2.11.2018 | 22:54
Veðurannáll 1995-1998 - Umskipti
Fjögurra ára tímabilið sem nú verður tekið fyrir er merkilegt fyrir þær sakir að þá urðu umskipti til hins betra í veðurfari á landinu. En þessi umskipti voru ekki áfallalaus eins og Vestfirðingar fengu svo illilega að kynnast. Þegar þarna var komið við sögu hafði hér á landi ríkt frekar kalt tímabil sem má segja að hafi hafist um haustið, 1965. Á þessu kalda tímabili var algengt að ársmeðalhitinn í Reykjavík væri á bilinu 4,0 til 4,5 stig. Alloft var þó kaldara, en kaldast var árið 1979 þegar meðalhitinn var aðeins 2,9 stig. Einungis fjögur ár náðu 5 stiga meðalhita í Reykjavík á tímabilinu. Undangengnir vetur höfðu margir verið snjóþungir, ekki síst fyrir norðan og vestan. Mikið snjóflóð hafði gert skaða á sumarhúsabyggð Ísfirðinga vorið áður auk þess sem manntjón varð. Vetrarlægðum með tilheyrandi fannfergi var því ekki tekið neitt sérlega fagnandi fyrir vestan í byrjun ársins 1995, sem hér fær heldur meiri umfjöllun en önnur ár í þessum annálaflokki og ekki eins Reykjavíkurmiðað og önnur ár.
Árið 1995 var kalt ár á landinu. Meðalhitinn í Reykjavík var 3,8 stig. Strax þarna fyrstu dagana í janúar bætti í snjóinn fyrir norðan og vestan og þann 15. gerði mikla norðan stórhríð á Vestfjörðum og féll þá snjóflóðið mikla yfir byggðina á Súðavík sem var 14 manns að bana. Fleiri snjóflóð féllu um svipað leyti, meðal annars í Reykhólasveit þar sem einn lést en auk þess varð eignatjón víðar á landinu vegna ofsaveðurs. Kalt var út veturinn í ríkjandi norðan- og norðaustanáttum sem þýddi reyndar að veðrið var yfirleitt með sæmilegasta móti sunnan heiða að kuldanum slepptum. Snjóþyngslin voru hinsvegar mikil fyrir norðan en mesta snjódýptin mældist í Fljótum á norðanverðum Tröllaskaga, 279 cm þann 19. mars og hefur ekki mælst meiri hér á landi á veðurathugunarstöð. Það voraði þó að lokum þrátt fyrir kaldan apríl, en skaflar vetrarins voru ansi þaulsetnir á norðurhelmingi landsins. Fyrir sunnan var allt með eðlilegra móti og maí var afar veðragóður í Reykjavík. Sumarið 1995 var ekkert betra en vænta mátti. Suðvestanlands var þó ágætis veður í júní og júlí en ágúst var hinsvegar sólarlítill og blautur. Haustið fór ágætlega af stað en dagana fyrir fyrsta vetrardag gerði slæmt norðaustan- og norðanáhlaup með snjókomu og víðtækri snjóflóðahættu á Vestfjörðum. Óhugur fór um Vestfirðinga í ljósi atburðanna í Súðavík í upphafi árs og talað um að enn einn snjóaveturinn gæti jafnvel gert út af við byggð á Vestfjörðum. Og svo féll flóðið á Flateyri þann 26. október þar sem 20 manns fórust, fjöldi íbúðarhúsa eyðilagðist og veturinn ekki formlega genginn í garð. Hörmulegra gat það varla orðið. En menn létu ekki deigan síga og svo fór reyndar að veður var skaplegt að mestu það sem eftir lifði árs, og það sem meira er, eftir snjóflóðið á Flateyri má segja að grundvallarbreyting hafi átt sér stað í veðurfari á landinu, nákvæmlega 30 árum eftir að kuldaskeiðið hófst með köldum nóvembermánuði haustið 1965.
Árið 1996 var meðalhitinn í Reykjavík 5,0 stig og veðurfar á landinu í heild almennt gott. Ekki veitti af eftir erfitt ár á undan en væntanlega hafa flestir litið á hið góða tíðarfar sem kærkominn stundarfrið frekar en einhver stór umskipti. Árið byrjaði með hlýjum janúar en febrúar var hinsvegar heldur kaldari og vetrarlegri. Aftur hlýnaði vel í mars og má segja að góð tíð hafi haldist út árið með þeirri undantekningu að nóvember var mjög kaldur á landinu og reyndar sá kaldasti á öldinni í Reykjavík, -1,7 stig. Desember var hinsvegar með öllu eðlilegra móti og meðalhitinn í borginni hálfri gráðu yfir frostmarki.
Árið 1997 gerði örlítið betur í Reykjavík en árið á undan hitafarslega og var ársmeðalhitinn 5,1 stig og hafði það ekki gerst síðan á 6. áratugnum að tvö ár kæmu í röð þar sem meðalhitinn næði 5 stigum. Fyrstu þrjá mánuðina var veðurfar reyndar frekar umhleypingasamt. Enn var febrúar kaldur og að þessu sinni mjög snjóþungur í Reykjavík. Vorið var þurrt og nokkuð gott en mikið norðanskot gerði snemma í júní sem dró niður meðalhita mánaðarins. Það hret var eitt sinn kallað Smáþjóðaleikahretið á þessari bloggsíðu. Ágætlega hlýtt var í júlí og ágúst en þó úrkomusamt suðvestanlands. Veturinn lét lengi bíða eftir sér og náði sér varla á strik fram að áramótum. Þann 14. desember mældist 12 stiga í Reykjavík sem er hitamet í þeim mánuði.
Á árinu 1998 slaknaði aðeins á hlýindum en árshitinn í Reykjavík var þá 4,7 stig sem þó var vel yfir þeim 4,3 stiga meðalhita áranna 1961-1990 sem þarna er miðað við. Fyrstu daga ársins var mjög hlýtt síðan tók við kaldari vetrartíð fram í mars með talsverðum frostum inni á milli, þá sér í lagi um mánaðarmótin febrúar og mars. Frekar snjólétt var þó á landinu og eins og veturna tvo á undan var lítið um vandræði vegna snjóflóðahættu. Apríl var þurr, sólríkur og frekar hlýr í Reykjavík en maí heldur þungbúnari. Júní var sólríkur og góður. Frekar kaldur að vísu fyrir norðan en í Reykjavík var þetta í fyrsta sinn í 32 ár sem meðalhitinn náði 10 stigum í júní. Ekki þarf mörg orð um seinni hluta ársins sem var tíðindalaust að mestu veðurfarslega séð. Þó má nefna til marks um breytt veðurfar að allur snjór hvarf úr Esjuhlíðum undir lok sumars sem var nýlunda á þessum árum og hafði ekki gerst í 30 ár eða svo.
Á heimsvísu var árið 1998 afgerandi hlýjasta árið sem mælst hafði á jörðinni og aukinn þungi í umræðum um hnattræna hlýnun af mannavöldum. Að vísu fengu hlýindin hjálp af öflugu El Nino ástandi í Kyrrahafinu en greinileg mælanleg hlýnun hafði þó átt sér stað á jörðinni frá því sem áður var. Efasemdaraddir voru þó farnar að heyrast. Danskir vísindamenn bentu til dæmis á breytileika í virkni sólarinnar en slíkar kenningar fengu ekki hljómgrunn hjá loftslagsnefndum.
Af jarðhræringum er það að segja að í lok september 1996 hófst talsvert eldgos í Vatnajökli er síðar var nefnt Gjálpargosið. Það olli síðan stóru og margboðuðu jökulhlaupi á Skeiðarársandi sem tók með sér brýr og vegi á hringveginum. Í desember 1998 kom upp gos í Grímsvötnum sem stóð í nokkra daga en olli engum skaða. Nokkuð var um að jarðskjálftar hristu hús höfuðborgarinnar og víðar SV-lands. Þeir stærstu voru á árinu 1998, á Hellisheiði og við Ölfus, um og yfir 5 stigum í júní og nóvember. Ýmislegt var því að gerast á þessum árum. Aukin hlýindi, fleiri jarðskjálftar, fleiri eldgos. Meira af slíku var í boði á því aldamótatímabili sem næst verður tekið fyrir.
- - -
Veðurannáll 1987-1990: https://emilhannes.blog.is/blog/emilhannes/entry/2224449/
Veðurannáll 1991-1994: https://emilhannes.blog.is/blog/emilhannes/entry/2224957/
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkur: Veður | Breytt 8.11.2018 kl. 22:59 | Facebook
Athugasemdir
Takkk fyrir - fín lýsing - en bæta mætti árinu á Gjálpargosið - hljómar hér eins og það hafi orðið 1998.
Trausti Jónsson, 4.11.2018 kl. 23:49
Takk fyrir að láta vita. Ég fékk þetta gos reyndar í afmælisgjöf að kvöldi 30. september 1996.
Emil Hannes Valgeirsson, 5.11.2018 kl. 09:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.