Maður hefur svo sem lagst í útreikninga og samanburð á slíku út frá opinberum veðurgögnum, sem reyndar gætu líka átt við sínar smáskekkjur að stríða vegna ýmissa atriða. Ýmsum aðferðum er annars hægt að beita við svona veðurgæðamat og ég ekki sá eini sem legg út það, niðurstöður gætu verið mismunandi en þó ekki endilega í aðalatriðum.

Til frekari glöggvunar bendi ég á sérstaka bloggfærslu um besta skráða mánuðinn sem minnst var á hér að framar. Sjá: Bæjarins besti júní


Bloggfærslur 2. september 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband