Veðurannáll 2015-2018 - Hitasveiflur á uppgangstímum

Þá er komið að síðasta hlutanum að sinni í þessari samantekt um veður og annað markvert á liðnum árum en nú eru það fjögur síðustu ár sem tekin verða fyrir. Fyrir utan allskonar pólitískar uppákomur er það hin mikla fjölgun ferðamanna og erlends vinnuafls sem helst er frásögum færandi á þessu uppgangstímabili sem mælist vel í fjölda byggingakrana. Vinsælir ferðamannastaðir og ekki síst miðbæjarlíf Reykjavíkur tók miklum stakkaskiptum þar sem ægði saman fólki frá öllum heimshornum og dugði íslenskan skammt vildu menn panta sér kaffi og meððí á rótgrónum kaffihúsum. Þessir ferðamenn virtust nokkur sælir með tilveruna þótt þeir hafi kveinkað sér sífellt meir undan verðlaginu. Misgóða veðráttuna á þessum fjórum árum létu þeir þó minna á sig fá. Eftir mjög hlýtt ár 2014 hófst þetta tímabil með kaldasta ári aldarinnar og óttuðust þá margir að hlýindaskeiðinu væri endanlega lokið enda hafði kólnað í Reykjavík um 1,5 stig á milli ára. En svo var þó ekki alveg því enn eitt óvenjuhlýja árið fylgdi strax í kjölfarið áður en það kólnaði á ný. Þannig vill þetta ganga fyrir sig. Nánar um það hér á eftir.

Miðbær 11. nóv 2017

Miðbær Reykjavíkur á köldum nóvemberdegi árið 2017.

Árið 2015 var meðalhitinn í Reykjavík 4,5°C stig og eins og fyrr segir kaldasta árið það sem af er öldinni og veðurgæði heldur lakari en árin á undan. Fyrstu þrjá mánuðina og fram yfir miðjan apríl var veður mjög umhleypinga- og illviðrasamt á köflum auk þess sem hiti var í lægri kantinum. Um sumardaginn fyrsta snérist til kaldra norðlægra átta með bjartari tíð fyrir sunnan, en fyrir norðan lét vorið bíða eftir sér. Maímánuður var með allra kaldasta móti og í Reykjavík reyndist hann sá kaldasti allt frá hinum ofursvala maí 1979. Júní var lengst af frekar slakur sumarmánuður þar til hlýnaði nokkuð síðustu vikuna. Fyrri hluti ársins í Reykjavík var undir meðalhita áranna 1961-90 og þótti sérstakt. Sumarið varð þó heldur skárra í borginni en sumrin tvö árin á undan en júlí var nokkuð sólríkur í ríkjandi norðanáttum. Öllu síðra var norðan- og austanlands í júlí og ágúst. Veðrið í september slapp vel fyrir horn víðast hvar en síðustu þrír mánuðirnir voru úrkomusamir og reyndist árið í heild það úrkomusamasta frá 2007 í Reykjavík. Mikið fannfergi gerði í borginni í lok nóvember og dagana 2. til 4. desember mældist þar meiri snjódýpt en áður í þeim mánuði, 42-44 cm. Hélst sá snjór á jörðu út árið. Af fjölmörgum lægðum ársins mældist sú dýpsta milli jóla og nýárs, 930 mb, en svo lágur loftþrýstingur hefur ekki mælst á landinu síðan 1989.

