Veðurannáll 1999-2002

Við færumst nær nútímanum í þessari annálaröð þar sem stiklað er á mjög stóru í veðurfari landsins og öðru sem vert er að minnast á. Að venju tek ég fyrir fjögur ár í senn og er nú komið að aldamótatímabilinu 1999-2002. Mesta áherslan er á veðrið í Reykjavík og er mín eigin veðurdagbók helsta heimildin en að sjálfsögðu er einnig stuðst við gögn frá Veðurstofunni sem liggja fyrir á vefnum. Af þessu aldamótatímabili er það annars að segja að seinni árin tvö voru öllu hlýrri en þau tvö fyrri. Kuldaskeið áranna 1965-1995 var að baki en á því tímabili var meðalhitinn í Reykjavík um 4,2 stig. Samkvæmt reynslu landsmanna var engu að treysta en þó greinilegt að hlýjum árum fór fjölgandi. Veðurfarið sjálft var hinsvegar ennþá upp og ofan og misgott eftir mánuðum og landshlutum á alla kanta eins og hefur alltaf verið.

Árið 1999 var meðalhitinn 4,5 stig í Reykjavík sem enn taldist í góðu í meðallagi. Aðeins hlýrra var þó þrjú árin á undan. Janúar var nokkuð eðlilegur en síðan kólnaði nokkuð í febrúar eins og gjarnan á þessum árum en svo vill til að árin 1995-2002, eða í átta ár í röð, voru allir febrúarmánuðir kaldari en janúar. Eftir erfiðan febrúar kom kaldur mars sem var reyndar óvenju sólríkur og þurr sunnan heiða sökum tíðra norðanátta. Svipuð tíð hélst áfram fram yfir miðjan apríl en eftir það voraði vel. Sumarmánuðirnir voru síðri fyrir sunnan heldur en fyrir norðan en annars var ágúst vel hlýr annað árið í röð. Áfram var hlýtt á landinu þar til veturinn helltist yfir undir lok nóvember með tilheyrandi snjókomum.

Árið 2000 var jafn hlýtt og árið á undan eða 4,5 stig. Þótt flest hafi verið í meðallagi á ársvísu voru þó ýmsar öfgar í veðurfar. Eftir meinlítinn janúarmánuð kom snjóþungur febrúar sem innihélt óvenjusnarpa stórhríð í Reykjavík um miðjan dag þann 11. febrúar. Áfram voru umhleypingar í mars og veturinn endaði með þeim snjóþyngstu í borginni. Viðsnúningur var upp úr miðjum apríl en þá hallaði hann sér í norðanátt með miklum sólskinskafla suðvestanlands sem sló út fyrri met. Seinni hlutann í maí var síðan dæmigert kuldakast að vori til. Sumarið var ágætt með köflum en var reyndar mun betra í óvenju miklu sólskini fyrir norðan og austan, vel fram eftir sumri. Haustið var fremur hlýtt en vetrarmánuðirnir nóvember og desember voru mjög þurrir og snjóléttir í borginni. Síðustu vikuna ríkti hinsvegar kuldakast.

Árið 2001 hlýnaði á ný og var meðalhitinn í Reykjavík 5,2 stig. Fyrstu mánuðina skiptust á þurrir frostakaflar og hlýir vætudagar og því fremur snjólétt í borginni og víðar SV-lands. Kaldast og umhleypingasamast var í febrúar en þá var meðalhitinn -0,2°C. Fyrri helmingur júní var nokkuð kaldur en sumarið var ágætt í heildina þó lítið væru um hlýja daga. Hinsvegar haustaði seint og var október með allra hlýjasta móti. Nóvember og desember voru báðir frekar hlýir en enduðu og byrjuðu báðir með alvöru vetrarveðrum. Desember var þó hlýrri í heildina með ríkjandi sunnanáttum um miðjan mánuðinn og fram að jólum. Í þeirri hlýindagusu var sett landsmet í desemberhita þegar hitinn náði 18 stigum á Siglufirði.

Á árinu 2002 héldu hlýindi áfram og var meðalhitinn 5,4 stig í Reykjavík sem er jafnhlýtt og á hinu hlýja ári 1987. Ekki var þó hlýtt allt árið. Hlýindi og snjóleysa voru fyrstu vikurnar en frá 20. janúar til 20. mars voru vetrarkuldar ríkjandi og að þessu sinni var febrúar ekki bara kaldur, heldur fimbulkaldur og sá kaldasti í 100 ár (-3,3°C). Það voraði hinsvegar vel og náði hitinn sér vel á strik í júní sem var með þeim allra hlýjustu sem mælst höfðu og var hlýjasti mánuður ársins í Reykjavík, sem er frekar sjaldgæft. Hæst komst hitinn í 22 stig sem er hitamet í borginni fyrir júní. Þeim hlýindakafla lauk reyndar með snörpu norðanskoti eftir miðjan júní. Framhald sumarsins var ekkert sérstakt þótt fremur milt hafi verið meira og minna langt fram í október en þá kólnaði með sólríkum kafla í norðanátt. Aftur hlýnaði um miðjan nóvember og nú með einmuna hlýindum og vetrarleysu á landinu sem hélst út árið. Var desember sumstaðar sá hlýjasti sem mælst hafði, þar á meðal í Reykjavík (4,5°). Í samræmi við hversu snjólétt var víða þá var engan snjó að sjá í borginni frá hausti og út árið. Kannski má taka það fram að þessir síðustu mánuðir ársins 2002 voru byrjunin á einhverjum hlýjasta 12 mánaða kafla sem hér hefur mælst, en nánar um það síðar.

Af jarðrænum þáttum er það að segja að þann 28. september 1999 var skjálfti upp á 4,3 stig við Hestfjall á Suðurlandi. Staðsetningin leiddi athygli að því að tími gæti verið kominn á mun stærri Suðurlandsskjálfta. En áður en að því kom tók Hekla að gjósa þann 26. febrúar árið 2000 eins og auglýst hafði verið í útvarpi hálftíma áður eða svo. Þetta var í þriðja sinn í röð sem Hekla gýs eftir u.þ.b. 10 ára hvíld. Við upphaf gossins lagði fjöldi gostúrista leið sína austur til að sjá gosið en sáu lítið og sátu síðan fastir í Þrengslum á bakaleiðinni vegna vonskuveðurs. Í júní sama ár var komið að Suðurlandsskjálftum sem komu í tveimur lotum. Sá fyrri hristi vel upp í hátíðarhöldum þann 17. júní í góðu veðri. Hinn síðari varð stuttu eftir miðnætti 21. júní. Báðir reyndust þeir 6,5 að stærð og öllu ýmsu tjóni á mannvirkjum í Árnes- og Rangárvallasýslum. Katla fór að ókyrrast á þessum árum og allt eins búist við gosi þá og þegar.

Stórtíðindi urðu annars ekki í landsmálum en út í heimi bar hæst hryðjuverkaárásin á Bandaríkin 11. september árið 2001. Árásin dró dilk á eftir sér og fór svo að fjölþjóðaher réðst inn í Afganistan til að koma talibönum frá og að hafa hendur í hári og skeggi Bin Ladens, sem reyndar fannst hvergi. Vonbrigði var fyrir Bandaríkin að Írakar hefðu ekki staðið að árásinni 11. september en strangt alþjóðlegt viðskiptabann var enn við lýði gagnvart Írak vegna meintra gjöreyðingarvopna sem þeir földu svo vel fyrir umheiminum.

Töflurnar hér að neðan sýna meðalhita hvers mánaðar í Reykjavík á tímabilinu og veðureinkunnir sem reiknast út frá mínu daglega einkunnarkerfi og liggur sá skali frá 0-8. Veðurfarslega slæmir mánuðir teljast þeir sem ná ekki fjórum, en hinir betri fá yfir 5 í einkunn. Einkunnirnar eru enginn stórisannleikur en þær byggjast á sólfari, hita, úrkomu og vindi. Ef kerfið virkar þá ættu umhleypingasamir mánuðir að fá lága einkunn og allar árstíðir ættu að eiga sömu möguleika á góðri útkomu.

Annáll 1999-02 hiti

Annáll 1999-02 einkunn

- - -

Veðurannáll 1987-1990: https://emilhannes.blog.is/blog/emilhannes/entry/2224449/

Veðurannáll 1991-1994: https://emilhannes.blog.is/blog/emilhannes/entry/2224957/

Veðurannáll 1995-1998: https://emilhannes.blog.is/blog/emilhannes/entry/2225258

 


Bloggfærslur 9. nóvember 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband