9.3.2010 | 21:25
Daninn sem svaf af sér jökulhlaup á Sólheimasandi
Þegar þetta er skrifað er skjálftavirknin sem verið hefur undir Eyjafjallajökli í rénun en viðbúnaðarstigi almannavarna hefur þó ekki verið aflétt. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem óróa hefur orðið vart í eldstöðvunum undir Eyjafjallajökli og Mýrdalsjökli á undanförnum 10-15 árum og því ekki í fyrsta sinn sem talið sé að eldsumbrot gætu verið yfirvofandi með tilheyrandi jökulhlaupum og öðru veseni sem slíku fylgir.
Sumarið 1999 var ég á ferðalagi með fjölskyldunni og þurfti að fara yfir Sólheimasand þar sem ferðinni var heitið eitthvað austur á land. Stuttu áður, eða aðfaranótt 19. júlí, höfðu þeir atburðir átt sér stað að óvænt og snöggt jökulhlaup braust fram undan Sólheimajökli og fylgdi því talsverður klakaburður sem enn mátti sjá leifar af, er ég var þarna á ferð. Talið er þá hafi hugsanlega orðið lítið smágos undir Mýrdalsjökli eða að aukin jarðhitavirkni hafi komið hlaupinu af stað. Eins og nú, þótti ástæða til að lýsa yfir viðbúnaðarstigi vegna hugsanlegra eldsumbrota í Kötlu og átti ég því allt eins von á að þurfa að fara Norðurlandsleiðina til baka úr fríinu. Ekkert varð úr gosi þarna og hefur ekki orðið enn.
Sumarið eftir var ég svo aftur á ferðalagi og að þessu sinni kominn austur á Vopnafjörð. Á tjaldstæðinu þar var ungur Dani einsamall sem ég gaf mig á tal við og barst talið meðal annars að náttúruhamförum. Þá kom upp úr dúrnum að þetta væri annað sumarið í röð sem hann ferðaðist um Ísland en í fyrri ferðinni hefði hann örlítið fengið að kynnast því sem íslensk náttúra getur boðið upp á. Hann hafði nefnilega tjaldað eitt júlíkvöld við sakleysislegt smáfljót á Suðurlandi en verið vakin upp um morguninn af einhverjum mönnum sem sögðu honum að koma sér í burtu hið snarasta. Rétt hjá tjaldinu meðfram ánni hafði eitthvað mikið gengið á um nóttina, án þess að hann hafi orðið þess var og sjá mátti myndarlega jökulklaka á víð og dreif meðfram ánni. Í rauninni hafði hann verið heppinn að hafa ekki skolast á haf út um nóttina þegar hlaupvatnið undan Sólheimajökli ruddist fram breiddi úr sér á sandinum. Ég kannaðist auðvitað vel við þennan atburð frá sumrinu áður.
Þessi Dani sagði síðan að móðir hans væri ákaflega áhyggjufull þegar hann væri að þvælast þetta um á Íslandi. Kannski ekki að ástæðulausu því sjálfsagt vissi hún vel hvað landið er stórhættulegt.
Viðgerðarflokkur að störfum eftir hlaupið á Sólheimasandi í júlí 1999. Ljósm. EHV.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.