Árið 2016 náði hitinn sér vel á strik á ný. Meðalhitinn í Reykjavík var 6,0 stig og árið með þeim allra hlýjustu sem mælst hafa þar, en á Vestfjörðum og víðar var árið jafnvel hlýjasta árið frá upphafi. Hlýnunin frá árinu á undan í Reykjavík var 1,5 stig sem er mesta hlýnun á milli tveggja ára í mælingasögunni. Jafnmikið hafði reyndar kólnað milli áranna tveggja á undan enda voru árin 2014 og 2016 jafn hlý. Árið 2016 byrjaði reyndar ekki með neinum sérstökum hlýindum. Meðalhitinn í janúar var í slöku meðallagi og einkenndist af eindregnum austanáttum en febrúar var kaldur og nánast alhvítur í Reykjavík. Í mars tók við hlýrri tíð sem hélst meira og minna út árið. Nokkuð þurrt var víðast hvar um vorið og einnig fram eftir júnímánuði. Júlí var mjög góður sumarmánuður sunnan- og vestanlands en heldur daprari fyrir norðan og austan. Veðurgæðum var síðan nokkuð vel útdeilt um landið í ágúst en í september rigndi heldur meira norðanlands en sunnan. Eftir frekar tíðindalausa tíð kom óvenjulegur októbermánuður með hlýjum og blautum suðaustanáttum. Víða á landinu var þetta hlýjasti október sem komið hefur og í Reykjavík hafði aldrei mælst önnur eins úrkoma í október. Áfram héldu hlýindi í nóvember og færðust jafnvel í aukana í desember. Síðustu daga ársins var veðrið rysjóttara og náði snjór að festast á jörðu til hátíðabrigða.

Árið 2017 var meðalhitinn í Reykjavík 5,5 stig sem er nálægt meðalhita aldarinnar það sem af er. Raunar var hiti ársins mjög svipaður og á árinu á undan þar til kom að síðustu tveimur mánuðunum sem voru allt annað en hlýir. Árið hófst með nokkuð mildum janúar með fjölbreytilegum veðrum en febrúar var mjög hlýr og snjóléttur á landinu. Í Reykjavík breyttist það á einni nóttu undir lok mánaðarins sem skilaði meiri snjódýpt en áður hafði mælst þar í febrúar, 51 cm. Ekki varð framhald á fannferginu en mars var mjög þægilegur víðast hvar og apríl einnig þótt blautur væri. Maí var að þessu sinni óvenju hlýr en að sama skapi úrkomusamur. Sumarið var frekar tíðindalítið í heildina. Sólarlítið var reyndar norðanlands framan af en það jafnaðist í júlí. Suðvesturlandið hafði síðan sólarvinninginn í ágúst. Hlýtt var í september og október. Eftir óvenjuleg hlýindi norðaustanlands í september tók mjög að rigna í suðausturfjórðungi sem gat af sér flóð og skriðuföll. Eftir ágætis hlýindi kólnaði mjög í nóvember, sérstaklega í nokkurra daga norðanskoti seinni hluta mánaðarins. Áfram var kalt í desember sem reyndist kaldasti mánuður ársins. Í Reykjavík endaði árið með algeru logni á gamlárskvöld með umtalaðri flugeldamengun.

Árið 2018 var meðalhitinn í Reykjavík 5,1 stig sem er í lægri kantinum eftir að hlýna tók upp úr aldamótum. Þó vel fyrir ofan opinberan meðalhita sem er 4,3 stig og miðast við 1961-1990 sem var mun kaldara tímabil. Veðurfar ársins 2018 í Reykjavík þótti reyndar stundum minna á fyrri kulda- og vosbúðarár þegar verst lét og ekki fær árið háa einkunn samkvæmt einkunnakerfi mínu. Fyrstu tvo mánuðina var hitafar þó á eðlilegu róli í annars umhleypingasamri tíð. Fyrri partinn í mars var mjög sólríkt sunnanlands samhliða vetrarríki norðanlands en seinni hlutann snérist í hlýjar sunnanáttir sem lyfti meðalhita mánaðarins vel yfir meðallag. Hlýindi héldu áfram í apríl í ríkjandi austan- og suðaustanáttum. Í maí gekk hinsvegar á með stífum sunnan- og suðvestanáttum sem skiluðu mestu úrkomu sem mælst hafði í Reykjavík í maímánuði á meðan mun hlýrra og sólríkara var norðan- og austanlands. Svipuð tíð hélt áfram í júní sem reyndist sólarminnsti júní í Reykjavík síðan 1914 og sá kaldasti það sem af er öldinni. Þótti þarna mörgum borgarbúanum alveg nóg um. Um miðjan júlí snérist til heldur skárri tíðar og undir lok mánaðar rauk hitinn upp og náði 23,5 stigum í Reykjavík sem er mesti hiti sem mælst hefur í borginni frá hitametsdeginum sumarið 2008. Fremur svalt var á landinu frá ágúst til október miðað við mörg síðustu ár en þó ágætis veður suðvestanlands nema kannski í október. Síðustu tveir mánuðir ársins voru hinsvegar hlýir á landinu og lyftu meðalhita ársins í skikkanlegt horf. Dágóðar rigningar fylgdu sumum hitagusunum eins og úrhellið óvenjulega upp úr miðjum nóvember. Snjór var að sama skapi lítill sunnanlands á láglendi og til fjalla fram að áramótum. Hér má þó nefna að skaflar lifðu í Esjunni öll ár þessa tímabils og vantaði reyndar nokkuð upp á að þeir hyrfu á árunum 2015 og 2018.

Skystrókur Selvogi

Sjaldséðir skýstrókar og ranaský, mynduðust á Suðurlandi 2. og 24. ágúst og feyktu hinir síðari heilu þökunum af útihúsum. Annálaritari náði ljósmyndum einum sem myndaðist yfir Selvogi. Sjá umfjöllun í Fréttablaðinu.

Af öðrum þáttum náttúrunnar ber fyrst að nefna gosið í Holuhrauni sem enn var í gangi í ársbyrjun 2015. Það mikla hraungos fjaraði út í lok febrúar eftir 6 mánaða virkni. Ekki urðu fleiri gos á tímabilinu og enn gaus ekki í Kötlu sem um haustið 2018 náði 100 árum í hvíldarstöðu. Öræfajökull fékk hins vegar óvænta athygli með aukinni skjálftavirkni árin 2017 og 2018 og sér ekki fyrir endann á því.

Af hnattrænum vettvangi verður ekki hjá því komist að nefna að hitafar jarðar náði nýjum hæðum, fyrst árið 2015 sem var heitasta árið á jörðinni sem mælst hafði en árið 2016 bætti um betur og varð enn hlýrra. Hitaaukninguna má rekja til mjög öflugs El-Nino ástands í Kyrrahafinu veturinn 2015-16 sem lagðist ofan á hina almennu hnattrænu hlýnun sem sumir gera sér enn vonir um að séu ekki af mannavöldum, þeirra á meðal umdeildur forseti Bandaríkjanna. Þessi annáll tekur ekki afstöðu til þess en vísar í síðari tíma óskrifaða annála. Óvíst er hversu mikið hægt er tengja hnattræna hlýnun við þurrkana miklu í Kaliforníu og mannskæða skógarelda samfara þeim, eða myndum allnokkurra fellibylja sem ollu tjóni á Karíbahafi og Bandaríkjunum að ógleymdum þeim sem herjað hafa á Filippseyjar og Japan. Sífellt bætast við nýjar áskoranir þegar kemur að lifnaðarháttum mannsins hér á jörðu. Hið nýjasta í þeim efnum er plastúrgangurinn í höfunum en sá vandi kom svo sannarlega upp á yfirborðið árið 2018.

Látum þetta duga þótt ýmislegt fleira mætti nefna. Næsti fjögurra ára annáll verður auðvitað ekki tilbúinn fyrr en að fjórum árum liðnum en stefnt er að birtingu hans á þessum vettvangi þann 4. janúar 2023, kl. 20:23, hafi heimurinn ekki farist í millitíðinni.

Annáll 2015-18 hiti

Annáll 2015-18 einkunn

Fyrri annálar:
Veðurannáll 1987-1990
Veðurannáll 1991-1994
Veðurannáll 1995-1998 - Umskipti
Veðurannáll 1999-2002
Veðurannáll 2003-2006 - Hlýindi og góðæri
Veðurannáll 2007-2010 - Hrun og meiri hlýindi

Veðurannáll 2011-2014 - Misgóð tíð


Bloggfærslur 4. janúar 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband