Veðurannáll 1991-1994

Þá er komið að næsta fjögurra ára tímabili í samantekt minni um veður og sitthvað fleira í þessari annálaröð minni. Tímabilið hófst með látum strax í ársbyrjun 1991, ekki bara í heimsmálum heldur einnig í náttúrunni, en hinn 17. janúar 1991 upphófst óvænt gos í Heklu. Síðast hafði Hekla gosið árið 1980, þar áður 1970 og ljóst að eitthvað nýtt var að gerast varðandi gostíðni í fjallinu. Þetta bar upp á nákvæmlega sama dag og brast á með margboðuðu Persaflóastríði, eða Flóabardaga eins það var stundum kallað hér. Stóru heimsmálin voru farin að færast til miðausturlanda, en kalda stríðinu lauk endanlega þegar Sovétríkin voru leyst upp í árslok 1991. Á þessu sama ári var hér á landi almennt fyrst farið að tala um nýja ógn í umhverfismálum sem kallaðist gróðurhúsaáhrif, eða hnattræn hlýnun af mannavöldum, sem átti að auka hlýnun jarðar ískyggilega mikið ef ekki yrði dregið úr kolefnisbruna. Einhver óvissa var þó með okkar slóðir því fyrstu tölvulíkön gerðu ráð fyrir kólnun hér á landi, jafnvel hálfgerðu ísaldarástandi. Nema hvað? En snúum okkur þá að veðrinu.

Fjögurra ára tímabilið 1991-1994 hófst eins og það fyrra, með hlýju ári þar sem meðalhitinn 1991 var 5,0 stig í Reykjavík og var það aðeins í annað sinn á 17 árum sem meðalhitinn náði þeirri tölu. Árið byrjaði þó ekki vel. Mikið ísingarveður norðanlands olli miklu tjóni á rafmagnslínum í upphafi janúarmánaðar og þann 3. febrúar gerði mikið skaðaveður suðvestanlands með víðtæku rafmagnsleysi og tjóni á höfuðborgarsvæðinu. Um hægðist í kjölfarið og varð veður nokkuð þægilegt eftir það. Sumarið var eftirminnilegt. Júní var alveg einstaklega sólríkur og þurr í Reykjavík sem og víðast hvar á landinu. Fyrri partinn í júlí gerði síðan mikla hitabylgju á landinu sem kom hitanum upp í 29 stig suðaustanlands og yfir 23 stig í Reykjavík sem er afar fátítt. Aftur náði hitinn 20 stigum í Reykjavík í lok mánaðar og fór svo að meðalhitinn í júlí náði 13 stigum í borginni og hafði ekki mælst hærri í nokkrum mánuði. Nokkuð hlýtt var áfram næstu misseri fyrir utan frostakafla í nóvember sem var kaldasti mánuður ársins og eini mánuðurinn á árinu með meðalhita nálægt núllinu.

Árið 1992 tók kaldur veruleikinn við á ný. Meðalhiti ársins endaði í 4,2 stigum sem þó var í meðallagi miðað við áratugina tvo á undan. Nokkuð hlýtt var reyndar í janúar en annars var mjög umhleypingasamt framan af árinu og í lokin. Vorið var ágætt en sumarið leið án almennilegra hlýinda. Eftirminnilegast er kuldakastið um Jónsmessuna en þá snjóaði niður á láglendi fyrir norðan með miklum skaða fyrir fuglalíf. Fyrir sunnan snjóaði til fjalla. Meðalhitinn í júní var aðeins 7,8 stig og hefur sjaldan verið kaldara í þeim mánuði. Desember reyndist kaldasti mánuður ársins en þó sá eini undir frostmarki. Auk þess var leiðindatíð í mánuðinum, úrkomusamt og hvasst úr ýmsum áttum.

Árið 1993 var meðalhitinn áfram nálægt meðallagi eða 4,4 stig. Janúar var ansi kaldur (-2,3 stig) og snjóþungur í borginni en almennt var umhleypingasamt fyrstu mánuðina. Síðan tók við betri tíð með ágætu tíðarfari frá apríl til október. Bjart og þurrt var sunnanlands í júlí og framan af í ágúst en að sama skapi afleitt veður norðanlands. Eftir gott haustveður kom mjög votviðra- og illviðrasamur nóvember með metúrkomu í Reykjavík. Árið endaði svo með köldum og snjóþungum desembermánuði.

Árið 1994 var meðalhitinn í Reykjavík 4,1 stig og greinilegt að hin umtalaða hnattræna hlýnun lét áfram bíða eftir sér hér á landi, ef hún var þá yfirleitt væntanleg. Árið var hins vegar sólríkt og frekar þurrt í borginni enda norðanáttir ríkjandi með tilheyrandi snjóþyngslum á Norðurlandi og Vestfjörðum. Aftur var janúar kaldasti mánuðurinn (-1,7 stig) en meðalhitinn var einnig neðan frostmarks í mars og svo í desember. Sumarið var sæmilegt en var lengi að hrökkva í gang og var mánuðurinn með þeim svölustu í borginni (8,0 stig) en það var einmitt þarna sem Íslendingar komu saman á Þingvöllum til að fagna 50 ára lýðveldisafmæli. Það er að segja þeir sem komust á leiðarenda.

Í inngangi var minnst á Heklugosið sem hófst í janúar 1991 og var það eina gos tímabilsins. Síðar í mánuðinum varð jarðskjálfti upp á 4,7 stig við Skjaldbreið og fannst hann í Reykjavík. Jörð skalf einnig við Kleifarvatn í nóvembermánuðum 1992 og ’93, og í ágúst 1994 gerði skjálftahrinu við Hveragerði og náði þeir stærstu 4 stigum. Ekkert af þessu öllu tjóni að heitið geti. En náttúran lætur ekki að sér hæða eins og svo illilega kom í ljós á upphafsári fjögurra ára tímabilsins sem tekið verður fyrir í næsta pistli. Farið ekki langt.

Annáll 1991-94 hiti

Annáll 1991-94 einkunn

- - -

Veðurannáll 1987-1990: https://emilhannes.blog.is/blog/emilhannes/entry/2224449/


Bloggfærslur 26. október 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband